Nú árið er liðið...

Það gerist margt á einu ári en það er rétt ár síðan síðast var skrifaður stafur á þessa síðu.  Einn viðburður er mér efstur í huga á þessu ári sem liðið er.  Fyrsta ömmubarnið kom í heiminn og með því hófst nýr kafli í lífinu að bera þann heiðurstitil. Heilbrigður og fallegur drengur er mitt fyrsta ömmubarn. 

 

Lestrarstund

 

 


Ys og þys

Það má svo sannarlega segja að það sé ys og þys í þorpinu.  Sjómannadagurinn framundan og allar hendur á lofti við undirbúning.     Þessi Sjómannadagshelgi verður í engu frábrugðin þeim fyrri, hingað kemur mikið af fólki  og gist er  í hverju skoti enda er þetta fyrir löngu orðin okkar bæjarhátíð. Svoleiðis hátíðir laða eðlilega  margt fólkið að sér enda mikið húllumhæ . 

Nú verður nýjung í uppákomuflórunni.   Þorpinu hefur  verið skipt upp í Geirseyri og Vatneyri(eins og reyndar er gert) og  fær hvor eyrin sinn litinn.  Geirseyrin bláan og Vatneyrin rauðan.  Bæjarbúar skreyta sjálfa sig og sitt umhverfi á sem frumlegastan hátt og með þeim lit sem tilheyrir þeirra bústað.  Hvor bæjarhlutinn um sig fer svo í skrúðgöngu og hittist á Friðþjófstorgi þar sem uppákomur verða frá báðum.  Það verður spennandi að sjá útkomuna og hvernig þetta fellur í kramið.  Margir eru áhugasamir og hugmyndaflugið fær örugglega að njóta sín.  Annað það helsta á döfinni er að íbúar tveggja gatna  bjóða í súpu og kaffi, það er markaður, músík, sýningar af ýmsum toga og fleira má nefna sem boðið er uppá þessa helgina að ógleymdum dansleikjum þrjú kvöld í röð.  Kaffihlaðborð Kvenfélagskvenna er svo á sjálfan Sjómannadaginn þar sem veisluborðið svignar af kaffimeðlæti að hætti félagskvenna.

Á vefnum  www.patreksfjordur.is  má sjá dagskrána í heild sinni.

Stutt er síðan Skjaldborgarhátíðin var og tókst hún sérlega vel og allir ánægðir að mér heyrist.  Veðrið spilaði stóra rullu hátíðisdagana, það var eins og best verður á kosið á þessum árstíma.  Það var gaman að rölta í bíó hvenær sem manni sýndist og veislur voru fyrir gesti og gangandi á tveim stöðum í bænum.  

Nú ekki má gleyma kosningunum á síðustu helgi sem enduðu þannig að skipt var um meirihluta hér í bæ.  Ég veit að fólk á eftir að snúa bökum saman og vinna að hag bæjarbúa enda auðvitað ekkert annað í stöðunni.  Æ háværari raddir heyrast um að velja eigi fólk en ekki flokka í bæjarpólitík og ég get ekki annað heyrt en að flestir skilji það sjónarmið, kannski kemur að því í framtíðinni, aldrei að vita.

Já það hefur mikið verið um að vera hér í þorpinu.  Unnið er af krafti í höfninni  og iðnaðarmenn víða að störfum fyrir íbúana við að lagfæra húsnæði, ég man ekki eftir annarri eins  framkvæmdagleði í mörg ár og er þetta auðvitað bara hið besta mál. Kannski finnst mér þetta bara eitthvað meira áberandi en áður, ég skal ekki segja.

Það er svo sannarlega ys og þys um allt.  Eftir helgina pústar fólk líklega aðeins en svo heldur hver á vit sinna sumarævintýra eins og gengur.

 

Horft af Sandodda

 

 

 


Rafmagnsleysi

heyrir nú næstum sögunni til að verði skyndilega á björtu vorkvöldi.  Þó gerist það  einstsöku sinnum enn þann dag í dag og akkúrat í kvöld gerðist það að rafmagn fór af  í stilltu og fallegu veðrinu.  Reyndar í frekar stuttan tíma.   Veit svo sem ekkert hvað olli, orsakirnar fyrir útslætti eru  ýmsar eins og lesa má um hér á vef Orkubús Vestfjarða þar sem t.d í eitt sinnið var að  fugl, nánar tiltekið Hrafn sem  flaug  á, líklega einhverskonar víravirki með þeim afleiðingum að tilteknum línum sló út og blessaður Hrafninn lifði auðvitað  ekki stundinni lengur.

Að hafa rafmagnið í lagi þykir manni svo sjálfsagður hlutur að það gætir stundum pirrings þegar það fer.  Einstöku sinnum skemmir það tæki, sér í lagi ef það verður viðvarandi spennufall.  Það er nú sem betur fer mjög sjaldgæft að ég held og yfirleitt að það verði teljandi óþægindi v/rafmangsleysis.

Þegar rafmagnið fór í kvöld  hafði ég rétt lokið við að pikka inn heilmikinn texta hér í bloggfærslu en láðist að vista hann.  Hann hvarf því algjörlega og því verður ekki af því að sú færsla birtist þar sem ég er ekki með hana á takteinum lengur.  Þar minntist ég þó á að  dag var mér færð óvænt og skemmtileg gjöf.  Gjöfin er ljóðabókin "Kvöldganga með fuglum" eftir Matthías Johannessen.  Á næstu dögum læðist reyndar formlega á mig hærri aldurstala samkvæmt þjóðskrá en gjöfin tengist þeim tímamótum ekki á nokkurn hátt þar sem viðkomandi var þegar búinn að gefa mér fyrirfram gjöf af því tilefni.  (ég er nefnilega fordekruð alveg).  Bókin hefur m.a að geyma ljóðið Frétt og það skrifa ég hér með inn í annað skiptið og vona að rafmagnið tolli á meðan.  

 

Tjaldurinn er mættur,

nú mildast veður aftur

jafnvel maðkurinn hlakkar til

að sólin taki völdin

og veröldin hún breytist

og bregði lit á kvöldin

og vetrarskuggar flökti ekki

eins og feigðarnótt við þil, 

nú hverfur allur kvíði

og kolsvört nóttin víkur

fyrir deginum og sólin

hún sér nú loksins aftur 

handa sinna skil.

 

Og landið það er fagurt

með lauf sem fagnar því

að aprílgolur heilsa

með hvítum sólaryl

og lóan viðrar vængina

og vekur enn á ný

sitt vor með dírrindí,

nú kveikir blærinn aftur

sína kvíðalausu veröld

og vekur vatnamý

en það er líkt og lítið

langþráð spor

sé stígið inní útsaum guðs,

 

þetta yndislega vor.

 

 

Já fallegt ekki satt ?  Hann er smekkmaður á gjafir hann sonur minn Heart


Laugardagur

Suddaveður á þessum laugardegi  og eftir góðan  göngutúr er gott að hvíla lúin bein.

 

Skuggi

 

 


Tónlistarveisla

Eins og veðrið var nú brjálað hér í gær, það sást um tíma vart á milli húsa framan af degi,  þá er dagurinn í dag algjör andstæða - alveg magnað þetta veðurfar á landinu bláa.  Í dag er sem sagt sól og nánast logn, sá snjór sem kom í þessu skoti bráðnar hratt og vorið  sest á ný að í hugum okkar og sál.

Nóg um veðrið.

Nú í apríl verður svo sannarlega tónlistarveisla hjá okkur hér á sunnanverðum Vestfjörðunum.  Á laugardaginn kemur munu krakkar héðan keppa fyrir hönd Framhaldsskóla Snæfellsbæjar í Söngkeppni framhaldsskólanna sem fram fer á Akureyri.  Lagið sem þau flytja er frumsamið af Magna Smárasyni og textann samdi Una Hlín Sveinsdóttir sem jafnframt syngur lagið.  Þau tvö ásamt krökkum úr hljómsveit héðan urðu hlutskörpust í vali á fulltrúum skólans í samkeppni sem haldin var í Grundarfirði fyrir skömmu.  Að sjálfssögðu verður fylgst með  sjónvarpinu á laugardaginn.  Ég er verulega stolt af krökkunum og óska þeim að sjálfssögðu alls hins besta.

Laugardaginn 24. apríl verða tónleikar á vegum Karlakórsins Vestra í Félagsheimilinu hér á Patreksfirði.   Það verður enginn annar en Kristján Jóhannsson stórsöngvari sem verður aðalnúmer tónleikanna. Fjölmargt verður á efnisskránni  og t.a.m syngja Kristján  og  Mariola Kowalczyk  dúett.  Mariola er söngstjóri Karlakórsins Vestra og Kvennakórsins Bjarkanna en báðir kórarnir koma fram á tónleikunum.  Það verður því svo sannarlega tónlistin  sem setur svip sinn á aprílmánuð hér í bæjarfélaginu og nágrenni.  Haldist veður gott er auðvitað vandalaust fyrir þá sem búa aðeins fjær að bregða undir sig betri fætinum og skjótast á flotta  tónleika á Patró Smile

Ítarlegar er sagt frá tónleikunum á www.patreksfjordur.is

 

 


Skjaldborg - hátíð íslenskra heimildamynda.

Ég sá á fréttavefnum patreksfjordur.is að nú er að hefjast kynning á fjórðu heimildamyndahátíðinni sem kennd er við bíóhúsið Skjaldborg hér í bæ.   Mér finnst ekki leiðinlegt að sjá góðar kvikmyndir og finnst ég komast í sannkallaða bíóveislu meðan á  hátíðinni stendur.  

Á heimasíðu hátíðarinnar má fylgjast með og þegar nær dregur verða myndir eflaust kynntar til sögunnar.

 


Af hátíðahöldum.

Ég skrapp í bókasafnið á dögunum sem er síður en svo í frásögur færandi.  Þær bækur sem ég kom út með voru fjölbreytt lesefni og  þar á meðal hefti af  Árbók Barðastrandarsýslu þar sem sagt er frá því helsta á árunum 1968 - 1974 sem gerðist hér í sýslum austur og vestur. 

Í gærkvöldi  las ég í heftinu frásögn Sr. Þórarins Þór fyrrum sóknarprests okkar Patreksfirðinga af undirbúningi og hátíðarhöldum  Vestfirðinga í Vatnsfirði árið 1974 í tilefni af  ellefu  alda búsetu í landinu. Valið var í fimm nefndir úr öllum sýslum á Vestfjarðakjálkanum. Nefndirnar komu saman í Flókalundi í Vatnsfirði í  júlí árið 1973 þar sem ákveðið var að sameinast um eina allsherjar Landnámshátíð í Vatnsfirði sumarið 1974. Kosin var framkvæmdanefnd sem skipuð var einum fulltrúa úr hverri héraðsnefnd.  Nefndina skipuðu:  Formaður, Marías Þ. Guðmundsson,  forstjóri frá Ísafirði,  varaform. Sr.Þórarinn Þór prófastur  á  Patreksfirði, ritari Bergur Torfason bóndi á Felli í Dýrafirði, gjaldkeri Kristmundur  Hannesson skólastjóri í Reykjanesi við Ísafjarðardjúp og meðstj. Sr. Andrés Ólafsson prestur á Hólmavík.  Á fundinum réði nefndin framkvæmdastjóra, Pál Ágústsson kennara á Patreksfirði.

Nefndin átti mikið verk fyrir höndum þar sem að mörgu þurfti að hyggja s.s að huga að dagskrá,  útbúa hátíðarsvæðið, lagningu vegaslóða, rafmagns, vatns og salernismálum og skipulagningu allri.  Tæknifræðingur úr Reykjavík var fenginn til að teikna upp hátíðarsvæði og gera kostnaðaráætlun.   Hátíðahöldin áttu að fara fram í Vatnsfirðinum töluvert fyrir innan Flókalund.  Strax var ákveðið að hátíðin skyldi mótast verulega af því að Hrafnaflóki sem gaf landinu nafn bjó fyrsta vetur sinn í Vatnsfirði. Dagskráin átti að standa samfleytt í tvo daga. 

Vatnsfjörðurinn innanverður,  var hentugt svæði til hátíðahaldanna þar sem þar er mjög vel aflokað frá náttúrunnar hendi.  Innakstur á svæðið var svo hafður á einum stað við Vatnsfjarðarvatn þar sem útbúið var  hlið,  skreytt landvætti  Vestfirðingafjórðungs, skjaldarmerkjum sýslnanna og merki Ísafjarðarkaupstaðar.  Með því að hafa inngöngu á svæðið á einum stað mátti auðvelda   leit lögreglu að áfengi en nefndin var einhuga í að hafa hátíðina áfengislausa.  Þegar komið var inná svæðið mátti sjá fánaborg Íslenskra fána og sýslufána.  Lögreglan hafði aðsetur sitt í vegavinnuskúr og  þar var stjórnstöð mótsins til húsa.   Tjaldstæði voru afmörkuð fyrir sýslurnar, kaupstaðinn og aðkomumenn, brottflutta Vestfirðinga og gesti.  Brýr voru yfir ána að hverju tjaldstæði sem svo var auðkennt  með skjaldarmerki hverrar sýslu.  Útbúnar voru sölubúðir s.s frá Ungmennafélögunum og pósthús var á staðnum og þar fáanlegt m.m sér frímerki og stimpill. Danspallar voru að sjálfssögðu á svæðinu þar sem hljómsveitir spiluðu.  Saminn var fornmannaþáttur af Hirti Hjálmarssyni skólastjóra á Flateyri,  búningar voru fengnir frá Þjóðleikhúsinu en aðrir búnir til af Guðrúnu Magnúsdóttur á Patreksfirði með aðstoð Ingibjargar Þór.  Víkingaskip var útbúið á grunni annars báts, Gunnar Guðmundsson frá Skjaldvararfossi smíðaði eftir teikningu Þorbergs Ólafssonar frá Bátalóni.   Tónlistarflutningur var í kringum formnannaþáttinn og hljómsveitir á dansleikjum s.s B.G og Ingibjörg frá Ísafirði.  Erlendir gestir mættu m.a frá  Noregi og úr byggðum Vestur Íslendinga í Kanada. Minnisvarði um Hrafnaflóka stendur í Flókalundi og var afhjúpaður viku fyrir hátíðahöld af Guðmundi J. Einarssyni bónda á Brjánslæk.  Ávörp og ræður voru fluttar en aðalræðuna flutti Sr. Þórarinn Þór.  

Já það væri í rauninni gaman að birta þessa frásögn Sr. Þórarins í heild sinni en það get ég að sjálfssögðu ekki gert hér, heldur stikla bara á stóru.  Þegar hátíðin var haldin var ég 12 ára gömul.  Ég mætti að sjálfssögðu með mínu fólki  og er hátíðin mjög minnistæð eins og líklega flestum.  Fyrst og fremst er það veðrið sem var sérlega gott, sól og blíða með tilheyrandi gleði mýflugna.  Víkingaskipið kom siglandi með fornmennina og vakti mikla athygli.  Fólksmergðin, danspallarnir, tónlist og leikþættir,  tjaldstæðin og skjaldarmerkin, að gista í tjaldi og hvað  mér fannst langt á klósettin :-), fjarvera pabba en hann var í lögregluliðinu, áin og lækjarsprænur, ilmurinn af gróðrinum í dalnum.  Þetta er svona það helsta sem flögrar um minn huga sem minning um þessa hátíð.

Nú þegar ég hef  lesið  frásögn Sr. Þórarins í fyrsta sinn sé ég auðvitað svart á hvítu hversu gríðarlegt stórvirki þetta hefur verið að undirbúa og halda þessa hátíð.  Hversu margir hafa lagt ómælda vinnu í að hún mætti takast sem best, þar hefur fjöldinn allur af góðu fólki úr hinum ýmsu starfsstéttum lagt sig fram.  

Vatnsfjörðurinn, afar fallegt svæði,  var lýstur sem friðland árið 1975 og t.d má lesa nokkuð um hann hér.

 

 


Á Patreksdegi.

Í dag höldum við Patreksfirðingar uppá Patreksdaginn, nokkuð sem við höfum gert í mörg ár.  Frá 12.-17.mars hafa verið  í gangi tilboð hjá ýmsum þjónustuaðilum í tilefni þessa  og í dag kl. 18:00 verður svo  skemmtun í Félagsheimilinu.  Dagskráin hljóðar uppá kórsöng, ljóðalestur og upplestur á erindi um Patreksdaginn.   Gestum verður  boðið uppá kaffi og konfekt á meðan þeir njóta dagskrárinnar.  Hér á svæðinu eru bæði Karlakórinn Vestri og Kvennakórinn Bjarkirnar sem syngja  í dag.  Já talandi um kórana, þá dettur mér sönglífið hér í hug og þá aðrir tónlistariðkendur.   Við eigum bráðefnilega unglinga hér á svæðinuSmile.  Eins og margir vita er hér rekin framhaldsdeild, hluti af Framhaldsskólanum á Snæfellsnesi í Grundarfirði og fyrir nokkru síðan unnu krakkar í hljómsveit  héðan samkeppni í Grundarfirði um þá sem verða fulltrúar skólans í Söngvakeppni framhaldsskóla, sem verður á Akureyri nú í vor.  Það skemmtilega er að lag og texti eru frumsamin af hljómsveitarmeðlimum.  Lagið eftir Magna Smárason annan gítarleikara bandsins  og textinn eftir söngkonuna Unu Hlín Sveinsdóttur. Svo ég nefni aðra í hljómsveitinni eru það Alex gítarleikari, Halldór Ernir á bassa og Sindri (systursonurHeart minn)á trommur.  Um þennan árangur krakkanna hef ég ekki séð stafkrók á fréttamiðlum hér og þykir miður, annað eins finnst mér  nú oft skrifað um.  Vonandi verður eitthvað fjallað um málið  þegar að söngvakeppninni sjálfri kemur.  

 

Aðeins að öðru.  Það er blessað bloggið og breytingarnar  á því.  Stundum finnst mér óþarfi að breyta því sem er í fínu  lagi með en það er greinilega eitthvað sem vakir fyrir Moggafólki.   Hvað það er, vitum við sem bloggum alls ekkert um.  Tilkynningar komu stundum hér áður og fyrr til okkar sem bloggum um hvað væri nýtt í gangi en svo er ekki í þetta sinn.  Nú er,  eins og nokkrir hafa bloggað um t.d  ekki lengur hægt að smella á flipann BLOGG á forsíðu mbl.is, heldur er kominn appelsínugulur kassi vinstra megin á forsíðu.   Sé maður staddur inná bloggsíðu er ekki hægt að smella beint á mbl.is eins og áður var.  Mér finnst eins og að rammi með  vísun í þessa tvo  bloggarar sem róteraðist  á forsíðunni hafi færst neðar. Já og bloggarar sem ekki eru áskrifendur geta ekki tengt blogg við fréttir og því sjá lesendur ekki skoðanaskipti sem mögulega hafa spunnist í kringum þær.  Það er greinilega verið að laga mikið til á mbl.is  og það er eitthvað sem bloggurum virðist bara ekki koma neitt við.  Síðastliðið haust hurfu margir af blogginu, hvort sem það var út af nafnabirtingu bloggara (ef þeir tengdu við fréttir mbl.is) og/eða ráðningu nýs ritstjóra.  Allavega fannst mér heimur bloggara á mbl.is varla verða  svipur hjá sjón í haust en svo virtist hafa ræst eitthvað úr,  enda er þetta mjög aðgengilegt kerfi og þægilegt, margir frábærir pennar að blogga.  Mér finnst bloggið oft áhugavert, fræðandi og skemmtilegt, vonandi laskast það ekki mikið við þessar miklu breytingar sem mér finnst ganga yfir þessa dagana.

Gott í bili og  njótið  Patreksdagsins Smile

 


Stutt saga en hún nægir.

Fyrir nokkru var lesin fyrir mig saga sem ég hafði ekki heyrt áður, alveg ágætis saga og góð  til umhugsunar.   Sögunni  fylgdi ekki höfundarnafn og ég hef því enga hugmynd hver hann er.  

Hér kemur sagan:

Faðirinn og dóttir hans föðmuðust innilega á flugvelinum.  Bæði vissu að þetta væru þeirra síðustu samfundir - hann var háaldraður og veikburða, hún bjó í fjarlægu landi. Loks urðu þau að skilja þar sem síðustu farþegarnir voru kallaðir um borð.

-Ég elska þig.  Ég óska þér þess sem nægir, sagði faðirinn við dóttur sína.   -Ég elska þig líka pabbi.  Ég óska þér þess sem nægir, sagði dóttirin.  Farþegi sem stóð þar hjá stóðst ekki mátið að spyrja við hvað þau ættu með þessari ósk.

-Þetta er ósk sem gengið hefur frá kynslóð til kynslóðar í fjölskyldu okkar, sagði gamli maðurinn.  Hún merkir:

Ég óska þér nægilegs sólskins til að líf þitt verði bjart.

Ég óska þér nægilegs regns til að þú kunnir að meta sólskinið.

Ég óska þér nægrar  hamingju til að þú varðveitir lífsgleðina.

Ég óska þér nægilegrar sorgar til að þú gleðjist yfir litlu.

Ég óska þér nægilegs ávinnings til að þú fáir það sem þú þarfnast.

Ég óska þér nægilegra ósigra svo að þú metir það sem þú átt.

Ég óska þér  að þú finnir þig nógu velkomna  til að geta afborið hinstu kveðjustundina.

(Þessi saga birtist  t.d.  í bæklingi sem heitir Æðruleysi, kjarkur, vit  - orð til uppörvunar á erfiðum tímum í samantekt Hr. Karls Sigurbjörnssonar.  Skálholtsútgáfan gefur út). 


"Áfram Vestur"

Er feitletruð fyrirsögn á blaði sem datt inn um póstlúguna hjá mér á dögunum.  Þarna er auglýstur tveggja tíma borgarafundur sem verður í Félagsheimili Patreksfjarðar í dag kl. 14:00.  Fundurinn er til stuðnings uppbyggingar á Vestfjarðarvegi um Barðastrandarsýslu og með Dýrafjarðargöngum.

Eins og segir orðrétt í auglýsingunni :

með Vestfjarðarvegi verða tengdar saman byggðir á Vestfjörðum og þær tengdar við aðalþjóðvegakerfi landsins með góðum heilsárs vegi.

Að fundinum standa einstaklingar búsettir á Vestfjörðum sem vilja öfluga byggð í fjórðungnum öllum.

Dagskrá.

1.  Umhverfismat fyrir Dýrafjarðargöng, Þorleifur Eiríksson, Náttúrustofu Vestfjarða.

2.  Störf nefndar sem skoðar möguleika á nýjum vetrarfærum vegi yfir Dynjandisheiði, Gísli Eiríksson, Vegagerð ríkisins.

3.  Stutt ávörp:  Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir, Eggert Stefánsson, Páll Líndal Jensson, Smári Haraldsson, Guðrún Eggertsdóttir, Sigurður Jón Hreinsson, Halldór Halldórsson.

4.  Almennar Umræður.

--------------------------------

Já svona hljóðar auglýsingin um borgarafundinn sem á að halda vegna vegamálanna hér í dag og ber að sjálfsögðu að fagna.

Ég á nú von á að fólk láti sjá sig  ég bara trúi ekki öðru þar sem hér eru samgöngur gjörsamlega óviðunandi og allir orðnir langþreyttir á ástandinu eins og alþjóð veit.   Hér á árum áður voru heiðarnar eðlilega mikil hindrun.  Allt  kapp hefur lengi verið  lagt á að koma Djúpvegi í sem best lag til að gera leiðina að  norðanverðu sem greiðasta út af Vestfjarðakjálkanum um Djúp og Strandir.  Göngin í gegnum Breiðadals og Botnsheiði (1996), eru þriggja arma göng sem  mörkuðu tímamót í samgöngum á Vestfjörðum en vinna hefði átt hraðar að því að halda svo áfram suður í Barðastrandasýslur um Arnarfjörð. Málið hefur jú alltaf snúist um peninga en ekki síður að mínu áliti um viðhorf og þá áherslur.

Margra ára draumur minn og fleiri aðila um góðar samgöngur innan Vestfjarða verður hugsanlega að veruleika með tíð og tíma og vonandi auðvitað, en greiðar samgöngur frá Flókalundi til Búðardals vil ég að verði kláraðar sem allra fyrst.  Við hér í Barðastrandarsýslum höfum ekki þol til að bíða þeirrar samgöngubótar öllu lengur. Áhersla á að sú leið klárist  hefur orði enn ljósari eftir hrun þó að ég hafi alla tíð alið með mér draum um Vestfirði sem eina samgöngulega heild.

Ég vil  taka það fram að nokkrir á ofangreindri mælendaskrá hafa í fjölda ára verið ötulir talsmenn þess að leiðin frá Ísafirði fari hér suður Hrafnseyrar og Dynjandisheiðar og þeim má þakka eljusemin við að halda þessum málum á lofti,  ég nefni   Sigurður Hreinsson og Eggert Stefánsson sem eru frá  norðanverðum Arnarfirði og Dýrafirði þó að báðir séu búsettir á Ísafirði í dag. Einnig hafa þeir Steinar Jónasson sem starfar í Mjólkárvirkjun  og Þórólfur Halldórsson sem var Sýslumaður hér á Patreksfirði í mörg ár verið iðnir við að láta í sér heyra í gegnum árin.  Páll Líndal flutningabílstjóri mun taka til máls á fundinum og tala máli  bílstjóra sem aka leiðina  Patr/Rek/Patr margoft í viku.  Mér finnst þeir beinlínis drýgja hetjudáð með akstri við þessar aðstæður með smekkfulla bíla og tengivanga.

Ég vil ekki lasta hug Halldórs Halldórssonar bæjarstjóra Ísafjarðar til vegamálanna og hagsmuna okkar Vestfirðinga og ekki heldur annarra sem að því koma.  Ég veit bara sem er að í dag árið 2010 er sýnin skýrari sem aldrei fyrr á nauðsyn þess fyrir norðanverða firðina að umferðarmálum sé komið í lag hér innan kjálkans.  Þróunin hefur orðið sú að við hér að sunnanverðu sækjum mikið suður á bóginn varðandi alla  þjónustu  en spurning er hvort sú væri raunin í dag  ef áherslur hefðu verið aðrar hér á árum áður með tengingu við Ísafjörð sem Höfuðstað Vestfjarða í huga. Það er  svo sem alltaf auðvelt að hugsa ...hvað ef...!

Í gegnum árin höfum við mjög lítið orðið vör við að Ísfirsk þjónustufyrirtæki auglýstu fyrir okkur sunnan heiða þjónustu sína þó að það hafi vissulega aðeins breyst og opnunartímar verlsana rýmkast á laugardögum en þó ekki fyrr en á nýliðnum árum.  Sjálfsagt hugsunarleysi, ég skal ekki segja en nokkuð sem ég hef aldrei skilið. 

Unglingar úr minni fjölskyldu stunduðu nám á Ísafirði nú í kringum síðustu aldamót en það var ekki heiglum hent að komast til Ísafjarðar um vetur nema fljúgandi með viðkomu í Reykjavík eða sjóleiðina.   Já það að nýta sér þjónustu Höfuðstaðar Vestfjarða hefur ekki verið auðvelt þegar 3 - 4 skaflar á heiðum hafa hamlað för.  Í vikunni fór  ég akandi,  til Reykjavíkur að morgni og kom heim að kvöldi um 5 tíma ferðalag hvora leið. Þurfti nauðsynlega að sinna erindi sem ég hefði örugglega getað sinnt á Ísafirði en það var ekki í myndinni í mars árið 2010.   

Ég held að einhversstaðar sé verið að ræða og undirbúa sameiningu sveitarfélaga á Vestfjörðum í eitt.  Sú tilhugsun skelfir mig miðað við óbreytt ástand samgangna og horfur í nánustu framtíð.

Ég læt þessum spegúlasjónum og samgöngunöldri  hér með lokið, mæti líklegast á fundinn og heyri hvaða hugmyndir eru í gangi og hvort eitthvað nýtt sé að frétta  í þessum málaflokki.

Eigið góðan dag Smile


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.