Lukkuleg mamma.
26.5.2008 | 17:54
Hún var hamingjusöm daman þegar skólameistari VMA hafði lokið ræðu sinni, setti stúdentshúfu á höfuðið sem var um leið merki til hóps útskriftarnema um að gera slíkt hið sama. Þarna sátu krakkar (á öllum aldri ) og það geislaði af þeim, - stórum hópnum sem fagnaði áfangasigri á hátíðlegri samverustund. Ég var ein af ánægðu mömmunum í salnum ´
Þórunn Sigurbjörg, fremst fyrir miðju.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Mér finnst rigningin góð....
21.5.2008 | 08:12
...... var sungið hérna um árið. Ég var að koma inn úr ringingunni fyrir augnabliki síðan. Þurfti að skjótast aðeins í morgunsárið áður en vinna hefst og það var notalegt að koma út. Anda að sér ferskleikanum sem loftið er þrungið af. Finna ilminn hér við fjörukambinn og heyra buslhljóðið í fuglunum á sjávarfletinum. Það er nánast logn og í rauninni yndislegt að fá rigningu þegar það er orðið þetta hlýtt. Nauðsynlegt fyrir lífríkið að fá smá úða. Svo lengi sem rigningin verður ekki langvarandi þá er þetta bara fínt. Framundan er annasamur tími. Við förum nokkur saman til Akureyrar á morgun, njótum helgarinnar og fögnum. Geri því hugsanlega skil hér síðar.
Hafið það annars sem allra best - þið sem kíkið hingað inn
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Villtar í vefnum.
19.5.2008 | 21:45
Nú í kvöld, í frábærri veðurblíðunni sá ég að það er mikið fjör fyrir utan og ofan við útidyrnar hjá mér. Litlar köngulær(sem eiga örugglega eftir að taka út vöxtinn) , alveg í essinu sínu af fjöri í þessu líka fína veðri. það glampaði á vefinn um allt. Ef ég væri ekki svona hrædd við þessi grey og gleddist bara yfir fjörinu í þeim þá væri nú allt í besta, en það er ekki svo gott. Ég gat ekki unnt þeim fjörsins og fékk eina galvaska unga stúlku sem kom hingað í dyrnar til að bjarga málinu. Sú er ekki hrædd við köngulær og ég vippaði mér inn í ganginn og rétti henni skóhorn af lengri gerðinni. Hún var eins og riddari úr miðaldasögum, sveiflaði skóhorninu listilega og hreinsaði vefinn eins og ekkert væri. Fékk algjörlega á sig hetjunafnbót í mínum huga fyrir afrekið. Ég segi það ekki - maður fær nú smá samviskubit yfir móðursýkinni sem brýst út í svona grimmd hjá manni gagnvart þessum dýrum en tel þó víst að engin hafi látið lífið í þessari lotunni
Ég þykist viss um að þarna fyrir ofan dyrnar hjá mér leynast enn fleiri köngulær og að á morgun verði komið annað eins af vef sem hristist af dúndrandi fjöri þessara litlu "ófreskja "
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Merkileg sýning.
19.5.2008 | 07:17
Hver veit nema að maður skoði þessa sýningu um helgina.
Verðmætasta verkið á kínverskri sýningu skemmdist | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Órói.
18.5.2008 | 08:45
......."en jarðskjálftar eru algengir á þessum slóðum "........eru orð sem fylgja jarðskjálftafréttum oft. Við vorum aðeins að ræða jarðskjálfta, ég og önnur til á dögunum. Það hlýtur að vera óþægilegt að búa við það að geta alltaf átt von á skjálftum. Ég hef einu sinni upplifað stóran skjálfta þá er ég að tala um í kringum 5 á Richter en hann varð út af Reykjanesinu. Ég var stödd í Njarðvík og lá í rúminu, fannst í augnablik eins og ég væri stödd úti á rúmsjó. Þetta varði aðeins augnablik en nóg til þess að skjóta manni skelk í bringu. Ég kíki stundum á jarðskjálftakort veðurstofunnar. Þar má sjá punkta sem sýna skjálfta undir 3 sem litla depla og mislita eftir hversu stutt er síðan þeir hafa orðið. Stærri skjálftar eru hins vegar merktir sem stjarna. Þegar við stöllur vorum að tala um skjálftana hafði ég ekki kíkt á þetta kort lengi en hún benti mér á hve mikill órói virtist í gangi. Virknin var í línu frá Reykjanesi og norður úr að Skjálfanda um Vatnajökul. Það má nálgast þetta kort á vef Veðurstofunnar www.vedur.is og þar í flipanum jarðskjálftar og eldgos. Áhugavert að skoða þetta af og til.
Ofanflóð eru annað mál. Ógnin af þeim er bundin við mikinn snjó og auðveldara kannski að sjá hvenær hættuástand skapast enda hefur snjóflóðaeftirlit við byggð verið elft til muna síðustu ár, þó ég sé vissulega ekki að gera lítið úr snjóflóðahættu með þessum orðum. Akkúrat þar sem ég bý kom niður krapaflóð árið 1983 eins og reyndar flestir vita. Þetta varð á tveimur stöðum hér í bænum en það stærra úr gilinu upp af húsinu sem ég bý í, en ég bjó í öðru húsi þegar þetta var. Flóðið fór inn um neðri hæð þessa húss. Ég hef búið hér óttalaus í 2 ár , enda voru aðstæður þegar þetta flóð ruddist fram alveg sérstakar. Það hafði kyngt niður snjó í fleiri vikur og hætt var að moka götur, fólk hreyfði því ekki bílana sína svo dögum skipti. Þetta var sem sagt ekki eftir nokkurra sólahringa snjókomu heldur gott betur. Þegar flóðið féll hafði svo gert mikla rigningu og svo fór sem fór. En ég ætla nú ekkert að fara nánar út í þau mál hér heldur var ég bara að hugleiða mismuninn á þessu tvennu - vitundinni um mögulegt snjóflóð á móti jarðskjálftum. Það eru sérfræðingar sem lesa úr jarðskjálftamælum og geta eflaust varað við ef eitthvað er yfirvofandi. Maður er svo sem hvergi 100% öruggur á jarðkringlunni en tilfinningin um mögulegan skjálfta er ábyggilega ekki sú þægilegasta, þó að öllu megi eflaust venjast - þá sé ég mig ekki í anda gera það.
Jarðskjálfti við Kleifarvatn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17. maí 1973.
17.5.2008 | 09:22
Ég man nákvæmlega hvað ég var að gera þennan dag fyrir 35 árum síðan. Ég var í Króknum að leika mér eins og oftast , svo sem ekkert flókið að rifja það upp. - Á dýrðlegum vordögum var maður auðvitað alltaf úti. Í snú snú, parís, búaleik, hjólandi eða hlaupandi undan einhverju hrekkjusvíninu sem voru nú nokkur . En þennan dag var ég sem sagt að leika mér "niðri í Krók" steinsnar frá húsi afa og ömmu. Leikurinn er skyndilega truflaður af manneskju sem er að ná í mig og segir mér að koma strax heim til ömmu og afa. Ég hlýði því. Eitthvað hafði komið fyrir, - eitthvað hræðilegt. Svo fékk ég að vita það. Frændi minn sem kallaður var Vaggi - strákur á 13. aldursári og bjó í Njarðvík hafði orðið fyrir bíl ökumanns á Reykjanesbrautinni og látist. Hann var ásamt tveimur vinum sínum hjólandi, á leiðinni að svonefndum Háabjalla ekkert langt frá Stapanum, þegar þetta gerðist. Þetta voru tormeltar fréttir og ótrúlegar alveg.
Fjölskylda, frændfólk og vinir áttu að sjálfsögðu um sárt að binda en faðir Vagga hafði látist nokkrum árum áður langt fyrir aldur fram. Haukur bróðir hans og jafnaldri minn missti ekki bara bróður heldur einn sinn besta vin. Þeir strákarnir höfðu mikið verið hér fyrir vestan á sumrin og við krakkarnir allir kynnst mjög vel. Minningarnar um frændann að sunnan og skemmtilega sumardaga lifa með manni. Hans var og er auðvitað sárt saknað þessa fallega og góða drengs sem týndi með manni Jakobsfífla á Jókutúninu, var oftast glaðlegur og stundum stríðinn. Hann átti hug og hjörtu þeirra sem honum kynntust.
Ég man að veturinn eftir þetta - seinnipart dags, lá ég í snjónum rétt við tröppurnar á húsinu hjá ömmu og afa, gerði engil í snjóinn og horfði upp í stjörnubjartan himininn. Ég var svo viss um að þarna væri hann Vaggi frændi minn á meðal stjarnanna, vel geymdur af Guði sem ég hafði beðið svo vel í bænum mínum að gæta hans alveg sérstaklega vel.
Blessuð sé minning Vagns Einarssonar f. 24. október 1960 - d. 17. maí 1973
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Gamalt og gott um vináttuna.
16.5.2008 | 07:23
Vináttan.
Vinur þinn er þér allt. Hann er akur sálarinnar, þar sem samúð þinni er sáð og gleði þín uppskorin. Hann er brauð þitt og arineldur. Þú kemur til hans svangur og í leit að friði.
Þegar vinur þinn talar þá andmælir þú honum óttalaus eða ert honum samþykkur af heilum hug. Og þegar hann þegir, skiljið þið hvor annan. Því að í þögulli vináttu ykkar verða allar hugsanir, allar langanir og allar vonir ykkar til og þeirra er notið í gleði sem krefst einskins. Þú skalt ekki hryggjast þegar þú skilur við vin þinn, því að það, sem þér þykir vænst um í fari hans, getur orðið þér ljósara í fjarveru hans, eins og fjallgöngumaður sér fjallið best af sléttunni.
Og láttu vináttuna ekki eiga sér neinn tilgang annan en að auðga anda þinn, því að sú vinátta, sem leitar einhvers annars en síns eigin leyndardóms, er ekki vinátta, heldur net sem kastað er í vatn og veiddir í tómir undirmálsfiskar.
Og gefðu vini þínum það sem þú átt best. Ef hann verður að þekkja fátækt þína, lát hann þá einnig kynnast auðlegð þinni. Hví skyldir þú aðeins leita vinar til að drepa tímann ? Leitaðu hans með áhugamál þín. Því það er hans að uppfylla þörf þína en ekki tómleika þinn. Og vertu glaður með vini þínum og njóttu með honum lífsins. Því að í dögg lítilla hluta finnur sálin morgun sinn og endurnærist.
Úr "Spámanninum".
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Til umhugsunar........
14.5.2008 | 23:51
.......hvern dag :
"Today is the first day of the rest of my life".
Þessi orð eru ættuð úr gögnum námskeiðs sem ég var á og eru enn ein ágætis áminningin um að njóta hvers dags
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Celebrety in little Patreksfjordur.
14.5.2008 | 00:25
Hvítasunnuhelgin var frábær. Fermingin , filmfestivalið og fl. Mér heyrist fólk hafa verið ánægt með heimildarmyndahátíðina og ég var glöð að heyra að myndin "Kjötborg" skyldi fá Einarinn 2008, aðalverðlaun hátíðarinnar. Verðlaunagripurinn "Einarinn" er hannaður og smíðaður af hagleiksmanni hér í bæ Einari Vigni Skarphéðinssyni. Einar er smíðakennari hér í skólanum og er margt til lista lagt. Hann hefur til margra ára hannað og smíðað ýmsa listmuni úr tré www.snerpa.is/evs/ já hann er flinkur handverksmaður drengurinn það vantar ekkert uppá það. Það spillti svo ekki fyrir að frægur Hollywood leikari mætti hingað og samgladdist kvikmyndagerðarfólki og öðrum í kræklingaveislu sem haldin var í Sjóræningjasetrinu sem verið er að útbúa hér. Fyrrnefndur Hollywoodleikari er Brian Cox sem ég held reyndar að sé Breti að uppruna en búandi í Bandaríkjunum í dag.
Myndir frá kræklingaveislunni má sjá á www.bildudalur.is undir liðnum fréttir 12.05.08 en það er ágæt vefsíða sem Jón Þórðarson heldur úti. Kræklingurinn sem var framreiddur í veislunni var ferskur úr heimafirði Jóns - Arnarfirðinum.
Hætt í bili og góða nótt
E.S. - Nú er einhver of syfjuð, auðvitað á að standa "Celebrity" í fyrirsögninni.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Minningarbrot - fjölskyldan frá Belfast.
12.5.2008 | 22:57
Í mörg ár fylgdist ég með öllu sem ég heyrði og sá um Belfast á Norður Írlandi. Ástæðan....jú þegar ég var líklega rétt 9 ára gömul kom hingað fjölskylda þaðan. Þá var ekki renneríið af ferðamönnum og ókunnugum bílum hingað eins og er í dag enda heljarinnar tími sem fór í ferðalag Vestur á firði á þeim árum. Örsjaldan líka sem maður heyrði erlent tungumál talað í sínu nánasta umhverfi. Það var því eftir því tekið þegar það kom langur grænn Landrover í bæinn með útlensku númeri. Í bílnum voru hjón og 4 börn á misjöfnum aldri. Þau leigðu hús í nágrenni við okkar og þetta var sko ekkert nema spennandi fyrir krakka á þessum aldri. Ég sem kunni ekki stakt orð í ensku spurði mömmu hvernig maður segði viltu leika við mig á því tungumáli og fljótlega hófust kynnin
Ég kynntist fólkinu sem voru hjón í einhverjum jarðfræði og gróðurrannsóknum. John og Joyce Preston heita þau. Börnin þeirra Anya, Susan, Janet og Harold voru skemmtilegir krakkar og ég kynntist Janet og Harold betur en hann var á aldur við mig og hún 4 árum eldri. Þrátt fyrir tungumálaerfiðleika virðast krakkar alltaf finna leið til að tjá sig og þannig var með okkur.
Ég fékk að fara með þeim í þessum ógnarstóra Landrover í ferð þar sem þau hjónin voru að safna jarðvegs/gróðursýnum en við lékum okkur á meðan. Janet var með heimasaumaðann poka og í honum voru lukkutröll tvö stór og nokkur minni sem voru börnin. Þetta voru svona lítil lukkutröll sem ég sá síðar að voru af endanum á blýöntum. Hvert þeirra hafði sitt nafn og þetta var leikið með þar til foreldrar hennar höfðu lokið sýnatökunni. Það var gaman og tíminn leið hratt. Þetta fólk var allavega hér á Patró í 2 sumur en þau höfðu líka farið eitthvað annað um landið.
Þegar leið að heimferð þeirra var okkur systkinunum boðið í kveðjuveislu. Anya braut pappírsbrot og gerði m.a örkina hans Nóa og fl. Þetta fannst okkur stórmerkilegt. Susan spilaði á fiðlu sem var nú hljóðfæri sem við höfðum ekki séð með berum augum fyrr. Já við systkinin vorum svo að lokum leyst út með gjöfum. Þetta var skemmtileg kvöldstund og systir mín lítil hnáta var svo borin heim sæl og lúin. Þetta var gott fólk þessi fjölskylda og við fengum sendar jólagjafir frá þeim og ég bréf frá Janet í einhvern tíma. Erfitt var um vik gagnvart bréfaskrfitum en þó fékk ég aðstoð hjá frænda mínum við að lesa og svara.
Í fjölmiðlum var oft sagt frá því ógnarástandi sem ríkti á Norður Írlandi og það fór ekkert framhjá okkur að þau bjuggu ekki við mikið öryggi. Í dag býr ekkert af þessum systkinum á Írlandi. Janet býr í USA, Harold og Susan í Ástralíu og Anya á eyju við Skotland en gömlu hjónin búa enn á heimili sínu við Knigthbridge Park þangað sem ég hef lengi átt heimboð en aldrei látið verða af því að þyggja það - því miður.
Skemmtilegar minningar eru tengdar kynnunum af þessari góðu Írsku fjölskyldu, kynnum sem brutu svo sannarlega upp daglegt líf lítillar stelpu í sjávarþorpi á þessum árum.
Janet gaf mér þennan írska pening sem hefur naut á annarri hliðinni en hörpu á hinni. Henni fannst það tilvalið þar sem ég er fædd í nautsmerkinu
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)