3. mars.
3.3.2009 | 08:37
Á hverjum degi erum við eðlilega þáttakendur í skapa söguna og framlag okkar til komandi kynslóða er auðvitað misjafnlega úr garði gert. Allur þessi óheyrilegi fjöldi bloggsíðna sem innihalda allskyns fróðleik um lífið í núinu, hvað verður um þetta allt ? Vonandi og líklega eru einhverjir sem hugsa um að varðveita a.m.k hluta af þessu. Margt af öllum þessum skrifum þykja líklega merkilegar heimildir síðar meir. Á dögunum var mér sendur hluti bréfasafns langa,langafa míns Sighvats Borgfirðings. Við lestur þessara skemmtilegu bréfa hvarf ég bókstaflega aftur í tímann í huganum, svo vel eru bréfin orðuð og myndræn að mínu áliti. Tíðarandinn og þá þjóðlífslýsing skilar sér að mínu mati vel. Spurning hvort skrifarinn hafi hugsað um sögulegt gildi bréfanna, það er ég alls ekki viss um. Þetta voru bréf til sonar hans, sömuleiðis bréf skrifuð af konu hans. Síðustu ár hef ég verið að finna ýmsan fróðleik um þennan mikla skrifara Sighvat og á mikið eftir að kynna mér á næstu árum.
Mér varð hugsað til pabba.
Í dag 3.mars hefði hann orðið 75 ára en hann lést árið 2002. Hann hafði miklar mætur á Sighvati langafa sínum og verkum hans. Ofangreind bréf hefði hann viljað lesa - og haft af því mikla ánægju það er ég viss um. Pabbi hafði yndi af lestri bóka og skrifum og ég var ekki há í loftinu þegar ég skynjaði aðdáun hans á langafanum.
Í dag eins og alla daga minnumst við pabba með söknuði og hlýju. Eins og alltaf þegar fólkið manns fer finnst manni það hafa verið ótímabært fráfall. En lífið heldur áfram og maður þakkar hvern dag.

Athugasemdir
Sæl Anna.
Fallegur pistill.
Að baki liggja sýnilega fallegar minningar sem eru ómetanlegar.
Við skulum hafa hugfast að með réttum tökum okkar á umhverfi og ekki síst ungviði erum við að stuðla að eflingu þess ljúfa og ómetanlega sjóðs sem er minningarsjóður hver og eins.
Sem sagt má sjá að sjóðir eru alls ekki allir neikvæðir, þessi ber örugglega jákvæðustu ávöxtun þeirra allra.
Megi komandi dagur færa okkur viðbót af umræddu tagi.
Jenta (IP-tala skráð) 5.3.2009 kl. 08:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.