Sumar, sól og sund.

Ég var að sleppa orðinu um bloggletina sem er að læðast að mér.  Ekki kannski beint bloggleti heldur er maður bara að gera eitthvað allt annað heldur en að setjast niður með tölvuna.  En svo langar mann að kíkja á fréttir og fl. þá skutlar maður einhverju smávegis hér inn. 

Hér á Patreksfirði er mikil veðurblíða, sól og hiti, já sumardagur eins og hann gerist bestur.  Ég skrapp í sund og lá í sólbaði í vaðlauginni og naut góða veðursins.  Ætlaði aldrei að hafa mig uppúr, þetta er svo notalegt.

Í blaðinu 24 stundir í gær er fjallað um sniðuga VEFSÍÐU þar sem hægt er að sjá sundlaugar á landinu.  Þessi síða er gagnvirk og er  lokaverkefni Hollendings sem var að útskrifast úr Margmiðlunarskólanum, skemmtileg hugmynd hjá honum.    Ég kíkti á síðuna og sé að það á eftir að skrá margar sundlaugar þarna inn þ.m.t laugina hér á Patró sem er algjörlega frábær eins og ég hef margoft nefnt.  Gott að geta skoðað síðuna ef fólk vill hafa staðsetningu sundlauga með í ferðaplaninu Grin .

Vona að hægt verði að sjá flottar myndir af lauginni okkar þarna áður en langt um líður.

Hafið það notalegt um helgina og farið gætilega í umferðinni Kissing


Föstudagur 4. júlí

Fátt  er betra en að vakna í svona brakandi blíðu en  heldur síðra að þurfa  vera inni í dag í góða veðrinu. Það er þó  huggun harmi gegn að það er föstudagu og áreiðanlega góð helgi framundan.

Sumarfríslöngunin farin að gera vart við sig en það styttist óðum í fjögurra vikna frí Cool 

Af því að það er nú hægt að finna gamalt og nýtt á Youtube þá fann ég  Foreigner, - góðir !

Eigið svo góðan föstudag  þið sem kíkið hingað inn Kissing


Strictly come dancing.

Datt niður í að horfa á þátt úr þáttaröð með þessu nafni sem verið er að sýna á BBC Prime.  Þetta eru breskir þættir um pör sem keppa í ballroom dönsum. Annar aðili parsins er einhver þekktur einstaklingur og hinn er vanur dansari sem stýrir þjálfun beggja.   Þessi keppni er útsláttarkeppni og stendur eitt parið uppi sem sigurvegari. Það er gaman að sjá hversu misjafnt fólk er og eins hversu miklar framfarir verða í dansinum.  Umgjörð þáttanna er glæsileg eins og ég held að sé nú oftast með danskeppnir í ballroom dönsum.  Kynnirinn er einhver gamall frægur og glettinn "refur" sem getur verið þrælfyndinn á köflum, eins er músíkin þokkaleg.  Sem sagt ágætt sjónvarpsefni þarna á ferð.  

Hingað á Patró hafa í gegnum tíðina komið danskennarar einu sinni á vetri og verið með nokkurra tíma prógramm.  Það var nú ekki lítið spennandi hér í denn þegar Harpa og Svanhildur voru að koma frá Dansskóla Heiðars Ástvalds og kenna okkur danssporin.  Ég er staðföst í þeirri trú að dans og söngur sé eitthvað sem krökkum er hollt að læra frá blautu barnsbeini.  Held að það agi þau og efli félagslega fyrir utan auðvitað gleðina sem þessu fylgir.   - Seinna þegar ég fór í skóla til RVK fór ég svo á námskeið í danskólanum  hjá Heiðari en þá var diskóið uppá sitt allra besta.  Vá hvað þetta var frábær tími Cool 

Einhverntíma var verið að rifja upp dans hérna í stofunni sem var kallaður bömp -  og þóttist maður nú engu hafa gleymt í honum,  en ......almáttugur......einhverjir aðeins yngri báðu mann bara vel að lifa - , þannig að kannski hefur kunnáttan aðeins verið farin að dofna þrátt fyrir kattliðugheitin W00t  að mínu áliti allavegaBlush.

- Og nú hvarflar hugurinn enn aftur í tímann þegar "Switched on Swing" var sett á fóninn  heimilisfólk á ýmsum  aldri dansaði af lífsins list og húsið  nötraði af fjöri W00t Blessuð sé minning Pioneer græjunnar og þessarar plötu sem hvílir við hlið platna  með   Boy Georges, Fleetwood Mac, Billy Joel, Donnu Summer  og fl.  í kassa á loftinu.

Stjörnuspá nautsins segir í dag:  Þú ert rólegur og staðfastur.  Eldfjöll og vekjaraklukkur bregða þér ekki. En í dag gætirðu hins vegar fengið skyndilegt og mikið reiðikast.

Reiðikast í dag.........hæpið úr þessu,  not my stile anyway Grin

 


Krútt

Maniac

Nafnapælingar.

Margir krakkar eru á einhverjum tímapunkti óánægðir með nafnið sitt.  Ég þekki unga dömu sem heitir tveim nöfnum, fallegum og góðum sem má finna um víða veröld í svipaðri mynd.  Helst vill hún láta fella annað nafnið út.  Hún er svo ung að hún jafnar sig vonandi á þessari óánægju með nafnið.  Ég kannast svo sem  mæta vel við svona pælingar sjálf því að ég var hund óánægð með mitt nafn um tíma sem krakki, þá var draumurinn að heita Birgitta FootinMouth  Held að óánægjan með nafnið mitt, Anna hafi nú aðeins tengst því hversu mikið  mér leiddist ákveðið uppnefni sem flestar Önnur fá að heyra Blush   Þessi óánægja eltist nú fljótt af mér og í dag líður mér auðvitað verulega vel með að bera nafnið Anna.    Í bókinni nöfn Íslendinga segir m.a  um þetta nafn:

" Dæmi eru um nafnið hérlendis frá því á 15. öld.  Það kemur fyrir í nafnatali séra Odds á Reynivöllum frá 1646.  Árið 1989 var það þriðja algengasta kvenmannsnafn á landinu, borið af rúmlega 4100 konum sem einnefni eða fyrra nafn af tveimur og 670 konum sem síðara nafn.  Árið 1910 var Anna sjötta algengasta kvenmannsnafn á landinu en það var í fjórða sæti árið 1982.  Nafnið hefur verið notað í Danmörku frá því á 12. öld, í Svíþjóð frá 13.öld og í Noregi frá 14.öld.  Einnig er nafnið notað í ensku- og þýskumælandi löndum, Frakklandi, Ítalíu og víðar.  Nafnið er talið hebreskt að uppruna Channa og  merkja náð." (Tilvitnun lýkur).

Í fréttablaðinu í dag er viðtal við Patreksfirðinginn og bekkjarsystur mína Ingdísi sem hefur þar til nýlega ein kvenna á landinu borið sitt nafn.   Nú er það ömmubarnið hennar sem ber það líka. Barasta fallegt nafn og þeirra einkaeign Grin En þetta viðtal í blaðinu varð tilefni þessa bloggs míns. 

Nafnið manns er svo stór hluti af manni sjálfum að það hlýtur að vera erfitt að bera nafn sem veldur þeim sem ber það miklum langvarandi sálarkvölum. Þá er ekkert að því að gera breytingar á því fyrst sá möguleiki er fyrir hendi.  En það er örugglega betra að íhuga það vel áður en það er gert.

Íslenska sumarið.

30. júní.

Heilmargt  hefur gerst þennan dag auðvitað,  m.a atburðir tíundaðir í annálum  sem tengjast mínum heimahögum og nágrenni.

1579 Ránið í Bæ á Rauðasandi.  Erlendir hvalveiðimenn rændu Eggerti Hannessyni sýslumanni og höfðu hann í haldi þar til þeir fengu lausnargjald.

1856 Napóleon prins, bróðursonur Napóleons keisara Frakka, kom til Reykjavíkur með herskipi ásamt fríðu föruneyti. Hann fór síðar til Dýrafjarðar en þar höfðu Frakkar óskað eftir aðstöðu til fiskiðju og verslunar.

En svo var það árið 1954 að almyrkvi varð á sólu og sást hann best við suðurströndina. Myrkur féll yfir landið í nokkrar mínútur og stjörnur skinu á himni.  Þetta var fyrsti almyrkvinn hér á landi í meira en heila öld.  Næsta almyrkva má vænta þ. 12. ágúst árið 2026 á vesturströndinni.

Ofangreint er úr bókinni Dagar Íslands sem sýnir atburði úr sögu og samtíð alla daga ársins.

Svo er það nú þannig að þessi dagsetning ýtir alltaf aðeins við mér  því að á þessum degi á sú sem ég get kallað mína fyrstu eiginlegu vinkonu frá æskuárum afmæli.  Leiðir skyldu eins og gengur og við eignuðumst aðrar "bestu vinkonur".  Hún fær allavega hamingjuóskir hér með þó að ég telji nú ólíklegt að hún sé að lesa hér.  

Það vill svo til að ég á ennþá gömlu minningabókina mína sem var til siðs að skólasystkini og kennarar skrifuðu í.  Þessa bók sá ég akkúrat í kvöld, var að blaða í henni og mundi þá eftir afmælisbarninu.    Hér má sjá flotta teikningu úr þessari minningabók  sem teiknuð var af Jóni Þ. Eggertssyni, listamanni sem var skólastjóri hér á Patreksfirði á fyrstu skólaárum mínum.  Líklega hefur þessi mynd í bókinni gert það að verkum að ég hef varðveitt hana betur en ella, ég skal ekki segja.  Birti hana sum sé hér til gamans.

Patreksfjörður teikning eftir Jón Þ. Eggertsson

Smellið á myndina til að stækka Smile

 


Bragðlaukakitl

Hluta gærdagsins eyddi ég  í að gera ljúffengt chilimauk - ótrúlega gaman að gera þetta. 

Chilimauk

Ég hef aldrei verið afkastamikil sultugerðarkona en þegar maður dettur niður á góða uppskrift prufar maður hana.  Fann á dögunum uppskrift að rabbabaramauki með engifer og sítrónu, sem ég ætla að gera í vikunni.

Ef þið viljið deila góðri  uppskrift af mauki   með appelsínum, rabbabara , eplum, sítrónum eða öðru  í  þá þygg ég alveg Smile 

april30@simnet.is

 


Gönguhátíð í júlí.

Dagana 24.-27. júlí verður  skemmtileg hátíð í Vesturbyggð sem heitir Svartfuglinn og er gönguhátíð.  Það má segja að hún sé sé sannkallað  konfekt fyrir líkama og sál.  Á heimasíðu hátíðarinnar  mun dagskráin birtast innan tíðar, en upplýsingar um gististaði  og fl.  eru nú þegar til staðar.

Fegurð Vestfjarða er mikil eins og alþjóð veit og hér á suðurfjörðum Vestfjarðakjálkans er perlan Látrabjarg og heilmargt annað sem magnað er að skoða.  Mér sem íbúa hér á svæðinu er að sjálfsögðu mikið í mun að landsmenn geri sér ferð á Vestfirðina.  Ég veit að margir hafa aldrei komið á svæðið og hvet það  fólk til að leggja land undir fót.  Endilega skoðið heimasíður gististaðanna á síðu gönguhátíðarinnar , margar mjög fallegar myndir af svæðinu þar.  Gríðarlega flottar myndir t.d. á þessari .

 

 


Þetta kallar á nöldur.

Yfir sumartímann sleppur enginn við að hlusta á hljóð í sláttuvélum og sláttuorfum en almáttugur minn, óþarfi auðvitað að ræsa tryllitækin að  nóttu til.  

Fyrir margt löngu var ég á tjaldstæðinu á Laugum í Sælingsdal.  þetta var í miðri viku og kl. 10:00 var sláttuorfið sett í gang, ekki að spyrja að dugnaðinum í fólkinu.  Þetta kaffærði auðvitað hverja hrotu þarna á tjaldstæðinu  og kom fólkinu bara á fætur. Stefnan tekin heim á leið, reyndar örlítið fyrr að deginum en ella.  Algjör óþarfi að lúra frameftir á virkum degi á tjaldstæðum sem annarsstaðar, sláttufólk þarf jú að vinna vinnuna sína eins og aðrir Halo .

Ég þekki ekkert inná framfarir í hönnun sláttuorfa en stundum hugsar maður um það hvort ekki sé til nánast hljóðlaus græja í þeirri deildinni.  Sé það ekki yrði nú einhver efnaður sem fynndi lausn hávaðamengunar þessara tækja.

En stundum tekst manni að leiða þennan "endalausa" hávaða frá sér og njóta bara ilmsins af nýslegnu.  Ef í hart fer má jú  alltaf tölta í apótek og kaupa sér eyrnatappa sem kosta skid og ingenting Cool

Æi.......maður á ekki að eyða púðri í svona nöll á fallegum sumardegi Crying og föstudegi í þokkabót.....dásamleg helgin framundan - njótið vel Grin


mbl.is Garðsláttur á ókristilegum tíma
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mótorhjól, - alltaf eitthvað svo töff.

Mótorhjólaeign hefur verið að aukast síðustu ár, það held ég að fari ekkert á milli mála.  Fólk á miðjum aldri er mikið að fá sér hjól og það er alltaf gaman þegar fólk lætur draumana rætast á hvaða aldri sem  sem það nú er.  Örugglega gaman að ferðast um á hjóli .  Hérna í den var draumurinn að fá sér 50 cc en nú dygði það aldeilis ekki.  - Hér á Patró hefur mótorhjólaeign aukist eins og annarsstaðar og hér er starfandi mótorhjólaklúbbur sem hægt er að skoða nánar hér.   Mér finnst þetta þrælflott hjá þeim.

Rebel
Þetta er smart ,  - Honda Rebel.

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.