Sókn í eflingu atvinnulífs á suðursvæði Vestfjarða.

Þann 5. maí næstkomandi verður málþing  með ofangreindri yfirskrift haldið á Bíldudal.  Eins og fram kemur  á vef Vesturbyggðar og sömuleiðis á vef Tálknafjarðar  eru það  atvinnumálanefndir sveitarfélaganna sem efna til þingsins.

Samkvæmt dagskránni koma margir að þessu málþingi þ.m.t nýkjörnir alþingismenn kjördæmisins.

Ég skoða vefi sveitarfélaganna iðulega og fannst eitthvað svo jákvætt að sjá þessi orð ...sókn í eflingu atvinnulífs á suðursvæði Vestfjarða.  

Ég vona svo sannarlega að þeim sem eru með puttana á púlsi atvinnumála sveitarfélaganna hér í Vestur Barðastrandarsýslu takist vel til með þetta málþing.


Skjaldborg 2009

Nú líður að Hvítasunnuhelginni.  Þá helgi verður  Skjaldborg, hátíð íslenskra heimildamynda haldin hér á Patreksfirði þriðja árið í röð.   Í fyrra var það heimildamyndin Kjötborg sem var valin mynd hátíðarinnar, virkilega góð  mynd og eftirminnileg. 

Vonandi er þessi frábæri  menningarviðburður komin til að vera.

BARA  skemmtileg hátíð  Smile


Lokakafli

Hér er síðasta bloggfærsla mín af fjórum um sama efni.  Ég byrjaði af einhverju dundi að skrifa niður minningar mínar tengdar  þeim verslunum sem voru hér  æskuárum mínum.   Þetta vatt svo upp á sig og varð ansi langt, teygir sig svo fram  til dagsins í dag.  Ég fór út í að rifja upp hvað hafði verið í húsnæði viðkomandi verslunar og óhjákvæmilega slæddist þá annarskonar þjónusta með sem hafði verið staðsett þar.  Hefði ég ætlað að telja allt upp þá hefði þetta orðið heljarinnar bók.  Margt annað hefur verið í gangi hér í gegnum árin eins og Vélsmiðjan Logi sem allir þekkja og hefur verið rekin hér í fjölda ára af sömu fjölskyldu en einhversstaðar varð ég að draga mörkin.

Já fyrir þá sem þekkja til lífsins eins og það var hér á Patreksfirði á sjöunda og áttunda áratugnum þá fer ekki hjá því að fólk hugsi  um hversu blómlegt lífið var á þessum árum og umsvifin í raun gríðarleg.  Það er hiklaust hægt að segja að hér í bænum sé helmingi færra fólk en var á þessum tíma.  Ekki bara það heldur í bæjunum í kring og sveitinni allri.  Já hér voru fleiri blómleg fyrirtæki og á sumrin fjölmenntu skólakrakkar annarsstaðar að hingað í vinnu. Hér var næga vinnu að fá og ég ekki há í loftinu þegar ég fór að vinna í frystihúsi.  Stóð varla út úr hnefa þessi písl sem fór í 25.000 kassa útskipun í Goðafoss ég var örugglega ekki nema 12 eða 13 ára svei mér þá.  En þessir kassar voru að mér fannst heldur þungir og ég alveg búin á því þegar þessu lauk. En kaupið var gott og það skipti máli.   Ég var svo lítil að það þurfti fyrst að hjálpa mér niður í lestina.  En nú er ég komin á flug í minningunum og mál að stoppa.

Þessi tími kemur líklega aldrei aftur sé horft til fjölda bæjarbúa og fjölbreytni atvinnulífs, fátt sem gefur í dag tilefni til væntinga um slíkt.   Því varð til þessi ógnarlanga upprifjun  til sem nú hefur verið fest á blað í fjórum bloggfærslum.  Kannski dálítið spes uppátæki ég segi það ekki en þetta er búið og gert og komið fyrir augu almennings.  Vonandi hafa einhverjir gaman af að lesa.

Kafli IV.

Matborg

Var matsölustaður rekinn í  húsi við Eyrargötu. Það er gatan sem liggur frá Vatneyrarbúðinni að höfninni.  Tvenn hjón, þau Bergljót Þórðardóttir og Sveinn Arason, Guðrún Gísladóttir og Jón Bessi Árnason, hófu rekstur veitingastaðar í þessu húsnæði. Síðar komu Unnur Sigurðardóttir og Steindór Ögmundsson eitthvað  að rekstrinum ef ég man rétt.  Þetta var flottur staður og kærkomin viðbót í bæjarlífið.  Síðar tóku Arnbjörg Guðlaugsdóttir, Haraldur Aðalsteinsson og dætur við rekstri staðarins og ráku hann lengst eigenda.

Matborg varð fastur punktur í bæjarlífinu og bómlegur staður, þetta varð eiginlega aðal staðurinn  með mat og vínveitingar.  Elín Anna Jónsdóttir  rak svo þarna veitingastaðinn Kaffi Vatneyri með  líku sniði og fyrirrennarar hennar í Matborg höfðu gert.  Síðast ráku Gunnhildur Þórisdóttir og Haukur Már Sigurðarson verslun þarna undir heitinu Zero en það var gjafavöruverslun m.m. Í dag er ekki starfssemi í húsinu fyrir utan að  Björgunarsveitin Blakkur   hefur verið með flugeldasölu þarna fyrir áramótin.

 Verslunin Patróna var fataverslun  en einnig voru þarna seld hljómflutningstæki og tónlist. Þessi verslun var staðsett í kjallara hússins við Aðalstræti 37.

Það voru þær Kolbrún Pálsdóttir og Bára Pálsdóttir sem ráku búðina um og eftir 1980 að ég held.  Þarna var hægt að versla tískufatnað og skó eins og  gerðist flottast á þessum tíma.

Síðar, eftir að Patróna hætti  rak Sigríður Pálsdóttir verslunina Mittið í húsnæðinu og það var sömuleiðis fataverslun.

Fatahreinsun var rekin þarna um skeið í þessu sama húsnæði, eftir að verslulnarrekstri í því var hætt - hreinsunin var rekin af  þeim Páli Guðfinnssyni og Jónu Sörladóttur.

 

 Byggir var trésmíðaverkstæði á Þórsgötu 12.  Þar var í mörg ár rekin byggingavöruverslun samhliða verskstæðinu.  Síðar kom til að Áfengis og tóbaksverslun ríkisins var rekin af þeim Margréti Friðriksdóttur og Sigurði Jóhannssyni sem ráku Byggi.  Við opnun Á.T.V.R hér  lauk löngu pantana og póstkröfusendingatímabili á áfengi til staðarins, eitthvað sem hlaut auðvitað að koma að.

Í þessu húsi var fyrst að mig minnir  trésmíðaverkstæði  Iðnverks hf rekið af m.a Ólafi Sæmundssyni og Guðfinni Pálssyni - eignarhaldið hef ég reyndar ekkert alveg á hreinu. Eftir að Iðnverk  hætti og áður en Byggir hóf þar starfssemi sína, ráku Kristján Skarphéðinsson og Kristín Jóhanna Björnsdóttir þar bakarí áður en það flutti í gamla Kaupfélagshúsið en eins og flestir vita var „Danni" og er mjög góður bakari.

Í dag er verslunin Fjölval rekin í þessu húsnæði af þeim Gunnhildi Agnesi Þórisdóttur og Hauki Má Sigurðarssyni. Það er stór og fín matvöruverslun þar sem fá má m.a. nýbakað bakkelsi  og tilbúinn mjög góðan mat. Eins eru þau  með byggingavörudeild og reka  verslun Á.T.V.R.

 

Verslun var rekin í  „Króknum" í bílskúr við Strandgötu 19 af Sigríði Kristjánsdóttur, þar var ef ég man rétt verslað með gjafavörur og þ.h.

 Verslunin Gosi var rekin af Ósk Þórðardóttur, fyrst á neðri hæð Bjarkargötu 5 og síðar í bílskúr Bjarkargötu 3.  Þetta var föndurverslun starfrækt  á blómatíma tréútsögunar og málunar. Gríðarlega flott verslun í minni minningu enda Ósk lagin föndurkona sem vissi hvað til þurfti í allt föndur og gerir eflaust enn.

Esso bensínsjoppan innarlega á Aðalstrætinu var í fjölda ára rekin af Kaupfélaginu í svona týpiskum bláum bensínsjoppuskúr eins og þeir voru svo  víða um land.  Þar réð Gestur Guðjónsson lengst af ríkjum á meðan sjoppan var  undir hatti Kaupfélagsins.  Síðar tóku Tálknfirðingarnir Ólöf Davíðsdóttir og Björn maður hennar  við rekstri sjoppu á þessum stað en þá var húsnæðið orðið annað en ennþá rekið undir merkjum Essó. Síðar voru það Sigurður Pálsson og Margrét Þór sem urðu rekstraraðilar staðarins.  Golfklúbburinn í Vesturbotni eignaðist húsnæðið og það flutt í Vesturbotn og gert að golfsskála klúbbsins.  Bensínsjoppurekstur hélt þó áfram í nýbyggðu húsnæði þarna á Aðalstrætinu.  Í dag reka fyrrnefnd Gunnildur Agnes og Haukur Már sjoppuna undir heitinu Smáalind.  Í millitíðinni hafa fleiri komið að rekstrinum sem ég læt vera að telja upp.

 Bakaríið hjá Rafni Hafliðasyni   Rafn bakari og Anna Gestsdóttir hófu rekstur bakarís í nýbyggðu húsið við Aðalstræti 89.  Bakað var í neðri enda hússins en sjoppa eða nánast mini verslun í efri hluta hússins.  Þau hjónin Rafn  og Anna hættu svo formlega rekstri bakarís og opnuðu flotta verslun í neðri hluta  hússins.  Síðar opnuðu þau Rabbabarinn sem varð vinsæll veitingastaður og „pöbb" í efri hluta hússins.

Saga verslunar er þó ekki samfelld í húsnæðinu, í örfá ár var rekið öl og sælgætisumboð í hluta hússins.  Rafn og Anna hófu svo rekstur að nýju.

Í  dag reka þau  Verslunina Albínu sem er dagvöruverslun/sjoppa, lottósölustaður og hægt að fá nýbakað bakkelsi, pizzusneiðar og fl.

Hraðbanki  Sparisjóðsins er svo  á  þeirri hliðinni sem snýr að Aðalstrætinu.

Það má til gamans geta þess svona í leiðinni að við Patreksfirðingar höfum haft frábæra bakara hér í gegnum árin.

 

 


Meira af sama.

Ég vil byrja á því að óska öllum gleðilegrar páskahátíðar og vona að fólk njóti þessa fallega dags.

Hér kemur svo framhald  síðustu tveggja bloggfærslna:

Kafli III.

 

Fisksalan í Hraðfrystihúsinu. 

Innarlega í bænum,  var um tíma starfssemi  Hraðfrystihúss Patreksfjarðar.  Þar byrjuðum við krakkarnir mjög snemma að vinna í öllum fríum eins og tíðkaðist á þessum árum og því  kannast flestir á mínum aldri við það sem ég er að tala um hér en það er  fiskbúðin.  Í  kompu á efri hluta hússins var hægt að kaupa fisk í gegnum stóra lúgu.  Þarna afgreiddi Daníel Hansen - alltaf kallaður Dalli.  Gamall góður maður með rautt nefið, örugglega af kulda.  Oft og einatt fór ég í sendiferðir til að kaupa fisk hjá Dalla.  Hann afgreiddi þverskorna ýsu, steinbít og fleira, öllu eða allflestu var pakkað í hvítar pappírsarkir sem lágu á borðinu við lúguna. Fisknum var jafnvel  pakkað inn í nokkur lög eftir því sem þurfa þótti.  Pakkana setti ég svo í innkaupanetið sem ég hafði meðferðis að heiman. Leiðin var á þessum tíma æði löng fyrir okkur  frá Vatneyrinni og   leeeeennnngst upp á Geirseyri Smile

Mikil breyting varð síðar á húsnæðinu eftir að starfssemi Hraðfrystihússins hætti í því og það síðan rekið sem sláturhús í mörg ár.  Nú er það að ég held mest  notað sem geymslur auk þess sem flinkar bútasaumskonur á staðnum hafa þar fína aðstöðu.

Kaupfélagið er auðvitað stór punktur í verslunarsögu staðarins.  Kaupfélagshúsið stóð og stendur enn við Aðalstræti 62, gegnt skrifstofum Vesturbyggðar.  Í Kaupfélaginu kenndi ýmissa grasa.  Í ytri enda hússins  var á æskuárum mínum rekin mjólkursala og þangað sóttu bæjarbúar mjólkina í brúsa.   Síðar varð mynd verslunarhússins  þannig að á efstu hæðinni voru skrifstofur þar sem unnu nokkrir starfsmenn.  Á loftinu  var s.s. kaupfélagsstjóraskrifstofan, aðsetur verslunarstjóra, bókara  og ef til vill fleiri.  Á miðhæðinni var matvara, vefnaðarvara og eftir að mjólkursölunni var hætt var vörulyftan af lager neðri hæðar staðsett þar.  Hægt var að keyra sendiferðabíl að ytri gaflinum fyrir ýmsar sendingar.  Af Kambinum (götunni meðfram sjónum)  var vörunni komið inn í kjallara hússins  ef ég man rétt. Þangað var vörunni sem sagt  keyrt beint af skipaafgreiðslunni en á þessum árum kom mest allur varningur með skipum.  Í kjallaranum var svo  seld ýmis vara s.s járnvara, málning og fleira í þeim dúr.  Nokkrir starfsmenn voru svo lengi í Kaupfélagniu að þeir verða samtvinnaðir minningunni um það. Fyrstan skal telja Bergstein Snæbjörnsson eða Steina Snæ eins og hann var oftast nefndur, einstaklega glaðlegt ljúfmenni sem flestir bæjarbúar kynntust líka í kirkjunni í bænum. Steini var einstakur starfsmaður kirkjunnar í áratugi og afburða söngmaður.  Snorri Gunnlaugs var verslunarstjóri sem ég man best eftir sem glaðlegum manni og aktívum. Ásta Stefáns sem ég minnist á hér síðar var sömuleiðis nokkuð lengi við störf, vissi skil á öllu uppá punkt og prik. Gestur Guðjónsson sá síðar um Essó sjoppuna, hæglátur og góður maður sem ég kynntist sem yfirmanni mínum um tíma. Jú og ég verð að minnast á hana Sæju Þorgríms (Sæbjörgu) sem stóð vaktina í vefnaðarvörudeildinni, ljúfasta kona sem sinnti öllu vel.  Ég gæti talið marga fleiri upp en það var ekki meiningin að gera það í þessum pistlum, margt fleira eftirminnilegt ágætisfólk sem var við störf í svona stóru fyrir tæki á þessa tíma mælikvarða og listinn gæti hæglega orðið mikið lengri. 

Í Kaupfélaginu vann ég um tíma, ók sendiferðabíl  sem var af gerðinni  Renault.  Ógleymanlegur tími það, fyrir margra hluta sakir.  

Eftir að rekstur Kaupfélagsins lagðist af flutti  bakarinn Kristján Skarphéðinsson sig þangað með starfssemi bakarís síns.  Þarna var flott bakarí og síðar Pizza 67 sem þau hjónin Kristján og Kristín Jóhanna Björnsdóttir ráku ásamt bakaríinu.  Þetta var hvoru tveggja vinsælt og hægt að njóta góðs útsýnis af matsölustaðnum yfir fjörðin, auk þess var hægt að sitja úti á palli við húsið innanvert. Kaupfélagshúsið stóð svo autt í nokkur ár en í fyrrasumar var í húsinu opnuð kynning eða vísir að safni um listamenn sem tengjast Patreksfirði og er það opið yfir sumartímann.

 Ástubúð

Í kjallara kaupfélagsins réði áður nefnd Ásta Stefánsdóttir ríkjum í mörg ár, sá alfarið um deildina í kjallaranum  og fylgdi þeim rekstri svo eftir þegar Kaupfélagið flutti deildina í nýtt húsnæði við Þórsgötu 8.  Ásta tók svo sjálf  við  þeim rekstri eftir að Kaupfélagið hætti og verslaði hún  þarna í fjölda ára með verkfæri, málningu, gjafavöru, ýmsan fatnað, vörur fyrir sjómenn og í rauninni allt milli himins og jarðar.

Það var bókstaflega allt hægt að fá í Ástubúð og ef það var ekki til var því bjargað við á skömmum tíma. Eftir að Ásta og Ari maður hennar hættu rekstrinum tók Oddur Guðmundsson við og rak þarna Hafnarbúðina í nokkur ár en það var verslun með svipaðar vörur og Ásta hafði verslað með.  Mér fannst meira bera á gjalfavöru og búsáhöldum hjá Oddi en þar var m.a hægt að fá fínustu búsáhöld.

 Saga Apóteksins  er orðin nokkuð löng hér á Patreksfirði.  Það rifjast upp fyrir mér að sem börn vorum við Vagn heitinn frændi minn  einu sinni sem oftar  að leika okkur á Jókutúninu.  Það  er túnið fyrir ofan Ráðagerði þar sem ég bjó fyrstu tíu ár ævinnar.  Við sjáum mann koma gangandi eftir kindaslóða sem var fyrir ofan túnið.  Hann kom til okkar og fór að spjalla.  Mér er minnistæður maðurinn, hávaxinn dökkur yfirlitum og með stóra myndavél hangandi um hálsinn.  Þarna var kominn Sigurður Jónsson, sem var kominn til að opna apótek á staðnum.  Síðar átti ég eftir að kynnast Sigurði aðeins betur, mikill gæða maður sem lést á síðasta ári.  Sigurður leigði um tíma geymlsuherbergi í kjallaranum hjá okkur.  Eins vann vinkona mín í fjölda ára hjá honum bæði á Patreksfirði og í Reykjavík. Nóg um það, Sigurður hóf apóteksreksturinn í hluta neðri hæðar Aðalstrætis 51.  Síðar byggði hann stórt hús við Aðalstræti 75, bjó með fjölskyldu sinni á efri hæðinni en rak apótekið á þeirri neðri. Húsnæðið var svo  selt Landsbankanum, Sigurður og fjölskylda fluttu til Reykjavíkur og Apóteksrekstur hér í bæ fluttist  á Aðalstræti 6.  Þá í eigu Jóns Þórðarsonar. Fleiri urðu apótekarar staðarins í gegnum árin en eins og fram hefur komið rekur Lyfja apótekið í dag.

 

Það  má vel geta þess að fyrsti apótekarinn, Sigurður var mikill björgunarsveitarmaður og á afmæli Björgunarsveitarinnar Blakks á síðasta ári  var nýtt húsnæði sveitarinnar vígt. Húsinu var  gefið nafnið Sigurðarbúð og minningu Sigurðar  sýnd virðing með þeim hætti.

 Verslun var rekin í kjallara hússins að Brunnum 10 en þeirri verslun man ég því miður ekki eftir að ráði. Þessi verslun var rekin af Magnúsi Guðmundssyni.

 Helgubúð  var  í kjallara hússins við  Aðalstræti 69.  Verslunin var rekin af Helgu Sveinsdóttur  sem verslaði þarna með handavinnu,  fatnað og allskonar fylgihluti, veski og töskur.

Í mínum huga stendur uppúr úrval nærfatnaðar, skartgripa og töskurnar....já töskurnar  gleymast nú aldrei  en ég var 12 ára þegar ég eignaðist rauða marghólfa tösku sem ég hafði meðferðis til Reykjavíkur í ferð sem 3  bekkjum skólabarna af landsbyggðinni  var boðið í af Menntamálaráðuneytinu.  Taskan varð því ógleymanleg sökum tengingar við þessa ferð sem svo sannarlega var  heilmikil  upplifun fyrir 12 ára börn úr litlu sjávarþorpi, snemma á áttunda áratug síðustu aldar.

Kjallarinn 65  Var eins og nafnið gefur til kynna í kjallaranum á Aðalstræti 65.  Þarna versluðu Maggý Kristjáns og dætur með hannyrða og álnavöru. Bútasaumsefni og þ.h.  Þetta var lítil og sæt búð og þær mæðgur annálaðar handavinnukonur og nánast sama hvar þær ber niður á þeim vettvangi.  Það var því ekki vandkvæðum bundið  að fá það sem til hvers kyns handavinnu þurfti í búðinni. 

 


Framhald upprifjunar.

 Kafli II.

 Þessi upptalning á verslun og að hluta til þjónustu á Patreksfirði uppvaxtarára minna verður ekki svipur hjá sjón í mínum huga nema að ég minnist á Hermann skóara.  Hermann var stór maður og stundum að mér fannst dálítið hrjúfur á köflum.  Undir niðri skynjuðum við þó að í þeim gamla sló gott hjarta.  Hermann gerði við skó, þar með talda tramparana vinsælu sem voru skór sem ég man eftir sem einum þægilegustu og smörtustu skóm sem ég hafði lengi vel eignast. Skór með breiðri tá og sumir reimaðir upp á ökkla.  Ég man að í einhverjum tilfellum þurfti Hermann að skipta um stykkið sem var yfir tána.  Það var nú ekkert voða flott en lukkaðist sæmilega hjá karli.  Hermann gerði svo annað sem vakti lukku og það voru svört leðurhálsbönd með kósum og reimum. Gott ef það voru ekki armbönd í sama stíl.  Þetta þótti ferlega töff á tímabili. Þarna gátum við svolítið valið hvernig við vildum hafa böndin, mjó eða breið, hversu margar kósir og þess háttar.  Ég veit ekki hvort hann hannaði þetta sjálfur eða hvernig þessi leðurbandaframleiðsla kom til  hjá honum.  Það væri nú gaman ef einhver gæti upplýst um það.   Skóviðgerðunum og slíku sinnti hann fyrst ef ég man rétt í skúr við Hólshúsið (Aðalstræti 14).  Það má vera að hann hafi verið í kjallara Hólshússins með þetta en mér finnst eins og það hafi verið í skúr við húsið, þarna er minnið aðeins að svíkja mig.  Síðar flutti Hermann starfssemina  í skúr við Emelíuhúsið (Aðalstræti 71), gott ef hann bjó ekki í Emelíuhúsi á þeim tíma.

 Mjólkurstöðin

Hér á Patreksfirði var í mörg ár rekin mjólkurstöð og unnin mjólkurvara.  Þetta var  flott og tæknivædd stöð  og yfir henni réðu útlærðir mjólkurfræðingar, lengst af Jón S. Garðarsson sem bjó hér í fjölda ára með sinni fjölskyldu.  Ein fyrsta  minning mín um mjólkurstöina var þegar ég  sem stelpa fór  að sækja mysu fyrir mömmu og mér þótti sérlega merkilegt að koma þarna inn.  Lyktin, blönduð  gufu verður mér ógleymanleg.  

Eftir að rekstur mjólkurstöðvarinnar lagðist af var um tíma rekin vöruflutningamiðstöð í húsinu sem  og gos og sælgætisumboð.   Í þessu húsi eru í dag bækistöðvar Rauða krossins, geymsla sjúkrabílsins á staðnum og fyrirtækið Tölvuvinnslan hefur  aðsetur í efri enda hússins

Ingólfsbúðin við Aðalstræti 8. 

Búðin hét í rauninni Verslun Ara Jónssonar en var í daglegu tali kölluð Ingólfsbúðin eftir Ingólfi Arasyni sem rak hana í fjölda,  fjölda  ára ásamt konu sinni Sjöfn Ásgeirsdóttur. Mér skilst að faðir Ingólfs hafi byrjað verslunarrekssturinn og það skýrir nafnið.

Þarna fékkst allt milli himins og jarðar.  Skór, allskonar fatnaður, álnavara, tímarit, bækur þ.m.t skólabækur,  ritföng  og gjafavara.  Þessi búð var örugglega mjög flott á þess tíma mælikvarða þarna var hægt að fara með myndir í framköllun ef ég man rétt og endurnýja happdrættið.  Já hún þjónaði flestum þörfum okkar hér þessi verslun og var í bara fastur punktur í tilverunni. Auk Ingólfs afgreiddu lengst af í búðinni  þær Jenný Óladóttir og Þuríður  Þorsteins, þær voru þarna í fjölda ára.  Eftir að Ingólfur og Sjöfn hættu með búðina,  keyptu  þau Gunnhildur Valgarðsdóttir og Símon Símonarson reksturinn og varð þetta þá  Verslunin Höggið. Áfram var búðin rekin með svipuðu sniði.  Verslunarrekstur lagðist svo af í  húsnæðinu  um tíma.  Það var svo fyrir nokkrum árum að þau  Sigríður Guðmundsdóttir og Ruben Johannessen hófu þar rekstur hannyrða- og föndurverslunar m/kaffisölu.  Á efri hæðinni þar sem áður var lager reka þau Sigríður og Ruben gistiheimili.  Rekstur þeirra heitir Eyrar og er með þessum hætti í dag.

Ótrúlegt en satt, ennþá heyrist einn og einn tala um að fara í Ingólfsbúðina :-)

Verslunin Kjöt og Fiskur.

Var nú nánast hjartað í verslun staðarins í áratugi ásamt Kaupfélaginu sem var reyndar starfrækt mun skemur.  Í daglegu tali var búðin kölluð Matvörubúðin og var  í eigu sömu fjölskyldunnar í fjölda ára.   Þessi verslun er algjörlega líkt og Ingólfsbúðin  samtvinnuð uppvaxtarárunum og bæjarmyndinni.  Þarna var þörfum okkar bæjarbúa sinnt í mat og drykk.  Einnig voru á boðstólnum  hreinlætisvörur og eitthvað af búsáhöldum.  Áður en þetta varð matvöruverslun var á þessum stað rekið bakarí.  Út um lúgu á því rými sem síðast var lager var seldur malaður ís á tímabili. En malaður ís er heiti okkar bæjarbúa yfir ís úr vél eins og ís í brauðformi svo ég skýri það nánar. En nóg um það.   Ottó Guðjónsson bakari rak bakaríið  en bróðir hans Guðjón rak verslunina, síðar dóttir hans Hrafnhildur og Hallgrímur maður hennar þar til fyrirtækið var selt öðrum. 

Þess má svo geta að sonur Ottós, Haflliði var bakari og rak bakarí í kjallara húss síns á Mýrum 1 í mörg ár.  Mér finnst í lagi að geta þess til gamans  að synir Hafliða, Ragnar  og Rafn  urðu einnig bakarar.  Sá þekkti bakari og súkkulaðimeistari Hafliði Ragnarsson er sonur fyrrnefnds Ragnars og því kominn af mikilli bakaraætt í beinan karllegg.  Eftir að Hrafnhildur og Hallgrímur hættu með Kjöt og Fisk tóku Oddur Guðmundsson, Kolbrún Pálsdóttir og Einar Ásgeir Ásgeirsson við rekstrinum og ráku verslunina með sama sniði þar til fyrir skömmu að sögu verslunar lauk í húsinu í bili a.m.k.

 

Raftækjaverlsun Baldvins Kristjánssonar var  rekin af Baldvin og Sigríði konu hans, fyrst  í neðri hæð húss þeirra hjóna við Stekka 7 ef ég man rétt. Spurning hvort það hafi bara verið verkstæði á Stekkunum, en Baldvin  starfaði einnig sem rafvirki.  Þau hjónin hófu svo  rekstur verslunarinnar við Aðalstræti 73. Þar fengust alls kyns raftæki, músík og gjafavara. Þetta var stór verslun með fallegt vöruúrval. 

Jónas Þór sem þá starfaði sem rafvirki og kona hans Anna Stefanía keyptu svo verslunina og ráku hana í mörg ár undir heitinu Rafbúð Jónasar Þór.   Þau ráku verslunina með svipuðu sniði og áður hafði verið, auk þess sem þar varð fyrsti Lottósölustaðurinn hér á Patreksfirði.

Kolbrún Pálsdóttir og Oddur Guðmundsson voru svo þau sem ráku síðast verslun í þessu húsnæði með með svipaðan varning,  en þó meira stílað inná gjafavöruna. Þetta  var verslunin Geirseyrarbúðin. 

Veitingastaðurinn Þorpið  er í dag rekinn í húsnæðinu en þar má fá allar helstu veitingar auk þess sem Oddur og Kolbrún sinna matseld fyrir veislur og sjá um að elda skólamáltíðir fyrir Grunnskólann á staðnum.


Skrýtið uppátæki :-)

Já það má alveg skrifa þetta á óvænt og  skrýtið uppátæki það sem hér kemur á eftir.  Það eru niðurskrifaðar  minningar mínar tengdar búðum hér á Patreksfirði og ég byrja því eðlilega á sjöunda áratugnum.

Það ærði óstöðugan að hafa þetta í einni bloggfærslu því skipti ég þessu niður í kafla og birti meira á næstu dögum.

Formáli:

Þegar ég hóf þessa  upprifjun á minningum mínum um verslun  hér á Patreksfirði æskuára minna þ.e á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar , fannst mér ég fljótlega þurfa að fara lengra í átt til nútímans en ég lagði upp með í upphafi og jafnvel  alveg til dagsins í dag.  Þetta vatt upp á sig og ég ákvað því að gera þessu skil eftir bestu getu.  Upptalningin er eingöngu byggð á mínu minni, ekki stuðst við neitt annað.  Í sagnfræðilegu tilliti er gildið líklega óverulegt  - ég gerði þetta mest  mér til gamans.  

Hugsanlega er þessi þáttur þorpssögunnar  til án þess að ég hafi athugað það sérstaklega og þá mikið aftar í tíma.

Þegar svona upptalning eftir minni er birt almenningi þá fer maður  að hugsa um hvort eitthvað sé að gleymast, hvort rekstraraðilar séu  réttir og fleira í þeim dúr.

Á staðnum hefur auðvitað verið rekinn fjöldinn allur af alls konar fyrirtækjum.  Svo sem fiskvinnslufyrirtæki, vélsmiðjur, bílaverkstæði og bankar, já allskyns þjónusta, eins af hálfu hins opinbera.  Ég lagði þó ekki upp með neina alsherjar úttekt  heldur var meira að hugsa um það  sem sneri að verslunum þó að sitthvað fleira hafi óhjákvæmilega slæðst með eins og verða vill þegar svona lagað er fest á blað.

Í væntanlegum köflum  nota ég orðin verslun og búð til skiptis og er frjálsleg í því eins og örðu í textagerðinni. Tímaröð er nokkuð handahófskennd og tengist í sumum tilfellum meira viðkomandi húsnæði frekar en réttri röð. Þó er tímaröð nokkurn vegin rétt gagnvart því sem rekið var í sama húsi.

Sé ég að fara áberandi  rangt með t.d nöfn rekstraraðila og fleira í þeim dúr þá er fólki meira en velkomið að leiðrétta það.

Upprifjun, kafli I.

Vatneyrarbúðin.  Var flott verslun neðst í bænum og tilheyrir að byrja á henni sökum tengingar hennar við sögu þorpsins.  Gengið var upp tröppur á miðhæðinni. Inni fyrir þjónaði fröken Katrín heitin Gísladóttir  viðskiptavinum af liðlegheitum eftir því sem mér er sagt, enda kynntist ég Kötu síðar á lífsleiðinni og efast  því ekki um ljúfmennsku hennar.  Ég man því miður ekki alveg hvað fékkst í búðinni en finnst eins og það hafi verið álnavara og eitthvað fíneríis leirtau.

Í löngum láréttum kjallaraglugga sem nam við götuna var iðulega líflegt um jólin.  Þar var jólasveinn sem kinnkaði kolli og þótti ærin ástæða til að gera sér ferð að Vatneyrarbúðinni til að berja þennan gríðarlega flotta jólasvein augum, sannkallað tækniundur í augum okkar krakkanna.  

 Sólberg (Þórsgata 6). Þarna var rekin matsala af Erlu Haflliðadóttur og Kristjáni manni hennar.  Einhvern vetur jafnvel fleiri en einn fékk  danskennsla þeirra danskennara Hörpu og Svanhildar inni hjá Erlu og Stjána.  Þær stöllur  komu vestur á í mörg ár til að kenna dans fyrir Dansskóla Heiðars Ástvaldssonar, en danskennslan  fór svo síðar fram  í húsnæði barnaskólans.

Þetta var alvöru,  flottur veitingastaður, líklega sá fyrsti hér á staðnum.

Í dag rekur sonur þeirra hjóna Erlendur, verkstæðið Rafborg í þessu húsnæði en hann starfar sem rafvirkjameistari.

 Vesturljós. (Aðalstræti 13).

Var raftækjaverslun sem Hafsteinn Davíðsson rak en hann var einnig rafvirki á staðnum.

Í búðinni  fengust flottar plötur og  í þarna  keypti ég mína fyrstu 45 snúninga plötu sem var með snillingnum Elton John.

Laufey Böðvarsdóttir sem á æskuárum mínum stóð fyrir innan búðarborðið hjá Ásmundi Olsen rak  lengi í þessu húsi Flugafgreiðsluna. Þau hjónin Laufey og Trausti Aðalsteinsson sáu í mörg ár  um samskipti við flugvöllinn handan fjarðarins áður en allt flug var flutt á Bílldudalsflugvöll.

Verslunarsögu hússins er þó ekki lokið - í því  rak Steindór Sigurgeirsson verslunina Torgið sem var verslun með tískufatnað. Við versluninni  tók svo Alda Davíðsdóttir en núna í seinni tíð og enn í dag er í húsinu verslunin Sælukjallarinn sem rekin er  af Fanney Gísladóttur.  Í Sælukjallaranum er á boðstólnum gjafavara, blóm, leikföng, heilsuvara svo fátt eitt sé talið.

 Mannabúðin.

Þessa búð ráku Manni og Berta.  Þau voru í mínum huga eins og litla Gunna og litli Jón í jákvæðustu merkingunni.  Bæði lágvaxin,  samhent og góðar manneskjur.  Ég man aldrei eftir öðru en gæsku þeirra í garð okkar krakkanna.  Þarna var verslað yfir búðarborðið og á efstu hillum geymdu þau t.d klósettrúllur og fleira.  Lipurð Manna við að ná í rúllurnar með priki er mörgum minnisstæð.  Kex og fleira var geymt í skápum fyrir neðan hillurnar.  Búðin var ekki stór en þar fékkst margt.  Þau hjónin óku um á litlum bláum bíl sem var krúttlegur í meira lagi og gæti hafa verið Skódi og vel á minnst, þau sáu um dreifingu Morgunblaðsins hér á árum áður.

Rétt við Mannabúðina eða nákvæmlega þar sem íbúðir eldri borgara eru staðsettar núna var bensínsjoppa.  Ég man lítið eftir þessari sjoppu og líklega hefur hún staðið þarna stutt og gott ef hún var ekki rekin af þeim Manna og Bertu.

Rétt við „skverinn" til móts við Friðþjófshús var Settusjoppa það var bensínsjoppa ef ég man rétt sem Hanna Jóhannesson (Setta) rak. Hún var afar góð við okkur þessi kona og við mikið að sniglast þarna krakkarnir.  Hugsanlega hafa þessar tvær bensínsjoppur ekki verið reknar á sama tíma en það man ég ekki nákvæmlega.

 Ásmundarbúðin við Aðalstræti 6.

Var dyngja í minningunni.  Þar var allt mögulegt til, fatnaður, skart og hvað eina.  Þetta var þó að ég held ekki matvöruverslun,  eitthvað var til af tóbaki og  nammi.  Eftir að við krakkarnir fórum að vinna í frystihúsinu Skyldi var einstöku sinnum skroppið uppeftir í kaffinu til að fá sér Sinalco, Spur, lakkrísrör, krembrauð eða eitthvað álíka.  Þetta var á þeim tíma sem gos var selt í glerflöskum sem lágu á hliðinni í goskælum þess tíma, og löngu áður en gosflaskan  varð álíka algeng sjón í ísskápum heimila  og mjólkurfernan. En það er önnur saga. Í dag rekur Lyfja apótek í húsnæðinu.

 

Matur frá friðlýstu landi.

Ég gerði smá færlsu um daginn þar sem ég dásamaði þróunarverkefni í matartengdri ferðaþjónustu hér á Vestfjörðum sem fengið hefur nafnið "Veisla að Vestan" auðvitað  bara brilliant hugmynd. 

Á ferð minni í matvörubúð hér í bæ á dögunum  rakst ég  á skemmtilega nýjung í kælinum.  Það var Vatnsfjarðar bleikjusmyrja sem er eins og nafnið bendir til  paté, m.a gott ofan á kex, með smábrauðum og fl.   Þessi nýja afurð er framleidd af aðila sem stundar fiskeldi í Vatnsfirði á Barðaströnd ekki langt frá Flókalundi. Þetta er eins og segir á loki pakkningarinnar "matur frá friðlýstu landi" en eins og flestir vita sem til þekkja er svæðið þarna í kringum Flókalund friðlýst.  Hvort þetta telst partur af ofangreindu þróunarverkefni þekki ég ekki.  Ég mæli  óhikað með að fólk bragði á Vatnsfjarðar bleikjusmyrju - bragðgóð framleiðsla í handhægum og fallegum umbúðum.  Ég óska þeim góðs gengis sem að þessu standa  Grin

 

Vatnsfjarðar bleikjusmyrja

 

 



Mínar pælingar.

Í dag fer fram prófkjör D-listans í Norðvesturkjördæmi.  Að því er ég best veit síðasta prófkjörskosning vorsins.  Um fyrirkomulagið við val á lista flokkanna  eru skiptar skoðanir, þá hvort velja eigi með þessum hætti eða ekki.  Ég þekki ekki nákvæmlega hvað liggur að baki þessu vali að viðhafa prófkjör frekar en eitthvað annað og ætla því ekki út í þær pælingar hér.

Eitt þekki ég þó  nákvæmlega og það er hvernig er að búa í litlu samfélagi  þar sem erfiðar samgöngur eru að mínu áliti helsti farartálmi okkar til samskipta og framfara.  Þegar kjördæmum var fækkað og þau þar með  stækkuð á sínum tíma,  hafði ég áhyggjur af að nú gleymdumst við á Vestfjörðunum alveg og almennt lítil svæði með fáa íbúa eins og sér í lagi hér á sunnanverðum Vestjförðunum.  Hvort það er raunin að öllu leyti væri kannski ósanngirni að fullyrða en að stórum hluta er það samt svo sé horft til lífsskilyrða nútíma manneskjunnar.

Í þessum kosningum þurfum við sterka rödd og raddir og nú sem aldrei fyrr.  Hræðslan við að raddir okkar á þessu svæði heyrist ekki heldur dofni með tímanum er mikil hjá mér.  Þá hræðslu vekur fyrst og fremst  það neikvæða viðhorf sem ég heyri stundum í okkar garð og löngu gefin loforð sem ekki hefur þótt ástæða til að efna, eða að ferill efndanna hefur skyndilega tekið beygju og aðrir notið góðs af því sem átti að koma í okkar hlut.

Ég vil velja til forystu fólk sem hefur sterka rödd og skilningsríka.  Kjarkmikla rödd  sem talar af heiðarleika, víðsýni, umburðarlyndi og framsækni. Rödd sem ber virðingu fyrir manneskjunni og því lífi sem fólkið í landinu lifir og hefur lifað í gengum aldirnar.  Rödd fólks sem horfir opnum huga til framtíðar, nýtir möguleika af heilindum,  hugsandi til komandi kynslóða.  Ég vil í næstu alþingiskosningum geta valið fólk með viðhorf um framtíð sem felur í sér  að komandi kynslóð  lifir bærilegu lífi.  Lífi  þar sem jafnvægi er á milli þess að gefa og þyggja. Ég held að á öllum listum sé mikið af frambærilegu velviljuðu fólki, efast ekki um það, en það þarf svo sannarlega að snúa bökum saman, nú sem aldrei fyrr.

Já ég eins og all flestir á ég mér draum um gott samfélag byggt á sæmilegu jafnvægi grundvallarþátta og vona að gráðugu úlfarnir sjáist sem minnst á ferðinni.  Áfram Ísland. 


Nú er lag.

Neyðin kennir naktri konu að spinna.  Það eru orð að sönnu. Núna þegar aldeilis hefur harðnað á dalnum hjá okkur íslendingum förum við að huga að gömlum og góðum gildum.  Spara og nýta það sem til er.  Viðgerðir hafa stóraukist,  sömuleiðis matartilbúningur.  Við hugsum okkur tvisvar um áður en við hendum hlutum.  Auðvitað er hart til þess að vita að við skulum þurfa djúpa dýfu til að komast í þennan gír sem telst mun eðlilegri heldur en þessi blússeyðslugír sem við vorum í svona heilt yfir litið.

Hér á árum áður voru skólagarðar starfræktir hér á Patreksfirði undir skeleggri stjórn Bjargar Bjarnadóttur.  Þarna ræktuðum við einhverjar matjurtir og í minningunni finnst mér nú að þetta hafi verið töluvert spennandi.  Ég einbeitti mér að radísunum á meðan aðili sem ég þekki vel  sérhæfði sig í Næpum sem var eitthvað sem honum hefur eflaust þótt  álitlegt að sjá utan á fræpokunum og mun matarmeira en margt annað sem var í boði í fræpokabunkanum.LoL 

Þarna smakkaði ég radísur í fyrsta sinn og fannst þær mjög góðar.  Mér er sérlega minnistætt hvað Næpuuppskera félagans var hressileg og mikið búið að hlæja að veseninu í kringum það dæmi.  En að öllum kvikindisskap slepptum þá er nú aðalpunkturinn í því sem ég er að skrifa um hérna að dásama skólagarða og þann skóla sem þeir í rauninni eru.  Garðarnir  hér voru því miður ekki starfræktir  lengi  og áratugir síðan þeir voru það síðast  að því er ég best veit.

Á dögunum þegar ég var að lesa fundargerðir Vesturbyggðar rak ég augun í fundargerð Atvinnumálanefndar frá 27. febrúar s.l.  Þar kemur Hjörtur Sigurðarson nefndarmaður með tillögu um skólagarða og moltugerð.  Í sama lið er verið að tala um niðurskurð v/unglingavinnu.   Það hlýtur að teljast gott mál að hefja vinnu við  skólagarða, hugsanlega tekur það tíma að útbúa þá en örugglega kærkomið fyrir einhverja að fá jarðskika til að geta ræktað grænmeti í.  Ég er handviss um að einhverjir foreldrar hefðu áhuga á að aðstoða börnin sín við ræktunina.  Á þessum síðustu og verstu tímum gæti þetta verið mjög sniðugt.   Því miður sá ég engar undirtektir bókaðar varðandi þessa tillögu en það kemur í ljós hvernig úr rætist.

 


Heillandi

Ég horfði á endursýningu fyrsta þáttar í þáttaröðinni Wild China á Ríkissjónvarpinu í gær.  Þessir þættir eru annars á mánudagskvöldum og því annar þátturinn í kvöld.  Heillandi og fræðandi þættir og alltaf gaman að detta niður á vel gert sjónvarpsefni sem þessir þættir hljóta að teljast.  Þarna er farið um lítt og jafnvel ósnortin svæði Kína, áhorfandinn leiddur um ókunnar ótrúlega fagrar slóðir.   Ég hlakka til að sjá þátt nr. 2.  

Umfjöllun BBC um þættina má nálgast HÉR  og umfjöllun RUV er svo HÉRNA


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband