Súldarsunnudagur.
13.7.2008 | 17:10
Vætusamur er hann þessi Sunnudagur en heitt og ágætt veður í sjálfu sér. Gestir helgarinnar horfnir heim á leið og síðasta vinnuvika fyrir sumarfrí framundan. Í hitanum eftir rigningarúða hamast þær sem ég vil nú ekki kalla mitt uppáhald, hvað mest við að tengja spunaverk sín við húshorn, útidyraljós, tröppuhandrið og bara nefnið það. Maður reynir að sýna þessum verum umburðarlyndi, - lítið annað að gera í stöðunni en að umbera köngulærnar ætli maður að njóta sumarsins Úff.....en að allt öðru.
Hér í firðinum er fínasti flugvöllur sem stendur reyndar lítt notaður til annars en að þar lenda af og til litlar einkaflugvélar, hann er ónothæfur fyrir annað flug. Ég vildi þó gjarnan að þetta væri okkar aðalvöllur en það er önnur saga. Flugvallarhúsið er sem betur fer nýtt í dag og þar er nú rekinn veitingastaður á sumrin. Húsið er gott og því gráupplagt auðvitað að nýta það. Á veitingastaðnum Vellinum er hægt að fá skyndibita og fleira matarkyns eins er kaffihlaðborð þar á sunnudögum. Það er fínasti rúntur fyrir fólk að skreppa þarna yfir - hægt að kaupa veiðileyfi í Sauðlauksdalsvatn sem er steinsnar frá - en leyfið er selt á Vellinum. Skjótast í veiði og kíkja svo í mat eða kaffi á eftir. Þarna í nágrenninu er guli sandurinn um allt og frábært á sólardögum að spóka sig þarna fyrir handan. Fara í bíltúr með smáfólkið, byggja sandkastala, veiða eða bara hlaupa um og leika sér fjarri umferðargötum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þessi tónlist er dásemdin ein.
11.7.2008 | 21:10
Myndin Shindlers list er stórgóð og tónlistin eftir John Williams er mikilfengleg í einu orði sagt. Williams er eitt þekktasta kvikmyndatónskáld sögunnar og hefur gert tónlist við myndir eins og Star trek, Indiana Jones, Jurassic park og fl.
Njótið þess að hlusta.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Ég fékk mér gott kaffi.
10.7.2008 | 19:01
Ótrúlega notalegt að fá sér kaffi eftir vinnu á kaffihúsi. Skoða blöð og tímarit, spjalla um allt og ekkert. Á þessu kaffihúsi og verðandi safni er hægt að koma með bók og fá aðra heim með sér í staðinn. Já eða kaupa sér eina á 200,- afrakstur bókasölunnar fer í bauk en rennur svo til góðs málefnis.
Skemmtileg hugmynd.
Þetta er í Sjóræningjahúsinu einum af þremur stöðum í bænum þar sem hægt er að setjast inn og kaupa sér gott kaffi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
:-)
10.7.2008 | 02:39
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Í tilefni dagsins.
9.7.2008 | 21:45
"Skáldsögur og kvikmyndir fjalla ekki um hamingjusamlega gift fólk. Þær fjalla um fólk sem "fellur" hvort fyrir öðru og sýna okkur ástina sem fyrirhafnarlaust, sæluþrungið ástand - að minnsta kosti þegar rutt hefur verið úr vegi illvígum misskilningi sem virtist ætla að koma í veg fyrir að turtildúfurnar næðu saman. Við sjáum parið gegnum mjúklinsu liggjandi fyrir framan snarkandi arineld og leiðast inn í sólarlag gullinna fyrirheita um eilífa ást. Eftir sitjum við, venjulegt fólk, í rökkvuðum bíósal og sum okkar anda léttar yfir því að vera vaxin upp úr óraunhæfum ástargrillum likt og leikjum bernsku okkar. Aðrir vona í hjarta sínu að ástin sé meira en óraunhæfur draumur og meira en tímabundin óráðsía sem gangi óhjákvæmilega yfir. Hvað sem hvur segir, þar á meðal hækkandi tölur um hjónaskilnaði, vona flestir að ástin sé annað og meira en óraunhæfar grillur, ástríðufulla ást megi varðveita í löngu hjónabandi "
Textinn hér að ofan er úr bókinni "Leggðu rækt við ástina" eftir Önnu Valdimarsdóttur.
Já við viljum viðhalda rómantíkinni og sumir eru uppteknir af því að ástin sé eitthvað sem vari að eilífu í óbreyttri mynd eins og á fyrstu árum sambands. Með aldrinum kemst fólk að því að ástin tekur breytingum og ef fólki tekst að aðlaga hana, viðhalda henni með væntumþykju, virðingu og órjúfanlegri vináttu þá getur hún svo sannarlega orðið eilíf.
Ég óska Pétri bróður mínum og Maríu til hamingju með brúðkaupsafmælið í dag. Þau þekkja mátt þess að standa styrk saman. Megi framtíðin brosa við ykkur björt og fögur
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ég elska þig Stormur
8.7.2008 | 21:52
Þetta finnst mér einn fallegasti bókartitillinn. Á eftir að lesa þessa ævisögu en ætla mér að gera það í nánustu framtíð. Í kvöld þegar þokan liggur hér með fjöllum dettur manni orðið stormur í hug þó ég kjósi hann ekki til að feykja burt þokunni. Langt í frá. Ljóðið Stormur er kraftmikið og fagurt.
Stormur
Ég elska þig Stormur sem geysar um grund
og gleðiþyt vekur í blaðsterkum lund,
en gráfeysknu kvistina bugar og brýtur
og bjarkirnar treystir um leið og þú þýtur.
Þú skefur burt fannir frá foldu og hól,
þú feykir burt skýjum frá ylbjartri sól,
og neistann upp blæs þú og bálar upp loga
og bryddir með glitskrúði úthöf og voga.
Þú þenur út seglinn og byrðinginn ber,
og birtandi, andhreinn um jörðina fer;
þú loftilla, dáðlausa lognmollu hrekur
og lífsanda starfandi hvarvetna vekur.
Og þegar þú sigrand' um foldina fer,
þá finn ég, að þrótturinn eflist í mér.
Ég elska þig, kraftur, sem ölduna reisir,
ég elska þig, máttur, sem þokuna leysir.
Ég elska þig, ég elska þig, eilífa stríð,
með ólgandi blóði, ég söng minn þér býð.
Þú alfrjálsi loftfari, hamast þú hraður;
hugur minn fylgir þér, djarfur og glaður.
Hannes Hafstein.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Mér bauðst að draga spil.
8.7.2008 | 18:59
Take a risk
You have the power within to move mountains.
Release - Have a good cry
Grief is a doorway to your deepest self.
Ágætt a.m.k til gamans.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Listafólk
7.7.2008 | 20:09
Abba er perla á spjöldum músíksögunnar það er á hreinu. Ég hlustaði mikið á hljómsveitina um tíma en hætti því á ákveðnu aldursskeiði (hvaða aldur skyldi það nú hafa verið ) á þeim tímapunkti fannst mér þau ótrúlega væmin. Abba var svo tekin í sátt og langt síðan ég fór að hlusta á þau aftur. Mörg lögin ótrúlega falleg og þetta lag er eitt af þeim sem hefur alltaf heillað mig og textinn ekki síður.
Aldrei saman á ný | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagsmorgunn
6.7.2008 | 10:00
Í gær skein sólin glatt en nú liggur þokuhattur yfir firðinum. Nær þó ekki neðarlega og skyggni því ágætt. Líklega keyrir maður út úr þokunni þegar farið er upp úr firðinum. Það ætla ég einmitt að gera á eftir, skreppa á Bíldudal og horfa aðeins á frænkudúllurnar keppa á Héraðsmótinu sem haldið er á íþróttavellinum þar nú á helginni. Ég hef nú á tilfinningunni að það eigi eftir að birta vel til í dag - hef ekki trú á að það sé eingöngu bjartsýnin í mér sem ræður í þeirri tilfinningu.
Í þessum skrifuðum orðum er eplakaka í ofninum, þessi gamla góða a´la mamma.:
EPLAKAKA
200 gr. smjörlíki
200 gr. sykur
200 gr. hveiti
4 egg
1 tsk lyftiduft
ca 3 epli
Kanilsykur
Smjörlíki og sykur hrært saman, eggjunum bætt í og hrært vel. Hveiti og lyftidufti bætt í og hrært aðeins létt. Setjið deigið í kringlótt form. Afhýðið eplin, kjarnhreinsið og skerið í báta, raðið þeim ofan í deigið hringinn og aðeins í miðjuna, stráið kanilsykri yfir og bakið í ofni við 180 °C í ca 40 mín. Annars er tíminn örlítið á reiki hjá mér en þetta er svona sirka bát Það má líka velta eplabátunum uppúr kanilsykrinum og stinga þeim svo í og sleppa að strá yfir kökuna. Ég hef það oftast þannig. - Einföld, fljótleg og þægileg þessi, góð með rjóma, ís, má bræða súkkulaði yfir en mér finnst hún bara góð ein og sér.
Njótið bara dagsins og akið varlega á þessari miklu umferðarhelgi
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fallegur dagur.
5.7.2008 | 18:34
Fallegir dagar eru sannkallaðar perlur.
Ein
stend ég berfætt á fjallinu.
Skófirnar á steininum
stingast í iljar mínar.
Hægur andvarinn
færir mér ilminn af fjarlægðinni,
sjónum og villijurtum.
Ég horfi yfir hafið,
horfi upp til himins,
ég þakka og þakka, endalaust.
Bloggar | Breytt 6.7.2008 kl. 01:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)