Fegrunarráð

Í alsherjartiltekt í netpóstinum mínum rakst ég á þetta sem ég hafði fengið sent fyrir löngu og  birti hér til gamans.  Þetta eru ágætis ráð og kosta akkúrat ekki krónu.  A.m.k er þetta fínt  svona aðeins  til umhugsunar:

 

 

 Til að fá fagrar varir skaltu bara hafa eitthvað fallegt að segja.

Til að fegra augun skaltu svipast um eftir því fallega í fólki.

Til að fá fallegar línur skaltu gefa með þér af matnum.

Við höfum tvær hendur.  Aðra til að hjálpa okkur sjálfum og hina til að rétta hjálparhönd.

Smile


Veisla að Vestan

Það leynast nú stundum áhugaverðir pésar inná milli minna áhugaverðs pósts sem dettur inn um bréfalúguna hjá manni.  Á dögunum kom einn sem sem  fór ekki í ruslið með því auglýsingadóti sem þau örlög fær.  Það var kynning á verkefninu "Veisla að Vestan" sem er eins og segir í bæklingnum:

"Veisla að Vestan er þróunarverkefni í matartengdri ferðaþjónustu sem Atvest (Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða  - innsk.mitt) hefur unnið að ásamt góðum hópi fólks undanfarna mánuði.  Tilgangur verkefnisins er fyrst og fremst að vekja athygli á vestfirskum matvælum sem mun leiða af sér aukinn sýnileika og aukna veltu þeirra fyrirtækja sem vinna með vestfirskt hráefni " 

Á  vef  Atvest má lesa um verkefnið og skoða bæklinginn í heild sinni.

Heilu sjónvarpsþættirnir og þáttaraðir eru til um matvælaframleiðslu héraða um allan heim og virkilega gaman að sjá jafnvel aldagamlar hefðir í matvælaframleiðslu s.s osta, kjöts, sinneps svo fátt eitt sé talið blómstra.  Því skyldum við ekki hampa okkar hefðum í matargerð.  Bara hér í mínu nánasta umhverfi er nokkur matvælaframleiðsla sem er vönduð og afurðirnar lostæti.  Hér framleiða bændur kjöt og þá hangið kjöt.  Fiskafurðir fást hér, mikil gæðavara hjá fiskvinnslufyrirtækjunum á svæðinu.   Harðfiskframleiðsla hefur alltaf verið mikil, silungsrækt og afurðirnar  er m.a að fá í Tálknafirði sem reyktan regnbogasilung, paté, krydduð flök tilbúin á grillið og fl.  Þetta er svona það helsta sem mér dettur í hug í augnablikinu,  fleira er hægt að týna til og sömuleiðis er  heilmikið í gangi á þessu sviði sé horft til Vestfjarðanna  í heild sinni.

Já þetta verkefni finnst mér mjög áhugavert og ég vona að það dafni vel.


3. mars.

Á hverjum degi erum við eðlilega þáttakendur í skapa söguna og framlag okkar til komandi kynslóða er auðvitað  misjafnlega úr garði gert.  Allur þessi óheyrilegi fjöldi bloggsíðna sem innihalda allskyns fróðleik um lífið í núinu, hvað verður um þetta allt ?  Vonandi og líklega  eru einhverjir sem hugsa um að varðveita a.m.k hluta af þessu.  Margt af öllum þessum skrifum þykja líklega merkilegar heimildir síðar meir.  Á dögunum var mér sendur hluti bréfasafns  langa,langafa míns Sighvats Borgfirðings.  Við lestur þessara skemmtilegu bréfa hvarf ég bókstaflega aftur í tímann í huganum, svo vel eru bréfin orðuð og myndræn að mínu áliti.   Tíðarandinn og þá þjóðlífslýsing skilar sér að mínu mati vel.  Spurning hvort skrifarinn hafi hugsað um sögulegt gildi bréfanna, það er ég alls ekki viss um.  Þetta voru bréf til sonar hans, sömuleiðis bréf skrifuð af konu hans.  Síðustu ár hef ég verið að finna ýmsan fróðleik um þennan mikla skrifara Sighvat og á mikið eftir að kynna mér á næstu árum.

Mér varð hugsað til pabba.

Í dag 3.mars hefði hann  orðið 75 ára en hann lést árið 2002.  Hann hafði miklar mætur á Sighvati langafa sínum og verkum hans.   Ofangreind bréf hefði hann viljað lesa - og haft af því mikla ánægju það er ég viss um.  Pabbi hafði yndi  af lestri bóka og skrifum og ég var ekki há í loftinu þegar ég skynjaði aðdáun hans á langafanum.

Í dag eins og alla daga minnumst við pabba með söknuði og hlýju.  Eins og alltaf þegar fólkið manns fer finnst manni það hafa verið ótímabært fráfall.  En lífið heldur áfram og maður þakkar hvern dag.

 

 

Heart

 


Viturleg ákvörðun.

 Það má segja um þessa ákvörðun eins og aðrar góðar á erfiðum  tímum,  - er á meðan er ! 


mbl.is Fallið frá sameiningu heilbrigðisstofnana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég hlustaði af athygli.


Lítið sem ekkert en eitthvað samt.

Einhvers staðar las ég orð manneskju um að Facebook væri að drepa niður allt sem héti blogg.  Vissulega tekur Facebook sinn tíma eins og allt sem fólki finnst áhugavert og skemmtilegt.   Ég er þó ekki viss um að það sé alfarið rétt að bloggið muni nánast sofna svefninum langa af völdum þeirrar ágætu bókar.   Það koma lægðir í bloggandann eins og svo margt.  Það er ekki að sjá annað en að bloggáhuginn hjá landanum  sé nægur.  Það má kannski dálítið lesa þjóðarsálina á blogginu.  Margt og misjafnt, mis merkilegt og skemmtilegt, málefni líðandi stundar í það og það sinnið.   Ekki fer á milli mála hvað það er þessa dagana, - eðlilega ekki.

Ég fékk þetta sent í netpóstinum í dag og eins og svo oft er maður beðinn um að senda áfram á einhvern x fjölda fólks.  Það geri ég hins vegar sjaldnast en ákvað í þessu tilfelli að birta þetta bara hér.  Ágætt að lesa og ekkert verra en hvað annað.

 ----------------------

Þegar ég var yngri, vó ég nokkrum kílóum minna.
Ég þurfti aldrei að halda maganum inni þegar ég fór í þröngan kjól.

En nú, þegar ég er orðin eldri, hefur líkami minnbrotist til frelsis. Og um
þann hluta hans sem einu sinni var mitti, eru þægileg teygjanleg efni.

Ítölsku skórnir þurfa að vera tveim númerum stærri en áður, ef ég kem þá
fótunum yfirleitt í þá, og skrefbótin á sokkabuxunum sígur allt of oft niður
undir hné.

En ég hef einnig lært að það skiptir engu máli hvað gerist, eða hversu DIMMT   virðist yfir öllu í dag. Lífið heldur áfram og á morgun kemur betri dagur.

Ég hef lært, að það segir mikið til um manneskjuna hvernig hún bregst við
þessum þremur hlutum:
1. Rigningardegi
2. Týndum farangri
3. Flæktu jólatrésskrauti

Ég hef lært, að óháð því hvernig samband okkar er við foreldra okkar, komum við
til með að sakna þeirra, þegar þau eru horfin á braut.

Ég hef lært, að það að verða sér úti um peninga og hluti, er ekki það sama og
að skapa sér líf !!

Ég hef lært, að af og til býður lífið okkur upp á annað tækifæri.

Ég hef lært, að maður getur ekki farið í gegnum lífið með hornabolta-hanska á
báðum höndum. Öðru hvoru verður maður líka að gefa boltann til baka.
Ég hef lært, að þegar ég ákveð eitthvað beint út frá hjartanu, þá hef ég
yfirleitt hitt á hina einu réttu ákvörðun.

Ég hef lært, að þó að ég sé sár, þurfi ég ekki að særa aðra.

Ég hef lært, að á hverjum degi eigi maður að rétta öðrum höndina.
Allir þurfa hlýjar hugsanir og vinalegt klapp á axlirnar.
Ég hef lært, að ég er alltaf að læra eitthvað nýtt.

Ég hef lært, að það sem þú segir og gerir vill gleymast, en fólk gleymir ekki
hvernig þú lætur því líða.


Framboðsmál

Þessa dagana koma fram einstaklingar sem hyggjast bjóða sig fram á lista fyrir kosningarnar  í  vor.  Það vekur athygli að á meðal þeirra sem bjóða sig fram til efstu sæta  í Norðvesturkjördæmi eru  þrír sem eru af  sunnanverðum Vestfjörðunum.  Svo skemmtilega vill til að þeir tengjast allir Tálknafirði.

Þarna ber fyrsta að telja Eyrúnu Ingibjörgu Sigþórsdóttur .  Eyrún sem er búsett í Tálknafirði er starfandi sveitarstjóri Tálknafjarðarhrepps.  Hún hyggur á forystusætið á   lista Sjálfstæðisflokksins. Eyrún er  vel að sér í málefnum kjördæmisins,  hefur starfað að málefnum Vestfjarðanna og þ.m tjáð sig í ræðu og riti, og þá sér í lagi um málefni síns nánasta umhverfis þ.e Barðastrandarsýslu.

Ólafur Sveinn Jóhannesson býður sig fram í 1. - 2. sæti á lista Vinstri grænna.  Ungur maður sem hefur látið að sér kveða  - uppalinn hér fyrir vestan.   Ólafur Jóhannes er nýlega fluttur frá Tálknafirði en hann þekkir vel til lífsins hér á svæðinu.

Þá er það Örvar Marteinsson sem hyggur á lista Sjálfstæðisflokksins.  Eins og Ólafur Sveinn  er Örvar  uppalinn hér fyrir vestan þó að hann hafi nú lengsts af held ég búið á Snæfellsnesinu. 

Fleiri hafa opinberað  vilja sinn til setu á listum fyrir kjördæmið og spennandi að sjá hvernig endanleg uppröðun verður. 

Eitt er víst að það er full þörf á að hrista aðeins upp í þessu öllu saman. 


Kveðja

Horft út Patreksfjörðinn
 
Þessi mynd er tekin út Patreksfjörðinn í gær - ótrúleg veðurblíðan þessa dagana.
Í léttu spjalli fyrir stuttu, þar sem umræðan kom m.a  inná blogg sagðist ég ætla að skrifa einum viðmælandanum  bréf hér á blogginu, því ég veit að hann les þetta  Wink
Ég stend ekki við það nema að hluta til - sendi bara þessa mynd í staðinn, eina svona ekta fína af æskuslóðum okkar beggja  og auðvitað færðu sérstaka kveðju Muddi minn með velgengnisóskum þar sem ég veit að þú ert að skipta um umhverfi og vinnu Smile

Áþreifanlegt

Það var bara í fyrrahaust sem byggingakranar og nýbyggingar táknuðu blússandi uppsveifluna sem engan enda virtist ætla að taka.  Helst  á Höfuðborgarsvæðinu, þar sem ný mannvirki og nánast heilu hverfin voru að myndast að mér fannst  á milli ferða hjá mér og þó finnst mér ég nú fara æði oft suður.   Í ferð rétt um jólin voru sjáanlegar breytingar ekki miklar a.m.k ekki þar sem ég fór um.  Jólaverslunin á sínum stað og allt virkaði á venjubundnu róli. 

Núna þegar ég er nýkomin úr einni ferðinni varð ég þó verulega vör við alvarleika afleiðinga hrunsins í haust.  Nú virðist þolið einhvern veginn vera að gefa sig með tilheyrandi keðjuverkun.  Gapandi gluggalaus háhýsi og aðrar byggingar tákna ekki lengur uppsveiflu heldur blákaldann veruleika stöðnunar og atvinnuleysis.   Orðið atvinnuleysi hefur verið manni svo fjarlægt eitthvað en ég hitti fólk sem er atvinnulaust og marga sem hafa misst hluta af sínu starfi og/eða þekkja einhvern sem hefur verið að fá uppsagnarbréfið.  Þetta ástand er þó ekkert endilega bundið við suðurhorn landsins - síður en svo.  Bara spurning hvert boltinn rúllar.  Allt hefur keðjuverkandi áhrif.   Fólk er þó alveg óbilandi bjartsýnt - sem betur fer.  Það vantar ekkert uppá sjálfsbjargarviðleitnina og kraftinn.  Ég frétti af hópi manna sem misstu vinnuna en þeir hittast kl. 9 á morgnana til að halda þannig  í sinn daglega takt - skoða atvinnumöguleika, spjalla saman og styrkja hvern annan.  Þessi hópur eigir  von um aðra vinnu þó að fjarri heimahögum sé.  En ekki um annað að ræða að taka það sem gefst. 

Í birtingu á laugardaginn ók ég í ægifögru veðri vestur Mýrarnar og við mér blasti falleg fjallasýnin. Í útvarpinu voru endurtekin viðtöl við núverandi og fyrrverandi ráðherra sem bentu hvor um sig á að þessi og hin málin hefðu ekki verið fjármálaráðuneytis heldur viðskiptaráðuneytis og öfugt.  Of mikið púður sem fer í svona snakk - við þurfum skarpar hnitmiðaðar aðgerðir sem koma hjólum atvinnulífsins í gang.  Fyrirheit um það eru vissulega í farveginum en hraðinn mætti vera meiri þar sem biðtíminn er orðinn of margir mánuðir.  

Ég  hugsaði um og virti fyrir mér náttúrufegurðina sem blasti við mér.  Hvað það væri að vera Íslendingur í heimsþorpinu stóra.  Búandi í þessu fagra alsnægta landi svo ríku af náttúruauðlindum og sömuleiðis mannauðugt með afbrigðum.  Við rífum okkur upp úr þessari lægð engin spurning um það og vonandi að okkur takist að halda í sjálfstæði þjóðar okkar, töpum því ekki með vanhugsuðum skyndilausna aðgerðum.

Ég er nú svona almennt jákvæð og bjartsýn fyrir landans hönd en vil bara sjá ráðamenn spýta í lófana, eyða meira púðri í framkvæmdir og lágmarka tilgangslitla orðræðu.

 

dscn1613.jpg
dscn1610.jpg
dscn1604.jpg
 

 


Byrjun 5. viku ársins

Mánudagurinn 26. janúar 2009  verður eflaust lengi í minnum hafður - stjórnarslit orðin að veruleika.  Ómanneskjulegt álag búið að vera á þeim sem standa í þessum ósköpum sem það hlýtur að teljast  að sitja í ríkisstjórn í þessu  ástandi.  Það hlaut auðvitað að koma að þessum slitum, þau lágu í loftinu og spurning hvernig málin munu svo þróast fram að kosningum í vor.    Mér finnst margt spennandi felast í stjórnlagaþingshugmyndinni sem t.d má lesa um hér á bloggi Gísla Tryggvasonar, talsmanns neytenda.  Annars veit ég satt best að segja ekki í hvorn fótinn ég á að stíga við að mynda mér skoðun á málunum  ég hef  ekki haft mikinn tíma undanfarið til að kynna mér hlutina sérlega vel, aðeins séð glefsur úr einum og einum fréttatíma og lítið lesið.

Undirbúningi þorrablótsins okkar hér í bæ lauk með hápunktinum, sjálfu blótinu á laugardaginn var.  Undirbúningi sem byrjaði í haust og lauk með þessari líka glæsilegu veislu.  Salurinn fallega skreyttur, heimagerður maturinn  mjög góður og skemmtiatriði svona létt skot á atburði í bæjarlífinu eins og venja er, já allt heimaunnið á þessu blóti frá A-Ö.  Við vorum 15 konur í nefndinni.  Formaður hennar  Brynja Haraldsdóttir kann sitt fag,  þaul vön eldamennsku og eldklár alveg.  Þær sem sömdu skemmtiatriðin Steinunn Sturludóttir  og Bergrún Halldórsdóttir eru sömuleiðis eldklárar  í að semja hnitmiðaða texta fyrir söng og leik.  Svo er það auðvitað þannig að nefndin er stútfull af mjög svo færum konum sem allar leggjast á eitt  til að gera blótið sem myndarlegast.   Við hjálpumst  allar að   til að mynd komist  á leikatriðin þar sem tíminn er frekar naumur,  auk þess sem flestar fara með eitthvað hlutverk.  Já mér finnst bara akkúrat engin þörf á að spara lofsyrðin hér, svo ánægð er ég með hvernig til tekst svona alla jafna þegar blótið okkar er annars vegar.  

Það er alltaf gaman að sjá leikþættina, sem fyrir utan að vera mjög svo skemmtilega samdir eru kryddaðir leik hæfileikaríkra kvenna  sem oft koma  boðskapnum til skila á svo fyndinn hátt að hlátrasköll utan úr sal staðfesta að þetta er allt að skila sér. 

Við erum svo ljónheppnar að njóta aðstoðar tveggja hljóðfæraleikara sem eru alltaf til taks þegar á þarf að halda.  Það eru þeir Eggert Björnsson og Gestur Rafnsson.  Þeir hafa reynst okkur ómetanlegir í gegnum tíðina.  Við heiðruðum þá sérstaklega auk hjónanna í Hvestu þeirra Höllu og Jóns sem hafa séð okkur fyrir hluta hráefnis í fjölda ára.  Eins og gengur eru auðvitað fleiri sem leggja hönd á plóg eins og fjölskyldumeðlimir kvennanna sem fyrir utan að sýna mikla þolinmæði eru alltaf hjálplegir við eitt og annað.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband