Litla kvæðið um litlu hjónin.
18.10.2008 | 18:17
Ég hef oft verið að spá í hvað það er sem gerir það að verkum að fólk er feimið fram eftir öllum aldri. Orðið feimni er örugglega teygjanlegt og nær yfir marga þætti í karakternum - án þess að ég hafi stúderað það sérstaklega. Það er sama hvað mörg námskeið farið er á og hversu oft fólk hefur staðið upp og talað. Sumir virðast ekki losna við þetta óöryggi sem hrjáir þá við að standa upp og tala frammi fyrir hópi fólks, og jafnvel ekkert síður í fámenni. Þeir sem oft virðast hvað öruggastir og æfðastir hafa játað í eyru manns að þeir finni alltaf fyrir einhverju óöryggi. Sumum sem þjást af þessari feimni ef feimni skal kalla líður mjög vel á sviði. Þá eru þeir oftar en ekki í hlutverki og eru þar af leiðandi ekki beint í sínum eigin karakter á meðan.
Mér persónulega finnst að það eigi markvisst að þjálfa börn í að tjá sig fyrir framan aðra. Það getur svo sem vel verið að það sé gert án þess að ég viti. Árshátíðir í skólum eru oft frábær vettvangur til að leyfa börnum að stíga á stokk. Þetta var og er líklega enn hápunktur í skólastarfi vetrarins hér á Patreksfirði og víðar. Ég tók þátt í söngleik um litlu Gunnu og litla Jón sem smástelpa á árshátíð skólans sem haldin var í Skjaldborg hér í denn. Þetta verður manni ógleymanlegt og mér fannst það frábært í dag þegar ég rakst á þessa eldgömlu bók í skúffu á heimili móður minnar. Hún fékk hana gefins sem lítil stelpa, bókin er lúin og nöguð á hornunum (hm....hver skyldi hafa gert það hér í denn ). Við að sjá bókina rifjaðist þessi performance í Skjaldborg upp fyrir mér. Ég læt ljóðið og frontið af bókinni fylgja hér til gamans, voða krúttlegt í einfaldleika sínum. Höf. Davíð Stefánsson.
Við lítinn vog í litlum bæ
er lítið hús.
Í leyni inn í lágum vegg
er lítil mús.
Um litlar stofur læðast hæg
og lítil hjón,
því lágvaxin er litla Gunna
og litli Jón.
Þau eiga lágt og lítið borð
og lítinn disk
og litla skeið og lítinn hníf
og lítinn fisk
og lítið kaffi, lítið brauð
og lítil grjón, -
því lítið borða litla Gunna
og litli Jón.
Þau eiga bæði létt og lítið
leyndarmál,
og lífið gaf þeim lítinn heila
og litla sál.
Þau miða allt sitt litla líf
við lítinn bæ
og lágan himinn, litla jörð
og lygnan sæ.
Þau höfðu lengi litla von
um lítil börn,
sem léku sér með lítil skip
við litla tjörn,
en loksins sveik sú litla von
þau litlu flón,
og lítið elskar litla Gunna
hann litla Jón.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17. október 1963.
17.10.2008 | 18:06
Með kveðju til bróður í tilefni dagsins. Alltaf svo fallegt þetta lag "Somewhere over the rainbow" futt af Evu Cassidy.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Eitt og annað.
16.10.2008 | 21:48
Húsið við Aðalstræti 31 hér í bæ er stórt og mikið en hefur staðið autt í mörg ár. Stefndi í að það hreinlega grotnaði niður. Hafði verið án rafmagns í einhver ár. Nú horfir til betri vegar með húsið, nýjir eigendur vinna að endurbótum og hlakka ég til að sjá það að þeim loknum.
Þetta hús sem ég hef áður minnst á í bloggfærslu, var lengi eina fjölbýlishúsið af þessari stærð í bænum. Við fjölskyldan bjuggum þarna fyrstu 10 ár ævi minnar í tæplega 60 fm. íbúð. Þegar börnin voru svo orðin þrjú var farið að þrengja heldur að mannskapnum. Það líður mér því seint úr minni þegar foreldrar mínir tilkynntu okkur systkinunum það með mikilli gleði að þau ætluðu að byggja sér nýtt hús við götuna Hjalla. Vá !! Þessi gata var í órafjarlægð að okkur fannst en ótrúlega spennandi tilhugsun að eignast sitt eigið herbergi og alveg í sér húsi þar sem enginn annar byggi. Áður en svefninn tók völdin fóru mörg kvöldin í spjall á milli koja þar sem við krakkarnir töluðum spennt um hvernig lífið yrði nú í nýja húsinu, hvernig við ætluðum að raða og hafa herbergin okkar lit.
Framkvæmdir hófust.
Sprengt var fyrir húsgrunninum, þvílík var klöppin. Teikningin frá Húsnæðismálastofnun ríkisins lá fyrir og ekkert sem tafði. Slegið var upp fyrir kjallaranum, steypunni keyrt á hjólbörum eftir þykku götóttu járnplötunum og henni dælt í mótin. Það var nú ekkert ónýtt að steypunni var keyrt úr stóru steypuhrærivélinni hans frænda míns sem var lánuð vítt og breytt um Vestfirðna á þessum tíma. Ekki smá græja það. En áfram hélt verkið. Járnið bundið, gólfplatan steypt og slegið upp fyrir hæðinni. Allt gekk þetta eins og smurt. Við fórum upp tréstiga inn í húsið þar sem tröppurnar voru steyptar síðastar. Þegar milliveggirnir voru steyptir var steypulyktin megn. En á þessu stigi fór fyrst að komast mynd á hlutina og ég sá HERBERGIÐ MITT fæðast. Föðurbróðir minn sem var eldklár með múrskeiðina, múraði svo húsið að innan sem utan.
Um leið og búið var að glerja og mála fluttum við fjölskyldan. Gólfið var málað með grárri gólfmálningu (Álafossteppið kom síðar), bráðabirgða eldhúsinnrétting sett upp með saumuðum tjöldum fyrir og innihurðir hússins voru tjöld til að byrja með. Að sjálfsögðu voru öll hreinlætistæki komin í baðherbergið. Þetta var allt mikið upplifelsi. Foreldrum mínum lá á að flytja þar sem búið var að selja gömlu íbúðina til að losa um fjármagn. Lánshlutfall til nýbygginga var ekki hátt á þessum tíma og fjármagn lá yfirleitt ekkert á lausu. Þetta var því strembinn tími fyrir mína foreldra og fjöldann allan sem byggði á þessum árum. Fólk vann mikið sjálft við byggingarnar eins og margir gera auðvitað enn. Hverri krónu velt mörgum sinnum til að komast sem best frá hlutunum. Ég er ekki hissa þó maður heyri á fólki að það hafi bundist húsunum sínum fastari böndum heldur en ef það hefði bara keypt það tilbúið á fyrirhafnarlítinn hátt.
Undanfarna daga hefur mér oft verið hugsað til þessa tíma sem var fyrir tæpum 40 árum síðan. Auðvitað máttu hlutirnir breytast og í dag er þetta allt annað. Lánshlutfall mikið hærra og það hefur verið töluvert auðveldara að eignast húsnæði þannig lagað séð.
Sumir þurfa að hafa töluvert mikið fyrir því að lifa sæmilega góðu lífi án nokkurs íburðar.
Ég sá í morgun umfjöllun um myndir sem ljósmyndari hefur verið að taka af sumarhúsum auðjöfra landsins. Sumir þeirra hafa auðgast á löngum tíma, byggt upp sín fyrirtæki og njóta svo afrakstursins. Bara gott eitt um það að segja, - ég forðast að lifa í öfund gagnvart heiðarlegu, vinnandi lánsömu fólki. Það eru hins vegar þeir sem hafa mokað undir sig á örskömmum tíma sem manni blöskrar alveg lifnaðurinn á, það virðist fátt eðlilegt við þann flöt á málinu eins og alþjóð hefur fengið að kynnast á Íslandi í dag. Ég sest ekki í dómarasæti og tilurð þessa gífurlega vanda verður flókið rannsóknarefni þeim sem fara í þá vinnu. Í dag er margt af þessu blessaða fólki sem tengdist stórfyrirtækjunum sem mest hefur verið fjallað um síðustu dagana, farið af landi brott og á örugglega ekki sjö dagana sæla.
Það er sárt til þess að hugsa að svona stóra skelli skuli þurfa til að fólk átti sig á því að lífið er ekki stanslaus veisluhöld. Við máttum aðeins hægja á okkur. Eins og hendi sé veifað er fólk mikið meira farið að tala um að nýta hluti betur og spara. Með því að nýta hluti og mat má gera heilmikið fyrir lítið. Því miður er bara fullt af fólki sem kann ekki að nýta mat svo að vel sé. Nú er því lag að læra.
Ég er bjartsýn að eðlisfari og hef tröllatrú á að okkur takist að vinna okkur út úr þessum vanda þó risavaxinn sé. Við Íslendingar megum nú ekki alveg gleyma því að við vorum mörg hver nokkuð samtaka í því að tölta að veisluborðinu - vonandi verðum við jafnsamtaka við að styðja hvort annað frá því.
Þá gæti okkur farnast vel.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
12. október 2008
12.10.2008 | 11:51
Ekkert sérstakt blogg hér á ferð en smá upptalning á atburðum tengdum þessum degi.
Þennan dag árið 1581 var vopnadómur kveðinn upp á Patreksfirði. Samkvæmt honum áttu allir menn á Íslandi að eiga vopn. Dómurinn komst aldrei í framkvæmd nema á Vestfjörðum.
12. október árið 1949 ók fyrsta bifreiðin um Óshlíðarveg og opnaðist þar með landleiðin á milli þessara staða. Ökumaður var Sigurður Bjarnason alþingismaður en meðal farþega voru Einar Guðfinnsson og Hannibal Valdimarsson.
Árið 1918 gaus Katla eftr 58 ára hlé. "Ægilegur gufustrókur teygði sig lengra og lengra upp að fjallabaki og loks hljóð jökullinn með eldgangi miklum, vatnsflóði og jöklaburði fram yfir Mýrdalssand til sjávar," segir í lýsingu Gísla Sveinssonar sýslumanns. Gosið stóð til 4. nóvember.
Árið 1962 Var kvikmyndin 79 af stöðinni frumsýnd í Háskólabíói og Austurbæjarbíói í Reykjavík. Hún var gerð eftir skáldsögu Indriða G. Þorsteinssonar. Aðalleikarar voru Kristbjörg Kjeld, Gunnar Eyjólfsson og Róbert Arnfinnsson.
Ofangreint hef ég upp úr bókinni "Dagar Íslands" (samantekt Jónasar Ragnarssonar).
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
10. október 2008
10.10.2008 | 07:53
Sérkennilegt andrúmsloftið þessa dagana svo ekki sé meira sagt. Mikil óvissa, spenna, hræðsla og hjá sumum ríkir örvænting. Það er lítið annað í fréttum en ástand efnahagsmála á landinu og í heiminum sem von er en þó má koma auga á eina og eina frétt sem getur talist jákvæð. Sumir eru hálfdofnir og vita ekki hvernig þeir eiga að vera þessu hamfaraástandi. Það er ljóst að margir upplifa hremmingar sem þá óraði ekki fyrir að eiga eftir að lenda í þ.m atvinnumissi sem án efa er erfið lífsreynsla. Við þær aðstæður reynir auðvitað verulega á andlegan styrk. Ástandið skellur þó misharkalega á fólki í daglegu lífi og allt hefur sína keðjuverkun. Mikilvægt að fólk átti sig á að hver manneskja getur með hegðan sinni gagnvart náunganum haft góð áhrif sem styrkja þessa keðjuverkun á jávkæðan hátt.
Í dag er Alþjóða geðheilbrigðisdagurinn sem haldinn er 10. október ár hvert. Í dag er yfirskrift dagsins á Íslandi "Hlúðu að því sem þér þykir vænt um" og er athyglinni einkum beint að ungu fólki. Gott mál.
Einhvers staðar stendur "Lífið er fullt af unaðslegri tónlist, maður þarf bara að hafa hægt um sig til að hlusta".
Það er allt stútfullt af svona fínni speki um lífið og tilveruna, margt af því er gott og umhugsunarvert. Sumum líður reyndar bara svo illa að þeim finnst svona speki ekki koma að miklu gagni. Það er bara þannig að ákveðnum hlutum í lífinu fáum við ekki breytt, verðum því að taka því sem að höndum ber af æðruleysi og vinna okkur í gegnum málin skref fyrir skref. Vonandi tekst sem flestum að vera bjartsýn og missa ekki móðinn, það er svo mikilvægt enda langt frá því að allt sé svart í henni veröld.
Komum auga á hversdagslegu, oft að okkur finnst sjálfsögðu hlutina sem kosta ekkert en gleðja svo óumræðilega mikið.
Njótið helgarinnar gott fólk og til hamingju, afmælisbörn dagsins
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Ordinary miracle
7.10.2008 | 20:44
Fallegt alltaf þetta lag sem Sarah McLachlan syngur og textinn segir sitt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Með kaffinu
4.10.2008 | 09:53
Í smá kaffipásu lít ég á fréttamiðlana. Ég vona að þessi laugardagur verði góður á sem flestum sviðum. Að þeim sem gangi til góðs með Rauða krossinum verði vel tekið og sömuleiðis vel ágengt í að safna.
Mogginn greinir frá því að menn hafi hist í rauðabýtið(ég hefði haft þetta rauðaBÍTIÐ) til að funda um leiðir til lausnar þessa mikla vanda sem herjar á okkur um þessar mundir í efnahagsmálum. Ég vona ekki síður að þessum aðilum verði vel ágengt í að finna leiðir. Það er ekki tryggt að lífið sé dans á rósum, það hefur almenningur í landinu aldeilis fengið að kynnast og þ.m.t. þeir sem sóttust eftir að komast í sæti á alþingi. Ég vona að þeir sem maður treystir fyrir þjóðarskútunni verði vandanum vaxnir þegar upp er staðið, gríðalega stór vandi og enginn öfundsverður af glímunni. Þessi darraðadans verður eftirminnilegur og vonandi nógu mikið til að hann verði lærdómsríkur.
Umræða má ekki fara úr böndunum og mér fannst ágætt þegar Landlæknir og Lýðheilsustöð sendu ábendingu til allra um að fara varlega í orðræðu um ástandið í þjóðfélaginu. Umræðan vekur ótta hjá börnum og fleiri aðilum. Það þarf að útskýra hlutina og sefa ótta.
En nú er kaffipásan búin - eigið góðan dag
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Á laugardagsmorgni.
4.10.2008 | 08:15
Manni verður mikið úr verki ef maður tekur daginn snemma, það er ótrúlega gaman að mála og sjá við það miklar breytingar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Bleikt.
1.10.2008 | 23:06
Stórskemmtileg hugmynd að lýsa byggingar upp með bleika litnum og minna með þessum hætti á árveknisátakið um brjóstakrabbamein. Fyrir stuttu gekk ég í húsin ásamt fleirum hér. Reyndar var selt um allt land í þessu átaki sem var til styrktar Krabbameinsfélaginu. Við seldum lyklakippur, penna og buðum bleikt varagloss. Í hverju húsi var manni vel tekið enda málefnið eitthvað sem fólk styrkir með mikilli ánægju, flestar fjölskyldur hafa kynni af vágestinum krabbameini. Glossinn var ættaður úr átakinu "Á allra vörum" sem fór af stað til styrktar Krabbameinsfélaginu til kaupa á röntgenbúnaði sem greinir betur brjóstakrabbamein en hægt hefur verið fram að þessu. Glossinn rann alveg út og má segja að hann sé kominn á allra varir.
Kópavogskirkja lýst bleik | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)