Home sweet home

Sama hversu skemmtileg ferðalög eru þá er alltaf gott að koma heim á sitt eigið heimili.  Ferðatöskulíf að baki í bili en vonandi ekki of langt samt þar til næst.  Búið að tæma töskur og dauðfegin að svona kvikindi var ekki í farangrinum eins og myndin er af hér fyrir neðan.  Það hefði samt varla verið lifandi þar sem hér eru ekki réttu aðstæðurnar.  Ég er að tala um  skordýrið Tvístert sem gerir mörgum Færeyingnum lífið leitt í júní, júlí og ágúst en þá er hann helst á ferðinni.  Meinlaust kvikindi skilst mér en ferlega hvimleitt þar sem þetta fer um allt.  Í fyrstu ferð minni til Færeyja var ég spurð að því hvort þetta væri til á Íslandi en ég áttaði mig ekki á hvaða pöddu þau áttu við þar sem ég  er fyrst að sjá hana núna, datt helst geitungar í hug.  Ég var samt furðuróleg þrátt fyrir pödduhræðslu svona almennt en þetta er fyrst og fremst þreytandi ef það er mikið af þessu.  Ég vona samt að ég hræði engan sem les þetta - ekkert að óttast þannig lagað séð Halo

Tvístertur

Á leiðinni Vestur kíkti ég á ber og það er greinilega gott berjasumar í ár.  Falleg krækiber,  bláberin frekar  smá þar sem ég skoðaði.  Nú er bara að demba sér í berjamó svona allt hvað líður.  

Ber í lófa

 


Sniðugt.

Við lestur bloggs hjá öðrum sér maður ýmislegt athyglisvert.  Ég ákvað að gera mér lítið fyrir og stela þessum link sem ég sá þar sem hægt er að sjá hvaða lag var vinsælt á Billboard daginn sem maður fæddist.  Þetta kom upp hjá mér.  Finnst lagið eiginlega bara leiðinlegt en gaman samt að geta kíkt á hvað var vinsælt á þessum tíma (ægilega langt síðan þetta var vinsælt Woundering).


Fámjin.

Á næstunni ætla ég mér að stikla á stóru hér á blogginu með efni úr ferðalaginu fyrrnefnda.  Ég mun gera því betri skil þegar ég kem heim til mín en ég er enn á suðurhorninu af sérstökum ástæðum.  Ég var að lesa bloggfærslu Hrannars bloggvinar míns þar sem m.a er velt upp af hvaða hvötum fólk bloggar.  Hann hefur eftir einhverjum að sumir telji blogg athyglissýki en ég held að það sé nú upp og ofan.  Ef ég væri verulega illa haldin af þessari sýki mundi ég örugglega segja hér af hvaða sérstöku ástæðum ég er í Reykjavík en kæri mig ekki um það.  Dunda mér í dauðum tíma sem er í augnablikinu við að lesa og skrifa blogg, ekki verra en hvað annað Smile

Á Suðurey Færeyja eru mörg lítil og mjög falleg þorp.  Það er jú þannig að hvert sem þú lítur þarna í eyjunum almennt þá sérðu varla drasl.  Allt svo snyrtilegt og malbikað upp að hverjum hrútakofa.  Það er svo afslappað andrúmsloftið þarna. Eitt kvöldið þegar við sátum nokkur úti á tröppum hússins sem ég gisti í og vorum að spjalla kom maður hjólandi, stoppaði og fór að spjalla við húsráðanda.  Þegar hann vissi að gestir hans voru  frá Íslandi sagði hann frá tengslum sona sinna við Ísland.  Þetta var Helgi Enni,  faðir Brands Enni sem er söngvari sem hefur m.a sungið með Jóhönnu Guðrúnu, mikil músík í þessari fjölskyldu og bróðir hans hefur verið í músíknámi í Reykjavík. Hann var greinilega stoltur af strákunum sínum enda má hann örugglega vera það.  Þarna hitti maður gamla menn sem hafa verið á sjó við Ísland og eins eiga margir fjölskyldutengsl við okkar land enda nálægðin mikil og væri sjálfsagt skrýtið ef ekki væri eitthvað um það.  Ég hitti verslunareiganda, mann sem hefur búið í Færeyjum í nærri 30 ár.  Hann er ættaður úr Aðalvíkinni í Ísafj.dúpi og rakti tengsl suður til Bíldudals.  Líflegur maður sem fannst sem von er gaman að hitta landa sína.

Hvert sem litið er má sjá minnismerki ótrúlega harðrar lífsbaráttu fyrri tíma.  Það birtist m.a sem leyfar af mannvirkjum við vogskornar strendur, bátar hafa verið dregnir á land á milli klettaskora á milli þess sem brimið hefur skollið á og maður getur varla ímyndað sér hvernig menn hafa farið að við þessar aðstæður.  Þegar ekið er niður til Ness og Hvalba má sjá leyfar kolanáma í  dalnum.  Þarna unnu menn nótt og nýtan dag og heima voru konurnar með börn og bú, útbjuggu nesti, þvoðu og þurrkuðu fatnað og stígvél þegar menn komu heim til hvíldar.  Þarna hjálpaðist fólk auðvitað bara að og gekk jafnt til allra starfa þó að konurnar hafi unnið  meira heima við. 

Ég verð að segja frá litlu  þorpi sem heillaði mig.  Það er Fámjin, en  leiðin þangað liggur um mjóan veg, yfir fjall - leiðin var hulin þoku svo að það þurfti að fara varlega.  Þegar við komum niður skein glaða sól á þorpið, fallega lit húsin og úti á túnum var fólk á öllum aldri í heyskap.  Mér fannst ég eiginlega komin í aðra veröld, skrýtið að segja það.  Niður hlíðina fyrir miðju þorpsins  rennur vatnslítill en fallegur foss og setur svip á umgjörðina.   Á skilti við þorpið kemur fram að það hafi fengið verðlaun árið 2006 sem mig minnir að heiti Green and clean.  Mér fannst það eiginlega bara tilheyra Smile                      


Hátíðahöld.

Ólafsvaka, þjóðhátíð þeirra Færeyinga var fjölmenn og greinilega margir sem sækja þá heim í tilefni hátíðarinnar.  Dagana  28. og 29. júlí bar í ár  upp á mánu-og þriðjudag en  fólk var aðeins komið í hátíðargírinn á helginni.  Veðrið var gott en þó nokkur  þoka eins og algengt er á þessum tíma.  Bryggjudansleikur var haldinn og fjölmenni fram á nótt í miðbæ Þórshafnar. Fólk sat í smábátum sem hafði verið bakkað að smábátabryggjunni þar sem þeir lágu svo þétt hver við annan(bryggjan beint fram af torginu við hús Sosialsins).  Í einhverjum bátum var spilað á hljóðfæri.  Slatti af fólki á klúbbnum Glitni sem er voða vinsæll staður og þar var lifandi músík og mikið dansað, eins í Havnarklúbbnum sem er í sama húsi og skemmtistaðurinn Eclypse en hann  er meira fyrir yngra fólkið.  Á mánudeginum gengu fulltrúar íþróttafélaga fylktu liði til hátíðarsetningar fyrir framan Lögþingshúsið.  Rík hefð er fyrir kappróðri og var fjölmenni að hvetja sitt fólk síðar þennan dag í róðrinum. Hvarvetna mátti sjá bæði börn og fullorðna í þjóðbúningum  sem eru mjög svo fallegir.  Á þriðjudeginum er það svo  kórsöngur, ræðuhöld og fl. Hugsanlega  hátíðlegri dagur en ég fór snemma á þriðjudagsmorgninum til Suðureyjarinnar og sá því ekki hvað fram fór á Ólafsvökunni þann daginn.  Ég upplifði ekki hinn eiginlega Færeyska dans það bíður bara næstu ferðar.  Í einni af veislum ferðarinnar var borinn fyrir okkur þjóðlegur matur, skerpukjöt sem mér var sagt að væri ættað af bústofni þess sem heldur fé á Stóra Dímon, við fengum sömuleiðis  þurrkaða grind og spik.  Með þessu voru bornar kartöflur, tvær tegundir af salötum og brauð.  Mér var bent á að best væri að borða grindina með kartöflum og bita af spiki.  Mér fannst grindin góð en spikið mátti missa sig.  Skerpukjötið hef ég smakkað áður og má segja að það sé pínulítið mörbragð af því en ég gat alveg borðað það enda vön Vestfirska mörnum með þverskornu ýsunni Wink(að vísu sjaldgæft á borðum í dag).  Annars var þetta fallega fram borinn matur og gott meðlæti.  Skolað niður með snafsi, Færeyskum gull og/eða vatni allt eftir smekk hvers og eins.

Þjóðleg músík hljómaði víða og sannkölluð gleði ríkti á Ólafsvökunni. 


Óvænt !

Föstudaginn 25. júlí í fyrstu viku sumarfrís reiknaði ég ekki með öðru en að dagurinn yrði öðrum líkur þá. En það varð aldeilis ekki svo. Ég fékk símtal í hádeginu, örstuttan umhugsunarfrest og var skömmu síðar lögð af stað keyrandi suður á Reykjavíkurflugvöll, náði Færeyjavélinni og var komin til Þórshafnar fyrr en varði. Já það var heldur betur óvæntur en skemmtilegur vinkill sem sumarfríið mitt tók. Var að lenda í kvöld hér  í Reykjavík eftir vel lukkaða ferð hjá frændum vorum Færeyingum sem eru svo sannarlega "gestablíðir" með afbrigðum.

Alvöru ljóð ;-) og örlítið meira.

Ég vaknaði snemma.

Mitt í morgunsári

mætast nótt og dagur.

Hlær í vorsins heiði

himinnbláminn fagur.

 

Einn er ég á erli

uni niður við sjóinn.

Blæjalogn - og bátur

burtu sérhver róinn.

 

Litlar bláar bárur

brotna upp við steina.

Æður fleytir ungum

inn á milli hleina.

 

Ennþá man ég eftir

æskubjörtum stundum,

á kolaveiðakænum

krakkarnir við undum.

 

Bárum við í búið

býsna margan dráttinn,

fórum árla á fætur

fengumst seint í háttinn.

 

Fólkið bregður blundi

byrjar starfa nýja.

Senn mun þögnin þoka

þarna flýgur kría.

 

Í gamla Kaupfélagshúsinu hér á Patreksfirði hefur verið sett upp sýning tileinkuð listamönnum ættuðum frá eða tengdum  Patreksfirði.  Á meðal þessara listamanna má nefna Jón úr Vör sem fæddist á Patreksfirði árið 1917.  Hann er höfundur ofangreinds ljóðs "Ég vaknaði snemma" .  Ljóðum hans eru gerð nokkur skil á sýningunni.   Ágætissýning og lofsvert framtak hjá aðstandendum hennar.  

Ég hef þessa dagana haft það á tilfinningunni  að  fjöldi ferðafólks hljóti að hafa aukist hér á svæðinu í sumar.  Það er  ferðafólk allsstaðar og  alla daga sem er auðvitað bara hið allra besta mál.   Það verður gaman að sjá hvort þetta hugboð mitt reynist rétt þegar tölur um fjölda liggja fyrir frá  hlutaðeigandi aðilum. Vonandi að þær tölur verði okkur hliðhollari heldur en fólksfækkunartölurnar sem eru fyrir löngu farnar að stinga verulega í augun en það er nú önnur saga.  

Eigið góðan dag Smile            


Á ferð um firði.

Á ferð um firði

í súld að sumri

sjást litbrigði í drunga.

 

Í útfalli sjávar,

fjaran svo leirug og sendin.

 

Í grunnum fjarðarbotnum

liggur ryðrauður þarinn

 

Í ramma grænna hlíða

um ryðroða á leirgráum fleti,

magnar súldin sjávarangan.

                                


Flókalundur - yndislegur staður.

Flestir sem hafa komið á Vestfirðina sunnanverða vita um Hótel Flókalund.  Ofursætt sveitahótel staðsett á fögrum stað með ómótstæðilegt útsýni yfir Breiðafjörðinn og innanverða Barðaströndina.  Þarna hefur verið hótelrekstur  til fjölda ára en eigendaskipti hafa orðið í gegnum árin eins og gengur.  Hér í denn þegar  vegir voru aðeins torfærari en þeir eru í dag var kærkomið fyrir litla bílveika stelpuskottið þegar foreldrarnir ákváðu  að stoppa hjá Palla Ágústar og Hebu sem þá ráku staðinn.  Ekki spillti nú að Palli var ástsæll kennari okkar krakkanna og við þekktum hann því vel.   Í dag reka staðinn tvenn hjón og það af myndarskap.  Mikil uppbygging hefur átt sér stað á svæðinu og það allt hið snyrtilegasta.  Flott tjaldstæði og fl.  Umhverfið er kjarrivaxið og góðar gönguleiðir í nágrenninu.  Rétt  handan árinnar Pennu sem rennur rétt við Hótelið er sumarhúsabyggð og sundlaug þar hjá, sem opin er alla daga að því er ég best veit.  Já ég er endalaust hugfangin af mínum heimahögum og þetta er ein af perlunum sem maður getur endalaust dásamað. Smile

Ég hvet áhugasama að skoða allt um hótel Flókalund hérna á heimasíðu hótelsins.

Hótel Flókalundur
Myndin er fengin af heimasíðu Hótels Flókalundar.

 

   


Sirkusnámskeið í Sjóræningjahúsinu á Patró.

Ég var að renna yfir netmiðlana.  Sé að  hérna er verið að segja frá sirkusnámskeiði  sem verður í Sjóræningjahúsinu hér á Patreksfirði á næsta fimmtudag.  Þetta virkar skemmtilegt og allavega tilbreyting fyrir þá sem langar að leika sér aðeins og læra eitthvað nýtt.  Skandinavískir og bandarískir krakkar sem hafa unnið við sirkus eru þarna á ferð.  Margt vitlausara en að ferðast með svona námskeið Smile 

Shoebox Tour

Á rigningarkvöldi

Já á þessu ringingarkvöldi eftir sæmilega annasaman dag tók ég rúnt um bókaskápana á æskuheimilinu.  Vissi ekki af henni þessari, gamalli skruddu  síðan 1838.  Fannst hún merkileg en reikna  þó ekki með að lesa hana, ekki alveg innan áhugasviðsins. Fannst skrýtið að ég skyldi aldrei hafa tekið þessa bók úr hulstrinu sem hún er geymd í.  Líklega ekki nógu forvitin Halo Í hillunum kennir annars  margra grasa og alltaf hægt að finna eitthvað bitastætt, ljóðabækur, ævisögur, spennusögur, ástarsögur.  Bara að nefna það.

Gamlar bækur
Útgáfuár 1838
Annars vona ég að það stefni nú ekki í marga rigingardaga í sumarfríinu, gott í bili.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband