Gleðilega hátíð.
17.6.2008 | 00:44
Að venju drögum við fána að húni í dag. Í sveitarfélaginu Vesturbyggð eru hátíðahöld á Bíldudal og hefjast að aflokinni skrúðgöngu við félagsheimilið Baldurshaga kl. 14:00.
Eins fara alltaf einhverjir á Hrafnseyri, fæðingarstað Jóns Sigurðssonar. Þar hefur í fjölda ára verið vegleg dagskrá á 17. júní. Aðrir eru svo bara heima hjá sér, slá jafnvel uppí vöfflur í tilefni dagsins. Svo eru enn aðrir sem kæra sig kollótta um hátíðahöld og njóta dagsins á annan hátt.
Á sjálfan þjóðhátíðardaginn akkúrat í dag er mikið upplifelsi í lífi þessarar ungu dömu.
Hún er að lenda á Danskri grundu nú líklega um hádegisbil - í fyrstu útlandaferð lífs síns eftir ægilegan spenning síðustu daga. Það verður gaman að heyra ferðasöguna þegar hún kemur heim, svo margt nýtt sem ber fyrir augu. Góða ferð svítí pæjan mín
Og af því að ég talaði um að einhverjir slægju kannski upp vöfflum í tilefni dagsins þá er hér þrælfín uppskrift sem ég og önnur til notuðum með öðrum veitingum á golfmóti hérna um árið og rokseldist alveg -sem hljóta að teljast meðmæli með þessum vöfflum. Uppskriftin er extra stór og má helminga ef vill. Ég reikna ekki með að margar nútíma manneskjur séu heima við tertustúss á svona kærkomnum frídegi....eða er það bara ég sem er orðin svona værðarleg ? Neeeiii ætli það. En hér koma sem sagt vöfflurnar.
Vöfflur
4 bollar hveiti
8 sléttfullar tsk ger
8 msk sykur
8 msk bráðið smjörlíki
4 egg
aðeins af súrmjólk og svo mjólk þar til degið er hæfilega þykkt.
Njótið dagsins
Eins og sjá má á innsendingartíma þessarar færslu hefði örugglega átt betur við að birta hana í morgunsárið en það verður ekki mögulegt þannig að það var annaðhvort þessi tími eða enginn
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.