Lokakafli

Hér er síðasta bloggfærsla mín af fjórum um sama efni.  Ég byrjaði af einhverju dundi að skrifa niður minningar mínar tengdar  þeim verslunum sem voru hér  æskuárum mínum.   Þetta vatt svo upp á sig og varð ansi langt, teygir sig svo fram  til dagsins í dag.  Ég fór út í að rifja upp hvað hafði verið í húsnæði viðkomandi verslunar og óhjákvæmilega slæddist þá annarskonar þjónusta með sem hafði verið staðsett þar.  Hefði ég ætlað að telja allt upp þá hefði þetta orðið heljarinnar bók.  Margt annað hefur verið í gangi hér í gegnum árin eins og Vélsmiðjan Logi sem allir þekkja og hefur verið rekin hér í fjölda ára af sömu fjölskyldu en einhversstaðar varð ég að draga mörkin.

Já fyrir þá sem þekkja til lífsins eins og það var hér á Patreksfirði á sjöunda og áttunda áratugnum þá fer ekki hjá því að fólk hugsi  um hversu blómlegt lífið var á þessum árum og umsvifin í raun gríðarleg.  Það er hiklaust hægt að segja að hér í bænum sé helmingi færra fólk en var á þessum tíma.  Ekki bara það heldur í bæjunum í kring og sveitinni allri.  Já hér voru fleiri blómleg fyrirtæki og á sumrin fjölmenntu skólakrakkar annarsstaðar að hingað í vinnu. Hér var næga vinnu að fá og ég ekki há í loftinu þegar ég fór að vinna í frystihúsi.  Stóð varla út úr hnefa þessi písl sem fór í 25.000 kassa útskipun í Goðafoss ég var örugglega ekki nema 12 eða 13 ára svei mér þá.  En þessir kassar voru að mér fannst heldur þungir og ég alveg búin á því þegar þessu lauk. En kaupið var gott og það skipti máli.   Ég var svo lítil að það þurfti fyrst að hjálpa mér niður í lestina.  En nú er ég komin á flug í minningunum og mál að stoppa.

Þessi tími kemur líklega aldrei aftur sé horft til fjölda bæjarbúa og fjölbreytni atvinnulífs, fátt sem gefur í dag tilefni til væntinga um slíkt.   Því varð til þessi ógnarlanga upprifjun  til sem nú hefur verið fest á blað í fjórum bloggfærslum.  Kannski dálítið spes uppátæki ég segi það ekki en þetta er búið og gert og komið fyrir augu almennings.  Vonandi hafa einhverjir gaman af að lesa.

Kafli IV.

Matborg

Var matsölustaður rekinn í  húsi við Eyrargötu. Það er gatan sem liggur frá Vatneyrarbúðinni að höfninni.  Tvenn hjón, þau Bergljót Þórðardóttir og Sveinn Arason, Guðrún Gísladóttir og Jón Bessi Árnason, hófu rekstur veitingastaðar í þessu húsnæði. Síðar komu Unnur Sigurðardóttir og Steindór Ögmundsson eitthvað  að rekstrinum ef ég man rétt.  Þetta var flottur staður og kærkomin viðbót í bæjarlífið.  Síðar tóku Arnbjörg Guðlaugsdóttir, Haraldur Aðalsteinsson og dætur við rekstri staðarins og ráku hann lengst eigenda.

Matborg varð fastur punktur í bæjarlífinu og bómlegur staður, þetta varð eiginlega aðal staðurinn  með mat og vínveitingar.  Elín Anna Jónsdóttir  rak svo þarna veitingastaðinn Kaffi Vatneyri með  líku sniði og fyrirrennarar hennar í Matborg höfðu gert.  Síðast ráku Gunnhildur Þórisdóttir og Haukur Már Sigurðarson verslun þarna undir heitinu Zero en það var gjafavöruverslun m.m. Í dag er ekki starfssemi í húsinu fyrir utan að  Björgunarsveitin Blakkur   hefur verið með flugeldasölu þarna fyrir áramótin.

 Verslunin Patróna var fataverslun  en einnig voru þarna seld hljómflutningstæki og tónlist. Þessi verslun var staðsett í kjallara hússins við Aðalstræti 37.

Það voru þær Kolbrún Pálsdóttir og Bára Pálsdóttir sem ráku búðina um og eftir 1980 að ég held.  Þarna var hægt að versla tískufatnað og skó eins og  gerðist flottast á þessum tíma.

Síðar, eftir að Patróna hætti  rak Sigríður Pálsdóttir verslunina Mittið í húsnæðinu og það var sömuleiðis fataverslun.

Fatahreinsun var rekin þarna um skeið í þessu sama húsnæði, eftir að verslulnarrekstri í því var hætt - hreinsunin var rekin af  þeim Páli Guðfinnssyni og Jónu Sörladóttur.

 

 Byggir var trésmíðaverkstæði á Þórsgötu 12.  Þar var í mörg ár rekin byggingavöruverslun samhliða verskstæðinu.  Síðar kom til að Áfengis og tóbaksverslun ríkisins var rekin af þeim Margréti Friðriksdóttur og Sigurði Jóhannssyni sem ráku Byggi.  Við opnun Á.T.V.R hér  lauk löngu pantana og póstkröfusendingatímabili á áfengi til staðarins, eitthvað sem hlaut auðvitað að koma að.

Í þessu húsi var fyrst að mig minnir  trésmíðaverkstæði  Iðnverks hf rekið af m.a Ólafi Sæmundssyni og Guðfinni Pálssyni - eignarhaldið hef ég reyndar ekkert alveg á hreinu. Eftir að Iðnverk  hætti og áður en Byggir hóf þar starfssemi sína, ráku Kristján Skarphéðinsson og Kristín Jóhanna Björnsdóttir þar bakarí áður en það flutti í gamla Kaupfélagshúsið en eins og flestir vita var „Danni" og er mjög góður bakari.

Í dag er verslunin Fjölval rekin í þessu húsnæði af þeim Gunnhildi Agnesi Þórisdóttur og Hauki Má Sigurðarssyni. Það er stór og fín matvöruverslun þar sem fá má m.a. nýbakað bakkelsi  og tilbúinn mjög góðan mat. Eins eru þau  með byggingavörudeild og reka  verslun Á.T.V.R.

 

Verslun var rekin í  „Króknum" í bílskúr við Strandgötu 19 af Sigríði Kristjánsdóttur, þar var ef ég man rétt verslað með gjafavörur og þ.h.

 Verslunin Gosi var rekin af Ósk Þórðardóttur, fyrst á neðri hæð Bjarkargötu 5 og síðar í bílskúr Bjarkargötu 3.  Þetta var föndurverslun starfrækt  á blómatíma tréútsögunar og málunar. Gríðarlega flott verslun í minni minningu enda Ósk lagin föndurkona sem vissi hvað til þurfti í allt föndur og gerir eflaust enn.

Esso bensínsjoppan innarlega á Aðalstrætinu var í fjölda ára rekin af Kaupfélaginu í svona týpiskum bláum bensínsjoppuskúr eins og þeir voru svo  víða um land.  Þar réð Gestur Guðjónsson lengst af ríkjum á meðan sjoppan var  undir hatti Kaupfélagsins.  Síðar tóku Tálknfirðingarnir Ólöf Davíðsdóttir og Björn maður hennar  við rekstri sjoppu á þessum stað en þá var húsnæðið orðið annað en ennþá rekið undir merkjum Essó. Síðar voru það Sigurður Pálsson og Margrét Þór sem urðu rekstraraðilar staðarins.  Golfklúbburinn í Vesturbotni eignaðist húsnæðið og það flutt í Vesturbotn og gert að golfsskála klúbbsins.  Bensínsjoppurekstur hélt þó áfram í nýbyggðu húsnæði þarna á Aðalstrætinu.  Í dag reka fyrrnefnd Gunnildur Agnes og Haukur Már sjoppuna undir heitinu Smáalind.  Í millitíðinni hafa fleiri komið að rekstrinum sem ég læt vera að telja upp.

 Bakaríið hjá Rafni Hafliðasyni   Rafn bakari og Anna Gestsdóttir hófu rekstur bakarís í nýbyggðu húsið við Aðalstræti 89.  Bakað var í neðri enda hússins en sjoppa eða nánast mini verslun í efri hluta hússins.  Þau hjónin Rafn  og Anna hættu svo formlega rekstri bakarís og opnuðu flotta verslun í neðri hluta  hússins.  Síðar opnuðu þau Rabbabarinn sem varð vinsæll veitingastaður og „pöbb" í efri hluta hússins.

Saga verslunar er þó ekki samfelld í húsnæðinu, í örfá ár var rekið öl og sælgætisumboð í hluta hússins.  Rafn og Anna hófu svo rekstur að nýju.

Í  dag reka þau  Verslunina Albínu sem er dagvöruverslun/sjoppa, lottósölustaður og hægt að fá nýbakað bakkelsi, pizzusneiðar og fl.

Hraðbanki  Sparisjóðsins er svo  á  þeirri hliðinni sem snýr að Aðalstrætinu.

Það má til gamans geta þess svona í leiðinni að við Patreksfirðingar höfum haft frábæra bakara hér í gegnum árin.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæl Anna, gaman að lesa yfirlitið. Ég var búin að steingleyma mörgum af þessum verzlunum.

Gleðilega páskarest.

Eygló Aradóttir (IP-tala skráð) 13.4.2009 kl. 09:10

2 identicon

Sæl Anna skáldkona og viskubrunnur.

Ég er auðvitað, nema hvað ???!!! - búin að segja þér hversu skemmtilegt mér þykir þetta tiltæki þitt. Þetta er frábær samantekt, skemmtilegt að hugsa til allra þessarra fyrirtækja sem eitt sinn voru hér, - og allra þeirra einstöku karaktera sem tengdust málefninu á margvíslegan máta.

Mjög menningarlegt samfélag oftar en ekki.

En ég vil endurtaka aðdáun mína hér með, á prenti.

Hafðu bestu þakkir fyrir skemmtilega lesningu.

Sjáumst. 

Jenta (IP-tala skráð) 15.4.2009 kl. 19:32

3 Smámynd: Anna

Takk fyrir þetta Eygló og Jenta mér fannst verulega gaman að rifja þetta upp.

Ég fékk senda ábendingu konu hér í bæ varðandi Byggishúsið á Þórsgötunni og ég læt ábendinguna koma hér orðrétta frá henni:

"Iðnverk var næsta hús fyrir utan Byggir og byggðu Sigþór Svavarsson og Guðfinnur það hús sem síðar varð Bakarí.  Byggir byggðu Björn Gíslason og Sigurður Jóhannsson"

Ég er mjög ánægð að fá svona,  þegar minnið er augljóslega að svíkja mig og ég þakka viðkomandi kærlega fyrir

Anna, 17.4.2009 kl. 07:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.