Gönguferðir í sumar

Þann 21. janúar s.l. fór ég á hádegisfund í "Sjóræningjahúsinu" hér í bæ.   Þetta var einn af svokölluðum súpufundum sem hafa verið einu sinni í mánuði í  vetur á veitingastöðum  hér á svæðinu þ.m í Tálknafirði og á Bíldudal.  Þetta eru sniðugir fundir sem ætlaðir eru til að kynna ýmis málefni sem eru í gangi,  bæði varðandi atvinnusköpun, já og bara  ýmsan fróðleik, t.d var Rauðakrossdeildin kynnt á einum og tilurð öskupoka á öðrum, Leikfélagið var kynnt og fyirtækið Tungusilungur í Tálknafirði svo fátt eitt sé talið.   Fundarefnið er nánast úr öllum áttum, yfirleitt mjög fróðlegir fundir og kynningarefni vel útfært.

En aftur að fundinum 21. janúar.  Þá kynnti Jóhann Svavarsson nýstofnað fyrirtæki Umfar sem hann stofnaði ásamt nokkrum öðrum.  Fyrirtækið sérhæfir sig í  leiðsögn og ferðaskipulagi um suðurhluta Vestfjarða.  Jóhann er öllum hnútum kunnugur hér á svæðinu, þrautreyndur leiðsögumaður í gönguferðum og fróður um hvern krók og kima landslags og sögu.  Hann hefur með sér vant fólk sem sömuleiðis þekkir hér vel til.

Fundurinn var góður, gaman að sjá vel gerða kynningu í máli og myndum um heimahagana.  Á vef Umfars  má sjá hinar ýmsu gönguleiðir sem eru hver annarri fallegri.  Spennandi valkostur fyrir þá sem hafa gaman af gönguferðum á fallegum slóðum.

Nokkur s.l ár hefur gönguhátíðin Svartfuglinn verið haldin hér og eftir því sem ég best veit verður hún áfram.   Einsaklingar hér á svæðinu hafa einnig verið með leiðsögn og nokkur ásókn er í þessar ferðir.

Margar þessara gönguleiða sem getið er um á vef Umfars langar mig að fara í  en þó hef ég ekki kjark til að ganga snarbrattar Skorarhlíðar. Hægt er að velja um erfiðar og auðveldari ferðir eins venja er þar sem boðið er upp á skipulagðar ferðir.  

Þess má svo geta svona rétt  í lokin að nafnið Umfar þýðir borðaröð í birðingi báts.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband