F.H.P

Þessi skammstöfun  F.H.P  stendur fyrir Félagsheimili Patreksfjarðar þetta fimmtuga fósturbarn okkar bæjarbúa.  Bygging félagsheimilisins hófst árið 1958 og ætti í rauninni að teljast formlega lokið þó að lagt hafi verið upp með stærri hugmynd í upphafi, teikning hússins sýnir  stærra hús með hótelálmu og fl. en aldrei var haldið áfram með meira. 

Orðið sjálfboðavinna er samtvinnað byggingu og rekstri þessa húss allar götur frá fyrstu skóflustungu.  Eigendafélag er um rekstur hússins sem samanstendur af félögunum  hér á staðnum og tilnefna þau 2 fulltrúa í stjórn þess á aðalfundum sínum.  Núna allra síðustu ár hefur verið að komast þokkaleg mynd á húsið  að innan.  Eldhús var útbúið fyrir ekkert rosalega mörgum árum  og aðbúnaður loksins  mannsæmandi.  Sjálfboðaliðarnir sem hafa galdrað fram hverja stórveisluna á fætur annarri í gegnum árin við bágborgnar aðstæður hefðu þó mátt hafa meiri atkvæðisrétt við hönnun nýja eldhússins.  Vinnupláss er nánast ekki til staðar eftir breytingarnar því miður.  Ég sé ekki annað í stöðunni úr því sem komið er annað en  endurhönnun pakkans   sem snýr að þessu hjarta hússins sem eldhúsið er.  Þetta kemur í ljós með tíð og tíma hvernig þetta þróast og í ljósi sögunnar reiknar maður ekki með að eldhúsinu verði breytt  í nánustu framtíð. Maður má svo sem þakka það sem komið er.

Félagsheimilið var fyrir rúmum áratug  síðan málað að utan af sjálfboðaliðum.  Fólkinu í bænum auðvitað.  Ég var með í því og hef verið með sem sjálfboðaliði af og til í gegnum árin eins og aðrir bæjarbúar.  Við teljum þetta ekkert eftir okkur að hlúa að þessu húsi sem hýsir flest allt sem gerist hér í bænum oftar en ekki hefur skapast skemmtileg stemming við vinnuna sem eykur bara ánægjuna við hana.  Húsið er nú að verða hið huggulegasta og áform komin í gang um að lagfæra inngangsrými þar sem vatnsskemmdir eru farnar að verða verulegar  og mál til komið að endurhanna og lagfæra þann hluta.  Ég veit að vinna við þetta er í fullum gangi.

Alltaf heyrast raddir um að kominn sé tími til að sveitarfélagið sjái alfarið um rekstur hússins.  Við megum ekki gleyma því  að í sveitarfélaginu eru fleiri félagsheimili en þetta.  Ég er sammála því að það er eðlilegt að sveitarfélagið komi að rekstrinum  að einhverju marki eins og það er reyndar í dag.  Létti undir í rekstrinum og sú aðkoma sé svo metin eftir þörfum.   Hins vegar má ekki gleyma því að í svona litlu sveitarfélagi skiptir hugarfar og vinnuframlag okkar sem byggjum það höfuð máli.  Með jákvæðu hugarfari  er allt hægt og í þeim gír er betra að vera á meðan rekstrinum er háttað eins og er í dag hvað sem síðar verður.     Á vefnum www.patreksfjordur.is  má sjá pistil þar sem  biðlað til bæjarbúa með að leggja sitt af mörkum í sjálfboðnu starfi til að mála tvo stærri sali hússins fyrir sjómannadagshelgina en á henni er von  á gífurlegum gestafjölda hingað til okkar eins og vant er á stærstu og fjölmennustu hátíð ársins í bænum.  Margar hendur vinna létt verk og margt smátt gerir eitt stórt.  Það vitum við bæjarbúar og munum örugglega ekki láta okkar eftir liggja ef ég þekki fólkið  á staðnum rétt.  Það er staðreynd.


Af heimildamyndahátíðinni á Patró.

Ég skrapp í bíó og ákvað að kíkja aðeins á heimildamyndahátíðina sem stendur sem hæst hér í bænum.  Ég sá stórkostlega mynd sem er heimildarmynd  um verslunina Kjötborg við Ásvallagötu í Reykjavík. Hugurinn hvarflaði um 30 ár aftur í tímann þegar ég leigði herbergi í húsi við Túngötuna í Reykjavík  og kynntist þessum hluta  höfuðborgarinnar  vel,  fór auðvitað oft í búðir sem voru þá mun fleiri á þessu svæði en hafa nú aldeilis týnt tölunni.

Eins og segir m. a. í umfjöllun um myndina:  " Bræðurnir Gunnar og Kristján eru goðsagnir í lifanda lífi, síðustu móhíkanar smákaupmannastéttarinnar.  Með sjarmann og samhjálpina að vopni hefur þeim tekist að lifa af á meðan samherjar þeirra hafa orðið að víkja fyrir ráðandi markaðsöflum " tilvitnun lýkur.

Ég hef sjaldan skemmt mér betur og hver hlátursrokan rak aðra og þá bara svona almennt í bíósalnum.  Þessi mynd sýnir ótrúlega manngæsku þeirra bræðra blandna óborganlegum húmor svo úr verður mannleg, hlý og skemmtileg innsýn í starf þeirra,  þ.m.t  samskipti þeirra við viðskiptavini.  Leikstjórum þeim Helgu Rakel Rafnsdóttur og Huldu Rós Guðnadóttur sem staddar voru í  Skjaldborgarbíói  var svo klappað lof í lófa.  Feikilega vel gerð, falleg  og skemmtileg mynd sem ég skora á fólk að láta ekki framhjá sér fara þegar hún verður tekin til sýninga.

Myndin hafði verið kynnt til sögunnar í flokknum "myndir í vinnslu" en rétt áður en hún átti að byrja var tilkynnt formlega að  vinnu við hana væri lokið. 

www.skjaldborgfilmfest.com

Ég vildi að ég gæti lýst stemmingunni á hátíðinni með orðum en skortir hugkvæmni til þess.  Bara skemmtileg stemming og veðurguðirnir allir að blíðkast við okkur hér á Patreksfirði. Bjart og fínt a.m.k í augnablikinu. Smile


Meira af góðu.

Þaggaðu aldrei niður í rödd samviskunnar, hún er verndarengill hins góða.

                                                                                      Ch. F. Gellert.

 

Árið 1994 var mér  gefin ágæt bók sem heitir "Listin að lifa" og inniheldur umhugsunarverð orð fyrir hvern dag.  Ofangreint er úr henni. Eigið  annars góðan dag og  notalega helgi Smile 

Farið varlega í umferðinni Heart

 

 


Sniðugt hjá þeim.

Ég skrifa "allt og ekkert" sem titil á bloggsíðuna mína.  Það mætti alveg eins standa "úr einu í annað" það er stundum ansi ólíkt frá degi til dags það sem mér dettur í hug að skrifa um. 

Ég rakst á blogg skipsáhafnar.  Sá það rúlla í nýblogguðu.   Sjómenn eru í mínum huga með hugaðri og duglegri mönnum.  Það er ekkert grín hjá þeim sumum að velkjast um úti í ballarhafi þar sem ölduhæðin getur orðið ansi mikil.  Maður er sjálfur með músarhjarta stundum bara við að fara í ferjuna Baldur þó maður reyni nú að bera sig vel. Hjartað ólmast af hræðslu þegar maður heyrir í leirtauinu um borð í  einhverjum veðrum. En ég tek það nú fram að það er sjaldgæft og bara í mjög slæmu.  En svo ég haldi mig nú við sjómennina þá veit ég að þetta er ekkert sældarlíf hjá mörgum hverjum.  Hlýtur jú að fara eftir aðbúnaði og áhöfn eins og bara gerist á öðrum vinnustöðum uppá móral að gera.  Verandi kannski í löngum útilegum fjarri sínum nánustu.  Það getur samt alveg  örugglega á móti  verið frábært að vera á sjónum í veðurblíðu.  Menn eru auðvitað að vinna þegar veðrið er gott en liggja ekkert og hafa það nice.    En þeir blogga margir hverjir og hér er þessi bloggsíða sem var að detta inn með nýtt blogg http://adalsteinnjonsson.blog.is. Þarna eru svo tenglar  inná blogg annarra skipa.   Sniðugt fyrir þá sem vilja fræðast betur um sjómennskuna að lesa.  Ég á örugglega eftir að skoða betur síðar.  Ég veit að fyrir mörgum er sjómennskan heillandi.  Það er eitthvað  sem dregur menn aftur á sjóinn, jafnvel eftir mikla lífsreynslu í skaða.  Fyrrverandi mágur minn var í áhöfn Barðans GK sem  fórst undir Svörtuloftum á Snæfellsnesi hérna um árið.  Áhöfninni var bjargað á ögurstundu um borð í þyrlu landhelgisgæslunnar.  Hann var rétt innan við tvítugt þessi strákur þegar þetta var.  Hann fór aftur á sjóinn síðar þessi dugnaðarmaður og stundar hann í dag.   já þetta hefur mér alltaf þótt aðdáunarvert. 

Það er bara sniðugt hjá sjómönnum að blogga og gefa fólki innsýn í þennan heim sjómannsins.


Á helginni.

Það er Vestfirska að segja "á helginni" en ekki "um helgina".  Þetta er tungunni svo tamt að manni dettur ekki til hugar að breyta því.  En sem sagt á Hvítasunnuhelginni verður fermt í bænum og þar á meðal er sætalínan  hún Karen Ingibjörg bróðurdóttir mín. 

Karen Ingibjörg Sigurðardóttir
 

Reyndar á að ferma aðra fallega stelpu í familíunni sem býr   í Hnífsdal en hún er aðeins fjarskyldari og  heitir Gyða Kolbrún. 

Nú er farið að tínast eitthvað af fólki í bæinn - , nóg um að vera - heimildamyndahátíðin www.skjaldborgfilmfest.com og auðvitað gestir til fermingarbarnanna.  Ég ætla að fá mér dagskrá þessarar hátíðar og velja úr þær myndir sem mig langar að sjá og kíkja svo með fólkinu mínu eftir því sem tími gefst til.  Verulega skemmtilegt framtak þessi hátíð eins og ég hef örugglega margoft sagt.  Það er svo alltaf þannig að þegar eitthvað er um að vera í þorpinu þá verður maður var við að það fjölgar í bænum.  Það er jú líka þrælgaman  að hitta fólkið,  - fá gesti og gera sér far um að þeim líði vel.  Það spillti svo ekki deginum að fá litla manneskju úr Hafnarfirðinum í dyrnar hjá sér í dag, hana Rakel Söru, systurdóttur fermingarbarnsins.  Ég sá hana fyrir svo stuttu síðan og fannst hún jafnvel muna eftir mér en ég er ekki viss enda barnið bara tæplega ársgamalt.  En hún var knúsuð í bak og fyrir af henni frænku sinni þessi gullmoli.

Rakel Sara í apríl 2008

                                        Rakel Sara   

Heart
                          
Heart
                                                                                                                                              

 


Til umhugsunar.

Ég sá brot af viðtali í Kastljósinu við deildarstjóra í Sorpu og annan aðila sem ég missti af hver er.  Farið var yfir hversu miklu er hent á heimilum  af matvælum og fl.  Þetta var alveg hellingur.   Líklega á tímaskortur og vankunnátta í matargerð einhvern þátt í að fólk hendi úr ísskápnum í stórum stíl,  en það er  svo sem erfitt að dæma um það.  Ég rakst á nokkur sáraeinföld  sparnaðarráð sem eru ættuð frá ýmsum aðilum og ég læt örlítið brot af þeim flakka hér:

Nr. 1, 2 og 3, hafðu hugfast " að safnast þegar saman kemur" þegar horft er á útgjaldaliði og hægt að spara verulega með því að gefa sér tíma til að spá aðeins í hlutunum.

Notaðu símaskrána eða netið, það er ódýrara en að hringja í 118.

Notaðu bókasöfnin. Fyrir utan að fá lánaðar  bækur er hægt að kíkja í tímarit, jafnvel fá lánaðar myndir.

Farðu í göngutúra og sund þér til heilsubótar.

Hafðu blokk og skriffæri í eldhúsinu, skrifaðu niður það sem þarf að kaupa.

Gerðu matseðil fyrir vikuna eða mánuðinn.

Drekktu vatn með matnum, engin þörf á gosi eða safa sem fer líka illa með tennur, vatn er besti svaladrykkurinn.

Ekki fara svöng/svangur að versla í matinn.

Ef þú finnur ekki eitthvað sem þú leitar að í búðinni farðu heim án þess að kaupa eitthvað í staðinn.

Ræktaðu þitt eigið grænmeti, áttu rabbabara í garðinum þínum ?. Týndu ber að hausti, sultaðu og frystu, - taktu slátur, bakaðu sjálf/ur þín  brauð og pizzur.

Notaðu sjampo, þvottaefni og mýkingarefni í lágmarki við notum oftast of mikið í hugsunarleysi.

Njótum svo bara dagsins Wink lífið þarf ekkert að verða leiðinlegra þó að við eigum ekki alveg allt.

 

 

 

 


Ágætt þetta.

Ég fer bara einu sinni um þessa veröld.  Lát mig gera allt það góða sem ég get gert,  sýna alla þá vináttu sem ég get sýnt, lát mig gera það núna.  Lát mig ekki slá því á frest og vanrækja það, því ég fer þessa leið aldrei aftur.

                                                                                                                                    H.D.

Íslenskar jurtir.

                                                       

 

 


Montin frænka.

Eins og ég gat um fyrir nokkrum dögum var haldið uppá 100 ára afmæli Írþóttafélagsins Harðar með pompi og prakt á Sumardaginn fyrsta. Við þetta tækifæri voru veittar viðurkenningar eins og títt er á svona  hátíðum.  Systkinabörn mín tvö voru á meðal þeirra sem stóðu sig vel á síðasta ári.  Sindri 16 ára fótboltamaður ársins og Karen Ingibjörg 13 ára  frjálsíþrótta og körfuboltakona ársins.  Ég er auðvitað rígmontin með þau,  - til hamingju elskurnar þið eruð dugleg. Heart 

 

                                    Picture0042    Karen Ingibjörg frjálsíþrótta og körfub.kona 2007

 

 


Ferjan Baldur

Ég get ekki neitað því að manni brá nokkuð í brún þegar þessi frétt fór í loftið.  Við hér á suðursvæði Vestfjarða sækjum mikið suður allan ársins hring, auk þess sem fisk og vöruflutningar eru miklir.   Okkur finnst það yfirleitt lítið mál að skreppa suður á bóginn  þó maður þurfi að moka sig út úr stæðinu heima hjá sér að vetrinum  -  svo lengi sem maður kemst í Baldur.   Ég er ekki komin til með að sjá okkur ferjulaus - að allir verði jafnduglegir að keyra landleiðina á veturna þó að mokstur verði alla daga.  Vegurinn má þá ansi mikið batna og vegstæði breytast til að það verði.

Nú er verið að lengja viðlegukantinn á Brjánslæk þannig að Baldur eigi betra með að leggjast að.  Ég vona svo sannarlega að málin fari á besta veg. Hér er nýleg mynd af Brjánslækjarhöfn  þar sem framkvæmdir eru í fullum gangi og önnur af ferjunni Baldri sem ég nappaði af Sæferðavefnum.

Brjánslækjarhöfn
Ferjan Baldur

 

 


mbl.is Vetrarferðir yfir Breiðafjörð leggjast af
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ég mæli með honum þessum.

Góðan daginn gott fólk. Hér kemur uppskrift - ómótstæðilega góður kjúklingaréttur sem ég gerði í fyrsta skipti á föstudagskvöldið og mun örugglega gera aftur. Þessi réttur er  einfaldur, fljótlegur og örugglega barasta bráðhollur.

 

2-3 stórar sætar kartöflur, afhýddar og skornar í frekar litla bita.

1 poki spínat

4 kjúklingabringur, skornar í bita.

1 krukka fetaostur

c.a 4 matskeiðar furuhnetur

salt og pipar

Balsamik edik.

Marinerið kjúklingabitana í edikinu, + salt og pipar.  Setjið kartöflubitana í botn á eldföstu formi, setjið spínatið þar yfir.  Hellið olíunni af fetaostinum yfir.  Þá koma kjúklingabitarnir og fetaostinum dreift yfir.  Að lokum eru furuhneturnar settar yfir réttinn.   Bakið í ofni við 190 °C í ca 40-50 mín. 

Gott að nota með þessu hrásalat, hrísgrjón og eða brauð.

Frískandi drykkur með:   1 ferna af mildum morgunsafa og 1/4 l. sódavatn.  Fínt að hafa útí 4-5 frosin jarðaber og smá af appelsínusneiðum. Þetta er bara úr mínu höfði þessi blanda og  hlutföllin eru ekki svo heilög.

Örugglega líka gott að hafa gott hvítvín með, fyrir þá sem vilja,  kannski eitthvað sætt en er  annars ekki viss með það.

Verði ykkur að góðu Smile


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband