Fyrsti vetrardagur

Hann heilsar hvítur og kaldur fyrsti vetrardagur, veður er ágætt hér í bænum.  Vona að það haldist þokkalegt.  Í kvöld verður fyrsta uppákoma vetrarins  í Kvenfélaginu Sif og ætlum við að hittast í Sjóræningjahúsinu,  borða saman mat eldaðan af ...ja líklega má segja stjörnukokki,  Hauki Má.  Flinkur maðurinn, algjör gourmet kokkur eins og allir vita.  Hann eldar á Muurikka pönnu sem er sniðug gaspanna (nánar um græjuna hér)  Þetta verður örugglega notalegasta kvöldstund í alla staði. 

Kvenfélagið Sif átti  93 ára afmæli í gær.  Ótrúlegur aldur á félagi í ekki stærra bæjarfélagi en hér er.  Saga félagsins er samofin sögu bæjarins.  Félagskonur hafa í gegnum árin unnið ótrúlega mikið starf hér fyrir samfélagið.  Flestar stofnanir og margir einstaklingar hér í bænum hafa notið góðs af starfinu í gegnum tíðina.  Alveg heill hellingur sem félagið hefur gert en lítið haft sig í frammi með að auglýsa það sem unnist hefur enda það aldrei verið í anda kvenna að hafa hátt um það. 

Félagið var stofnað  árið 1915 en 19. maí það ár staðfesti konungur breytingar á stjórnarskránni.  Konur fengu kosningarétt en kjörgengið miðaðist fyrst við konur 40 ára og eldri.  Það hefur verið hugur í konum hér á Patreksfirði sem á þessum tíma   hittast  nokkrar og stofna þetta félag sem hefur það m.a að markmiði að efla félagsanda meðal kvenna og vinna að líknarmálum í bæjarfélaginu.  Ég sá í fyrstu fundargerðarbókinni að þarna hafði amma mín mætt á fyrsta fundinn 15 ára gömul og skrifað nafnið sitt merkilega vel miðað við litla tilsögn í skrift.  Í mínum huga er þetta félag mjög merkilegt og virðingarvert.   Það er góður kjarni í þessu félagi það finnur maður á öllu þó að tíðarandinn hafi reynst því erfiður - lítil endurnýjun, því miður.  Mér verður tíðrætt um félagið og hef áður minnst á eitthvað af þessu í bloggi. En það skiptir ekki öllu.

Á stofnári félagsins var t.d skipi Eimskipafélgasins hinum fræga Gullfossi hleypt af stokkunum í Kaupmannahöfn, það var í janúar en skipið kom til landsins í apríl sama ár.

28 ára trésmiður varð handhafi fyrsta ökuskírteinisins hér á landi þetta ár.  Það var karlmaður enda konum örugglega ekkert treyst fyrir svo merkilegu farartæki á þessum árum sem bíllinn var.  Best geymdar við eldamennsku, barnauppeldi og þrif.

Já það er svona langt síðan þetta ofangreinda félag okkar var stofnað og þessu með Gullfoss og fyrsta ökuleyfið er nú bara skotið inn hér svona til gamans.  Sjóræningjahúsið sem hýsir skemmtunina okkar í kvöld var áður Vatneyrarsmiðjan gamla og okkur hefði fáar órað fyrir þvi að í þessu húsnæði ættum við eftir að halda matarveislu.  

En ég óska ykkur góðs vetrar og vona að hann verði ekki voðalega kaldur og dimmur.  Þá er bara að brosa og vera góð hvort við annað, flestir þurfa nú ekkert að láta minna sig á það Smile en sakar ekki samt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Fínn pistill að venju hjá þér Anna.

En var það ekki 19. júní sem konungur staðfesti breytingar á stjórnarskránni?

Kv. Guðný

P.S. Takk fyrir góðan mat og skemmtun í gærkvöldi.

Guðný (IP-tala skráð) 26.10.2008 kl. 14:43

2 identicon

Bestu óskir um góðan vetur.

Kvenfélög eru og verða þörf - mikið og gjöfult starf unnið þar og það án þess að baða sig í sviðsljósi fjölmiðla og berja sér á brjóst.

 Kærar kveðjur,

Sólveig.

Sólveig Ara (IP-tala skráð) 26.10.2008 kl. 17:50

3 identicon

Takk fyrir þetta báðar. - Jú Guðný akkúrat það var 19. júní á stofnári Sifjar, og sömuleiðis takk fyrir samveruna í gærkv.

Anna (IP-tala skráð) 26.10.2008 kl. 18:38

4 identicon

Sæl Anna.

Lesandi pistilinn þinn að þessu sinni vil ég þakka fyrir verulega skemmtilegt kvöld á fyrstu samkomu/fundi Kvenfélagsins Sifjar s.l. laugardag.

Hafi einhverjum leiðst þá hefur verið farið sérlega vel með slíkt ;-)

Skemmtilegt, létt og fróðlegt, maturinn afar ljúfur og  tilefnið, byrjun vetrarstarfs, komandi vetrarstarfs er að venju tilhlökkunarefni.

Áður en ég kemst í gang með að lýsa aðdáun minni á kvenfélagskonum í heild sinni, afrekum þeirra og sögunni allri er rétt ég hætti núna.

Tek þennan þráð upp síðar.

Megi nýr dagur, fyrsti mánudagur vetrarins verða góður dagur.

Jenta (IP-tala skráð) 27.10.2008 kl. 08:52

5 Smámynd: Anna

Takk sömuleiðis Jenta - þetta var bara flott.  Fyrsti mánudagurinn á vetrinum var svo bara þessi fíni sólardagur.

Anna, 28.10.2008 kl. 08:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband