Skemmtilegar fréttir

Mér finnst gaman að sjá svona fréttir eins og þá sem birtist í dag  á www.bb.is og sagði frá að gráhegri hefði sést við Dýrafjarðarbrúna á dögunum. Eins og segir í fréttinni þá er alltaf eitthvað um að Gráhegrar hafi hér vetursetu en hann er útbreiddur varpfugl í Evrópu.

Þessi  fallega mynd er fengin af vefnum www.fuglar.is ljósmyndari er Ómar Runólfsson.

Gráhegri

 

Jaðrakan er annar fallegur fugl sem sést oft hér á Vestfjörðum og eitthvað hefur verið um að þeir hafi verið merktir og bb.is hefur birt fréttir af ferðum þeirra.  Hér er t.d ein  fréttfrá árinu 2006 sem segir af unga sem merktur var í Bolungarvík en sást svo á ferð í Afríku. Eins segir af ferðum Jaðrakansins Stínu sem sást við Holt í Önundarfirði og svo aftur á Írlandi.  Já svona fréttir eru skemmtileg blanda í fréttaflóruna.

Þessi, ekki síður fallega mynd er sömuleiðis fengin af www.fuglar.is ljósmyndari er Þorgils Sigurðsson, ég hvet áhugasama til að skoða þann vef en þar eru ýmsar upplýsingar og mjög svo fallegar myndir.

Jaðrakan

Alveg ROYAL

Ég var að skoða uppskriftasafnið hennar móður minnar á dögunum og þar með uppskriftaskúffuna. Í skúffunni er handskrifuð uppskriftabók sem er  er skrifuð þegar eigandinn var á Húsmæðraskólanum á Laugum í Þingeyjarsýslu hér í denn.  Í uppskriftaskúffunni kennir margra grasa umfram bókina góðu.  Sniðugir pésar og laus blöð.  Þarna er t.a.m. bæklingur sem eftir útlitinu að dæma hefur verið gefinn út þegar Royal vörurnar voru að koma á markað hér og þá örugglega lyftiduftið því að það er tiltekið að Royal lyftiduft skuli notað í hverja uppskrift.  Þessi bæklingur er farinn að láta á sjá af mikilli notkun  en mun verða færður í varanlegra horf við fyrsta tækifæri. Eðalfínar uppskriftir þarna að finna.  Ég rakst á uppskrift af skonsum sem hafa oft verið bakaðar í gegnum tíðina og eins og allir vita eru volgar skonsur með osti bara sælgæti.  Skonsurnar má svo auðvitað borða með hvaða áleggi sem er og nota þær í brauðtertur,  þá 3 kökur í hverja tertu. En hér kemur uppskriftin góða -  ROYAL skonsur:

250 gr. hveiti

4,5 tsk ROYAL lyftiduft Smile

1 tsk (sléttfull) salt

2 msk (sléttfullar) sykur

40 gr. smjörlíki

2,5 dl. mjólk

2 stk egg.

  Blandið þurrefnunum saman þá eggjum og bræddu smjörlíkinu.  Þynnið með mjólkinni og bakið við MJÖG VÆGAN hita á pönnukökupönnu. ( Passið að hræra ekki lengi þá verða kökurnar seigar).

Mér finnst þægilegt að hvolfa þessu svo yfir á aðra pönnu og klára baksturinn þannig.  Þetta eru svona 3-4 kökur þessi uppskrift en ég var að baka hana tvöfalda og það voru 8 kökur. 

 

Skonsur.


Má bjóða þér svartfugl ?

Ég sagði já takk.  Veiðimenn komu færandi hendi. Þeir fóru nokkrir á sjóinn og náðu í svartfugl sem mörgum finnst góður matur þar á meðal mér.  Hann verður matreiddur á sem bestan hátt.  Hér á árum áður var ekkert verið að fínisera svartfuglseldun, hann var bara steiktur og soðinn frekar lengi, varð fyrir bragðið í þurrari kantinum en oftast ágætur samt með kartöflum og brúnni sósu.  Svo var farið að elda hann á skemmtilegri hátt og léttari, þá bringurnar einar og sér.  Ég rakst á þessa uppskrift:

Bringur af 4 fuglum.

olía til steikingar

salt og pipar

Sósan:

4 hl. púrtvín

1,5 dl. svartfulgssoð

2 dl. rjómi

2 msk af frosnum rifsberjum

Bringurnar eru steiktar í 4 mín á hvorri hlið.  Teknar af pönnunni og haldið heitum. Púrtvíninu hellt á pönnuna og steikarskófin leyst upp og soðið í 4 mín.  Rjómanum og svartfuglssoðinu bætt í og soðið áfram í 2 mín.  Þá er berjunum bætt í og soðið í 1 mín.  Bragðbætt með kryddinu.

Sósunni er svo hellt á diska og bringurnar lagðar ofan á, annað hvort heilar eða fallega skáskornar.

-----------

Það fylgir ekki uppskriftinni hvaða meðlæti ætti að nota en ég held að hjá mér verði það blandað grænmeti og kartöflur. Fyrir löngu síðan eldaði ég svartfugl á svipaðan hátt en í stað rifsberjanna og púrtvínsins notaði ég bláber og það kom vel út.  Einfalt og bragðgott.

---------

Mig dreymdi draum í nótt sem varð tilefni þessara svartfuglsbloggs.  Í ritsafni Gunnars Gunnarssonar er að finna söguna Svartfugl og eru söguslóðirnar nánast hér við bæjardyrnar hjá mér.  Sömuleiðis er gönguhátíðin Svartfugl hér á hverju sumri.  Draumurinn snerist þó ekki beint um svartfuglinn heldur var ég að stödd í gamalli verslun hér á staðnum (nú Apótekið) sem í draumnum var sérhæfð sem  verslun með sérstakan  ferðamannavarning af öllu tagi, að stórum hluta eftir fólk  hér á svæðinu.  Það var brjálað að gera og rútur fullar af ferðafólki um allt og allt iðaði af lífi.  Í gær var ég að lesa frétt um að Vestnorden ferðaráðstefnan væri framundan og ferðaþjónustuaðilar hvattir til að koma sínu á framfæri.   Ég vil nú helst kenna þeim lestri og pælingum í kjölfarið um drauminn þó að ég sé nú ekkert í ferðamálabransanum Tounge 

 


Á meðan ég bíð

eftir "gestunum" mínum elda ég og hlusta á músík.  Flott þessi rödd.


Aðeins að tjá mig.

Það er hart að ljósmæður skuli þurfa að grípa til verkfallsaðgerða og þ.m.t uppsagna. Skil vel óróleika verðandi og nýorðinna foreldra v/ástandsins.  Nú fylgist ég aðeins betur með en ella og vona svo sannarlega að deilan leysist sem fyrst, svona gengur þetta ekki til lengdar það sér hver lifandi maður. 


mbl.is Nýbakaðar mæður finna mjög fyrir álaginu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dagurinn 11. september

er merkisdagur fyrir margra hluta sakir.  Dagsetningin 11. september er á heimsvísu minnistæð eins og við vitum öll.  Svo maður líti sér nær verður þessi dagur alltaf  stórmerkur í veröld minnar fjölskyldu og það á jákvæðan hátt.  Dagur sem er partur af tilvist fjölskyldunnar.  Já (og nú kem ég mér að efninu) Wink dagurinn er nefnilega  fæðingardagur móður minnar.  Árið 1938 leit hún dagsins ljós, næst yngsta barn sinna foreldra.  Hún fæddist  í húsinu við Aðalstræti 33 hér í bæ.  Í litlu fallegu húsi sem stendur rétt ofan við bíóhúsið Skjaldborg.  Þetta litla hús lætur ekki mikið yfir sér þrátt fyrir að afi minn hafi byggt við það til að hafa sæmilegt rými um sína sex manna fjölskyldu.  Það er bara lítið á nútíma mælikvarða.   Þetta litla hús geymir stóra sögu og líflega, sögu ömmu og afa, barnahópsins, þeirra afkomenda og fleira fólks.   Allan sinn búskap bjuggu þau á sama stað, í þessu litla húsi við Aðalstræti 33. 

Allt sem tengist húsinu er í minningu minni baðað sérstökum ljóma.

En þessi færsla mín átti  upphaflega ekki að verða um æskuheimili móður minnar heldur ekki síðri efnivið bloggfærslunnar, nefnilega hana sjálfa.

Já í dag eru sem sagt  sjötíu ár síðan hún móðir mín fæddist og fögnum við því að sjálfsögðu með henni fjölskylda og vinir. 

Hún telst frekar hæglát kona hún Hrönn,  ósérhlífin, nægjusöm, hjartahlý, gestrisin og útsjónarsöm að ég tali nú ekki um forkur í öllu föndri og handavinnu.  Ég get hlaðið hana lofi en hef ekki alltaf gert það Blush  Okkur samdi ekki á ákveðnu tímabili eins og vill nú gerast á bestu bæjum. Enda vandfundin alveg 100 % hnökralaus samskipti hjá fólki svona almennt. Þegar maður eldist, þroskast og fer að hafa vit á því sem skiptir máli í lífinu þá áttar maður sig betur á hve lánsamur maður er og kann betur að meta ýmislegt.   Mín móðir hefur alltaf verið til staðar bæði fyrir mig og aðra.   Barnabörnin hafa laðast að ömmu sinni og ekki síður afa á meðan hans naut við.  Krakkarnir hafa  fengið; lesið fyrir sig, sungið fyrir sig,  eldað fyrir sig, dansað við sig, gert við tásugöt á sokkum fyrir sig, vettlinga á sig, nebbum snýtt,  allur pakkinn afgreiddur af ástúð og hlýju.  Já listinn gæti verið margfalt  lengri.  

Nú er þessi sjötuga kona nýkomin heim úr ferðalagi um sunnanverða Evrópu og það má segja að s.l þrjú ár hafi hún ásamt "heldri" borgurum héðan lagt Evrópu að fótum sér.  Þar er hún að láta gamlan draum rætast, hefur ekki ferðast út fyrir landsteinana að heita má fyrr en þessi síðari ár.  Henni mun vonandi auðnast  heilsa og kraftur til frekari ferðalaga en þau eru hennar líf og yndi. 

Ég er nú ekki viss um að afmælisbarnið sjötuga lesi þetta en mér finnst  bara tilheyra á þessum degi  að tileinka henni eins og eina færslu í þessu bloggbrölti mínu.  Manneskjan sem er ekki gefin fyrir lofræður af þessu tagi mun hugsanlega verða ómöguleg frétti hún af þessu en mér fannst bara í svo góðu lagi að monta mig aðeins af henni. 

Að lokum til hamingju með daginn mamma mín og takk fyrir allt.

Svo er það hitt afmælisbarnið í fjölskyldunni - Regína Hrönn, þú færð að sjálfsögðu líka þínar hamingjuóskir í tilefni dagsins ykkar ömmu þinnar. Gangi þér allt í haginn mín kæra.

Rauðar rósir

 


"Autumn leaves"

Í framhaldi lesturs athugasemdar við eina af síðustu færslum sem ég gerði fór ég að leita til gamans að þessu lagi.  Ljúft lag og flutningur Evu Cassidy einkar fallegur.

 

 


Kirkukór Patreksfjarðarkirkju er góður.

Ég telst nú ekki sérlega kirkjurækin manneskja en nú á tiltölulega stuttum tíma hef ég farið í tvær athafnir hér í Patreksfjarðarkirkju og hlýtt á söng kirkjukórsins.  Í þorpum af þessari stærðargráðu eru oft frekar  fámennir kirkjukórar.  Því verður skarð í kórnum þegar fólk fer í sumarfrí eins og eðlilegt er. Í fyrri athöfninni sem ég fór í var kórinn ekki fullmannaður en allt gekk mjög vel þrátt fyrir það.  Þá sungu m.a fjórir karlmenn fallegan sálm sem mér virtist nú ekki sérlega auðveldur en þeir gerðu þetta vel. Fjöldi söngradda táknar auðvitað ekki alltaf gæði en óneitanlega meiri styrk og fyllingu vil ég meina án þess að vera spesíalisti í söng.   Nú á föstudaginn var fór ég svo í aðra athöfn og hvergi bar skugga á söng kórsins.   Söngur þessa sálms við texta Davíðs Stefánssonar var fallegur.  Hér er eitt af erindunum:

Ég fell að fótum þínum,

og faðma lífsins tré.

Með innri augum mínum 

og undur mikil sé.

Þú stýrir vorsins veldi

og verndar hverja rós.

Frá þínum ástareldi

fá allir heimar ljós. 

Já kirkjukórinn hér í Patreksfjarðarkirkju er bara virkilega góður kór það verður ekkert annað sagt og þegar fjölskyldur þurfa að nýta sér þjónustu kirkjunnar er ómetanlegt að hafa aðgengi að góðum söng sem sunginn er í sjálfboðnu starfi.  Það ber að þakka það sem vel er gert og það getum við óhikað gert.


Breiður tónlistarsmekkur.

Hérna fann ég annan dúett og mér finnst þau nú ágæt sitt í hvoru lagi en líka ágæt saman og þetta lag er alltaf voða ljúft.


Tveir gamlir og góðir.

Þegar ég sá að þessir tveir höfðu sungið saman varð ég forvitin og hlustaði.

Mér finnst þetta nú eiginlega dálítið spes.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband