"Áfram Vestur"
13.3.2010 | 09:03
Er feitletruð fyrirsögn á blaði sem datt inn um póstlúguna hjá mér á dögunum. Þarna er auglýstur tveggja tíma borgarafundur sem verður í Félagsheimili Patreksfjarðar í dag kl. 14:00. Fundurinn er til stuðnings uppbyggingar á Vestfjarðarvegi um Barðastrandarsýslu og með Dýrafjarðargöngum.
Eins og segir orðrétt í auglýsingunni :
með Vestfjarðarvegi verða tengdar saman byggðir á Vestfjörðum og þær tengdar við aðalþjóðvegakerfi landsins með góðum heilsárs vegi.
Að fundinum standa einstaklingar búsettir á Vestfjörðum sem vilja öfluga byggð í fjórðungnum öllum.
Dagskrá.
1. Umhverfismat fyrir Dýrafjarðargöng, Þorleifur Eiríksson, Náttúrustofu Vestfjarða.
2. Störf nefndar sem skoðar möguleika á nýjum vetrarfærum vegi yfir Dynjandisheiði, Gísli Eiríksson, Vegagerð ríkisins.
3. Stutt ávörp: Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir, Eggert Stefánsson, Páll Líndal Jensson, Smári Haraldsson, Guðrún Eggertsdóttir, Sigurður Jón Hreinsson, Halldór Halldórsson.
4. Almennar Umræður.
--------------------------------
Já svona hljóðar auglýsingin um borgarafundinn sem á að halda vegna vegamálanna hér í dag og ber að sjálfsögðu að fagna.
Ég á nú von á að fólk láti sjá sig ég bara trúi ekki öðru þar sem hér eru samgöngur gjörsamlega óviðunandi og allir orðnir langþreyttir á ástandinu eins og alþjóð veit. Hér á árum áður voru heiðarnar eðlilega mikil hindrun. Allt kapp hefur lengi verið lagt á að koma Djúpvegi í sem best lag til að gera leiðina að norðanverðu sem greiðasta út af Vestfjarðakjálkanum um Djúp og Strandir. Göngin í gegnum Breiðadals og Botnsheiði (1996), eru þriggja arma göng sem mörkuðu tímamót í samgöngum á Vestfjörðum en vinna hefði átt hraðar að því að halda svo áfram suður í Barðastrandasýslur um Arnarfjörð. Málið hefur jú alltaf snúist um peninga en ekki síður að mínu áliti um viðhorf og þá áherslur.
Margra ára draumur minn og fleiri aðila um góðar samgöngur innan Vestfjarða verður hugsanlega að veruleika með tíð og tíma og vonandi auðvitað, en greiðar samgöngur frá Flókalundi til Búðardals vil ég að verði kláraðar sem allra fyrst. Við hér í Barðastrandarsýslum höfum ekki þol til að bíða þeirrar samgöngubótar öllu lengur. Áhersla á að sú leið klárist hefur orði enn ljósari eftir hrun þó að ég hafi alla tíð alið með mér draum um Vestfirði sem eina samgöngulega heild.
Ég vil taka það fram að nokkrir á ofangreindri mælendaskrá hafa í fjölda ára verið ötulir talsmenn þess að leiðin frá Ísafirði fari hér suður Hrafnseyrar og Dynjandisheiðar og þeim má þakka eljusemin við að halda þessum málum á lofti, ég nefni Sigurður Hreinsson og Eggert Stefánsson sem eru frá norðanverðum Arnarfirði og Dýrafirði þó að báðir séu búsettir á Ísafirði í dag. Einnig hafa þeir Steinar Jónasson sem starfar í Mjólkárvirkjun og Þórólfur Halldórsson sem var Sýslumaður hér á Patreksfirði í mörg ár verið iðnir við að láta í sér heyra í gegnum árin. Páll Líndal flutningabílstjóri mun taka til máls á fundinum og tala máli bílstjóra sem aka leiðina Patr/Rek/Patr margoft í viku. Mér finnst þeir beinlínis drýgja hetjudáð með akstri við þessar aðstæður með smekkfulla bíla og tengivanga.
Ég vil ekki lasta hug Halldórs Halldórssonar bæjarstjóra Ísafjarðar til vegamálanna og hagsmuna okkar Vestfirðinga og ekki heldur annarra sem að því koma. Ég veit bara sem er að í dag árið 2010 er sýnin skýrari sem aldrei fyrr á nauðsyn þess fyrir norðanverða firðina að umferðarmálum sé komið í lag hér innan kjálkans. Þróunin hefur orðið sú að við hér að sunnanverðu sækjum mikið suður á bóginn varðandi alla þjónustu en spurning er hvort sú væri raunin í dag ef áherslur hefðu verið aðrar hér á árum áður með tengingu við Ísafjörð sem Höfuðstað Vestfjarða í huga. Það er svo sem alltaf auðvelt að hugsa ...hvað ef...!
Í gegnum árin höfum við mjög lítið orðið vör við að Ísfirsk þjónustufyrirtæki auglýstu fyrir okkur sunnan heiða þjónustu sína þó að það hafi vissulega aðeins breyst og opnunartímar verlsana rýmkast á laugardögum en þó ekki fyrr en á nýliðnum árum. Sjálfsagt hugsunarleysi, ég skal ekki segja en nokkuð sem ég hef aldrei skilið.
Unglingar úr minni fjölskyldu stunduðu nám á Ísafirði nú í kringum síðustu aldamót en það var ekki heiglum hent að komast til Ísafjarðar um vetur nema fljúgandi með viðkomu í Reykjavík eða sjóleiðina. Já það að nýta sér þjónustu Höfuðstaðar Vestfjarða hefur ekki verið auðvelt þegar 3 - 4 skaflar á heiðum hafa hamlað för. Í vikunni fór ég akandi, til Reykjavíkur að morgni og kom heim að kvöldi um 5 tíma ferðalag hvora leið. Þurfti nauðsynlega að sinna erindi sem ég hefði örugglega getað sinnt á Ísafirði en það var ekki í myndinni í mars árið 2010.
Ég held að einhversstaðar sé verið að ræða og undirbúa sameiningu sveitarfélaga á Vestfjörðum í eitt. Sú tilhugsun skelfir mig miðað við óbreytt ástand samgangna og horfur í nánustu framtíð.
Ég læt þessum spegúlasjónum og samgöngunöldri hér með lokið, mæti líklegast á fundinn og heyri hvaða hugmyndir eru í gangi og hvort eitthvað nýtt sé að frétta í þessum málaflokki.
Eigið góðan dag
Athugasemdir
Góður pistill eins og venjulega frá þér.
Samgöngumál sunnanverðra Vestfjarða er ekki neinum bjóðandi, það er löngu orðið afar brýnt að þeim málaflokki verði sinnt af festu, þýðir lítið að segja að "Vestfirðingar" hafi fengið samgöngubætur - þó má ekki lasta það sem gert hefur verið en það dugar einvörðungu nyrðri hluta kjálkans og engan vegin hægt fyrir syðri hlutann að nýta sér þær bætur þó svo menn vildu það gjarnan. Frá Dýrafirði og suðurúr þarf að gera miklar bragabætur á vegamálunum. Það er eins og það búi ekki skattborgarar á þessum slóðum!!! - þetta eru klár mannréttindabrot.
Bestu baráttukveðjur,
Sólveig Ara.
Sólveig Ara (IP-tala skráð) 14.3.2010 kl. 15:03
Sæl Sólveig og takk fyrir þetta innlegg. Ég vona að þetta lagist með tíð og tíma. Í þessu árferði yrði ég verulega ánægð ef við losnuðum við holukaflana hérna suðureftir. Mér finndist það alveg stórfínt.
Anna, 14.3.2010 kl. 16:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.