Færsluflokkur: Bloggar

Vinnufatnaður.

Vinnufatnaður er oftar en ekki partur af ímynd fyrirtækja, hreinlega einkenni sumra og að sjálfsögðu til hlífðar í mörgum tilfellum.  Mér persónulega finnst frábært að  hafa vinnufatnað.  Ég var fyrir mörgum árum í rauðum jakkafötum og hægt var að fá dragsíða frakka við ef maður vildi - auðvitað hárauða.  Þetta voru sem sagt Landsbankaföt þess tíma.  Þetta þótti manni verulega flott,  þó að  flestum þyki þetta óhugsandi litur í dag.  Í dag er ég í frekar dökku og aðhyllist frekar dökkan lit fyrir vinnufatnað í mínum geira almennt.  Finnst það snyrtilegt og fínt. 

Ég hef verið að sjá breytingu á lögreglufatnaði.  Ég samgleðst lögreglumönnum  og þeim sem eru á strauboltanum á þeirra heimilum.  Buxnapressingar og skyrtustrauingar að mestu úr sögunni Smile.  Núna virðast vinnuföt lögreglumanna snúast meira um þægilegheit og hagkvæmni.  Svartir stuttermabolir, svartar skyrtur og bara allt annað efni í buxum og jökkum.  Mér fannst reyndar þessi köflótti borði á húfum og utanyfir flíkum minna fullmikið á bresku lögguna en þetta venst ótrúlega.  Þeir hafa amk tvennskonar húfur - derhúfu sem er þokkalega löguð svo þess venjulegu kaskeitishúfu sýnist mér.  Ég hafði oft samúð með strákagreyjunum yfir að vera í þessum ljósbláu skyrtum á sumrin í steikjandi hita.  Máttu ekki svitna smá án þess að það æpti alveg bletturinn.  Já heljarinnar vatnsfoss runninn til sjávar síðan löggujakkinn hans pabba var og hét, með leðurbeltinu sem haldið var uppi með fíngerðum krókum á hliðum og baki og þrif á hvítri kollu voru iðkuð af og til.  Í töluboxinu hennar mömmu voru svo varatölur, þessar gylltu með hendinni.  Í dag er það bara franskur rennilás sem gildir.  En þetta er ótrúleg breyting á dagligdags vinnufatnaði lögregluliðsins okkar og hlýtur að vekja almenna ánægju.


Þægilegt og gott eftir páskana.

Nú þegar páskahátíðin er að baki með súkkulaðiáti og líklegast veislumat af öllu tagi þá er gráupplagt að lenda og fá sér eitthvað "venjulegt" eins og krakkarnir mundu segja.  Fyrir mörgum árum fékk ég þessa uppskrift eða hugmynd öllu heldur að góðum fljótlegum plokkfiski frá vinnufélaga.  Krakkar á öllum aldri Smileelska þennan mat  og hér kemur "Spariplokkfiskur Buddu":

Soðinn fiskur og kartöflur brytjað saman(gott að nota afganga)en til að styðjast nú við eitthvað hægt að nefna eitt  lítið ýsuflak og 4 meðalstórar  kartöflur.  Sósa bökuð upp og karrí bætt í.  Aðeins kælt.  2 egg pískuð vel samanvið og kartöflum og fiski svo blandað útí.   Þetta á að verða frekar þykkur jafningur.  Allt sett í eldfast mót og bakað í ofni  við ca 170 °C í 1 klst. eða þar til farið að brúnast örlítið.  Með þessu er svo gott að hafa brauð/grænmeti/hrísgrjón.  Fínt að hafa Garlic season all og smjör með á heitan fiskinn.

Hlutföllin eru ekkert alveg niðurnjörfuð og best að nota bara tilfinninguna  SmileEinfalt og þægilegt.


Óspennandi.

Fyrir nokkrum árum ætlaði ég í augað en það var páskahelgi og margföld biðröð svo að við ákváðum að láta ferðina bíða betri tíma.  Ég held að þetta slái nú aðeins á tilhlökkunina.


mbl.is 400 manns sátu fastir í Lundúnaauganu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Með þetta eins og annað.

Margir láta sér ekkert segjast þrátt fyrir fræðslu.  Það á við um  þetta eins og svo margt annað, reykingar, drykkju, hraðakstur, bara að nefna það - en þó eru alltaf undantekningar.  Fyrir utan óhollustuna er þetta svo forljótur andsk..... en getur verið skondið - að sjá menn með útkýlda vör af tóbaki,  engan veginn kyssileg dæmi ef út í það er farið.

 


mbl.is Munntóbakneysla eykur hættu á að fá krabbamein
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frábær árangur.

Það er alltaf gaman að vita af fólki sem  nær góðum árangri í því sem það er að fást við.  Sérstaklega snertir það mann ef maður kannast við viðkomandi. Ég heyrði  í gærkvöld af frétt á patreksfjordur.is (nánar á fitness.is) að Patreksfirðingurinn  Sif Sveinsdóttir gerði sér lítið fyrir og lenti í þriðja sæti í Model fitness sem haldið var á Akureyri.  Þetta krefst vinnu og aga að ná árangri í greininni  og að því er ég best veit er ekkert svo langt síðan hún byrjaði í þessu.   Eins lenti stúlka sem ég kannast við Elín María í 2.sæti í flokki undir 163 cm á hæð. - Frábær árangurhjá þeim eftir þrotlausa vinnu. Til hamingju Smile

 

Modelfitness

Gleðilega páska.

 

Páskakaka

Þessi jafnast á við stórt páskaegg.   

2 marengebotnar  í hvorn þarf 3 eggjahvítur(4 ef eggin eru lítil), 150 gr. púðursykur og 80 gr. hvítan sykur. Allt þeytt saman í dágóða stund þar til þetta er orðið létt.  Sett á smjörpappír og bakað við 150°c í klst.  Á milli : er 1/2 l.rjómi þeyttur og perur úr dós marðar saman við, - gott að hafa brytjað piparmyntusúkkulaði útí.   Ofan á:  er svo sett súkkulaðikrem: ca 2 eggjarauður, þeyttar vel, 3 matsk. flórsykur, brætt suðusúkkuðlaði ca 70 gr. og 3 dl þeyttur rjómi. (Í þessu kremi var ég ekki með uppskriftina við hendina en það var svona u.þ.b framangreint sem notað var ) -  Þessu er svo öllu blandað vel saman og kakan smurð.   Einfalt og þægilegt  sérstaklega hafi maður gert marengebotnana a.m.k deginum áður.  Verði ykkur að góðu.Wink


Hrafnseyrar og Dynjandisheiðar ófærar.

Í dag höfum við mæðgur ekki möguleika á að hittast yfir páskahelgina. Önnur á Patreksfirði, hin á Ísafirði báðar í bongóblíðu og vildum gjarnan geta brugðið okkur bæjarleið og hist.  Það er því miður ekki möguleiki þrátt fyrir að aðeins séu 172 km á milli.  Nema auðvitað að fljúga suður til Reykjavíkur og þaðan á staðina eða keyra suður í Búðardal og þaðan norður Strandir og um Djúpið- eða öfugt. Heljarinnar langa leið sem hún lagði þó á sig að keyra um jólin þessi elska og var í níu tíma á leiðinni.  Hún komst reyndar keyrandi styttri leiðina hérna suður yfir Hrafnseyrar og Dynjandisheiðar fyrir jól en hitt var bakaleiðin. Já í mörg ár hefur maður farið þessar heiðar þegar fært er  og fundist lítið hafa lagast vegurinn.  Enda er það svo að fólk hér á suðursvæðinu sækir nánast allt til Reykjavíkur og finnst það bara lítið mál.  Á Ísafirði er margvíslega þjónustu að fá og hefði verið frábært ef menn hefðu hugsað fyrir betri samgöngum hér á milli þéttbýlisstaða á sínum tíma þegar blússandi gangur var í atvinnumálum á svæðinu og margfalt fleira fólk í stað þess að leggja ofuráherslu á Djúpið. En það er svo sem auðvelt að vera vitur eftirá, en......það er nú einu sinni árið 2008 !!


mbl.is Færðin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þvílík grimmd.

Óhugnaður í einu orði sagt !

 


mbl.is Blaðburðardrengur myrtur í Kaupmannahöfn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Æ ...Æ....

Varðandi fréttina í Mogganum um Sænsku konuna sem fór berbrjósta í sund í Hveragerði -ég  gat nú ekki annað en brosað - skondin frétt.  -Karlgreyið sundlaugarvörðurinn, hann hefur ekkert vitað í hvorn fótinn hann átti að stíga. Greip stuttermabol og rétti konunni. - Sem sagt bannað að fara á brjóstunum í laugina. Hann hafði áður látið hafa eftir sér, að þarna í sundlauginni í Hveragerði væri ekki amast við því þó konur lægju berbrjósta í sólbaði.  Je dúdda mía.  Ég held að svona almennt séu Íslenskar konur nú  ekkert að spá í að fara berar í sund og því hafi engar sérstakar reglur verið smíðaðar um þetta atriði, án þess að ég þekki það nákvæmlega. Eins þó að það sjáist ein og ein ber að ofan í sólbaði þá þykir það að ég held ekkert tiltökumál.   Mér er sama hvað aðrar  gera en mér finnst þetta bara fínt eins og það er  - og  fer bara   áfram í laugina hæfilega  innpökkuð. Cool


Vá !!!!

Ég varð að deila þessu með þeim sem  lesa bloggið mitt.  Hún snart mig einu sinni sem oftar  fegurðin sem blasti við mér þegar ég horfði út um stofugluggann nú í morgunsárið.  Bleik birtan speglast á kyrrum sjónum.  Ég heyri úið í æðarfulginum.   Í þessari kyrrð finnst mér umferðin allt í einu truflandi mikil, hér í mínum litla, yfirleitt rólega bæ.  Manni finnst tíminn  standa kyrr um stund og maður nýtur andartaksins áður en "kveikt er á veröldinni".  Já svona andartaks upplifun er ómótstæðileg og nærir sálina fyrir verkefni dagsins.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.