Þegar Bubbi tjáir sig.

Það var eitt sinn fyrir eitthvað á þriðja tug ára síðan að Bubbi var að túra um landið og hafði spilað hérna í bænum.  Ég ung konan, var að vinna í bensínsjoppu, nýlega farin að búa og eignast litinn gutta.  Ég verð að viðurkenna það að mér þótti nú innst inni ekkert leiðinlegt að sjá Bubba svona face to face, frægur maðurinn og allt það.  Face to face var það í orðsins fyllstu því að hann kom alveg upp að mér og spurði "áttu nokkuð brúsa ?".   Bubbi var sem sagt að taka bensín og þurfti brúsa, sjálfsagt hefur hann ætlað að taka auka fyrir langferðina en á þessum árum var ekkert tiltökumál að koma með brúsa og dæla á. 

Ég hefði líklega  aldrei munað svona vel eftir nokkrum viðskiptavini en af því að þetta var Bubbi þá greyptist þetta í minnið.  Ég afgreiddi þá með bensínið og náði svo í karton úr sælgætiskassa og bað Bubba um eiginhandaráritun á tvö blöð.  Bubbi var reyndar ekkert  í sérstöku uppáhaldi hjá mér en ég hugsaði sem svo  að það væri gaman að eiga þessa eiginhandaráritun sem fór svo í einhvern bókakassann og gleymdist. 

Þegar árin liðu og sonur minn fór seinna meir  að spila á gítar þá er það þannig að hann er einn mesti aðdáandi Bubba sem ég þekki til.  Spilar lögin hans og á mikið af því efni sem Bubbi hefur gefið út.  Hann hefur Bubba áðdáunina ekki frá mömmunni því að ég hlustaði aldrei á lögin, en núna síðustu ár hef ég gefið mér tíma til að hlusta og kann mjög vel að meta mörg laganna í dag.  Fyrir ca 10 árum síðan sá ég spjöldin í kassa og afhenti syninum og bróður mínum, þeir urðu hissa en ánægðir.  Fannst þetta óvænt að ég skyldi luma á þessu.

Bubbi hefur alltaf verið svo einlægur og talað máli hinna lægra launaðri stétta í landinu.  Fólksins sem hefur "dyfið hendi í kalt vatn"  og veit hvað það er að þurfa að hafa fyrir því að eiga í sig og á.  Bubbi ætti því að nota þessa hugmynd sína sjálfur, fengi örugglega heilmikið út á það.  Þrátt fyrir þessi orð sem höfð eru eftir Bubba "Ef ég væri venjulegur maður á landsbyggðinni" hafi stungið einhverja í augun, þá trúi ég nú ekki öðru en að Bubbi hafi ekki verið að segja þetta af hroka heldur sé þetta vel meint.  Það er eftir því tekið þegar maðurinn tjáir sig, synd að segja annað, aðalbloggefni dagsins.

Getur verið að innra með mér leynist Bubba aðdáandi, - e.t.v einhver smá Undecided


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband