Gagnleg síða.

Nýkomin úr ræktinni ákvað ég að kíkja á vef EAS.  Mjög flottur og aðgengilegur vefur.   Þarna er liður sem heitir "þjálfunarvideó".  Alveg bráðsniðugt og hægt að sjá nokkrar æfingar, hvernig á að framkvæma þær og á hvaða vöðva þær virka. Skemmtilega uppsettar skýringar.  Mér sem hálfgerðum viðvaningi finnst gott að geta kíkt þarna inn og áttað mig vel á hvaða æfingar henta.  Best væri líklega að hafa einkaþjálfara en þetta hjálpar  og virkar hvetjandi á mig.  Örugglega margir í sömu stöðu og ég þ.e langa til að ná árangri en finna fyrir óöryggi með að koma sér af stað gætu haft gaman af að skoða þetta. 

Hreyfing færir manni vellíðan, engin ný sannindi þar Smile

 


Undir sömu sól.

Ég fékk þessa óstjórnlegu löngun til að tjá mig um fegurð skýjafarsins.  Núna þegar þetta er skrifað er himininn einstaklega fallega blár, gráhvít skýin sem verða bleik við jaðrana af birtu sólarinnar sem er rétt handan fjarðarins að manni finnst.  Já það er alltaf svo notalegt þegar daginn fer að lengja aðeins.  Hvert tímabil og árstíð hefur svo sem sinn sjarma.   Það  er ekki farið að sjá almennilega til sólar hérna hjá okkur þó að tíminn sé kominn  - en styttist í þá sjón. 

Það er því miður ekki allt jafnfallegt og notalegt í henni veröld og löngun til að tjá sig um fegurð skýjanna er lituð hugsunninni um árásir í ókunnu landi.

Verulega dapurlegt að hlusta á hryllingsfréttir  og hugsa til þess að undir þessum sama himni og sömu sól sé fólk stráfellt  án þess að nokkur virðist geta brugðist nógu hratt við,  til að stöðva blóðsúthellingar.

Vonandi linnir þessum óhugnaði á Gazaströnd sem fyrst.

 


Áhrifarík pennastrik.

Hún verður sífellt erfiðari varnarbarátta fólks í litlum bæjum úti á landi.  Þegar niðurskurðarhnífurinn fer á loft virðist  engu eirt.  Lítil pennastrik verða risastór og áhrifarík.  Tákna breytingar og vanefndir löngu gefinna og endalaust frestaðra loforða. 

Nýjasta dæmi þess sem kemur beint við okkur í minni sýslu er sameingin Heilbrigðisstofnanna.  Áður hafa t.d lögregluembætti þessara svæða verið sameinuð.  Samgöngumálin á milli þessara sameinuðu svæða eru náttúrulega  í algjörri steypu eins og flestir gera sér nú grein fyrir.

Á dögunum var meira að segja verið að fjalla um peningaleysi til snjómoksturs á Hrafnseyrarheiði og mér fannst sá sem talað var við í fréttum komast vel að orði. Þessi maður hafði boðist til að borga kostnað við moksturinn þar sem hann á hagsmuna að gæta með samskiptum frá Ísafirði þar sem hann býr og hingað suðureftir.   Hann talar um að við eigum nú skilið að fá að hafa opið hér á milli aðeins lengur en snjómokstursdagar segi  til um og sér í lagi þegar haustið sé nú  farið að ná fram í janúar.  Við sem höfum nú keyrt þessar kattargarnir í rúm fimmtíu ár.   Mér fannst þetta frábærlega orðað hjá honum og segja það sem segja þarf um málið.  

Í þessari grein á bb.is má lesa mótmæli bæjaryfirvalda á nýjasta sparnaðargjörninginn og þar er minnst á fleira þessu tengt.   Ein launuð staða, hvort sem það er sýslufulltrúi, lögreglumaður, heilbrigðisstarfsmaður, bankamaður, já hvað sem er, hefur margfeldisáhrif - á bak við eina stöðu er mjög líklega fjölskylda með börn í skóla.  Í litlu bæjarfélagi hefur allt svona gífurleg áhrif.  Það munar svo sannarlega um alla.     


Allt í stíl !

Hér er ekkert verið að tvínóna við hlutina,  - ég á ekki orð frekar en margur en auðvitað þarf einhver nauðsynlega að láta vel valin orð heyrast.  Vona að þetta verði ekki samþykkt þegjandi og hljóðalaust. Það er eitt af öðru saxað af okkur, ekki hægt og bítandi heldur virðist það eiga að gerast hratt og örugglega.
mbl.is Heilbrigðisstofnanir sameinast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skrýtnar áherslur.

Á dögunum sá ég blað frá Vegagerðinni.  Þetta er fréttabréf sem er gefið út reglulega og er síðan á síðasta ári.  Í blaðinu voru myndir af framkvæmdum sem unnið hefur verið  að á árinu 2008.  Þarna sést mjög vel á  mynd hvernig verið er að vinna að vegtengingu norðursvæðis Vestfjarða og út af Vestfjarðakjálkanum.  Séu þessar framkvæmdir hugsaðar til aukinna samskipta innan Vestfjarðakjálkans og þá á milli Ísafjarðar og Barðastrandarsýslna, þá hef ég nákvæmlega enga trú á að það skili sér á þann veg gagvart hinum almenna íbúa.  Í mesta lagi að starfsmenn einhverra stofnana sem hafa verið (og verða hugsanlega) sameinaðar njóti þess á sínum ferðum að aka aðeins styttri leið þegar Hrafnseyrar og Dynjandisheiðar eru lokaðar. 

Þegar talað er um að efla Vestfirðina þá vildi ég gjarnan sjá okkur öll sem eina heild en farartálminn er jú heiðarnar hér að vestanverðu, því finnst mér þessi mynd sýna á mjög skýran hátt kolrangar áherslur í vegagerð á Vestfjörðum til fjölda ára.  Það skal tekið fram sem fyrr að göng til Bolungarvíkur eru undanskilin þessu áliti mínu þar sem ég er mjög svo hlynnt þeirri framkvæmd.

Hér fyrir neðan sést umrædd mynd Vegagerðarinnar (smellið til að stækka) en sé hún ekki nógu skýr má skoða hana hér  undir liðnum Framkvæmdir á Norðvestursvæði.

 

Mynd frá Vegagerðinni

 

 


Tilraunastarfssemi.

Á þorláksmessu borðum við Vestfirðingar skötu og finnst flestum herramannsmatur eins og reyndar æ fleiri landsmönnum.  Skötuveislur eru  haldnar um allt land og það bara hið besta mál. Því miður er lyktin sterk en á móti kemur að bragðið er svo gott.   Margir finna hjá sér gífurlega þörf fyrir að hnýta aðeins í okkur fyrir matarvenjur okkar, sem eru þó ekkert svo mikið skrýtnari en annarra.   Ég las t.d þennan  pistil um venjur Vestfirðinga en kannast ekki við þetta sem maðurinn lýsir þarna fyrir utan skötuna.  Fyrstu viðbrögð mín voru pirringur en svo rjátlaðist hann nú af mér, óþarfi að vera með einhverja viðkvæmni þó að manni úr Vestmannaeyjum hafi ekki líkað matur í húsi hér Vestur á fjörðum, lít á þetta sem grín.   Það má þó alveg segja að við séum engir gikkir Vestfirðingar.  Aðeins að öðru en skötunni, nefnilega refakjötsáti, sem hefur nú örugglega byrjað sem  tilraunastarfssemi og djók.  Hér í bæ er samfélag hinna mestu prakkara, skemmtilegur hópur sem kallar sig "Pottormana" . Það er hópur fólks sem hittist í  sundlaugarpottunum og hafa blásið til ýmissa uppákoma í gegnum tíðina.   Þau prófuðu fyrir mörgum árum að elda refasteik og það var heilmikið grín í kringum þetta uppátæki, heilu bálkarnir ortir og efniviðurinn notaður t.d. á þorrablótum.  Einhverjir pottormanna létu gera fyrir sig forláta refaskinnshúfur, alveg í myndarlegri kantinum.   

Nú var ég að lesa þetta blogg.  Ég hef nú talið mig þokkalega fordómalitla hingað til en ég veit hvað þyrfti að gerast  til að ég fengi mér  bita af ref.  Lýsingin er athyglisverð á eldamennskunni.  Ég las allavega og hafði bara gaman af - það er alveg hægt að segja að það sé allt til undir sólinni þegar kemur að gourmet eldamennsku svo mikið er víst Sick 


Jólakortin

Á hverju ári berast okkur fullt af jólakveðjum í kortaformi.  Ég opna mín í rólegheitum á aðfangadagskvöld og finnst það sérlega notalegt.  Jólakortin hafa alltaf verið eitt af því fyrsta sem ég afgreiði fyrir jólin þó að undantekningar hafi verið örfáar á þeirri reglu á nærri 30 árum.

Ég held spes bókhald yfir kortamálin með aðstoð forláta þar til gerðar bókar sem fæst hjá Kvenfélagasambandi Íslands og kostar skid og ingenting en endist í fjölda ára og gerir mikið gagn. Ég tek engan séns á að kortin varðveitist ár frá ári en geymi vel öll spes kort þ.m.t myndakort.  Bókina hef ég notað  síðan 1994 og sé ekki ástæðu til að breyta því enda komið upp í vana, fljótlegt og þægilegt.

 

Jólakortabókin

 

 

Frímerktum umslögum  utan af kortunum þarf alls ekki að henda og tilurð þessarar færslu minnar var nú eiginlega lestur bloggfærslu Mörtu Helgadóttur sem bendir á hvað má gera við umslögin utan af kortunum.  Umslögin má sem sagt senda til SÍK, Grensásvegi 7, 108 Reykjavík.  En það er heimilisfang Kristniboðssambandsins.  Læt ykkur um að lesa allt um þetta í færslu Mörtu.  Mín umslög hafa endrum og eins ratað þangað í gegnum tíðina með aðstoð fyrrum samstarfsmanns.   Hvet ykkur sem viljið láta gott af ykkur leiða til að gera þetta.  Jólakortabókina má svo nálgast hjá Kvenfélagasambandinu  s. 5527430

 

 


Síðasti dagur ársins 2008.

Ég hef aldrei bloggað áður á síðasta degi ársins, er nú frekar hugmyndasnauð. Hér er  enginn ofurannáll á ferðinni, hvað þá mergjuð spá um það sem koma skal.  Læt Völvu Vikunnar það eftir,  - landann þyrstir í spána,  sala  blaðsins virðist í hæstu hæðum þessa daganna, heyrist manni,  Völvunnar vegna. 

Þessi síðasti fjórðungur ársins hefur heldur betur  verið okkur Íslendingum  skrautlegur.  Skrýtið ástand og upplifun svo ekki sé meira sagt.  Hvað skyldu áramótaheitin fela í sér  hjá þeim sem þau strengja ?   Hugsanlega falla þau  í skugga áramótabæna.  Bæna  um að fólki takist að komast í gegnum þær þrengingar sem fyrirsjáanlegar eru og  margir eru jafnvel löngu farnir að upplifa.  Fyrir liggur að botninum sé ekki náð, gífurlegt atvinnuleysi og erfiðleikar því samfara  eru  þegar  óumflýjanleg staðreynd.   

Í einni lítilli bloggfærslu rúmast ekki allt sem mér býr í brjósti gagnvart því sem á daga okkar hefur drifið á árinu.  Ég sem var að sleppa orðinu um að ég væri frekar hugmyndasnauð.  Það hefur svo sem aldrei verið ætlun mín að tjá mig djúpt um eitt eða neitt á þessum vettvangi.  Margt hefur vissulega verið gott og skemmtilegt á árinu - bæði hjá mér og öðrum - ekkert alslæmt þetta ár, síður en svo.  

Ég strengi engin áramótaheit -  heldur er ég örugglega ein af þeim sem leggst á bæn um að okkur farnist vel sem þjóð, ég trúi því reyndar staðfastlega að okkur takist að að endurheimta virðingu og traust.  Við erum svo hörkuduglegt fólk og kunnum að snúa bökum saman Íslendingar.   Ég hef á tilfinningunni að árið 2009 og yfirleitt nánasta framtíð geti verið stútfull af spennandi tækifærum.  Af því að ég ber hag míns bæjarfélags sérstaklega fyrir brjósti, hætti ég  auðvitað aldrei að vona að orðið fólksfækkun verði sjaldgæfara orð  í umfjöllun um málefni þess, -  að við fáum tækifæri og berum gæfu til að nýta þau.    Ég er raunsæ en um leið  bjartsýn að eðlilsfari og hef stundum á tilfinnningunni að næsti dagur verði ævintýri líkastur, það sakar alls ekkert að hugsa þannig.   

Ég á mér einlægan draum sem ég held  iðulega í minni bjartsýni  að  sé um það bil að rætast  Smile.    Hugsanlega ER  draumurinn bara  að rætast á hverjum degi,  það má líka líta þannig á málin,  að  þessar þrengingar séu partur af honum, þrengingar geta verið lærdómsríkar og þroskandi komist fólk heilt frá þeim.  Í kverinu  "Spámanninum"  segir m.a  að þjáningin sé leið til frelsis.  Líklega heilmikið  til í því. 

Hjálpsemi og  umburðarlyndi, þolinmæði og  nægjusemi,  eljusemi og þrautsegja, frumkvæði, bjartsýni og þor - allt nauðsynlegt að hafa í farteskinu inn í nýja árið - megi okkur þjóðinni farnast vel Heart 

Ég fékk á dögunum sent  þetta  fallega ljóð eftir Kristján frá Djúpalæk.  Það heitir "Mitt faðirvor".  Ágætt að birta það hér og nú.    Ég óska þeim sem nenna að  lesa þetta blogg mitt,  gæfuríks og gleðilegs árs, þakka þeim sem ég þekki allt hið liðna. (Kíktu endilega á myndirnar sem ég vísa á fyrir neðan ljóðið).

 

Ef öndvert allt þér gengur

og undan halla fer,

skal sókn í huga hafin,

og hún mun bjarga þér.

Við getum eigin ævi

í óska farveg leitt,

og vaxið hverjum vanda,

sé vilja beitt.

 

Þar einn leit naktar auðnir,

sér annar blómaskrúð.

Það verður, sem þú væntir,

það vex, sem að er hlúð.

Því rækta rósir vona

í reit þíns hjarta skalt,

og búast við því besta

þó blási kalt.

 

Þó örlög öllum væru

á ókunn bókfell skráð,

það næst úr nornahöndum

sem nógu heitt er þráð.

Ég endurtek í anda

Þrjú orð við hvert mitt spor:

Fegurð, gleði, friður-

mitt faðirvor.

 

Ég vil benda á einstaklega fallegar vetrarmyndir úr Vesturbyggð á vef bæjarfélagsins, teknar af forseta bæjarstjórnar Úlfari Thoroddsen.  Hvet ykkur til að smella á myndirnar til að stækka og skoða betur.

HÉR er slóðin.

 


Svona er þetta bara !

Þetta er nákvæmlega það sem við  Vestfirðingar búum við enn þann dag í dag,  hálfri öld eftir að sæmilega ökufær vegur var gerður hér á milli Suður og Norðursvæðis.   Svona frétt fær mér til að líða eins og fífli með síðustu færslu mína - að vera yfirleitt að halda og vona að jarðgöng verði að veruleika í nánustu framtíð !!  En ég ætla mér samt ekki að hætta að trúa því að ástandið eigi eftir að breytast, þá er eins gott að setja tærnar uppí loft.  Eins og ég hef margoft sagt þá hefur maður skilning á því að ekki sé verið að moka þegar hættuástand er og leiðinda veður í aðsigi en þegar það eru hlýindi og fyrirstaðan lítil þá er þetta illskiljanlegt.   Mér var sagt að Orkubú Vestfjarða hefði látið opna Hrafnseyrarheiðina í gær, þeir hafa líklegast gert það á sinn kostnað.

Hætt þessu röfli í bili, -  njótið dagsins Halo

  


Maður má ekki missa vonina.

Ég held í vonina - aldrei að gefast upp.  Hér er það nýjasta sem ég veit af þessu máli.  Mér finnst þetta skipta Vestfirðina miklu máli og kvika ekki frá þeirri skoðun minni.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.