Göngum við í kringum einiberjarunn....

Hefð er orðin fyrir því hér í bæ að Kvenfélagið og Lions bjóði fjölskyldum  á jólaball  í Félagsheimilinu og á því var engin undantekning nú.  Verkaskipting við undirbúning er í nokkuð föstum skorðum, við konurnar sjáum um að leggja á borð, eldum súkkulaði og fleira sem snýr að þeirri deildinni.  Lionsmenn sjá um að koma jólatrénu fyrir í miðjum salnum  og skreyta það og fleira í salnum. 

Nú er gaman að segja frá því að í þetta sinn var tréð ættað héðan úr bænum, nánar tiltekið úr skógræktinni fyrir ofan Sjúkrahúsið en þar var kominn tími til að grisja í þeim myndarlega skógi og upplagt tækifæri að gera það nú.   Það var nú dálítið moj að koma trénu fyrir sem var aðeins of hátt.  En þá deyja menn nú ekki ráðalausir og einn  kattliðugur  fór upp í stiga og sagaði af trénu - málinu reddað. (Mér svona lofthræddri  fannst maðurinn auðvitað  bara algjör ofurhugi).   

Við bárum  út  auglýsingar í hvert hús  -  bæði á íslensku og pólsku þar sem nokkuð er af póslkumælandi fjölskyldum hér.  Bræður skipuðu hljómsveitina sem spilaði á ballinu, ásamt tveimur systrum  sem sungu.   Jólasveinarnir voru auðvitað mættir, níu að tölu.  Sumir mjög stórir og aðrir minna stórir, eins og gengur.  Hressir og kátir karlar eins og vænta má.

Það er alltaf voða upplifelsi hjá smáfólkinu að koma í sínu fínasta pússi  á jólaball, dansa í kringum jólatréð, hitta jólasveinana og fá nammi í poka.   Sérstök stemming alveg,  þó að ekki sé nú  öllum sama um lætin í þessum körlum.   Eftirvæntingarsvipurinn er óborganlegur á andlitum barnanna þegar fréttist af því að þeir séu að koma í hús.  Þá upphefst hamagangurinn, og margir þenja raddböndin eins og þeir lifandi geta.   Það eru alltaf einhverjir sem  halda sig til hlés en aðrir eru æstir í að komast sem næst þeim,  halda fast í stafinn hjá sveinunum og/eða leiða þá í kringum jólatréð.   Á þessum tíma er svo kærkomið að sjá loksins þessi karlagrey sem eru búnir að vera svo góðir að gefa í skóinn marga daga desembermánaðar Smile 

Sem sagt ljómandi vel lukkað jólaball hér eins og alltaf.


Gleðilegt.

Það sýnir sig aldeilis hvað hægt er að gera margt gott ef vilji og dugnaður er fyrir hendi.  Það munar örugglega um minna en þessir tónleikar hafa gefið af sér í gegnum árin.  Bara frábært framtak þetta.


mbl.is Tvær og hálf milljón safnaðist
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jóladagar

Notalegir þessir jóladagar, voðaleg rólegheit svona framan af dögum, myndagláp og blókalestur.  Reyndar bókARlestur hér á bæ.  Fékk eina og er þegar lögst í lestur.  Þykk og mikil - gæti bent til þess að hún dugi lengi en þó ekki miðað við lýsinguna á bakhlið, ef bækur eru góðar er of erfitt að slíta sig frá lestrinum.  Áhugaverð bók þessi og  heitir Dóttir myndasmiðsins. 

Veðrið hefur ekki verið uppá það besta en gæti verið verra, maður má ekki vera síkvartandi yfir því sem enginn ræður við.   Lítill herramaður sem upplifði sín fyrstu jól, brosti sínu blíðasta framan í frænku sína í gærkvöldi og áhrif svona brosa eru mögnuð.   Skemmtilegur dagur framundan, jólaboð fjölskyldunnar.  Hér verður drukkið súkkulaði úr ævagömlu fallegu  súkkulaðibollastelli  ömmu og afa sem eingöngu er notað á jólum.      

Í kvöld ætla ég í langan góðan göngutúr og anda að mér fersku útiloftinu sem er auðvitað bara hollt og gott eftir allan ilm úr súkkulaðipottinum.  Koma við í kirkjugarðinum og krossa yfir leiði ættingjanna.   Mér sérstaklega hugsað til ungs manns, bróðir vinar míns  sem lést á aðfangadag eftir erfiða baráttu við meinið sem því miður hafði betur.  Í fallegum krikjugarðinum okkar er minningarsteinn og þar kveiki ég á  kerti fyrir þennan unga mann sem kvaddi allt of fljótt.

 

 

Jólatréð

 

 

 


Jólahátíðin.

 

Stjarna

Gott fólk - þá er jólahátíðin að ganga í garð og bara örstutt síðan við pökkuðum jólaskrautinu niður síðast.  Sé horft til baka  hefur  margt drifið á daga okkar, bæði í lífi og starfi  á einu ári, eins og gengur. Lífið er fullt af óvæntum uppákomum sem við getum oftast nýtt okkur á skemmtilegan og uppbyggilegan hátt.  Sumu ráðum við alls ekki yfir sem viðrist óyfirstíganlegt vandamál að glíma við en þá hjálpar að hafa jákvætt hugarfar og ákveðið æðruleysi að leiðarljósi.  Það ástand sem nú ríkir í þjóðfélaginu verður verkefni næstu missera að glíma við og svo sannarlega veitir okkur ekki af að bretta upp ermar, snúa bökum saman og hvað eina til að ná sigri.  En við erum sterk, dugleg og kjarkmikil Íslendingar og höfum eflst við hverja raun. 

Í kringum hátíðir sem þessa  ber mikið á hinni mannlegu samkennd, við verðum eitthvað svo áþreifanlega vör við ójöfnuðinn á meðal fólks.  Það eiga allir að vera svo glaðir, hressir, eignast þetta og hitt -  en því miður eru margir þannig staddir sökum veikinda og fátæktar að það er bara ekki í boði.  Margvíslega hjálp er mögulegt að fá  en það eru  ekki næstum allir sem hafa möguleika á að nýta sér framboðna aðstoð.   

Okkur ber skylda til að líta til þeirra sem eiga um sárt að binda,- hjálpa ef við mögulega getum.  Hugleiða og þakka fyrir það sem við höfum en er ekki sjálfgefið. 

Ég hugsa til þeirra sem standa í þeirri baráttu að  finna lausn á þeim gífurlega vanda sem við okkur þjóðinni blasir.  Í mínum huga er enginn öfundsverður af því streði.  Óska þessu fólki bara velfarnaðar og vona að þeim takist ætlunarverk sitt sem ég reikna með að sé vinna unnin af heilindum.

Ég óska ykkur gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.  Bloggvinum sendi ég sérstakar jólakveðjur og vona að hinn andlegi seimur verði ykkur ríkulegur á nýju ári og fylli hinn lifandi brunn sem birtist svo  í frjóum og skemmtilegum skrifum okkur hinum til ánægju.

Farin í jólafrí Kissing Njótið jólahátíðarinnar.

 

 


Skötuveisla

Það er eftirvænting í loftinu, hin árlega skötuveisla fjölskyldunnar framundan, haldin eins og alltaf, á heimili móður minnar.  Skemmtileg áralöng hefð - ilmurinn af skötunni fyllir vitin og bragðið ómótstæðilega gott.  Skatan er borin fram með mörfloti, kartöflum og rúgbrauði.  Mörgum finnst skatan best sem kæstust en þarna segi ég nú að allt sé best í hófi - þó vil ég alveg  hafa hana í sterkari kantinum.    Á Þorláksmessu kippir sér enginn upp við skötulykt af fólki, síður en svo - hún er hvort er eð nokkuð fljót að hverfa.  Annar fiskur er soðinn fyrir allra mestu gikkina sem enn hafa ekki treyst sér í skötuátið.  Þannig að það er ekki svo að ekki sé fullt tillit tekið til allra í partýinu.

En sem sagt - flottur dagur á morgun - skötuilmur, rjúpnahantering, jólaskreytingar og fleira gott.

Eigið notalegan Þorláksmessudag,  þið sem nennið að kíkja hingað inn Smile

 


Góðir

Þegar ég leitaði að laginu fyrir síðustu  færslu rakst ég á þessa snilld.


Rausnarlegt boð.

Það er ekki á hverjum degi sem hingað kemur þekkt listafólk.  En Patreksfjarðarkirkja hefur undanfarin nokkur ár boðið uppá tónleika einhvers þekkts listafólks fyrir jólin.  Fyrirtæki hér í bæ styrkja kirkjuna við að gera þetta boð að veruleika.  Ég fór sem sagt í kirkjuna í síðustu viku og hlustaði á söngvarann Pál Rósinkrans.  Hann var mættur með píanóleikarann og Gospelkórstjórnandann flinka, Óskar Einarsson.  Rafmagnsleysi varð til þess að tónleikunum seinkaði örlítið en hélst svo inni eftir það.  Þeir félagar buðu uppá fjölbreytt lagaval.  Skemmtilegir og líflegir tónleikar á meðan úti geysaði stormurinn.  Mér fannst hann taka þetta lag, Blues lagið Hoochie, Coochie Man á flottan hátt og af mikilli innlifun.    Já maður þakkar auðvitað bara fyrir svona uppákomur sem krydda bæjarlífið svo um munar.


Fallegur desemberdagur.

Í gær var einstaklega fallegt veður hér á Vestfjörðum.  Ég tók  daginn snemma og fór til Ísafjarðar.  Við lögðum snemma í'ann og má segja að litbrigðasamspil himins og jarðar hafi verið einstakt í morgunbirtunni.  Á Dynjandisheiðinni gleymdi maður allri hálkuhræðslu og við blöstu fögur fjöllin sem bar við pastellitann himinn.  Þegar farið var af Hrafnseyrarheiði niður í Dýrafjörðinn var hvítur máninn á milli fjallanna að mér fannst upp af Ingjaldssandi - mitt í bleikum litnum.   Já einstök fegurð. 

Á Ísafirði iðaði allt af lífi - fólk í jólaverslun og að njóta góða veðursins.

Á heimleiðinni var komið myrkur - sama veðurblíðan og fullt tunglið varpaði sérstakri birtunni um allt.  Þegar leið lá  af Gemlufallsheiði niður í Dýrafjörðinn blasti þorpið Þingeyri við okkur - fallegt að sjá að kvöldlagi eins og ævinlega.  Við ferðalangarnir, bæði  með mjög sterkar taugar til Dýrafjarðar höfðum orð á hvað þetta væri nú búsældarlegur og fallegur fjörður.  Vantar sko ekkert uppá það.    Á Dynjandisheiðinni var svo klakaklamminn yfir öllu og stirndi á ískristalla í tunglskininu.   Fín ferð og skemmtileg tilbreyting.

Guðmundur Viðar með Skugga
Guðmundur Viðar með hvolpinn Skugga.  Mynd tekin á Dynjandisheiði.

 

 


11.12.1983

Fyrir rúmum  25 árum síðan var ég í hinum mestu rólegheitum að stússast heima hjá mér og taldi mánuðinn verða eins og hvern annan þannig lagað séð.  Átti að eignast barn 8.  janúar og hlakkaði auðvitað mikið til.  Einhver undirbúningur var farinn að eiga sér stað bara svona eins og að viða að sér taubleyjum og fatnaði fyrir litla barnið.  En atburðarásin varð ekki eins og ég reiknaði með heldur var ég flutt til Reykjavíkur í sjúkravél og hafði verið á Landspítalanum  í viku þegar frumburðurinn leit dagsins ljós þ. 11. desember.  Ég eignaðist heilbrigðan og fallegan son sem vó heilar 12 merkur þrátt fyrir að birtast mánuði fyrir tímann  - sem ég held að teljist nokkuð.   Við komum svo heim þ. 18. desember og gátum aldeilis haldið jólin gleðileg í faðmi fjölskyldunnar.     

Á þessu ári 1983 vorum við nokkrar jafnöldrur fæddar hér á Patreksfirði sem áttum stráka.  Skemmtileg tilviljun og  þeir allir fæddir á síðustu þremur mánuðum ársins.

Góður dagur og til hamingju elsku Guðmundur Viðar minn Heart

Í kvöld mun svo  Páll Rósinkrans syngja í Patreksfjarðarkirkju og ég hlakka til að mæta þar og hlusta á eina af flottustu karlasöngröddum landsins.

 


Í aðdraganda jóla

Það er aldrei eins mikið að gera eins og í desember.  Á hverju ári heyrist tal um að í byrjun desember sé nú best að sem flest við undirbúning jólanna sé frá svo að það sé hægt að njóta alls þess sem boðið er uppá í mánuðinum.  Kannski tekst einhverjum að vera svo skipulögðum að geta bara dúllast í desember.  Þetta er ekki svona hjá mér og ég hef enga trú á að það breytist úr þessu.  Það örlaði á jólastressi í gær en það nær ekki að skjóta rótum sem betur fer.  Mér hefur tekist að halda jólin hátíðleg hingað til og svo verður líka í ár.  Fór að baka og það er nú aldeilis róandi Smile 

Hér í mínum litla góða bæ er heilmargt í boði nú í desember.  Leynivinaleikurinn sem ég tala um í síðustu færslu stendur sem hæst og virðist vera að lukkast vel.  Sumir hjálpast að við að koma sendingum til leynivina og það eru heilmiklar pælingar í kringum þetta mál.  Bara gaman að þessu.  Karlakórinn Vestri hélt tónleika í kirkjunni í gær.  Nýstofnaður og ótrúlega góður.  Kvenfélagið hélt sitt árvissa matarbingó en allur ágóði þess rennur í sjóð sem félagið úthlutar úr til að létta undir með einstaklingum hér í bæ.   Löng hefð fyrir þessu bingói og aðsóknin góð, vinningarnir flottir matarpakkar sem er ekki slæmt að fá svona rétt fyrir jólin. 

Kl. 17:00 í dag er svo aðventukvöldið í kirkjunni.  Þar verður kórsöngur og fl. - alltaf hátíðleg stund.  Í næstu viku hittast kvenfélagskonur og baka laufabrauð - laufabrauð eru ómissandi alveg með hangikjötinu.   Félög og vinnustaðir með uppákomur -  já alveg heilmikið að gerast í des. hér á Patró eins og víðast hvar.

Annars er veruleg bloggleti á ferðinni þessa dagana enda um nóg annað að hugsa. 

Egið notalega daga framundan Smile

Gul slaufa
 

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.