Vegirnir.
19.8.2008 | 17:08
Mér þykir fagnaðarefni þegar bæjarstjórnarmenn á sunnanverðum Vestfjörðum tjá sig um vegamálin hér á svæðinu sem hafa lengi verið í miklum ólestri. Það er vissulega verið að lagfæra en það hefði átt að gerast fyrir löngu finnst okkur sem höfum búið við þetta svo áratugum skiptir. Ég las þessa grein í morgun á bb.is og datt í framhaldinu í hug að endurbirta sögu sem ég sendi á vefinn patreksfjordur.is, eftir umhugsunarvert ferðalag frá Patreksfirði yfir á Rauðasand árið 2006.
Hér kemur þessi ofurlitla ferðasaga:
Ég er lítill bíll á Patreksfirði og mig langar til að segja frá ferðalagi sem ég fór í á fallegu sumarkvöldi fyrir skömmu, því eiganda mínum hafði verið boðið í kvöldkaffi yfir á Rauðasand sem hún þáði auðvitað með þökkum.
Ég telst nú í ágætisástandi og hef reynst eigandanum sérlega vel bæði sumar og vetur þó að ég segi sjálfur frá, hef ekið þessa leið áður, meira að segja alla leið út á Látrabjarg, því hlakkaði ég bara til ferðarinnar ef eitthvað var og við héldum af stað.
Þegar malbikinu sleppti við Skápadal - í firðinum sunnanverðum, blöskraði mér alveg. Vegurinn á Kotshlíðinni var skelfilegur. Þar voru þær dýpstu holur sem ég hef upplifað að keyra í.
Sú sem á mig vill mér auðvitað allt hið besta og ók bara nokkuð blíðlega þó að á malbiki sé nú stundum sprett úr spori skal ég segja ykkur. Á þessum kafla losnaði sem sagt útvarpið - og mín kona hægði verulega á, en öskubakkinn opnaðist og lokið við bensíntankinn blakti út úr hliðinni á mér eins og lítill vængur.
Ég var stöðvaður og allt lagfært sem aflaga hafði farið. Eigandinn var meira að segja að spá í að snúa við - en við tvö erum ýmsu vön og héldum áfram, töldum það versta afstaðið.
Það var rétt hvað holurnar varðar en á heiðinni yfir á Sand birtist andstaða holanna því að þar virtust grjótnibburnar bókstaflega æða upp úr veginum en það var nú samt aðallega þessi kafli á Kotshlíðinni sem varð hvatinn að þessum skrifum mínum.
Það var yndislegt að koma á Rauðasand, það ægifagra svæði og vissulega mildaði sú upplifun slæm áhrif ökuferðarinnar.
Nú fara mörg ÞÚSUND manns um sunnanverðan Patreksfjörð á hverju sumri, Látrabjargið hefur sitt aðdráttarafl, á Hnjóti er frábært minjasafn sem við erum stolt af og stórir ferðaþjónustuaðilar eru þarna, hver með sínu sniði, - í Breiðuvík, Fagrahvammi í Örlygshöfn og í Hænuvík. Nýlega var svo opnaður veitingastaður við flugvöllinn á Sandodda. Nokkrir bændur búa myndarbúskap á jörðum sínum.
Það er hugur í fólki hér og það ætti þess vegna allt að vera á réttri leið, vinna að vegabótum sjálfsögð þróun á þessu svæði eins og öðrum en það virðist fjarri.
Ég hef farið um landið þvert og endilangt, þarna er versti vegurinn ég fullyrði það og fannst mér gráupplagt að segja mína sögu bara umbúðalaust - ég tala nú ekki um þar sem sjónarmið bílanna heyrast allt of sjaldan. Eiganda mínum fannst nú óþarfi að tjá sig eitthvað um þetta, - hefur kannski ekki trú á að það hafi neitt að segja en ég er á öðru máli.
Svo sannarlega vona ég bara að þetta sé eitthvað andartaks skipulagsleysi í vinnubrögðum Vegagerðarinnar sem þeir bæti úr hið snarasta.
Skrifað á Patreksfirði 20. júlí 2006
Ykkar einlægur Ford Fiesta OI-688.
----------------------------------------------------------------------------------------------------------
Já svona hljóðaði þessi saga sem skrifuð var eftir ferðina á Rauðasand og ég hugsandi um hvað það væri óþægilegt að eiga smábíl ætlaði maður á milli staða á Vestfjörðum. Vegurinn til Ísafjarðar er ekkert til að hrópa húrra fyrir heldur. En vonandi (segir maður alltaf) fer þetta batnandi sem það vissulega gerist, en bara hægt og bítandi og við sem höfum beðið SVO lengi
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.