Meira af sama.

Ég vil byrja á því að óska öllum gleðilegrar páskahátíðar og vona að fólk njóti þessa fallega dags.

Hér kemur svo framhald  síðustu tveggja bloggfærslna:

Kafli III.

 

Fisksalan í Hraðfrystihúsinu. 

Innarlega í bænum,  var um tíma starfssemi  Hraðfrystihúss Patreksfjarðar.  Þar byrjuðum við krakkarnir mjög snemma að vinna í öllum fríum eins og tíðkaðist á þessum árum og því  kannast flestir á mínum aldri við það sem ég er að tala um hér en það er  fiskbúðin.  Í  kompu á efri hluta hússins var hægt að kaupa fisk í gegnum stóra lúgu.  Þarna afgreiddi Daníel Hansen - alltaf kallaður Dalli.  Gamall góður maður með rautt nefið, örugglega af kulda.  Oft og einatt fór ég í sendiferðir til að kaupa fisk hjá Dalla.  Hann afgreiddi þverskorna ýsu, steinbít og fleira, öllu eða allflestu var pakkað í hvítar pappírsarkir sem lágu á borðinu við lúguna. Fisknum var jafnvel  pakkað inn í nokkur lög eftir því sem þurfa þótti.  Pakkana setti ég svo í innkaupanetið sem ég hafði meðferðis að heiman. Leiðin var á þessum tíma æði löng fyrir okkur  frá Vatneyrinni og   leeeeennnngst upp á Geirseyri Smile

Mikil breyting varð síðar á húsnæðinu eftir að starfssemi Hraðfrystihússins hætti í því og það síðan rekið sem sláturhús í mörg ár.  Nú er það að ég held mest  notað sem geymslur auk þess sem flinkar bútasaumskonur á staðnum hafa þar fína aðstöðu.

Kaupfélagið er auðvitað stór punktur í verslunarsögu staðarins.  Kaupfélagshúsið stóð og stendur enn við Aðalstræti 62, gegnt skrifstofum Vesturbyggðar.  Í Kaupfélaginu kenndi ýmissa grasa.  Í ytri enda hússins  var á æskuárum mínum rekin mjólkursala og þangað sóttu bæjarbúar mjólkina í brúsa.   Síðar varð mynd verslunarhússins  þannig að á efstu hæðinni voru skrifstofur þar sem unnu nokkrir starfsmenn.  Á loftinu  var s.s. kaupfélagsstjóraskrifstofan, aðsetur verslunarstjóra, bókara  og ef til vill fleiri.  Á miðhæðinni var matvara, vefnaðarvara og eftir að mjólkursölunni var hætt var vörulyftan af lager neðri hæðar staðsett þar.  Hægt var að keyra sendiferðabíl að ytri gaflinum fyrir ýmsar sendingar.  Af Kambinum (götunni meðfram sjónum)  var vörunni komið inn í kjallara hússins  ef ég man rétt. Þangað var vörunni sem sagt  keyrt beint af skipaafgreiðslunni en á þessum árum kom mest allur varningur með skipum.  Í kjallaranum var svo  seld ýmis vara s.s járnvara, málning og fleira í þeim dúr.  Nokkrir starfsmenn voru svo lengi í Kaupfélagniu að þeir verða samtvinnaðir minningunni um það. Fyrstan skal telja Bergstein Snæbjörnsson eða Steina Snæ eins og hann var oftast nefndur, einstaklega glaðlegt ljúfmenni sem flestir bæjarbúar kynntust líka í kirkjunni í bænum. Steini var einstakur starfsmaður kirkjunnar í áratugi og afburða söngmaður.  Snorri Gunnlaugs var verslunarstjóri sem ég man best eftir sem glaðlegum manni og aktívum. Ásta Stefáns sem ég minnist á hér síðar var sömuleiðis nokkuð lengi við störf, vissi skil á öllu uppá punkt og prik. Gestur Guðjónsson sá síðar um Essó sjoppuna, hæglátur og góður maður sem ég kynntist sem yfirmanni mínum um tíma. Jú og ég verð að minnast á hana Sæju Þorgríms (Sæbjörgu) sem stóð vaktina í vefnaðarvörudeildinni, ljúfasta kona sem sinnti öllu vel.  Ég gæti talið marga fleiri upp en það var ekki meiningin að gera það í þessum pistlum, margt fleira eftirminnilegt ágætisfólk sem var við störf í svona stóru fyrir tæki á þessa tíma mælikvarða og listinn gæti hæglega orðið mikið lengri. 

Í Kaupfélaginu vann ég um tíma, ók sendiferðabíl  sem var af gerðinni  Renault.  Ógleymanlegur tími það, fyrir margra hluta sakir.  

Eftir að rekstur Kaupfélagsins lagðist af flutti  bakarinn Kristján Skarphéðinsson sig þangað með starfssemi bakarís síns.  Þarna var flott bakarí og síðar Pizza 67 sem þau hjónin Kristján og Kristín Jóhanna Björnsdóttir ráku ásamt bakaríinu.  Þetta var hvoru tveggja vinsælt og hægt að njóta góðs útsýnis af matsölustaðnum yfir fjörðin, auk þess var hægt að sitja úti á palli við húsið innanvert. Kaupfélagshúsið stóð svo autt í nokkur ár en í fyrrasumar var í húsinu opnuð kynning eða vísir að safni um listamenn sem tengjast Patreksfirði og er það opið yfir sumartímann.

 Ástubúð

Í kjallara kaupfélagsins réði áður nefnd Ásta Stefánsdóttir ríkjum í mörg ár, sá alfarið um deildina í kjallaranum  og fylgdi þeim rekstri svo eftir þegar Kaupfélagið flutti deildina í nýtt húsnæði við Þórsgötu 8.  Ásta tók svo sjálf  við  þeim rekstri eftir að Kaupfélagið hætti og verslaði hún  þarna í fjölda ára með verkfæri, málningu, gjafavöru, ýmsan fatnað, vörur fyrir sjómenn og í rauninni allt milli himins og jarðar.

Það var bókstaflega allt hægt að fá í Ástubúð og ef það var ekki til var því bjargað við á skömmum tíma. Eftir að Ásta og Ari maður hennar hættu rekstrinum tók Oddur Guðmundsson við og rak þarna Hafnarbúðina í nokkur ár en það var verslun með svipaðar vörur og Ásta hafði verslað með.  Mér fannst meira bera á gjalfavöru og búsáhöldum hjá Oddi en þar var m.a hægt að fá fínustu búsáhöld.

 Saga Apóteksins  er orðin nokkuð löng hér á Patreksfirði.  Það rifjast upp fyrir mér að sem börn vorum við Vagn heitinn frændi minn  einu sinni sem oftar  að leika okkur á Jókutúninu.  Það  er túnið fyrir ofan Ráðagerði þar sem ég bjó fyrstu tíu ár ævinnar.  Við sjáum mann koma gangandi eftir kindaslóða sem var fyrir ofan túnið.  Hann kom til okkar og fór að spjalla.  Mér er minnistæður maðurinn, hávaxinn dökkur yfirlitum og með stóra myndavél hangandi um hálsinn.  Þarna var kominn Sigurður Jónsson, sem var kominn til að opna apótek á staðnum.  Síðar átti ég eftir að kynnast Sigurði aðeins betur, mikill gæða maður sem lést á síðasta ári.  Sigurður leigði um tíma geymlsuherbergi í kjallaranum hjá okkur.  Eins vann vinkona mín í fjölda ára hjá honum bæði á Patreksfirði og í Reykjavík. Nóg um það, Sigurður hóf apóteksreksturinn í hluta neðri hæðar Aðalstrætis 51.  Síðar byggði hann stórt hús við Aðalstræti 75, bjó með fjölskyldu sinni á efri hæðinni en rak apótekið á þeirri neðri. Húsnæðið var svo  selt Landsbankanum, Sigurður og fjölskylda fluttu til Reykjavíkur og Apóteksrekstur hér í bæ fluttist  á Aðalstræti 6.  Þá í eigu Jóns Þórðarsonar. Fleiri urðu apótekarar staðarins í gegnum árin en eins og fram hefur komið rekur Lyfja apótekið í dag.

 

Það  má vel geta þess að fyrsti apótekarinn, Sigurður var mikill björgunarsveitarmaður og á afmæli Björgunarsveitarinnar Blakks á síðasta ári  var nýtt húsnæði sveitarinnar vígt. Húsinu var  gefið nafnið Sigurðarbúð og minningu Sigurðar  sýnd virðing með þeim hætti.

 Verslun var rekin í kjallara hússins að Brunnum 10 en þeirri verslun man ég því miður ekki eftir að ráði. Þessi verslun var rekin af Magnúsi Guðmundssyni.

 Helgubúð  var  í kjallara hússins við  Aðalstræti 69.  Verslunin var rekin af Helgu Sveinsdóttur  sem verslaði þarna með handavinnu,  fatnað og allskonar fylgihluti, veski og töskur.

Í mínum huga stendur uppúr úrval nærfatnaðar, skartgripa og töskurnar....já töskurnar  gleymast nú aldrei  en ég var 12 ára þegar ég eignaðist rauða marghólfa tösku sem ég hafði meðferðis til Reykjavíkur í ferð sem 3  bekkjum skólabarna af landsbyggðinni  var boðið í af Menntamálaráðuneytinu.  Taskan varð því ógleymanleg sökum tengingar við þessa ferð sem svo sannarlega var  heilmikil  upplifun fyrir 12 ára börn úr litlu sjávarþorpi, snemma á áttunda áratug síðustu aldar.

Kjallarinn 65  Var eins og nafnið gefur til kynna í kjallaranum á Aðalstræti 65.  Þarna versluðu Maggý Kristjáns og dætur með hannyrða og álnavöru. Bútasaumsefni og þ.h.  Þetta var lítil og sæt búð og þær mæðgur annálaðar handavinnukonur og nánast sama hvar þær ber niður á þeim vettvangi.  Það var því ekki vandkvæðum bundið  að fá það sem til hvers kyns handavinnu þurfti í búðinni. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Guðnason

Mjög skemmtileg og fróðleg saga sem þarf að varveita. Gleðilega páska. 

Jóhannes Guðnason, 12.4.2009 kl. 08:29

2 identicon

Skemmtilegar minningar og gaman að lesa:) Gleðilega páska mamma mín.. :*

Þórunn (IP-tala skráð) 12.4.2009 kl. 11:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband