Frumlegt og skemmtilegt.

Ég var að fá bréf inn um póstlúguna hjá mér.   Það var ekki gluggabréf, ekki vélritað utan á umslagið, heldur handskrifað og afskaplega forvitnilegt.  Ég taldi þetta helst vera boðskort en innihaldið var heldur betur óvænt lesning.  Ég varð hrifin og sé ekkert nema jákvætt við það - veit reyndar ekkert nánar um málið annað en það sem kemur fram í bréfinu.  Það er Leikfélag Patreksfjarðar sem stendur fyrir þessu. 

Leikfélagið var mjög virkt hér fyrir einhverjum árum síðan, setti upp sýningar að ég held bara árlega.  Verkin og sýningarnar hinar metnaðarfyllstu og oftar en ekki þekktir leikstjórar fengnir til að stýra.  Ég fagna því að félagið  skuli hafa verið hresst við og hlakka til að komast á leiksýningu.

Bréfið hljóðar svo:

 

Kæru bæjarbúar !

Leikfélag Patreksfjarðar hefur ákveðið að standa fyrir leynivinasambandi milli íbúa Patreksfjarðar.

Svona virkar það:

Hvert heimili fær eitt leynivinaheimili.  Heimilisfang og nöfn heimilismeðlima eru rituð neðst á þetta blað.  Fram að 20. desember á að reyna að gera eins vel og maður getur við sitt leynivinaheimili, t.d senda falleg skilaboð, eitthvert smáræði í pakka og auðvitað að reyna að finna upp á einhverju sem kemur skemmtilega á órvart.  Æskilegt er að gleðja sitt leynivinaheimili a.m.k einu sinni í viku.

Fyrir öllu er að koma í veg fyrir að það uppgötvist hverjir eru að senda hverjum.  Með þessu eflum við samkenndina enn frekar og finnum hve miklu máli það skiptir að fá hlýjar kveðjur og að einhver hugsi til manns. 

Laugardaginn 20. desember 2008 kl. 15:00 fer uppljóstrun leynivina fram í FHP og þar verða skemmtiatriði í anda jólanna sem Leikfélagið mun sjá um.

Vonandi taka allir vel í þetta og reyna að gera vel við sitt leynivinaheimili.

Stjórn LP - Leynivinanefnd LP.

 

Mér var sem sagt úthlutað heimili hér í bæ til að gleðja.  Nú er spurning um hvernig framkvæmdin á að vera og spennandi að glíma við það verkefni, ég tala nú ekki um þannig að heimilisfólkið verði ekki vart við leynivininn.  Til að vel takist til með svona þurfa auðvitað sem allra flestir að vera með því þetta kostar jú fyrirhöfn en hún er örugglega þess virði.

 

Græn slaufa

 

 

 


Jólalagið mitt.

Síðan þetta lag kom út hefur það verið jólalagið mitt.  Sumir hafa helst viljað spandera síðasta eyrnatappasetti ársins þegar lagið fer í spilun fyrir jólin en ekki hún ég, ó nei aldeilis ekki.  Mæli með því að fólk hlusti bara því að þetta myndband er alveg handónýtt.  Svo les ég hér að lagið  er síður en svo að detta upp fyrir hvað vinsældir varðar og ég auðvitað bara ánægð með það.


Árlegur jólabasar á Patreksfirði

Á morgun laugardag verður árlegur jólabasar hér í Félagsheimilinu á Patreksfirði.  Slysavarnardeildin Unnur  hefur um árabil verið með jólabasar sem til fjölda ára var með því sniði að Slysavarnarkonur unnu handavinnu sem þær seldu svo á þessum basar. Þær gera það að vísu enn að ég held,  en fyrirkomulaginu var aðeins breytt og nú eru sölubásar til útleigu og því margir söluaðilar á svæðinu.  Fjölbreytni er mikil og örugglega góð jólastemming í loftinu.

Konur í Kvenfélaginu Sif verða með bás  og selja eitthvað alveg himneskt, heimagert - ferskt og fallegt.

Hér má svo lesa nánar, í auglýsingu um basarinn.

 

Slaufa

 

 

 


Eins og hálfs.

Já þegar það líða vikur eða mánuðir á milli heimsókna til lítillar manneskju sér maður glögglega hversu hratt tíminn líður.  Litla manneskjan breytist, verður frárri á fæti þó alltaf iðandi af kæti, falleg lítil skotta.   Glöð, kát og hörð af sér.   Tjáning í orðum skýrist óðum.  Heilar setningar sem Anna frænka vildi gjarnan hafa skilið betur verða kannski skiljanlegri næst þegar hún  kemur í heimsókn. 

Já leiðin frá því að vera agnarsmá til þess að verða dálítið stór er dálítið skrautleg og  skemmtileg á köflum Smile og afasystur skilja ekki alltaf allt en það kemur Heart

Hér er hún Rakel Sara eins og hálfs árs, myndir teknar með um árs millibili.

Rakel Sara nóv.2008

Rakel Sara des.2007

 


45 ár frá Surtseyjargosi.

Þennan dag  árið 1963 hófst eldgos á hafsbotni suðvestur af Vestmannaeyjum - Surtseyjargosið.  Þar sem áður var 130 metra dýpi varð til eyja sem nefnd var Surtsey.  Gosið stóð með hléum í þrjú og hálft ár, fram í júní 1967 og mun vera með lengri gosum frá upphafi Íslandsbyggðar.  Surtsey var stærst 2,7 ferkílómetrar en hefur minnkað um nær helming.  Þetta kemur fram í bók sem ég skoða stundum og hef áður vitnað í, Dagar Íslands í samantekt Jónasar Ragnarssonar.

Ég er ein af þeim sem kíki af og einstöku sinnum  á skjálftakort Veðurstofunnar og man hvernig það leit út dagana fyrir síðasta skjálfta af stærri gerðinni á Suðurlandi.  Gaman að geta skoðað þetta á svona einfaldan hátt inná www.vedurstofan.is .

Jarðskjálftakort

 

Tíminn flýgur og strax komin helgi - vona að þið eigið notalegt helgarfrí  Smile


Raddir, málfar, málvenja, rithönd.

Margt getur haft áfrif á þessi atriði, þættir eins og genatískir, uppeldislegir, menntunarlegir, landfræðilegir og fl.  Allt þetta verður partur af mótun ákveðinna persónueinkenna.  Það er gaman að spá í rithönd fólks og hvað geti verið  stærstu áhrifavaldar þar.   Kennarar og sú stafagerð  sem er í gangi þegar viðkomandi lærir að skrifa eru alveg örugglega sterkir áhrifaþættir, -  eðlilega. Eins persónulegir hæfileikar. Er viðkomandi listrænn ? Allskonar ávani.   Er viðkomandi sífellt að flýta sér ? Sbr. hina einu sönnu margumtöluðu  læknaskrift. 

Rithönd pabba var mjög falleg, það ber mörgum saman um það.   Bræður hans og fl. á líkum aldri af hans æskuslóðum  hafa svipaða stafagerð og rithönd, það hef ég séð  og þó að persónulegur blær hvers og eins  hafi mótað rithöndina að einhverju leiti getur hún samt talist lík á meðal þessara manna.  Þetta finnst mér eitt sterkasta dæmið sem ég hef séð um hversu mikið kennari og stafagerð ákv. tíma geta ráðið um rithönd fólks.  Kennari pabba var Sigurður Breiðfjörð sem kenndi í Dýrafirði.

Annað sem mér finnst gaman að skoða er málfar og málvenja.   Skemmtileg svæðisbundin einkenni, eins og þau vestfirsku, framburður orða eins og langa, anga og þ.h - , norðlenska harðmælið , og framburður orða  í Skaftafellssýslum og eitthvað víðar á suðausturlandi,  orða sem byrja á HV  - (t.d orðið  HVAÐ )eru borin fram á ákveðinn hátt. 

Svo venur fólk sig auðvitað á allt mögulegt eins og að blóta í sand og ösku, eða notar vinan/vinur, elskan, ástin, eða hvað það nú er  í tíma og ótíma, það að sletta lánsorðum úr erlendum tungumálum í gríð og erg, (hér er ég eingöngu að tala um öfgar í orðnotkun).  Sumum finnst þetta töff - en fer í taugarnar á örðum.  Mjög misjafnt.  Sum tökuorð eins og sjoppa eru orðin partur af íslenskunni og varla á förum úr því sem komið er.  Pizza vil ég endilega að fái bara að vera partur af okkar áskæra ylhýra.  Ég er ekki viss um að það eigi nokkurn tíma eftir að verða almennt að fólk panti flatböku hjá Dominos. 

Svo er nú röddin eitt sterkasta persónueinkenni hvers og eins. Skyldmenni geta haft mjög líka rödd.  Sumir hafa svæfandi rödd, aðrir ótrúlega unglega miðað við aldur.  Þegar einstaklingur heyrir sína eigin rödd í fyrsta skipti t.d af upptöku þá er oftar en ekki hrópað upp "er þetta virkilega ég ?"  Já - sumir hafa heillandi rödd og aðrir ekki.  Sterka - og veika.  Mér detta í hug raddir sumra alþingismanna.  Rétt í þessu var verið að tala við Guðna Ágústsson alþingismann í sjónvarpinu, þar er nú einn með mjög sérstaka og  eftirminnilega rödd.  Já það er stundum gaman að spá aðeins í þessum mjög svo persónulegu þáttum hverrar manneskju - rödd, málfari, málvenju og rithönd.  


Dettur ekkert í hug sem fyrirsögn hér.

Margir á landsbyggðinni fara mjög oft til Reykjavíkur, eru þar beinlínis með annan fótinn ef svo má segja eða skreppa bara suður á Keflavíkurflugvöll til að taka flugið erlendis.  Fullt af fólki á íbúðir fyrir sunnan en kýs að hafa fasta búsetu og atvinnu  á landsbyggðinni þó það rúnti á milli í hluta af sínum frítíma.  Auðvitað bara gaman að skreppa þó ekki sé nema til að kíkja á ættingja og vini. 

Fyrir jólin er alltaf gífurlegur straumur "í bæinn".  Margir að fara í verslunarferðir.  Á margan hátt er það eðlilegt - meira úrval og oft lægra verð þó að það sé nú reyndar misjafnt.   Hér á Patreksfirði og nágrenni má þó fá margt sniðugt ef að er gáð.   Hér er verslun með blóm og gjafavöru,  hannyrðaverslun, lyfssala með allskonar varning þ.m.t  barnaföt, handverksfólk sem er auðvitað  listafólk, bæði í málun, tréskurði, leir,  handavinnulistafólk á felstum sviðum.  Hér eru hárgreiðslustofur, því miður engin snyrtistofa lengur, snyrtifræðingar koma samt af og til. Hér er hægt að fá naglaásetningu og vonandi  bráðum nudd og vaxmeðferð fyrir hendur. Áfengisverslun, matvöruverslanir, veitingastaðir.  Hér er t.d. hlekkur á eina síðu sem sýnir þægilega og nokkuð vinsæla gjafavöru en hjá þessum aðila má fá merkt handklæði og sængurföt, reyndar merkingar á hvað eina.  Sniðugt að hafa aðgengi að svona hér, skora á ykkur að skoða myndirnar.  Við eigum hér eins og áður segir frábært listafólk.  Eggert Björnsson er einn þeirra  en hann heldur úti síðu þar sem sjá má brot af verkum hans í myndaalbúmi síðunnar.  Eggert er hógvær maður, ef hann skyldi nú frétta af birtingu þessa hér þá vona ég að hann misvirði það ekki við mig.  Já það finnst svona sitt lítið af hvoru hér í verslun og þjónustu ef maður "horfir yfir sviðið".  Nú síðustu ár hefur Patreksfjarðarkirkja boðið til tónleika í kirkjunni og fengið að þekkta listamenn.  Ég get nefnt KK og Ellen, Ragnheiði Gröndal og Pál Óskar ásamt Moniku, sem hafa komið á síðustu árum.  Þetta er gott framtak hjá kirkjunnar fólki og hefur vakið almenna ánægju.

Nú er ég búin að fá jólarjúpurnar, óvenju snemma þetta árið og ég neita því ekki að það er aðeins farin að læðast að mér tilhlökkun til jólanna.  Ég er þó ekki ein af þeim sem dett á bólakaf í jólafárið sem mér finnst heldur mikið stundum,  heldur nýt þessa tíma á mínum forsendum.  Notalegur frítími skreyttur fallegum ljósum og kannski smá jólasnjó ef maður er heppin Wink


Það kemur allt með kalda vatninu.

Mín upplifun af þjónustu Símans er á undanförnum árum eins og að horfa á snigil og ég hef stundum eytt of miklu púðri í að láta þetta pirra mig.   Það kom mér verulega á óvart þegar númerið 8007000 stóð á gemsanum mínum í fyrrakvöld.  Hvað skyldu þeir vilja mér  hugsaði ég og svaraði.  Jú, það var verið að bjóða uppá heimsókn tæknimanns til að setja upp myndlykil í þeim tilgangi að efla þjónustuna og með hvaða hætti var útskýrt nákvæmlega fyrir mér af mjög svo kurteisum ungum manni.   Á meðal þessa nýja  var nokkuð sem ég hef fyrir löngu notfært mér  á höfuðborgarsvæðinu en það er sá möguleiki að leigja mynd, sem er nokkuð sem mér finnst frábær þjónusta og eins að geta náð í þætti sem hafa verið sýndir fyrir einhverju síðan til að horfa á. 

Fyrir þó nokkru síðan afréð ég að hringja í 8007000 (sem er auðvitað afrek út af fyrir sig að leggja á sig biðtímans vegna) til að kanna hvenær von væri á þessari þjónustu hingað á suðursvæði Vestfjarða og svarið var "að það yrði nú ekki alveg strax" (Mér leið eins og ég væri á Svalbarða). Símtalið í fyrrakvöld segir mér hinsvegar að þetta sé að gerast fyrr en "ekki alveg strax" og ég er auðvitað ægilega ánægð með það. 

Ég losna líklega við "þjónustusímanspirringinn", vonandi varanlega eftir þetta útspil þeirra.  Já það þarf stundum ekki mikið til að gleðja mann.


Af jurtum

Margir hafa óbilandi trú á lækningarmætti ýmiss annars en þess sem læknirinn skrifar uppá.  Sér í lagi leitar fólk stundum eftir öðru ef ekki finnst lækning með hefðbundnum aðferðum enda bara eðlilegt að leita allra leiða í svoleiðis tilfellum.  Ég þekki til fólks sem hefur fengið bót meina sinna bæði hér heima og eftir að hafa leitað til aðila erlendis sem stunda óhefðbundnar lækningar.  Ég er þó á þeirri skoðun að það sé varhugavert að gleypa við hverju sem er í þeim efnum en þó eðlilegt að skoða málin. 

Guðbjörg amma mín var ein af þeim sem trúði á lækningamátt íslenskra jurta.  Hún notaði Vallhumal, Njóla, Fjallagrös og hugsanlega fleiri jurtir þó að ég muni það ekki, þetta var að ég held mest til heimabrúks.  Svo var það þetta búðarkeypta, ég man eftir rauða þaratöfluboxinu með gulu stöfunum á og  eins eplaediksflöskunni sem var ómissandi.  Ef amma hefði lifað er ég viss um að hún hefði verið hrifin af vörum Aðalbjargar Þorsteinsdóttur í Tálknafirði  sem rekur fyrirtækið Villimey  en Aðalbjörg sérhæfir sig í smyrslum úr Íslenskum jurtum sem hún tínir hér á sunnanverðum Vestfjörðunum.  Eins er kona hér á Patreksfirði Rannveig Haraldsdóttir sem um árabil hefur framleitt olíur til lækninga, sömuleiðis úr Íslensku jurtunum týndum hér á svæðinu.  Hver þekkir svo  ekki lúbínuseiðið sem framleitt er af manni í Kópavogi og  krabbameinssjúklingar hafa verið að taka inn. Aloe vera jurtin er svo heimsfræg og svo mætti lengi telja.

Ég rakst á þessa  síðu þar sem lesa má ýmislegt um hinar ýmsu Íslensku jurtir og hvað þær voru helst taldar lækna, dálítið gaman að skoða þetta.  Notagildi Íslensku jurtanna getur verið heilmikið, t.d eitthvað i krydd og á annan hátt í matargerð.  Systir ömmu gerði víst gott vín úr túnfífli.  Ég veit ekki hvaða hluti fífilsins var nýttur í það, gæti hafa verið blómið.  Uppskriftin er löngu glötuð en ef einhver sem les kannast við þetta vín og á uppskrift má sá hinn sami gjarnan deila henni, nema auðvitað  að hún sé leyndarmál.  Á forsíðu vefs Ámunnar má þó finna uppskrift af berja, rabbabara og fíflavíni, eins undir liðinum leiðbeiningar. 

Hér á Patreksfirði eru miklar Fíflabreiður sem gera fólki oft  lífið leitt.  Það væri kannski  gráupplagt í harðærinu að hefja hér framleiðslu eðalvíns úr jurtinni.  Nei ég segi nú bara svona Cool nóg er af hráefninu.

Túnfífill

Þetta er afslappandi.

Það er gaman að hafa eitthvað á prjónunum og mjög afslappandi að prjóna, reyndar á það við um flesta handavinnu.  Kíkti í sumar í eina smekklegustu garnbúð sem ég hef komið í lengi, Tóbúðina á Tvöreyri( á Suðurey Færeyja).  Allt til alls og smart sýnishornin af prjónuðu hangandi uppi.   Þar féll ég fyrir blaði með Færeyskri hönnun úr garni frá Navia.  Fór út með uppskrift og það sem til þurfti í fallegan kjól.  Því miður er heimasíðan hjá Navia  í vinnslu en ég vona að hún verði fullgerð fyrr en seinna.  Þetta mjúka garn er hægt að fá hér á landi og auðvitað  í garnbúðinni hér á Patró sem er eins og allir vita hálf Færeysk. 

Ekki síður en Íslendingar eru Færeyskar konur miklar handavinnukonur og fræg er peysan sem Sofie Grabröl var í þegar hún lék lögreglukonuna í framhaldsþáttunum Glæpnum sem sýnd  var á RUV.  Sú peysa er að því er ég best veit hönnuð af Guðrún og Guðrún sem er merki Færeyskra kvenna sem hanna og prjóna flotta flíkur.

DSC00484[1]
Manni heyrist prjónaskapur og handverk allskonar verða mjög  "inn" fyrir þessi jól.  Það hefur reyndar lengi verið  þannig svona í bland a.m.k og bara skemmtilegt -  enda handverk allskonar frábær,  persónuleg gjöf.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband