Færsluflokkur: Bloggar

Sumarfrí, sólardagar og fleira gott.

 

Það er ótrúlega góð tilfinning að vera komin í sumarfrí en það er ég frá og með þessari stundu.  Vona að veðrið  í fríinu mínu verði eitthvað í líkingu við það sem búið er að vera undanfarna daga. Bara hreinasta sæla að fá svona bongó blíðu dag eftir dag.   Nú eru Bíldudals grænar að byrja sem er hátíð þeirra Bílddælinga, þar er nú alltaf sól eins og við vitum  Smile Nei grínlaust þá nær innlögnin ekki inn að þorpinu þannig að þar er oft  logn og ekkert nema gott um það að segja. (þýðir lítið að öfundast Blush )

Skemmtileg hátíð hjá þeim Bílddælingum  þessar grænu baunir, enda skemmtilegt fólk upp til hópa og mikil leiklistarhefð þarna.  Á síðustu "baunum" sá ég einleikin um Gísla Súrsson sem Elvar Logi Hannesson leikur á snilldarlegan hátt og útfærslan á verkinu finnst mér gerð á sérlega hugmyndaríkan hátt af honum og samstarfsfólki hans.   Logi  hefur farið víða með stykkið og hvarvetna er þetta lofað í hástert.

Ótrúlega mikið af ferðafólki hér á svæðinu, eflaust tengist það eitthvað  hátíðinni á Bíldudal en mér finnst ég samt sjá meira en oft áður.  Svo er frábæra sundlaugin okkar alveg hér við aðalgötuna þannig að maður sér mikið af aðkomufólki þar.  Kraftakarlarnir úr Vestfjarðavíkingnum eru hér á svæðinu núna og þeir dreifa atriðunum um allt sem er bara sniðugt.  Voru hér í gær , á Látrum í dag og verða að ég held á baununum á morgun.   Það er sem sagt hellingur um að vera hér á svæðinu eins og svo oft. Það ætti engum að leiðast hér þessa fallegu sumardaga.

 

Ég hef verið frekar óvirk í blogginu sem  helgast helst af tímaskorti  - en  það kemur dagur eftir þennan dag Grin


Góð gönguferð.

Í dag gekk ég með eldri bróður mínum og mágkonu í  surtarbrandsgil sem er rétt ofan við bæinn Brjánslæk á Barðaströnd.  Ég hafði auðvitað oft heyrt af þessu gili og man eftir að hafa sem stelpa séð steingerfing með laufblöðum ættaðan úr þessu gili.  En nú  lét ég sem sagt verða af því í fyrsta skipti á ævinni  að arka þarna upp í gilið og varð ekki fyrir vonbrigðum. Þvílík perla. -   Veðrið var þrælfínt,  aðeins að þykkna upp þegar leið á  en hékk alveg þurrt.  Við gengum eftir slóða meðfram ánni og víða í henni eru fallegir litlir fossar og og hylir sem gleðja augað.   Þegar komið er að surtarbrandsgilinu sjálfu verður allt grófgerðara en fallegt er það.  Þetta er nú eitt af því sem er  við bæjardyrnar en hefur alveg orðið útundan hjá manni að skoða. Þessi surtabrandur er jarðfræðilega merkilegur.  Hann má finna á nokkrum stöðum á Vestfjörðum og var nýttur til kolagerðar. Surtabrandsnámur voru nokkrar á Vestfjörðum m.a á Rauðasandi.  Allt um  þetta má lesa á síðunni vestfirdir.is sem eins og nafnið bendir til færðir fólk um ýmislegt er varðar sögu Vestfjarða. Mæli með að áhugasamir kíki á hann.  Að lokinni göngu fórum við svo í Hótel Flókalund og fengum þar fínar veitingar eftir þessa gönguferð sem bæði var áhugaverð og skemmtileg. 

 

 


Ágætis lesning.

 Þetta rataði til mín í tölvupóstinum :

Skrifað í stein

Sagan segir að tveir vinir hafi gengið í eyðimörk. Á leiðinni
fóru þeir að rífast, og annar vinurinn gaf hinum létt á kjammann. 
Honum sárnaði, en án þess að segja nokkuð skrifaði hann í sandinn;
 " Í DAG GAF BESTI VINUR MINN MÉR, EINN Á ´ANN!" Þeir gengu áfram
þangað til þeir komu að vatnslind og þar fóru þeir út í. Vinurinn 
sem hafði orðið fyrir kjaftshögginu var nærri drukknaður, en var
bjargað af vini sínum. Þegar hann hafði jafnað sig , risti hann í
stein; "Í DAG BJARGAÐI BESTI VINUR MINN MÉR FRÁ DRUKKNUN". 
Vinurinn sem bæði hafði veitt honum tiltal og bjargað honum
spurði: "Þegar ég sló þig, skrifaðir þú í sandinn, og núna skrifar
þú í steininn. "Af hverju?" Hann svaraði: Þegar einhver gerir þér 
eitthvað illt áttu að skrifa það í sandinn, þar sem vindur
fyrirgefningar getur eytt því. En þegar einhver gerir þér
eitthvað gott þá áttu að grafa það í stein þar sem enginn getur
eytt því. "LÆRÐU AÐ SKRIFA SÁRINDI ÞÍN Í SANDINN OG GRAFA 
HAMINGJU ÞÍNA Í STEIN"! Það er sagt að það taki mann eina mínútu
að hitta sérstaka manneskju, einn tíma að kunna að meta hana, einn
dag að elska hana, en HEILA ævi að gleyma henni.
Sendu þessa sögu til manneskja sem þú gleymir aldrei, og mundu að
senda hana tilbaka. Ef þú yfir höfuð sendir hana ekki til neins,
þá þýðir það bara eitt, að þú hafir of mikið að gera og hafir 
gleymt vinum þínum.

 "GEFÐU ÞÉR TÍMA TIL AÐ LIFA - OG EIGÐU GÓÐAN DAG!"  Smile
 

Smá hugleiðing á 19. júní

Á Kvenréttindadaginn er margs að minnast og margt að þakka þrautseigum  og baráttuviljugum konum.  Það sem okkur þykja sjálfsögð mannréttindi í dag var ekki hrist fram úr erminni si svona.  Ég á bókina Íslandsdætur,  sem inniheldur svipmyndir af sögu íslenskra kvenna á árunum 1850-1950.  Í þessari bók er sagan sett fram á skemmtilegan hátt þannig að hún verður ánægjuleg og fróðleg aflestrar og  fölmargar myndir prýða bókina.  Mjög auðvelt er að vitna í hana þurfi maður þess, þar sem hún er svo  aðgengileg.

Í þessa bók fór ég að glugga í  af einhverju viti þegar ég sem Kvenfélagskona fór að kynna mér aðeins sögu Kvenfélaga á Íslandi.  Kvenfélögin í landinu eru flest hver svo gömul að saga þeirra er órjúfanlegur þáttur í kvennasögunni á tímabilinu sem ofangreind bók fjallar um.   Félögin eru  stofnuð til að efla allskonar samvinnu og samúð meðal félagskvenna í hverju og einu sem snertir starfsemi og framför í sveitar og landsmálum.  Þau eiga einnig að stuðla að hverskonar líknarstarfssemi.  Félögin hafa á landsvísu gefið hundruð milljóna til góðgerðarmála og því finnst mér verulega gaman að geta lagt mitt af mörkum í þessu starfi.

 

 

 

 

 


Gleðilega hátíð

Já, gleðilega hátíð, -  þessi dagur er bara gleðidagur fyrir margra hluta sakir.  Veðrið í morgun lofaði góðu.  Við skelltum okkur öll í sund, það er alltaf hressandi -  sundlaugin  ein af perlum bæjarins.  Við dubbuðum okkur svo  upp og fórum í kirkju þar sem yngsta barnið í familíunni var skírt og fékk nafnið Rakel Sara, falleg og góð nöfn. Sú stutta svaf bara vært og lét svona vatnsaustur og sálmasöng ekkert trufla sig á svona fínum degi,  - sefur yfirleitt vært þessi litla konaKissing.  Eftir grand  skírnarveislu héldu langt að komnir gestir til síns heima flestir hverjir. 

Þegar fámennt var orðið hjá mér kíkti ég á mbl.is og las þar ræðu Sturlu Böðvarssonar sem hann flutti á Ísafirði í tilefni þjóðhátíðardagsins.  Þar viðurkennir hann að kvótakerfið hafi verið mistök og að mikið sé framundan í samgöngumálum á sunnanverðum Vestfjörðum - þ.m.t  þurfi að tengja betur  suður og norðursvæðið.  Hafi stjórnmálamaður þá stjórnarliði viðurkennt þetta svona berum orðum áður varðandi  kvótakerfið, hefur það farið fram hjá mér.  KANNSKI  eru í sjónmáli alvöru breytingar á  byggðamálum í margvíslegu tilliti - reyndar  hugsanlega  heldur seint í rassinn gripið, þessu verður ekki breytt bara si svona úr því sem komið er - það vita allir.  Hann fær samt hrós maðurinn fyrir að  viðurkenna þetta svona afdráttarlaust.  Og maður heldur auðvitað lengi í vonina um að úr rætist.  Annað þýðir jú ekki. 

Ég kíkti á póstinn minn og sá þessa líka flottu mynd sem mér var send frá  viðburði í Lundúnum þar sem minn allra besti er staddur akkúrat núna - flott mynd og takk takk !! Kissing

Í dag var sterk innlögn hér í firðinum - en sól og nokkuð hlýtt.  Núna þegar tekið er að kvölda er allt að detta í dúna logn og himnesk blíðan beinlínis kallar á mann út í góða veðrið Wink


Bloggið

"Um hvað á svo að blogga" , spurði  ein vinkona mín -  sem fannst þetta nú ferlega spennandi þegar ég sagði henni frá bloggsíðunni. Hún þekkir mig auðvitað og  þetta kom henni því ekkert á óvart.
Ég er  með hausinn fullan af einhverju til að tjá mig um, það vantar ekkert upp á það.   Ég hef áhuga á ýmsu og fylgist þokkalega með að ég tel.  Væri náttúrulega ekki sannur Vestfirðingur ef ég gæti ekki tjáð mig um  vegamálin í fjórðungnum,  bara varðandi þann málaflokk,  hitnar mér verulega  í hamsi af tilhugsuninni einni saman. -  Nú, ég fylgist ágætlega með heimsmálum,  landsmálum þ.m.t  málefnum sveitarfélaganna hér í mínu nánasta umhverfi. Þó að enn sem komið er sé bloggið mitt kannski  í heimilislegri kantinum þá er aldrei að vita hvað maður lætur flakka. Eitt er þó víst að það að blogga er bara skemmtilegt. Gaman að læra á hvernig þetta funkerar allt saman. Kíkja á annarra manna bloggsíður.   Bara sniðugt dæmi. -   Hvað maður endist svo verður bara að koma í ljós.


..........the global warming........?

Þó að  flesta daga sé nú  allt í himnalagi eða þannig - þá verð ég nú að viðurkenna að sumt er ekki alveg á gúddílistanum hjá mér.
Köngulærnar eru ekki á topp tíu, það er á hreinu. Þegar hlýnar í veðri vakna þessar elskur ásamt öðrum vel kvikum lífverum af flokki landhryggleysingja. Köngulær teljast  ekki til skordýra heldur áttfætla sem aftur er flokkur undir landhryggleysingjum eins og skordýrin,  eftir því sem ég kemst næst.
í  flokki áttfætla  er síðan  langfætlan - sem er eins og nafnið gefur til kynna  þessi með löngu lappirnar,  nánast sú eina sem ég man eftir úr æsku.
Þessi "gamla góða"  þykir mér nú bara verulega sakleysisleg miðað við þær sem ég álít nýbúa í köngulóarsamfélaginu í dag.  
Maður sér orðið alls konar tegundir sem maður hefur á tilfinningunni að hljóti  nýlega að hafa gert sig heimakomnar hér. Ég skirfa þetta auðvitað allt á "the global warming", þessa auknu fjölbreytni.   Kvikindin eru í stærri kantinum og spinna vef á methraða. Þar sem köngulóarhræðslan er veruleg í mér þá er maður með radarinn á og tekur á sig langan krók sjái maður glitta í vef.  Verði maður var við eitthvað kvikt í vefnum  framkallast gæsahúðin sem aldrei fyrr.
Þó er ljós punktur í þessu öllu saman og hann er sá að áhuginn á kvikindunum hefur vaknað og ég hef fræðst nokkuð um heilu ættbálkana af þessum stofni.
Það er auðvitað betra að vita sem mest um "óvininn" til að vinna bug á óttanum. Ég vona samt að þessar stóru á minn mælikvarða verði aldrei sakleysislegar í mínum augum þegar fram líða stundir -  með tilkomu annarra stærri - í hópi  þessara lífvera.  
Þá er þetta bara fínt svona takk.


Sitt lítið af hvoru.

Ég held að ég teljist þokkalega lánsöm manneskja. Er hraust og á góða fjölskyldu og vini. Krakkarnir mínir verulega góðar manneskjur.  Maður hefur auðvitað komist að því eins og flestir sem nálgast miðjan aldur að lífið er ekki alltaf jafn notalegt en það telst nú líklega bara normalt.  

Mig dauðlangar að segja frá nokkru sem ég er verulega ánægð með og það er grúbban sem samanstendur af gömlu bekkjarfélögunum úr barnaskólanum hér á Patró.  Árgangurinn minn er nokkuð samheldinn hópur.  Við höfum verið að hittast annað slagið á árunum síðan skólagöngu lauk.  Höfum hist í Reykjavík, farið í óvissuferð á Suðurlandi, hist hér á Patró oftar en einu sinni og það gerðum við á sjómannadaginn í fyrra.  Upp úr þeim hittingi var ákveðið að láta verða af Kaupmannahafnarferð á þessu ári.  Ferðin varð að veruleika og þ. 17 maí s.l.  fórum við rúmur helmingur bekkjarfélaganna ásamt mökum.   Ferðin lukkaðist frábærlega vel, ég segi nú kannski ekki að Köben hafi verið rauðmáluð þegar við yfirgáfum borgina en rósrauður bjarmi sveif nú einhversstaðar þarna yfir samt.  Gústi bekkjarbróðir var auðvitað  mættur með kladdann og merkti við eins honum er einum lagið.  Því miður komust ekki allir í þessa ferð eins og gengur en við stefnum að næsta bekkjarmóti eftir fjögur ár og vonandi komast sem flestir á það.  

 


Ágætis tilraun

Þá fiktar maður sig í gegnum þetta bloggdæmi Blush. Spurning hvort andríkið verði jafnmikið og maður lagði upp með  - en það á þá bara  eftir að koma í ljós.

Ég bý  í litlum góðum bæ, Patreksfirði - sem einu sinni var reyndar mun stærri en það er nú önnur saga.

Hér er allt að taka á sig mynd sumarsins, gróður að verða með fallegasta móti, meira að segja fíflarnir sem æða  um allt eru örugglega með þeim ræktarlegri á landinu svei mér þá.

Fólk farið að lagfæra húsin sín og kíkja á garðana, ilm af nýslegnu grasi og útsprungnum blómum ber fyrir vitin. Skokkarar og göngugarpar sjást á ferðinni, unglingar að prufa 50 cc hjólin, og hér er hoppað á  trambólíni næstum  í hverjum garði.  Sannkölluð sumargleði.

Sjómannadagshelgin var mikil gleðihelgi hér og er aðalhátíð sumarsins í bænum.  Veðrið var okkur hliðhollt og fjölmargir mættu á svæðið.   Nokkur árgangsmót voru haldin og alltaf gaman að sjá brottflutta Patreksfirðinga heimsækja gamlar heimaslóðir. Sumir hafa ekki sést í fjölda ára - eru langt að komnir -  þannig að þetta eru fagnaðarfundir.

Ég er Kvenfélagskona og  í Kvenfélaginu Sif,  mínu félagi,  er sá siður að hafa kaffihlaðborð í félagsheimilinu  á Sjómannadag og hefur svo verið í mörg ár.  Kaffigestir skipta hundruðum og þar sem ég var að stússast  í þessu núna get ég sagt að gestafjöldinn var á sjötta hundrað sem kom í þetta kaffi í ár. Allur ágóði þessa rennur síðan til góðgerðarmála sem við vinnum að félagskonur.  Við erum hæstánægðar með hversu vel tekst  til með þetta kaffi og gaman að sjá hversu ánægt fólk er að hittast og spjalla saman yfir veitingunum.  Ég veit ekki annað en að almennt hafi allt farið vel fram í bænum á þessari helgi, eða amk stórslysalaust enda gæsla á svæðinu góð eins og þarf auðvitað að vera.  Ef farið er út í dagskrá þessarar sjómannadagshelgar geta áhugasamir eflaust ennþá lesið hana  á síðunni patreksfjordur.is en það er fjölmargt sem boðið var uppá.   Við eigum marga listamenn sumir reyndar brottfluttir en í ár mættu strákar úr hljómsveit sem var hér starfandi á árum áður og héldu útgáfutónleika v/útkomu disks þar sem þeir flytja sína músík.   Frábært framtak. Gæti talið upp fleiri listamenn hér  en læt það bíða betri tíma.

Á Hvítasunnuhelginni var fermt hér í bæ. 

Í Skjaldborgarbíói var sömu helgi heimildamyndahátíð sem lukkaðist ferlega vel.  Vona að þetta sé eitthvað sem framhald verður á.  Ég og Anna Jensd., báðar kvenfélagskonur,  vorum í Félagsheimilinu megnið af laugardeginum. Elduðum plokkfisk fyrir kvikmyndahátíðargesti sem þeir síðan gæddu sér á um kvöldmatarleitið.  Anna hafði bakað unaðslega góð rúgbrauð sem voru borin fram með fiskinum.  Einfalt og þægilegt, - plokkfiskur, rúgbrauð og vatn með.  Dásamlega gott þó ég segi sjálf frá Halo 

Það er oft mikið um að vera hér á Patró, synd að segja annað.

 

Úbbs !! Svo telur maður andríkið ekki vera nægjanlegt hér í bloggskrifum  en nú er mál að linni.

Læt þetta duga í bili. 

 

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband