Framhald upprifjunar.

 Kafli II.

 Þessi upptalning á verslun og að hluta til þjónustu á Patreksfirði uppvaxtarára minna verður ekki svipur hjá sjón í mínum huga nema að ég minnist á Hermann skóara.  Hermann var stór maður og stundum að mér fannst dálítið hrjúfur á köflum.  Undir niðri skynjuðum við þó að í þeim gamla sló gott hjarta.  Hermann gerði við skó, þar með talda tramparana vinsælu sem voru skór sem ég man eftir sem einum þægilegustu og smörtustu skóm sem ég hafði lengi vel eignast. Skór með breiðri tá og sumir reimaðir upp á ökkla.  Ég man að í einhverjum tilfellum þurfti Hermann að skipta um stykkið sem var yfir tána.  Það var nú ekkert voða flott en lukkaðist sæmilega hjá karli.  Hermann gerði svo annað sem vakti lukku og það voru svört leðurhálsbönd með kósum og reimum. Gott ef það voru ekki armbönd í sama stíl.  Þetta þótti ferlega töff á tímabili. Þarna gátum við svolítið valið hvernig við vildum hafa böndin, mjó eða breið, hversu margar kósir og þess háttar.  Ég veit ekki hvort hann hannaði þetta sjálfur eða hvernig þessi leðurbandaframleiðsla kom til  hjá honum.  Það væri nú gaman ef einhver gæti upplýst um það.   Skóviðgerðunum og slíku sinnti hann fyrst ef ég man rétt í skúr við Hólshúsið (Aðalstræti 14).  Það má vera að hann hafi verið í kjallara Hólshússins með þetta en mér finnst eins og það hafi verið í skúr við húsið, þarna er minnið aðeins að svíkja mig.  Síðar flutti Hermann starfssemina  í skúr við Emelíuhúsið (Aðalstræti 71), gott ef hann bjó ekki í Emelíuhúsi á þeim tíma.

 Mjólkurstöðin

Hér á Patreksfirði var í mörg ár rekin mjólkurstöð og unnin mjólkurvara.  Þetta var  flott og tæknivædd stöð  og yfir henni réðu útlærðir mjólkurfræðingar, lengst af Jón S. Garðarsson sem bjó hér í fjölda ára með sinni fjölskyldu.  Ein fyrsta  minning mín um mjólkurstöina var þegar ég  sem stelpa fór  að sækja mysu fyrir mömmu og mér þótti sérlega merkilegt að koma þarna inn.  Lyktin, blönduð  gufu verður mér ógleymanleg.  

Eftir að rekstur mjólkurstöðvarinnar lagðist af var um tíma rekin vöruflutningamiðstöð í húsinu sem  og gos og sælgætisumboð.   Í þessu húsi eru í dag bækistöðvar Rauða krossins, geymsla sjúkrabílsins á staðnum og fyrirtækið Tölvuvinnslan hefur  aðsetur í efri enda hússins

Ingólfsbúðin við Aðalstræti 8. 

Búðin hét í rauninni Verslun Ara Jónssonar en var í daglegu tali kölluð Ingólfsbúðin eftir Ingólfi Arasyni sem rak hana í fjölda,  fjölda  ára ásamt konu sinni Sjöfn Ásgeirsdóttur. Mér skilst að faðir Ingólfs hafi byrjað verslunarrekssturinn og það skýrir nafnið.

Þarna fékkst allt milli himins og jarðar.  Skór, allskonar fatnaður, álnavara, tímarit, bækur þ.m.t skólabækur,  ritföng  og gjafavara.  Þessi búð var örugglega mjög flott á þess tíma mælikvarða þarna var hægt að fara með myndir í framköllun ef ég man rétt og endurnýja happdrættið.  Já hún þjónaði flestum þörfum okkar hér þessi verslun og var í bara fastur punktur í tilverunni. Auk Ingólfs afgreiddu lengst af í búðinni  þær Jenný Óladóttir og Þuríður  Þorsteins, þær voru þarna í fjölda ára.  Eftir að Ingólfur og Sjöfn hættu með búðina,  keyptu  þau Gunnhildur Valgarðsdóttir og Símon Símonarson reksturinn og varð þetta þá  Verslunin Höggið. Áfram var búðin rekin með svipuðu sniði.  Verslunarrekstur lagðist svo af í  húsnæðinu  um tíma.  Það var svo fyrir nokkrum árum að þau  Sigríður Guðmundsdóttir og Ruben Johannessen hófu þar rekstur hannyrða- og föndurverslunar m/kaffisölu.  Á efri hæðinni þar sem áður var lager reka þau Sigríður og Ruben gistiheimili.  Rekstur þeirra heitir Eyrar og er með þessum hætti í dag.

Ótrúlegt en satt, ennþá heyrist einn og einn tala um að fara í Ingólfsbúðina :-)

Verslunin Kjöt og Fiskur.

Var nú nánast hjartað í verslun staðarins í áratugi ásamt Kaupfélaginu sem var reyndar starfrækt mun skemur.  Í daglegu tali var búðin kölluð Matvörubúðin og var  í eigu sömu fjölskyldunnar í fjölda ára.   Þessi verslun er algjörlega líkt og Ingólfsbúðin  samtvinnuð uppvaxtarárunum og bæjarmyndinni.  Þarna var þörfum okkar bæjarbúa sinnt í mat og drykk.  Einnig voru á boðstólnum  hreinlætisvörur og eitthvað af búsáhöldum.  Áður en þetta varð matvöruverslun var á þessum stað rekið bakarí.  Út um lúgu á því rými sem síðast var lager var seldur malaður ís á tímabili. En malaður ís er heiti okkar bæjarbúa yfir ís úr vél eins og ís í brauðformi svo ég skýri það nánar. En nóg um það.   Ottó Guðjónsson bakari rak bakaríið  en bróðir hans Guðjón rak verslunina, síðar dóttir hans Hrafnhildur og Hallgrímur maður hennar þar til fyrirtækið var selt öðrum. 

Þess má svo geta að sonur Ottós, Haflliði var bakari og rak bakarí í kjallara húss síns á Mýrum 1 í mörg ár.  Mér finnst í lagi að geta þess til gamans  að synir Hafliða, Ragnar  og Rafn  urðu einnig bakarar.  Sá þekkti bakari og súkkulaðimeistari Hafliði Ragnarsson er sonur fyrrnefnds Ragnars og því kominn af mikilli bakaraætt í beinan karllegg.  Eftir að Hrafnhildur og Hallgrímur hættu með Kjöt og Fisk tóku Oddur Guðmundsson, Kolbrún Pálsdóttir og Einar Ásgeir Ásgeirsson við rekstrinum og ráku verslunina með sama sniði þar til fyrir skömmu að sögu verslunar lauk í húsinu í bili a.m.k.

 

Raftækjaverlsun Baldvins Kristjánssonar var  rekin af Baldvin og Sigríði konu hans, fyrst  í neðri hæð húss þeirra hjóna við Stekka 7 ef ég man rétt. Spurning hvort það hafi bara verið verkstæði á Stekkunum, en Baldvin  starfaði einnig sem rafvirki.  Þau hjónin hófu svo  rekstur verslunarinnar við Aðalstræti 73. Þar fengust alls kyns raftæki, músík og gjafavara. Þetta var stór verslun með fallegt vöruúrval. 

Jónas Þór sem þá starfaði sem rafvirki og kona hans Anna Stefanía keyptu svo verslunina og ráku hana í mörg ár undir heitinu Rafbúð Jónasar Þór.   Þau ráku verslunina með svipuðu sniði og áður hafði verið, auk þess sem þar varð fyrsti Lottósölustaðurinn hér á Patreksfirði.

Kolbrún Pálsdóttir og Oddur Guðmundsson voru svo þau sem ráku síðast verslun í þessu húsnæði með með svipaðan varning,  en þó meira stílað inná gjafavöruna. Þetta  var verslunin Geirseyrarbúðin. 

Veitingastaðurinn Þorpið  er í dag rekinn í húsnæðinu en þar má fá allar helstu veitingar auk þess sem Oddur og Kolbrún sinna matseld fyrir veislur og sjá um að elda skólamáltíðir fyrir Grunnskólann á staðnum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er auðvitað bara snilld. Svo er að halda áfram. Hermann skóari var í kjallaranum á Aðalstræti 14. VBK var í bílskúrnum að Stekkum 7 örugglega í 10 ár áður en hún flutti á Aðalsstrætið en það er nú hægt að komast að því. :-)

Ruth Baldvinsdóttir (IP-tala skráð) 11.4.2009 kl. 13:29

2 Smámynd: Guðný

Snilld hjá þér Anna. Ég vann sumartíma við að selja þennan malaða ís. Einhvern tíma var mjólkurbúð þar sem nú eru Eyrar, þar vann mamma. Rak ekki Ari faðir Ingólfs Vertshúsið (Vesshúsið)? sem var á auðu lóðinni milli Aðalstrætis 17 og 21.

Guðný , 11.4.2009 kl. 19:12

3 Smámynd: Anna

Takk báðar fyrir þetta. J

ú Guðný, þetta er  rétt með Vertshúsið. Búðin var fyrir mína tíð en ég man eftir húsinu.

Anna, 11.4.2009 kl. 21:51

4 identicon

Heil og sæl Anna mín,

Þessi  pistill þinn er að vanda bráðskemmtilegur, ég datt nokkra áratugi aftur í tímann. Ég man vel eftir malaða ísnum á ísbarnum. Ég man reyndar ekki eftir annarri mjólkurbúð en þeirri sem var í Kaupfélaginu og þar man ég eftir Boggu og Gógó og líka Nönnu hans Bergmanns. Þessi verslunarsaga sýnir svo ekki verður um villst að það var blómlegt um að litast vestra í þá daga.  Hugsaðu þér hvað það var hægt að fara og skoða í marga búðarglugga þegar jólaskreytingarnar voru komnar......enda var það "athöfn" að fara í þann leiðangur í byrjun desember.  Í öllum þessum búðum var "búðarborð" þar sem maður stóð við og bað um vöruna sem höndla átti og í stöku tilfellum fór fólk innfyrir búðarborðið.  Ég man m.a eftir slíkri uppstillingu í Kaupfélaginu :-).  Hafðu bestu þakkir fyrir frábæra skemmtun sem ég hafði við lestur þessa pistils.

Bestu kveðjur,

Sólveig.

Sólveig Ara (IP-tala skráð) 12.4.2009 kl. 20:21

5 Smámynd: Anna

Takk Sólveig, þetta varð mikið lengra en ég reiknaði með en gaman ef einhver nennir að lesa Bestu kveðjur héðan.

Anna, 13.4.2009 kl. 08:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband