Glæsilegt !
22.8.2008 | 19:43
Til hamingju öll. Stórkostlegur leikur hjá þessum frábæru íþróttamönnum okkar. Af því að ég fæ klukkutíma matarhlé og það var frá 12:30-13:30 þá náði ég að horfa á gott brot af leiknum. Á leið í vinnu sá ég svo að dyrnar á Skjaldborginni okkar stóðu opnar uppá gátt og þétt raðað af bílum það fyrir utan. Þangað gátu allir komið til að horfa á leikinn. Ég talaði við móður mína sem er stödd á Ítalíu í ferð eldri borgara og þar hafði hópurinn fengið frengir af úrslitum með beinu símasambandi, já hvarvetna fylgjast ungir og aldnir Íslendingar með sínum mönnum enda auðvelt í dag.
Svo krossum við bara fingur og sendum strákunum okkar bestu óskir á sunnudagsmorguninn.
Þið eruð stórkostlegir
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Trúi því ekki fyrr en ég tek á því.
22.8.2008 | 07:45
Já ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því að samgönguráðherra muni fresta gerð ganga milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar. Haft er eftir honum að þrýst sé á hann með frestun, nokkuð sem enginn gengst við að hafa gert. Það er ekki síður hagsmunamál aðila norðan Arnarfjarðar að fá þessi göng, ég held að það hljóti að vera góð viðbót að fá íbúa héðan sem neytendur þeirrar þjónustu sem þar er boðið uppá. Eins og oft hefur verið bent á eru nú þegar orðin mikil samskipti á milli norður og suðursvæðis Vestfj. og fólk í stórhættu við að freista þess að fara á milli þegar tæpt er með færð.
Mér finnst ekkert svo langt síðan að umræðan um göng milli Álftafjarðar og Skutulsfjarðar varð svona opinber(Súðavíkurgöng) eins og hún er um þessar mundir. Hugsanlega hræðist fólk að aldrei verði af þeim þegar þau verða ein eftir á listanum góða og muni því bara "gleymast" þegar árin líða. Ég hef skilning á sjónarmiði þeirra sem vilja göng til Súðavíkur það er ekki málið en þetta er spurning um forgangsröðun, því miður þá er það svo.
Einhverstaðar las ég í pistlum undanfarinna daga um þessi mál að hugsanlega væri verið að þyrla upp einhverju moldviðri hér til að samgönguráðherra gæti slegið þessu á frest og borið því við að aðilar væru ekki sammála um forgangsröðun. Það væir sem sagt liður í frestunarferlinu að koma því í loftið. Maður vill nú ekki trúa því að óreyndu að svo sé.
Fyrir okkur snýst málið um að koma á boðlegum samgöngum hér innan Vestfjarðakjálkans og það á ekki að þurfa árið 2008 að benda neitt sérstaklega á hversu göng Arnarfjörður/Dýrafjörður eru mikilvæg í því tilliti. Löngu tímabært, en liðin tíð er liðin og nú er nútíðin, því horfum við fram á við og viljum ósköp einfaldlega mannsæmandi samgöngur, ekkert flóknara en það.
Að öðru.........í dag er það svo hörkuspenna - leikurinn Ísland/Spánn.
ÁFRAM ÍSLAND
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Heillandi
20.8.2008 | 17:30
Það er ábyggilega frábært að eiga "sumarhús" af þessu tagi. Geta dólað inn á hvaða fjörð sem er, haft litlar tuðrur meðferðis og geta skroppið í land þegar hentar eða leikið sér á sjónum ef vill. Ég heyrði einmitt í skútueiganda í dag, hann á rúmlega 30 feta skútu á Ísafirði og sigldi nýlega - reyndar á annarri frá Reykjavík og hingað Vestur á firði. Lýsti fyrir mér einstakri upplifun þegar hann sigldi út af Breiðuvík og Kollsvík í mikilli veðurblíðu. Þar voru smáhveli að leik. Eins sá hann stærðar beinhákarl synda þarna í rólegheitunum með galopinn kjaftinn enda á svifveiðum. Já það virðist heillandi þetta skútulíf og gaman að heyra frásögn þessa manns af kostum þessa enda hann alvanur, búinn að eiga skútu í fjölda ára og þekkir þetta því vel.
Hver veit nema að skútueign eigi eftir að verða almennari hér á landi í framtíðinni.
Það sakar auðvitað ekki að láta hamingjuóskir til eigenda nýrra skúta fylgja hér með
Stærsta skúta á Íslandi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Vegirnir.
19.8.2008 | 17:08
Mér þykir fagnaðarefni þegar bæjarstjórnarmenn á sunnanverðum Vestfjörðum tjá sig um vegamálin hér á svæðinu sem hafa lengi verið í miklum ólestri. Það er vissulega verið að lagfæra en það hefði átt að gerast fyrir löngu finnst okkur sem höfum búið við þetta svo áratugum skiptir. Ég las þessa grein í morgun á bb.is og datt í framhaldinu í hug að endurbirta sögu sem ég sendi á vefinn patreksfjordur.is, eftir umhugsunarvert ferðalag frá Patreksfirði yfir á Rauðasand árið 2006.
Hér kemur þessi ofurlitla ferðasaga:
Ég er lítill bíll á Patreksfirði og mig langar til að segja frá ferðalagi sem ég fór í á fallegu sumarkvöldi fyrir skömmu, því eiganda mínum hafði verið boðið í kvöldkaffi yfir á Rauðasand sem hún þáði auðvitað með þökkum.
Ég telst nú í ágætisástandi og hef reynst eigandanum sérlega vel bæði sumar og vetur þó að ég segi sjálfur frá, hef ekið þessa leið áður, meira að segja alla leið út á Látrabjarg, því hlakkaði ég bara til ferðarinnar ef eitthvað var og við héldum af stað.
Þegar malbikinu sleppti við Skápadal - í firðinum sunnanverðum, blöskraði mér alveg. Vegurinn á Kotshlíðinni var skelfilegur. Þar voru þær dýpstu holur sem ég hef upplifað að keyra í.
Sú sem á mig vill mér auðvitað allt hið besta og ók bara nokkuð blíðlega þó að á malbiki sé nú stundum sprett úr spori skal ég segja ykkur. Á þessum kafla losnaði sem sagt útvarpið - og mín kona hægði verulega á, en öskubakkinn opnaðist og lokið við bensíntankinn blakti út úr hliðinni á mér eins og lítill vængur.
Ég var stöðvaður og allt lagfært sem aflaga hafði farið. Eigandinn var meira að segja að spá í að snúa við - en við tvö erum ýmsu vön og héldum áfram, töldum það versta afstaðið.
Það var rétt hvað holurnar varðar en á heiðinni yfir á Sand birtist andstaða holanna því að þar virtust grjótnibburnar bókstaflega æða upp úr veginum en það var nú samt aðallega þessi kafli á Kotshlíðinni sem varð hvatinn að þessum skrifum mínum.
Það var yndislegt að koma á Rauðasand, það ægifagra svæði og vissulega mildaði sú upplifun slæm áhrif ökuferðarinnar.
Nú fara mörg ÞÚSUND manns um sunnanverðan Patreksfjörð á hverju sumri, Látrabjargið hefur sitt aðdráttarafl, á Hnjóti er frábært minjasafn sem við erum stolt af og stórir ferðaþjónustuaðilar eru þarna, hver með sínu sniði, - í Breiðuvík, Fagrahvammi í Örlygshöfn og í Hænuvík. Nýlega var svo opnaður veitingastaður við flugvöllinn á Sandodda. Nokkrir bændur búa myndarbúskap á jörðum sínum.
Það er hugur í fólki hér og það ætti þess vegna allt að vera á réttri leið, vinna að vegabótum sjálfsögð þróun á þessu svæði eins og öðrum en það virðist fjarri.
Ég hef farið um landið þvert og endilangt, þarna er versti vegurinn ég fullyrði það og fannst mér gráupplagt að segja mína sögu bara umbúðalaust - ég tala nú ekki um þar sem sjónarmið bílanna heyrast allt of sjaldan. Eiganda mínum fannst nú óþarfi að tjá sig eitthvað um þetta, - hefur kannski ekki trú á að það hafi neitt að segja en ég er á öðru máli.
Svo sannarlega vona ég bara að þetta sé eitthvað andartaks skipulagsleysi í vinnubrögðum Vegagerðarinnar sem þeir bæti úr hið snarasta.
Skrifað á Patreksfirði 20. júlí 2006
Ykkar einlægur Ford Fiesta OI-688.
----------------------------------------------------------------------------------------------------------
Já svona hljóðaði þessi saga sem skrifuð var eftir ferðina á Rauðasand og ég hugsandi um hvað það væri óþægilegt að eiga smábíl ætlaði maður á milli staða á Vestfjörðum. Vegurinn til Ísafjarðar er ekkert til að hrópa húrra fyrir heldur. En vonandi (segir maður alltaf) fer þetta batnandi sem það vissulega gerist, en bara hægt og bítandi og við sem höfum beðið SVO lengi
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ég hlakka til....
18.8.2008 | 07:43
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Vandlifað í henni veröld ;-)
16.8.2008 | 10:39
Hvað skiptir okkur máli hvort eitthvað svona gerist í Brighton eða hvar sem er. Skyldi fréttin um hávaðasama fólkið í Kópavoginum hérna um árið hafa ratað í fréttir í nágrannalöndunum ? Mér finnst það nú ólíklegt. Ætli það hafi ekki bara verið hér á landi sem hlegið var að þessu og gert grín að því í Spaugstofunni ef ég man rétt. Í þessari frétt frá Brighton segir talsmaður bæjaryfirvalda að kjarni málsins sé sá að fólk eigi að geta lifað eðlilegu lífi án truflunar frá nágrönnum. Það hlýtur að vera erfitt að dæma um hvað telst eðlilegt í svona málum ? Er ekki málið að bæjarapparatið og húsbyggjendur almennt eiga að einangra íbúðirnar nógu vel til að fólk geti lifað þokkalega eðlilegu lífi ?
Mér var sögð þessi saga fyrir einhverju síðan af skemmtilega pínlegu dæmi. Fyrir löngu síðan leigði fólk sem komið var af léttasta skeiði blokkaríbúð. Kvöld eitt sátu þau með gestum yfir kaffibolla í stofunni. Allt voða settlegt. Af efri hæðinni mátti heyra að fjör var að færast í leik roskinna hjóna sem þar bjuggu. Því breyttist molasopinn á neðri hæðinni skyndilega í kaffi og með'ðí í orðsins fyllstu. Varð dálítið vandræðalegt en fólk fór svo bara að tygja sig heim, kannski fyrr en ella.
Eins eru nú margþekktar pissubunur sem heyrast á milli hæða í blokkum í gegnum tíðina. En hvort sem það eru pissubunuhljóð eða önnur hljóð þá er fólk nú svona almennt ekkert að kippa sér upp við svona hljóð hvað þá tala um þau.
En að öllu gamni slepptu þá er nú þessi frétt frá Brighton líklega orðin frétt vegna nálgunarbannsins og verið að fjalla um eitthvað ofurfrjálslegt og yfirgengilegt dæmi sem er til verulegra vandræða.
Það er stundum vandlifað í henni veröld
Bannað að heimsækja kærustuna vegna hávaðakynlífs | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Stundum skondið en líka skrýtið og sárt.
15.8.2008 | 00:08
Þegar ég las frétt hér á Mogganum um mann sem hafði keypt bíl og borgað hann með smápeningum hafði verið bloggað um fréttina. Í einu af bloggunum slær bloggarinn fram þeirri spurningu "Er Einar Klink genginn aftur ?" Ég veit svo sem ekkert meira um þetta en datt í hug hvort þetta "klink" viðurnefni væri ættað frá Vestmannaeyjum. Ég sá nefnilega bók fyrir stuttu sem stórvinur minn úr Eyjum var að blaða í og bókin var um skemmtileg viðurnefni og allskonar fróðleik tengdan fólki sem ég held að innfætt Eyjafólk hafi mest gaman af enda grínarar fram í fingurgóma Þarna var einn t.d nefndur "Alýfát" sem er náttúrulega TÁFÝLA aftur á bak, mér fannst það vel fyndið. Samt ekkert viss um að honum eða hans nánustu hafi þótt það.....en hver veit, kannski bara hlegið með
Svona viðurnefni, uppnefni og hvað þetta er nú allt kallað finnast í hverjum bæ. Á stað þar sem ég bjó var einn nefndur kaffisopi, annar rjómarass. Já sumt er óttalegt rugl og eiginlega bara svo ljótt að fólk líður fyrir það alla ævi. Annað er meinlaust og bara skemmtilegt en það er auðvitað matsatriði og sitt sýnist hverjum.
Sumsstaðar eru menn kenndir við mæður sínar. Það hefur verið eitthvað um það hér í bæ í gegnum tíðina. Dóri Jobba og Þórður Guggu voru bræður svo ég nefni dæmi.
Maður einn sem ég kannast við þurfti að sinna ákveðnum hlut í sínu starfi. Það var fundið á hann nafn sem tengdist þessu og því var svo eitthvað hnýtt í börnin hans. Eitt af þeim var svo viðkvæmt fyrir þessu uppnefni að það ákvað að forðast íslenskutíma í skólanum þar sem greina átti orð í flokka og þetta ákveðna orð kom fyrir. Viðkomandi mætti ekki daginn sem hann taldi það verða tekið fyrir. Varð skyndilega veikur. Því miður ...eða sem betur fer hafði þetta ekki verið tekið fyrir daginn sem þessi ógurlegu veikindi stóðu yfir og sá hinn sami þurfti því að upplifa að heyra fjallað um þetta orð. Roðnaði uppí hársrætur viss um að það eina sem bekkjarsystkinin hugsuðu um væri akkúrat orðið hvernig það tengdist þessum aðila. Þetta var náttúrulega bara ótrúleg vitleysa að bregða fyrir sig veikindum v/þessa en svona var þetta bara. Þetta uppnefni var nú ekkert lengi í gangi þó að það hafi virst heil eilífð og algjör martröð. Mér skilst að þessir krakkar hafi nánast gleymt þessu og ekki borið andlegan skaða af. En þetta er dæmi um mögulega líðan þeirra sem taka svona nærri sér.
Aðgát skal höfð í nærveru sálar eru orð sem alltaf er gott að muna. Við fullorðna fólkið ættum allavega að vera vel fær um að hafa þau á bak við eyrað þó að vissulega sé saklaust að gera góðlátlegt grín af og til
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Sætur
12.8.2008 | 23:15
Mér var boðið á rúntinn í kvöld sem er ekkert í frásögur færandi. Ég sá þennan á smábátabryggjunni með sín ómótstæðilega fallegu augu. Já hann flúði ekki þó ég nálgaðist hann enda líklega orðinn vanur mikilli athygli þessa dagana.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Heppin.
11.8.2008 | 17:37
Það eru ekki allir sem fá einkatónleika eins og ég fékk á dögunum, það meira að segja á heimilinu. Er reyndar svo heppin að það er nokkuð oft sem þetta gerist. Eins og ég hef áður sagt þá er ég að læra að meta Bubba með árunum af áhuga sonarins og einstaka lag frá honum heillar. Nú voru það lög eins og Sól að morgni og Svartur afgan svo svo eitthvað sé nefnt - svo er auðvitað fleira á efnisskránni hjá gítaristanum eins og Hotel California fyrir Eagles aðdáandann og þá klikka hlutirnir nú ekkert
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Göng í sjónmáli ?
10.8.2008 | 09:40
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)