Af hátíðahöldum.
20.3.2010 | 09:38
Ég skrapp í bókasafnið á dögunum sem er síður en svo í frásögur færandi. Þær bækur sem ég kom út með voru fjölbreytt lesefni og þar á meðal hefti af Árbók Barðastrandarsýslu þar sem sagt er frá því helsta á árunum 1968 - 1974 sem gerðist hér í sýslum austur og vestur.
Í gærkvöldi las ég í heftinu frásögn Sr. Þórarins Þór fyrrum sóknarprests okkar Patreksfirðinga af undirbúningi og hátíðarhöldum Vestfirðinga í Vatnsfirði árið 1974 í tilefni af ellefu alda búsetu í landinu. Valið var í fimm nefndir úr öllum sýslum á Vestfjarðakjálkanum. Nefndirnar komu saman í Flókalundi í Vatnsfirði í júlí árið 1973 þar sem ákveðið var að sameinast um eina allsherjar Landnámshátíð í Vatnsfirði sumarið 1974. Kosin var framkvæmdanefnd sem skipuð var einum fulltrúa úr hverri héraðsnefnd. Nefndina skipuðu: Formaður, Marías Þ. Guðmundsson, forstjóri frá Ísafirði, varaform. Sr.Þórarinn Þór prófastur á Patreksfirði, ritari Bergur Torfason bóndi á Felli í Dýrafirði, gjaldkeri Kristmundur Hannesson skólastjóri í Reykjanesi við Ísafjarðardjúp og meðstj. Sr. Andrés Ólafsson prestur á Hólmavík. Á fundinum réði nefndin framkvæmdastjóra, Pál Ágústsson kennara á Patreksfirði.
Nefndin átti mikið verk fyrir höndum þar sem að mörgu þurfti að hyggja s.s að huga að dagskrá, útbúa hátíðarsvæðið, lagningu vegaslóða, rafmagns, vatns og salernismálum og skipulagningu allri. Tæknifræðingur úr Reykjavík var fenginn til að teikna upp hátíðarsvæði og gera kostnaðaráætlun. Hátíðahöldin áttu að fara fram í Vatnsfirðinum töluvert fyrir innan Flókalund. Strax var ákveðið að hátíðin skyldi mótast verulega af því að Hrafnaflóki sem gaf landinu nafn bjó fyrsta vetur sinn í Vatnsfirði. Dagskráin átti að standa samfleytt í tvo daga.
Vatnsfjörðurinn innanverður, var hentugt svæði til hátíðahaldanna þar sem þar er mjög vel aflokað frá náttúrunnar hendi. Innakstur á svæðið var svo hafður á einum stað við Vatnsfjarðarvatn þar sem útbúið var hlið, skreytt landvætti Vestfirðingafjórðungs, skjaldarmerkjum sýslnanna og merki Ísafjarðarkaupstaðar. Með því að hafa inngöngu á svæðið á einum stað mátti auðvelda leit lögreglu að áfengi en nefndin var einhuga í að hafa hátíðina áfengislausa. Þegar komið var inná svæðið mátti sjá fánaborg Íslenskra fána og sýslufána. Lögreglan hafði aðsetur sitt í vegavinnuskúr og þar var stjórnstöð mótsins til húsa. Tjaldstæði voru afmörkuð fyrir sýslurnar, kaupstaðinn og aðkomumenn, brottflutta Vestfirðinga og gesti. Brýr voru yfir ána að hverju tjaldstæði sem svo var auðkennt með skjaldarmerki hverrar sýslu. Útbúnar voru sölubúðir s.s frá Ungmennafélögunum og pósthús var á staðnum og þar fáanlegt m.m sér frímerki og stimpill. Danspallar voru að sjálfssögðu á svæðinu þar sem hljómsveitir spiluðu. Saminn var fornmannaþáttur af Hirti Hjálmarssyni skólastjóra á Flateyri, búningar voru fengnir frá Þjóðleikhúsinu en aðrir búnir til af Guðrúnu Magnúsdóttur á Patreksfirði með aðstoð Ingibjargar Þór. Víkingaskip var útbúið á grunni annars báts, Gunnar Guðmundsson frá Skjaldvararfossi smíðaði eftir teikningu Þorbergs Ólafssonar frá Bátalóni. Tónlistarflutningur var í kringum formnannaþáttinn og hljómsveitir á dansleikjum s.s B.G og Ingibjörg frá Ísafirði. Erlendir gestir mættu m.a frá Noregi og úr byggðum Vestur Íslendinga í Kanada. Minnisvarði um Hrafnaflóka stendur í Flókalundi og var afhjúpaður viku fyrir hátíðahöld af Guðmundi J. Einarssyni bónda á Brjánslæk. Ávörp og ræður voru fluttar en aðalræðuna flutti Sr. Þórarinn Þór.
Já það væri í rauninni gaman að birta þessa frásögn Sr. Þórarins í heild sinni en það get ég að sjálfssögðu ekki gert hér, heldur stikla bara á stóru. Þegar hátíðin var haldin var ég 12 ára gömul. Ég mætti að sjálfssögðu með mínu fólki og er hátíðin mjög minnistæð eins og líklega flestum. Fyrst og fremst er það veðrið sem var sérlega gott, sól og blíða með tilheyrandi gleði mýflugna. Víkingaskipið kom siglandi með fornmennina og vakti mikla athygli. Fólksmergðin, danspallarnir, tónlist og leikþættir, tjaldstæðin og skjaldarmerkin, að gista í tjaldi og hvað mér fannst langt á klósettin :-), fjarvera pabba en hann var í lögregluliðinu, áin og lækjarsprænur, ilmurinn af gróðrinum í dalnum. Þetta er svona það helsta sem flögrar um minn huga sem minning um þessa hátíð.
Nú þegar ég hef lesið frásögn Sr. Þórarins í fyrsta sinn sé ég auðvitað svart á hvítu hversu gríðarlegt stórvirki þetta hefur verið að undirbúa og halda þessa hátíð. Hversu margir hafa lagt ómælda vinnu í að hún mætti takast sem best, þar hefur fjöldinn allur af góðu fólki úr hinum ýmsu starfsstéttum lagt sig fram.
Vatnsfjörðurinn, afar fallegt svæði, var lýstur sem friðland árið 1975 og t.d má lesa nokkuð um hann hér.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.