Mínar pælingar.

Í dag fer fram prófkjör D-listans í Norðvesturkjördæmi.  Að því er ég best veit síðasta prófkjörskosning vorsins.  Um fyrirkomulagið við val á lista flokkanna  eru skiptar skoðanir, þá hvort velja eigi með þessum hætti eða ekki.  Ég þekki ekki nákvæmlega hvað liggur að baki þessu vali að viðhafa prófkjör frekar en eitthvað annað og ætla því ekki út í þær pælingar hér.

Eitt þekki ég þó  nákvæmlega og það er hvernig er að búa í litlu samfélagi  þar sem erfiðar samgöngur eru að mínu áliti helsti farartálmi okkar til samskipta og framfara.  Þegar kjördæmum var fækkað og þau þar með  stækkuð á sínum tíma,  hafði ég áhyggjur af að nú gleymdumst við á Vestfjörðunum alveg og almennt lítil svæði með fáa íbúa eins og sér í lagi hér á sunnanverðum Vestjförðunum.  Hvort það er raunin að öllu leyti væri kannski ósanngirni að fullyrða en að stórum hluta er það samt svo sé horft til lífsskilyrða nútíma manneskjunnar.

Í þessum kosningum þurfum við sterka rödd og raddir og nú sem aldrei fyrr.  Hræðslan við að raddir okkar á þessu svæði heyrist ekki heldur dofni með tímanum er mikil hjá mér.  Þá hræðslu vekur fyrst og fremst  það neikvæða viðhorf sem ég heyri stundum í okkar garð og löngu gefin loforð sem ekki hefur þótt ástæða til að efna, eða að ferill efndanna hefur skyndilega tekið beygju og aðrir notið góðs af því sem átti að koma í okkar hlut.

Ég vil velja til forystu fólk sem hefur sterka rödd og skilningsríka.  Kjarkmikla rödd  sem talar af heiðarleika, víðsýni, umburðarlyndi og framsækni. Rödd sem ber virðingu fyrir manneskjunni og því lífi sem fólkið í landinu lifir og hefur lifað í gengum aldirnar.  Rödd fólks sem horfir opnum huga til framtíðar, nýtir möguleika af heilindum,  hugsandi til komandi kynslóða.  Ég vil í næstu alþingiskosningum geta valið fólk með viðhorf um framtíð sem felur í sér  að komandi kynslóð  lifir bærilegu lífi.  Lífi  þar sem jafnvægi er á milli þess að gefa og þyggja. Ég held að á öllum listum sé mikið af frambærilegu velviljuðu fólki, efast ekki um það, en það þarf svo sannarlega að snúa bökum saman, nú sem aldrei fyrr.

Já ég eins og all flestir á ég mér draum um gott samfélag byggt á sæmilegu jafnvægi grundvallarþátta og vona að gráðugu úlfarnir sjáist sem minnst á ferðinni.  Áfram Ísland. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.