Skrýtið uppátæki :-)

Já það má alveg skrifa þetta á óvænt og  skrýtið uppátæki það sem hér kemur á eftir.  Það eru niðurskrifaðar  minningar mínar tengdar búðum hér á Patreksfirði og ég byrja því eðlilega á sjöunda áratugnum.

Það ærði óstöðugan að hafa þetta í einni bloggfærslu því skipti ég þessu niður í kafla og birti meira á næstu dögum.

Formáli:

Þegar ég hóf þessa  upprifjun á minningum mínum um verslun  hér á Patreksfirði æskuára minna þ.e á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar , fannst mér ég fljótlega þurfa að fara lengra í átt til nútímans en ég lagði upp með í upphafi og jafnvel  alveg til dagsins í dag.  Þetta vatt upp á sig og ég ákvað því að gera þessu skil eftir bestu getu.  Upptalningin er eingöngu byggð á mínu minni, ekki stuðst við neitt annað.  Í sagnfræðilegu tilliti er gildið líklega óverulegt  - ég gerði þetta mest  mér til gamans.  

Hugsanlega er þessi þáttur þorpssögunnar  til án þess að ég hafi athugað það sérstaklega og þá mikið aftar í tíma.

Þegar svona upptalning eftir minni er birt almenningi þá fer maður  að hugsa um hvort eitthvað sé að gleymast, hvort rekstraraðilar séu  réttir og fleira í þeim dúr.

Á staðnum hefur auðvitað verið rekinn fjöldinn allur af alls konar fyrirtækjum.  Svo sem fiskvinnslufyrirtæki, vélsmiðjur, bílaverkstæði og bankar, já allskyns þjónusta, eins af hálfu hins opinbera.  Ég lagði þó ekki upp með neina alsherjar úttekt  heldur var meira að hugsa um það  sem sneri að verslunum þó að sitthvað fleira hafi óhjákvæmilega slæðst með eins og verða vill þegar svona lagað er fest á blað.

Í væntanlegum köflum  nota ég orðin verslun og búð til skiptis og er frjálsleg í því eins og örðu í textagerðinni. Tímaröð er nokkuð handahófskennd og tengist í sumum tilfellum meira viðkomandi húsnæði frekar en réttri röð. Þó er tímaröð nokkurn vegin rétt gagnvart því sem rekið var í sama húsi.

Sé ég að fara áberandi  rangt með t.d nöfn rekstraraðila og fleira í þeim dúr þá er fólki meira en velkomið að leiðrétta það.

Upprifjun, kafli I.

Vatneyrarbúðin.  Var flott verslun neðst í bænum og tilheyrir að byrja á henni sökum tengingar hennar við sögu þorpsins.  Gengið var upp tröppur á miðhæðinni. Inni fyrir þjónaði fröken Katrín heitin Gísladóttir  viðskiptavinum af liðlegheitum eftir því sem mér er sagt, enda kynntist ég Kötu síðar á lífsleiðinni og efast  því ekki um ljúfmennsku hennar.  Ég man því miður ekki alveg hvað fékkst í búðinni en finnst eins og það hafi verið álnavara og eitthvað fíneríis leirtau.

Í löngum láréttum kjallaraglugga sem nam við götuna var iðulega líflegt um jólin.  Þar var jólasveinn sem kinnkaði kolli og þótti ærin ástæða til að gera sér ferð að Vatneyrarbúðinni til að berja þennan gríðarlega flotta jólasvein augum, sannkallað tækniundur í augum okkar krakkanna.  

 Sólberg (Þórsgata 6). Þarna var rekin matsala af Erlu Haflliðadóttur og Kristjáni manni hennar.  Einhvern vetur jafnvel fleiri en einn fékk  danskennsla þeirra danskennara Hörpu og Svanhildar inni hjá Erlu og Stjána.  Þær stöllur  komu vestur á í mörg ár til að kenna dans fyrir Dansskóla Heiðars Ástvaldssonar, en danskennslan  fór svo síðar fram  í húsnæði barnaskólans.

Þetta var alvöru,  flottur veitingastaður, líklega sá fyrsti hér á staðnum.

Í dag rekur sonur þeirra hjóna Erlendur, verkstæðið Rafborg í þessu húsnæði en hann starfar sem rafvirkjameistari.

 Vesturljós. (Aðalstræti 13).

Var raftækjaverslun sem Hafsteinn Davíðsson rak en hann var einnig rafvirki á staðnum.

Í búðinni  fengust flottar plötur og  í þarna  keypti ég mína fyrstu 45 snúninga plötu sem var með snillingnum Elton John.

Laufey Böðvarsdóttir sem á æskuárum mínum stóð fyrir innan búðarborðið hjá Ásmundi Olsen rak  lengi í þessu húsi Flugafgreiðsluna. Þau hjónin Laufey og Trausti Aðalsteinsson sáu í mörg ár  um samskipti við flugvöllinn handan fjarðarins áður en allt flug var flutt á Bílldudalsflugvöll.

Verslunarsögu hússins er þó ekki lokið - í því  rak Steindór Sigurgeirsson verslunina Torgið sem var verslun með tískufatnað. Við versluninni  tók svo Alda Davíðsdóttir en núna í seinni tíð og enn í dag er í húsinu verslunin Sælukjallarinn sem rekin er  af Fanney Gísladóttur.  Í Sælukjallaranum er á boðstólnum gjafavara, blóm, leikföng, heilsuvara svo fátt eitt sé talið.

 Mannabúðin.

Þessa búð ráku Manni og Berta.  Þau voru í mínum huga eins og litla Gunna og litli Jón í jákvæðustu merkingunni.  Bæði lágvaxin,  samhent og góðar manneskjur.  Ég man aldrei eftir öðru en gæsku þeirra í garð okkar krakkanna.  Þarna var verslað yfir búðarborðið og á efstu hillum geymdu þau t.d klósettrúllur og fleira.  Lipurð Manna við að ná í rúllurnar með priki er mörgum minnisstæð.  Kex og fleira var geymt í skápum fyrir neðan hillurnar.  Búðin var ekki stór en þar fékkst margt.  Þau hjónin óku um á litlum bláum bíl sem var krúttlegur í meira lagi og gæti hafa verið Skódi og vel á minnst, þau sáu um dreifingu Morgunblaðsins hér á árum áður.

Rétt við Mannabúðina eða nákvæmlega þar sem íbúðir eldri borgara eru staðsettar núna var bensínsjoppa.  Ég man lítið eftir þessari sjoppu og líklega hefur hún staðið þarna stutt og gott ef hún var ekki rekin af þeim Manna og Bertu.

Rétt við „skverinn" til móts við Friðþjófshús var Settusjoppa það var bensínsjoppa ef ég man rétt sem Hanna Jóhannesson (Setta) rak. Hún var afar góð við okkur þessi kona og við mikið að sniglast þarna krakkarnir.  Hugsanlega hafa þessar tvær bensínsjoppur ekki verið reknar á sama tíma en það man ég ekki nákvæmlega.

 Ásmundarbúðin við Aðalstræti 6.

Var dyngja í minningunni.  Þar var allt mögulegt til, fatnaður, skart og hvað eina.  Þetta var þó að ég held ekki matvöruverslun,  eitthvað var til af tóbaki og  nammi.  Eftir að við krakkarnir fórum að vinna í frystihúsinu Skyldi var einstöku sinnum skroppið uppeftir í kaffinu til að fá sér Sinalco, Spur, lakkrísrör, krembrauð eða eitthvað álíka.  Þetta var á þeim tíma sem gos var selt í glerflöskum sem lágu á hliðinni í goskælum þess tíma, og löngu áður en gosflaskan  varð álíka algeng sjón í ísskápum heimila  og mjólkurfernan. En það er önnur saga. Í dag rekur Lyfja apótek í húsnæðinu.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.