"Stelpukvöld"
21.7.2008 | 00:50
Brugðum okkur þrjár hressar vinkonur/skólasystur í pizzu á Þorpið og á eftir í Skjaldborgarbíó að sjá myndina Sex and the city.
Dálítið langdregin mynd en skemmtileg.
Við allavega hlógum og skemmtum okkur konunglega. Ekta "stelpumynd" enda fíluðum við okkur vel vinkonurnar og áttum frábært kvöld
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Ilmur af karrý og kókos
20.7.2008 | 14:45
Það er fátt skemmtilegra en að borða góðan mat í góðra vina hópi. Á borðinu m.a matarmikil fiskisúpa, ólívur, pestó, ostar, gott brauð og eðaldrykkur. Spjall, hlátur, kertaljós, tónlist eða bara fuglakvak og sjávarniður, allt eftir staðsetningu, aðstæðum og smekk.
Fiskisúpan:
1.l vatn
1 dl. hvítvín
lítill blaðlaukur - græni hlutinn
1-3 gulrætur
1 msk. tómatmauk
1 sellerístilkur
hvítlauksgeiri (ég nota 2)
1 tsk. Madras karrýduft
2 fiskiteningar
2 Maggý súputengingar
2 dl. rjómi
1 dós kókosmjólk
smjörbolla
humar, rækjur, hörpuskel, lax ýsa (þarf ekki allt af þessu)
1/2 rauð paprika í teningum og 1/ 2 búnt steinselja (smátt söxuð)
Grófsaxið grænmetið, steikt í smöri + karrý og tómatmauk. Sett í pott með vatni, hvítvíni, teningum og hvítlauk. Soðið í 15 mín. Bæta í kókosmjólk, salti, pipar og rjóma. Fiskurinn paprikan og steinseljan sett í og soðið í 2-3 mín.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Sumarbrúðkaup
20.7.2008 | 11:01
Það gerir auðvitað birtan, gróðursældin og góða veðrið, flott hjá þeim sem náðu að klára dæmið 7.07.07. Ég var bara ekki svo sniðug í því. Næ því ekki heldur 8.08.08 þannig að spurning með 9.09.09 en þá er auðvitað komið haust. September dagar eru oft sólríkir, kyrrir og fallegir.
Bara svona pæling
Sumir eru reyndar alltaf ástfangnir upp fyrir haus en gifta sig aldrei. Allur gangur á því
Júlí mánuður brúðkaupa | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þegar Bubbi tjáir sig.
19.7.2008 | 11:24
Það var eitt sinn fyrir eitthvað á þriðja tug ára síðan að Bubbi var að túra um landið og hafði spilað hérna í bænum. Ég ung konan, var að vinna í bensínsjoppu, nýlega farin að búa og eignast litinn gutta. Ég verð að viðurkenna það að mér þótti nú innst inni ekkert leiðinlegt að sjá Bubba svona face to face, frægur maðurinn og allt það. Face to face var það í orðsins fyllstu því að hann kom alveg upp að mér og spurði "áttu nokkuð brúsa ?". Bubbi var sem sagt að taka bensín og þurfti brúsa, sjálfsagt hefur hann ætlað að taka auka fyrir langferðina en á þessum árum var ekkert tiltökumál að koma með brúsa og dæla á.
Ég hefði líklega aldrei munað svona vel eftir nokkrum viðskiptavini en af því að þetta var Bubbi þá greyptist þetta í minnið. Ég afgreiddi þá með bensínið og náði svo í karton úr sælgætiskassa og bað Bubba um eiginhandaráritun á tvö blöð. Bubbi var reyndar ekkert í sérstöku uppáhaldi hjá mér en ég hugsaði sem svo að það væri gaman að eiga þessa eiginhandaráritun sem fór svo í einhvern bókakassann og gleymdist.
Þegar árin liðu og sonur minn fór seinna meir að spila á gítar þá er það þannig að hann er einn mesti aðdáandi Bubba sem ég þekki til. Spilar lögin hans og á mikið af því efni sem Bubbi hefur gefið út. Hann hefur Bubba áðdáunina ekki frá mömmunni því að ég hlustaði aldrei á lögin, en núna síðustu ár hef ég gefið mér tíma til að hlusta og kann mjög vel að meta mörg laganna í dag. Fyrir ca 10 árum síðan sá ég spjöldin í kassa og afhenti syninum og bróður mínum, þeir urðu hissa en ánægðir. Fannst þetta óvænt að ég skyldi luma á þessu.
Bubbi hefur alltaf verið svo einlægur og talað máli hinna lægra launaðri stétta í landinu. Fólksins sem hefur "dyfið hendi í kalt vatn" og veit hvað það er að þurfa að hafa fyrir því að eiga í sig og á. Bubbi ætti því að nota þessa hugmynd sína sjálfur, fengi örugglega heilmikið út á það. Þrátt fyrir þessi orð sem höfð eru eftir Bubba "Ef ég væri venjulegur maður á landsbyggðinni" hafi stungið einhverja í augun, þá trúi ég nú ekki öðru en að Bubbi hafi ekki verið að segja þetta af hroka heldur sé þetta vel meint. Það er eftir því tekið þegar maðurinn tjáir sig, synd að segja annað, aðalbloggefni dagsins.
Getur verið að innra með mér leynist Bubba aðdáandi, - e.t.v einhver smá
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Morgunheimsókn.
19.7.2008 | 10:37
Nú í morgunsárið heyrðist létt bank á útidyrahurðina. Þar var sweetie pæjan frænka mín hún Rakel Sara Sveinsdóttir mætt með Maríu ömmu sinni , þær voru á göngu á þessum fallega sumarmorgni.
Sú fyrrnefnda komin í bæinn í smá heimsókn með foreldrunum yfir helgina. Ég var ekki sú sem fór til dyra og því var fyrsta hugsun hjá mér, "hárbursti" !! Hárlúkkið á mér í morgunsárið er oftar en ekki tær snilld (alveg frá náttúrunar hendi ) Stökk því inná baðherbergi til að greiða og koma með því í veg fyrir hugsanlegt hræðslukast lítils barns. En nóg um hárið.....það var gaman að sjá litlu skottuna sem hleypur nú um allt en það gerði hún ekki síðast þegar ég sá hana.
Þetta var góð byrjun á fyrsta degi í nýhöfnu sumarfrí mínu að fá fallegt bros frá lítilli manneskju
Já ég er komin í sumarfrí og ætla mér virkilega að njóta þess
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mikið afrek
18.7.2008 | 08:27
Mikið þrekvirki hjá Benedikt Hjartarsyni að synda yfir Ermasundið. Vona að boðssundssveitinni takist þetta líka. Þarna er eina konan í hópnum Patreksfirðingurinn Birna Ólafsdóttir og að sjálfsögðu fylgist maður með.
Segi bara ÁFRAM BIRNA
Boðsundsveitin reynir aftur um helgina | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hún er mikið veik þessi litla stúlka.
17.7.2008 | 23:54
Í dag fékk ég bréf með upplýsingum um lítinn gullmola sem fæddist þann 21. apríl nú í vor. Þetta er bráðfallegt stúlkubarn með stórt og myndarlegt nafn en hún heitir Þórhildur Nótt Mýrdal, hún greindist fyrir skömmu með alvarlegan taugahrörnunarsjúkdóm.
Hér er bréfið:
Í júní síðastliðnum greindist Þórhildur Nótt Mýrdal, dóttir Steinunnar Bjargar Gunnarsdóttur og Jóns Gunnars Mýrdal með sjúkdóm er kallast Spinal Muscular Atrophy eða SMA(vista) til eru 4 flokkar af þessum sjúkdómi og er Þórhildur með flokk eitt sem er jafnframt sá hættulegasti. Hún þarf bæði á lyfjagjöf og sérfræðiþjónustu að halda svo ekki sé minnst á tækjabúnað. Þetta kostar allt peninga og mikla umönnun beggja foreldra sem munu væntanlega þurfa að vera töluvert frá vinnu. Viljum við því biðja alla sem eru aflögufærir að styrkja hana og fjölskyldu hennar með frjálsum fjárframlögum.
Söfnunarreikningur Þórhildar er: 1118-05-250052 , kt: 120856-7589. Munum svo að margt smátt gerir eitt stórt.
Frekari upplýsingar um sjúkdómin http://www.fsma.ci.is
Svo í lokin er fólk beðið að dreifa þessum upplýsingum til sem flestra.
Móðir barnsins er fædd hér og uppalin og því hef ég heyrt af því sem um er að vera. Við biðjum fyrir henni öll sem eitt og vonum svo sannarlega allt það besta.
Bloggar | Breytt 18.7.2008 kl. 08:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Rödd frá liðnum tíma.
16.7.2008 | 01:48
Það er misjafnt hversu frændrækið fólk er. Fjölskyldur eru mis nánar eins og gengur. Hér á árum áður átti fólk kannski frekar á hættu að missa samband ef það ólst upp í stórum systkinahópi og breytt aldursbil hluta hópsins var til staðar. Fyrirvinnan fallin frá og þeir elstu fóru snemma að heiman. Landfræðilegar fjarlægðir með tilheyrandi strjálum samgöngum voru líka samskiptahamlandi. Allt þó misjafnt eftir aðstæðum fólks eins og gengur. Hluti framangreinds er hugsanleg skýring á þróun samskipta í minni föðurfjölskyldu - ég skal ekki segja.
Ég kom við hjá öldruðum frænda mínum einu sinni sem oftar. Þessum frænda sem ég þekki mjög vel, var sérlega umhugað um að leyfa mér að heyra mjög gamalt útvarpsviðtal sem hann átti á segulbandsspólu. Ég sat í hlýlegu sjónvarpsherberginu þar sem konan hans sat og prjónaði og þarna setti hann spóluna í tækið og við hlustuðum.
Viðtalið sem um ræðir var í þætti á RUV á sínum tíma og þar er spjallað við afabróður minn sem í daglegu tali var kallaður Jón Skraddari og bjó á Ísafirði. Hann var fæddur seint á nítjándu öld og er því löngu dáinn. Ég hafði oft heyrt minnst á Jón Skraddara og komið í Skrúðgarðinn á Ísafirði sem hann átti veg og vanda af að gera ásamt konu sinni. Ég vissi svo sem ekki mikið um manninn.
Sonur minn var svo nýlega að koma úr heimsókn til frændans sem átti viðtalið á segulbandsspólunni og dró það hér upp í kvöld og við hlustuðum í rólegheitunum á Jón Skraddara segja frá.
Hann hefur verið glettinn og skemmtilegur karl Jón Jónsson Skraddari. Sagði skemmtilega frá bæði afa sínum Sighvati Borgfirðingi sem var sískrifandi, hvalaföngurum í Dýrafirði, sex ára veru sinni í Englandi þar sem hann vann við iðn sína, svo fátt eitt sé talið. Jón hafði verið rekinn úr Verkalýðsfélaginu á Ísafirði á sínum tíma , hann þótti of róttækur. Hann hafði unnið hjá bæjarfélaginu og vissi manna best um legu holræsakerfisins í bænum og var leitað til hans ef eitthvað kom uppá með það. Svo var það auðvitað garðyrkjan sem átti hug hans allan.
Það var dálítið sérstakt en notalegt að gefa sér tíma til að hlusta á þetta gamla viðtal við aldinn genginn frænda. Glettnisleg röddin og sumt í málfarinu minnti okkur óneitanlega á þann, sem svo lengi hafði varðveitt þetta viðtal á spólunni eins og gullmola sem það vissulega er.
Já það er stundum margt líkt með skyldum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þá og nú.
13.7.2008 | 23:44
Það eru komin nokkuð mörg árin síðan ég sá hann þennan fyrst. Hann var á plakati að hurðarbaki hjá frænkum mínum sem voru algjörlega á gelgjunni þegar þetta var. Ofboðslega sætur og með hneppt niður á bringu. Man nú ekki hvort það var gullkross um hálsinn en það vildi nú loða við hjá þeim sem viðruðu næstum niður að buxnastreng, sem var jú tískan á þessum árum ef ég man rétt
Það var EKKI hallærislegt að hafa myndir af Cat Stevens upp um alla veggi á þessum tíma. Ég var svo uppveðruð af öllu sem frænkurnar gerðu og hlustaði auðvitað á músíkina líka. Þetta lag með meistaranum er mér minnisstætt , hér er það í GAMALLI útgáfu og NÝRRI. Mér fyrir minn smekk finnst eldri útgáfan betri.
Nú ber hann nafnið Yusuf Islam, eins og flestir vita sem þekkja til þessa frábæra tónlistarmanns.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Einfalt og gott.
13.7.2008 | 20:12
Í helgarlok er gott að búa til þægilegan og einfaldan mat. Setja t.d. vel kryddaðan kjúkling í form og steikja í ofni í um hálftíma. Skera niður sætar og "venjulegar" kartöflur, gulrætur, sveppi, papriku, lauk og svo bæta nokkrum heilum hvítlauksrifjum með. Blanda aðeins af olíu samanvið. Taka mesta soðið af kjúklingnum og bæta grænmetinu í formið. Steikja svo allt í góðan hálftíma í viðbót. Bera fram með þessu ferskt salat og góðan svalandi drykk, gott hvítvín eða Mildan morgunsafa blandaðan sódavatni 3 á móti einum.
Himnesk og umfram allt þægileg máltíð sem hentar alveg hvenær sem er
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)