Gleðilega hátíð.
17.6.2008 | 00:44
Að venju drögum við fána að húni í dag. Í sveitarfélaginu Vesturbyggð eru hátíðahöld á Bíldudal og hefjast að aflokinni skrúðgöngu við félagsheimilið Baldurshaga kl. 14:00.
Eins fara alltaf einhverjir á Hrafnseyri, fæðingarstað Jóns Sigurðssonar. Þar hefur í fjölda ára verið vegleg dagskrá á 17. júní. Aðrir eru svo bara heima hjá sér, slá jafnvel uppí vöfflur í tilefni dagsins. Svo eru enn aðrir sem kæra sig kollótta um hátíðahöld og njóta dagsins á annan hátt.
Á sjálfan þjóðhátíðardaginn akkúrat í dag er mikið upplifelsi í lífi þessarar ungu dömu.
Hún er að lenda á Danskri grundu nú líklega um hádegisbil - í fyrstu útlandaferð lífs síns eftir ægilegan spenning síðustu daga. Það verður gaman að heyra ferðasöguna þegar hún kemur heim, svo margt nýtt sem ber fyrir augu. Góða ferð svítí pæjan mín
Og af því að ég talaði um að einhverjir slægju kannski upp vöfflum í tilefni dagsins þá er hér þrælfín uppskrift sem ég og önnur til notuðum með öðrum veitingum á golfmóti hérna um árið og rokseldist alveg -sem hljóta að teljast meðmæli með þessum vöfflum. Uppskriftin er extra stór og má helminga ef vill. Ég reikna ekki með að margar nútíma manneskjur séu heima við tertustúss á svona kærkomnum frídegi....eða er það bara ég sem er orðin svona værðarleg ? Neeeiii ætli það. En hér koma sem sagt vöfflurnar.
Vöfflur
4 bollar hveiti
8 sléttfullar tsk ger
8 msk sykur
8 msk bráðið smjörlíki
4 egg
aðeins af súrmjólk og svo mjólk þar til degið er hæfilega þykkt.
Njótið dagsins
Eins og sjá má á innsendingartíma þessarar færslu hefði örugglega átt betur við að birta hana í morgunsárið en það verður ekki mögulegt þannig að það var annaðhvort þessi tími eða enginn
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Flóra Íslands
15.6.2008 | 14:54
Gráupplagt að nota svona daga til að fræða fólk, þ.m.t yngri kynslóðina um blómaflóru landsins. Ekkert víst svo sem að krakkar hafi áhuga á einhverjum blómaskoðunarferðum en maður skal auðvitað aldrei vanmeta áhuga krakka á hlutunum. Ég taldi mér einu sinni trú um það að þetta gæti verið skemmtilegt skoðunar og rannsóknarefni(veit reyndar að svo er). Stormaði með dóttur mína og bróðurdætur inn fyrir bæinn hérna um árið. Við týndum blóm og fórum með heim. Rýmdum borðstofuborðið og svo hófst rannsóknarvinnan. Flettum bók um Íslensk blóm til að finna þau sem við týndum. Svo var rannsóknarefnið sett á milli blaða og pressað í bók. Ég hef trú á að þetta lúri í minningunni hjá stelpunum og hafi vakið einhvern áhuga, -verði ekki bara ein af minningunum um skrýtin uppátæki mömmu/frænku
Dagur hinna villtu blóma | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ást
14.6.2008 | 00:04
Ég er ein af þeim sem kíki af og til í minningagreinar. Fyrir mörgum árum síðan rakst ég á grein þar sem kona skrifaði minningarorð um látinn eiginmann sinn. Í greininni var brot úr ljóðinu "Ást" eftir Sigurð Nordal. Mér fannst þetta svo ótrúlega fallegt að ég klippti það út og stakk í fílófaxið sem maður skildi ekki við sig á þeim tíma. Seinna fann ég svo ljóðið í heild sinni og las. Í dag á ég bók sem hefur akkúrat þetta ljóð að geyma. Fyrir nokkrum árum söng Ragnheiður Gröndal þetta svo fallega, við lag Magnúsar Þórs Sigmundssonar. Hann sendi það svo frá sér síðar í eigin flutningi og gaman að heyra þá útgáfu líka sem var ólík en fallegt hjá honum samt. Ljóðið er algjör perla og lagið ekki síðra, - hér kemur örlítið brot .:
Þú gafst mér skýin og fjöllin
og guð til að styrkja mig.
Ég fann ei, hvað lífið var fagurt
fyrr en ég elskaði þig.
Ég fæddist til ljóssins og lífsins,
er lærði eg að unna þér,
og ást mín fær ekki fölnað
fyrr en með sjálfum mér.
Ást mín fær aldrei fölnað,
því eilíft líf mér hún gaf.
Aldirnar hrynja sem öldur
um endalaust tímans haf.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Eitt kerti að blása á.
13.6.2008 | 00:06
Já eitt kerti að blása á - allavega svona í huganum, kannski eins og ein ósk fylgi með, það sakar örugglega ekkert
Mér sýnist fólk gera bloggafmælum skil og ég ætla að gera slíkt hið sama - það er eins árs afmæli hjá þessari síðu í dag Tók samt c.a 3ja mánaða frí á þessu tímabili. Elfdist svo öll í blogginu eftir áramótin, eignaðist bloggvini, fór að setja inn myndir og þ.h. Lengi framan af sagði ég ekki nokkrum manni frá þessu fikti, var hálf feimin við það en svo hrundu múrar, enda er þetta svo sem fyrir allra augum hér á netinu. Í dag er ég órög við þetta, hef gaman af skrifunum og eyði hæfilegum tíma í þau. Ég hef verið að lesa skilgreiningu bloggs hjá nokkrum. Misdjúpar pælingar eins og gengur. Fólk bloggar um allt á milli himins og jarðar. Dagbókarform, pólitík, kennsla og bara hvað eina. Maður áttar sig fljótlega á því að það er samfélag innan bloggheimsins og hjá sumum finnst mér það virka eins og vinahópur og samskipti mikil sem getur auðvitað bara verið skemmtilegt.
Spurningu hefur verið velt upp hvort það sé stéttaskipting innan þessa heims sbr. nýlegan pistil bloggvinkonu minnar Hildar Helgu sem er fín lesning og gaman að sjá hvaða skoðanir fólk hefur á þessu samkvæmt kommentunum þar. Sitt sýnist hverjum svo mikið er víst.
Ég rakst á blogg úr öðru bloggkerfi þar sem nokkur íslensk bloggkerfi eru gagnýnd og borin saman af nokkurri þekkingu virðist vera. Viðkomandi skoðar hvern lið fyrir sig í kerfunum og gefur þeim svo heildareinkunn X af 10 mögulegum. Hæstu einkunn gefur hann ákveðnu kerfi 8,5 en Moggablogginu 8,0 önnur eru svo talsvert neðar. Ég hef reynslu af öðru kerfi í gegnum félagsskap sem ég tilheyri. Ég verð að segja að ég er mjög ánægð með þetta kerfi sem ég valdi, þ.e kerfið hjá Mogganum.
Blogg er eins og hvert annað áhugamál, ég held því áfram á Moggablogginu og blogga um allt og ekkert a.m.k sjálfri mér til ánægju .
Hafið það sem best
Bloggar | Breytt s.d. kl. 07:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Nú munaði mjóu.....
11.6.2008 | 20:01
....að það fjölgaði á heimilinu hjá mér í dag. Ég þurfti að skjótast í hús eftir vinnu og þar sá ég hundakörfu á tröppunum. Í henni voru tveir hvolpar og örugglega þrír liggjandi á sólpalli í mestu makindum. Þeir hreyfðu sig varla þegar ég kom, voru bara latir í sólinni. Mér fannst með ólíkindum að sjá svona rólega hvolpa. En þetta var víst uppáfallandi afslappelsi. Þetta eru blendingar af Dalmatíu og Labradorkyni að ég held. Ég verð að viðurkenna að mér dvaldist aðeins þarna við körfuna löngu eftir að ég var búin að kveðja húsráðanda Æ....þeir eru svo sætir. Algjör bjútí þessir og skemmtilega ólíkir á litinn. Ef einhvern langar í hvolp þá sagðist eigandinn ennþá eiga eftir að finna nokkrum nýtt heimili !!
Því miður eru myndgæðin ekki uppá það besta en ég læt samt nokkrar flakka.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Alþjóðlegi "prjónað á almannafæri" dagurinn.
8.6.2008 | 16:50
Ég fór í búðina eftir hádegið sem er nú ekki í frásögur færandi. Auglýsing frá Sjóræningjahúsinu hér í bæ vakti athygli mína. Þar var verið að auglýsa þennan dag Alþjóðlega prjónað á almannafæri daginn. www.wwkipday.com eða World wide knit in public day þ. 14. júní n.k.
Það verður sem sagt opið nánast allan daginn hjá Sjóræningjum í tilefni dagsins og fólki gefst þá kostur á að koma í kaffihúsið þeirra til að prjóna og spjalla yfir kaffibolla. www.sjoraeningjahusid.is.
Bráðsniðug hugmynd og verði ég á staðnum mun ég svo sannarlega mæta.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fallegt þetta lag.
8.6.2008 | 10:37
Þegar ég heyrði þetta lag fyrir löngu síðan í flutningi þeirra í Crowded House heillaðist ég. Hef heyrt það síðan í flutningi annarra og finnst það alltaf jafn fallegt. Veit þó ekki hvort Crowded House á upprunalegu útgáfuna. Reikna samt með að það geti verið.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Aðeins um hunda.
7.6.2008 | 20:16
Fyrir einhverjum árum síðan þegar heimilishaldið hjá mér taldi fjórar manneskjur, áttum við hundinn Skugga. Það er svartur Labrador, af eðalkyni, fenginn frá hundaræktanda á Akranesi. Sá ræktandi hefur m.a komið upp mörgum góðum leitarhundum. Þessi hundur sýndi fljólega góðan efnivið, - með afbrigðum vitur. Við þurftum því miður að láta hann frá okkur af óviðráðanlegum orsökum.
Það var mikill söknuður á heimilinu eftir að Skuggi fór en hann var sendur til Skagastrandar til góðrar fjölskyldu og er þar sjálfsagt ennþá við fínasta atlæti. Á ferð okkar um Skagaströnd einhverju ári eða tveimur eftir að við létum hann þangað, sáum við hann í bandi úti á túni við nýja heimilið. Svartur feldurinn glansaði í sólinni og hann var flottur hann Skuggi.
Þegar ég var krakki var ég dauðhrædd við hunda og þurfti að halda á mér inn á hvern sveitabæ sem heimsóttur var þar sem hundar voru og þeir oftar en ekki læstir inni greyin. Þetta bráði þó aðeins af mér en þó er ég aldrei fyllilega örugg með mig nálægt hundum. Skuggi var sá hundur sem ég hef mest haft með að gera og ég hafði verulega gott af kynnunum við hann uppá að losna við mestu hræðsluna. Ég verð þó að taka það fram af virðingu við minningu hunds sem var undantekning í hundahræðslu æskuáranna og það var Lassie, yndislegur hundur í sveitinni hjá einni frænku minni. Þessum hundi var ég nokkuð örugg nálægt og fannst hann frábær. Kannski að myndirnar um Lassie hafi spilað inní traustið sem ég hafði á honum, ég skal ekki segja um það.
Svo hefur af og til hvarflað að manni að fá sér aftur hund. En þá fer maður að hugsa.......að það er nú einu sinni þannig að ef maður tekur að sér dýr þá er það skuldbinding til fjölda ára að ég tali nú ekki um binding fyrir manneskju sem býr ein eins og ég geri. Orðin vön frjálsræðinu og vill geta skroppið í burtu þegar mér hentar. Maður setur ekki eitt stykki hund í pössun si svona. Á móti í þessum spegúlasjónum kemur auðvitað sú notalega tilhugsun að hafa félagsskap dýrsins en í ljósi reynslunnar af því að láta Skugga fara hefur ákvörðunin um að fá mér EKKI gæludýr orðið ofan á. Allavega ekki í bili.
Það má segja að það sé hundur í öðru hverju húsi hér í bæ eins og víða. Litlir Chihuahua eru orðnir nokkuð margir hérna en líka aðrar smáhundategundir. Nokkrir Boxerhundar, Labradorar, Border collie svo eitthvað sé nefnt. Nýlega fengu vinahjón mín sér ekki bara einn heldur tvo litla krúttlega fjörkálfa af kyninu Japanese Chin. Þeir eru algjörlega hjartabræðandi þessir molar það verður ekki annað sagt, - og samkvæmt lýsingu á þessu kyni eru þetta mjög hentugir heimilishundar.
Fólk er farið að fá sér allskonar hunda og margar sjaldséðar tegundir hafa verið fluttar inn á allra síðustu árum. Sumir fá sér spes tegundir sem hafa eiginleika veiðihunda og nota þá sem slíka aðrir velja hunda með eiginleika til leitar og smölunar. Langflestir eru þó með hunda sér til ánægju og horfa vafalaust á hentuga þætti í fari hundsins með það hlutverk í huga. Hundar geta verið mjög góðir en líka mjög hættulegir lendi ákveðnar tegundir í höndunum á fólki sem kann ekki með þá að fara. Ég er fylgjandi því að ákveðnar reglur séu virtar um hundahald. Mig minnir að það sé á Akranesi sem bannað er að halda ákveðnar tegundir sem geta orðið hættulegar. Ég sá eitt sinn viðtal við konu í Bandaríkjunum sem hafði bjargað lífi lítils drengs. Þessi drengur hafði orðið fyrir árás hunds og hún kastaði sér yfir barnið til að bjarga honum frá óðum hundinum en þau voru bæði illa slösuð eftir atganginn. Svona er eflaust sjaldgæft en er samt til og þarf að hafa í huga. Hundar hafa þó alltaf verið með manninum og í langflestum tilfellum honum til mikillar ánægju.
Á síðunni www.hvuttar.net má lesa heilmargt um hunda og eiginleika hverrar tegundar fyrir sig. Alltaf gaman að skoða þessa síðu. Svo skal það tekið fram að myndirnar eru fengnar af henni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Við klikkkum ekki á þessu í dag.......
7.6.2008 | 09:37
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Eitt glas á dag !
7.6.2008 | 07:48
Athyglisverð lesning. Ætli það teljist nú samt ekki betra að hafa hollt mataræði, inntöku lýsis og hollari hreyfingu framar á forvarnarlistanum v/liðagigtar ? En þetta er samt sem áður merkileg niðurstaða hjá þeim á Karolinska.
Áfengi minnkar líkur á liðagigt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)