Færsluflokkur: Bloggar
2008
8.1.2008 | 22:14
Já gleðilegt ár gott fólk Það er fínt að láta upphaf nýs árs verða til þess að byrja að nýju á bloggskrifum, a.m.k skrifum svona af og til.
Ég og mitt fólk áttum dásamleg jól og nutum samverunnar. Jólarjúpan klikkaði ekki. Stórfjölskyldan hittist oft yfir hátíðarnar, skötuveisla hjá mömmu, jólagrautur í hádegi aðfangadags hjá mér og matarveisla hjá eldri bróður mínum og mágkonu á jóladagseftirmiddag. Á gamlárskvöld var mér og fl. boðið í kalkún til systur minnar og mágs, eðalfínt allt saman. Ég var svo heppin að fá dóttur mína og tengdason hingað yfir jólin og sonurinn var auðvitað á staðnum þannig að ég var aldeilis lánsöm að hafa svona marga mér kæra í kringum mig. Mikil veisluhöld að baki og nú er bara að taka upp léttara fóður og hreyfa sig eitthvað þá verður allt í gúddí.
Tíminn flýgur þegar nóg er að gera en hér á blogginu hefur reyndar ekkert gerst síðan í september. Það hefur ýmislegt drifið á daga manns svo sem. Við í Kvenfélaginu Sif afhjúpuðum minnisvarða þ. 13. október um konu, Guðrúnu Valdadóttur sem drekkt var í á hér innarlega í bænum árið 1754. Hún var dæmd að ólögum þess tíma Stóra dómi og barnsfaðir hennar (sá eldri) einnig. En um það snerist málið að hún var sögð hafa lagst með feðgum sem var dauðasök en mennirnir voru fósturfeðgar og báðir barnsfeður hennar eins og fyrr segir. Minnisvarðinn er stór og myndarlegur steinn sem sóttur var "inn á hlíð" þ.e Raknadalshlíðina. Á steininn er fest koparplata og til hliðar við þennan stein er annar minni sem á er fest skilti þar er sagan sögð í grófum dráttum. Steinarnir eru við Mikladalsá til móts við Vegagerðarhúsið, en þar er hylur í ánni sem sagt er að Guðrúnu hafi verið drekkt í, oftast nefndur drekkingarhylur.
Nú fer mínu tveggja ára starfstímabili sem formaður Kvenfélagsins Sifjar að ljúka og er þorrablótið þ. 26. jan svona með því síðasta sem gerist á mínu starfstímabili utan námskeiðs sem ætlunin er að halda í febrúar. Þetta hefur verið ágætt og lærdómsríkt tímabil.
Hér í bænum hafa hugmyndaríkir aðilar verið að læðast um, meira að segja í skjóli nætur og minna fólk á með ýmsum hætti að elska lífið og tilveruna í allri sinni mynd og að undanskilja ekki náungann. Þetta uppátæki hefur ratað í fjölmiðla og er hið dularfyllsta mál þar sem allt virðist á huldu um hverjir standa þarna að baki. Þetta kærleiksríka fólk var meira að segja svo öflugt að búa til jólakort á hvert heimili í bænum. Ég segi nú ekki annað en að ég dáist að hverjum sem þarna eru að verki. Okkur bæjarbúum finnst þetta bara hið skemmtilegasta framtak og þetta hefur svo sannarlega lífgað uppá bæjarbraginn. Fólk er mikið að spá í hver eða hverjir séu að þessu og mörgum steinum velt upp um það. Ég hef margsinnis verið spurð um hvernig "við" komum ljósi á Kleifarkarlinn en hann var ljósum prýddur karlgreyið. Einhverjir halda að ég sé ein af þessu skemmtilega kærleiksríka fólki. Ég tek því nú bara sem complementi - verð að segja það.
Hingað á Patreksfjörð eru komnir öflugir tónlistakennarar og tónlistarnám að hefjast af fullum krafti. Að sögn hafa vel á sjötta tug nemenda skráð sig og fjölbreytt nám í boði bæði í söng og hljóðfæraleik. Þetta finnst mér afskaplega gott og nauðsynlegt og þessu fagna bæjabúar eins og aðsókn sýnir. Lítil frænka er byrjuð að læra á gítar með sína örvhentu sem verður henni varla til trafala eins músíkölsk og áræðin hún nú er. Músíknám er gífurleg jákvæð viðbót við allt líf hér eins og annarsstaðar það er margsannað mál.
Læt gott heita í bili, þetta var svona rétt til að sýna að ég er ekki alveg steinhætt hér í blogginu- meira fljótlega
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Húsin í bænum
3.9.2007 | 18:35
Hér á Patreksfirði seljast hús og íbúðir sem aldrei fyrr. Það er auðvitað bara jákvætt svona alla jafna. Brottfluttir og aðrir hafa eygt tækifæri til að eignast sumarhús fyrir lítið sé miðað við verðlag sumarhúsa á suðurhorninu og reyndar víðar.
Ekki eru allir á eitt sáttir með þessa þróun. Góð einbýlishús hafa nýverið selst í þessum tilgangi. Þetta mál hefur nokkra fleti sem ég ætla að velta upp. Einn er sá flötur sem vegur þarna þyngst og hann er sá að enginn hefur heilsársbúsetu í eignunum, sem sagt þarna býr enginn með lögheimili á staðnum og skilar þar af leiðandi ekki sambærilegu til samfélagsins og byggi eigandi hér árið um kring . En þetta finnst mér meira vera afleiðing þeirrar fléttu sem í daglegu tali kallast þróun og er í raun ástand sem misvel hefur unnist úr af ráðamönnum.
Ég sé það jákvæða við sumarhúsavæðinguna að í einhverjum tilfellum er fólk að kaupa hús/íbúðir sem þarfnast viðgerðar bæði að utan og innan. Fólk byrjar að taka til hendinni og fínisera eignina og umhverfi hennar, sum húsakynnin hafa staðið auð en fyllast af lífi á meðan fólk gistir þau. Margir nýta hvert tækifæri til að koma í húsið sitt og njóta þess að vera hér sem oftast og taka góðan þátt í viðburðum í bæjarlífinu. Ein af mínum æskuvinkonum var ásamt bróður sínum að kaupa sér eign hér sem reyndar var æskuheimilið hennar. Hún ljómaði eins og sól þegar hún sagði mér fréttirnar og ég var auðvitað alsæl að fá þau hér í nágrenni við mig. Finnst það alveg frábært bara . Ég veit að þau eiga eftir að verða hér með annan fótinn og hafa reyndar mikið verið á ferðinni hér fyrir vestan í gegnum árin. Ég tel svona hóflega sumarhúsabyggð innan bæjarmarka og þar með frítímahúsalíf geta blandast bæjarlífinu ágætlega og auðgað það meira þegar frá líður. Maður þarf jú ekki að fara langt til að sækja sér menntun eða atvinnu. Grundvallarþjónusta er hér til staðar og hún mjög góð.
Á allra síðustu árum hefur verið snyrt verulega vel til hér í bænum þó að sum hús hafi þá sorgarsögu að geyma að eigendur hafa flutt héðan og ekki einu sinni borið við að auglýsa til sölu. Þetta verða dapurlegir hjallar sem bera síðustu eigendum ekki fagurt vitni.
En bærinn hefur tekið stakkaskiptum síðustu ár og mér finnst hann bara flottur.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Nýr bátur til Patreksfjarðar
31.8.2007 | 22:40
Í kvöld kom hingað til Patreksfjarðar nýr stálbátur. Slík sjón gerist æ sjaldgæfari í höfnum sjávarplássa eins og þessa sem áður iðuðu af lífi. Bátinn var fyrirtækið Skriðnafell að kaupa. Skriðnafell er bæjarnafn af Barðaströnd og þar bjuggu afi og amma eins eigandans og skipstjóra bátsins, Óskars Harðar Gíslasonar. Eigendur gáfu bátnum nafnið Valgerður eftir föðurömmu Óskars.
Ég fékk gest til mín í kvöld og yfir kaffibollanum var ákveðið að bregða sér niður á höfn og skoða bátinn sem var rétt að koma í höfnina og öllum til sýnis. Við skelltum okkur um borð og skoðuðum bátinn, glæsilegasta fley tæp 64 tonn. Þarna ríkti mikil gleði og ánægja með framtak þessara aðila, margir komnir að samgleðjast þeim. Presturinn okkar séra Leifur flutti tölu og fór með blessunar og bænarorð. Óskar skipstjóri er hörkuduglegur og hefur um árabil verið fengsæll skipstjóri á bát héðan. Ég er ekki í vafa um að framtakið á eftir að verða hlutaðeigandi til góðs og óska þeim alls hins besta.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Berjatíð
30.8.2007 | 08:35
Ég kíkti í ber fyrir um hálfum mánuði síðan. Sá mikið af kræki- og bláberjum. Berjaspretta mundi ég segja að teldist ágæt í ár.
Tíndi slatta af bláberjunum og auðvitað rétt í lófann af bláberjagrænjöxlunum sem eru reyndar gulir. Þeir eru nefnilega lostæti
Í gegnum tíðina hef ég nú ekki verið rosalega öflug berjatínslukona, kannski aðeins svona til að eiga með ís og svoleiðis en ekki farið í stórfellda sultu eða saftgerð.
Þegar sonur minn var eitthvað rétt 11 ára eða svo fóru hann og yngri bróðir minn í feikna ham og tíndu 18 kíló af krækiberjum í hlíðinni fyrir ofan bæinn - dugnaðarstrákar. Pabbi stóð í eldhúsinu, hreinsaði og gerði úr þessu saft á flöskur auðvitað með dyggri aðstoð mömmu. Þetta þótti mikil elja hjá svona ungum strákum að tína allt þetta magn og fólki féllust hendur þegar þeir birtust með afraksturinn. Enda stóð ekkert til á þeim tímapunkti að fara í hanteringu berjaafurða. Sem sagt það getur verið gráupplagt að fara með börnunum sínum í berjamó, þau virðast njóta þess mjög að tína sum. Auk þess er þetta lærdómsríkt og auðvitað gott að halda þessu lifandi meðal næstu kynslóða ef út í það er farið.
Annars fékk ég í dag þessa fínu uppskrift af krækiberjahlaupi sem er víst mjög þægilegt að búa til. Hana ætla ég að prófa næstu daga ef mér lukkast að ná í eitthvað af krækiberjum.
Ég læt uppskriftina fljóta með hér til gamans og verður vonandi fyrirgefið að hafa birt hana hér á blogginu.
Krækiberjahlaup
1.500 gr krækiber
7.5 dl. Vatn
Soðið í 20 mín og á meðan er kartöflustapparinn notaður á berin.
Þetta er svo marið í gegnum sigti og reynt að pressa meira úr berjunum á meðan.
Sett í pottinn og 1.400 gr molasykri bætt í, suðan látin koma upp og molinn leystur upp.
Eftir þetta er einu gulu bréfi af hleypi bætt í .
Kælt aðeins og sett á krukkur.
Verði ykkur að góðu.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Blogglestur
30.8.2007 | 00:29
Best að skella inn eins og einni færslu á þetta líflausa blogg mitt, sem mun þó lifna við með lækkandi sól Í stað þess að ráðast á bókaturninn á náttborðinu hjá mér svona kvöld og kvöld, þá dett ég stundum í blogglestur.
Á blogginu eru margir stórskemmtilegir pennar á ferð. Ég hef verið að kíkja á nokkra og t.d Jens Guð sem ég kannast aðeins við eins og reyndar margur landinn. Maðurinn er nefnilega ægilega flinkur skrautskrifari og kom með námskeið hingað á Patró fyrir mörgum árum. Ég fór svo einhverjum árum síðar á Færeyska daga í Ólafsvík einu sinni sem oftar og var þar á ferð með Færeyskri fjölskyldu. Við hópurinn skruppum á ball og á ballinu hnippir ein Færeysk úr hópnum í mig, bendir á Jens skrautskriftarkennara og segir "hygg" sem þýðir að ég held sjáðu. Segist hafa farið á námskeið hjá honum þessum. Heimurinn er ekki stór, ó nei.
Svo reynist maðurinn ekki bara flinkur skrautskrifari, heldur líka músíkant og svona asskoti skemmtilegur bloggari. Svona getur nú fólk leynt á sér, - ekki það að maður kynnist svona námskeiðshöldurum sem droppa hér við neitt til að geta sagt til um karakterinn.
Ég get nefnt fleiri bloggara sem mér finnast fínir pennar en fer ekkert út í þá upptalningu hér. Annað má svo nefna og það eru kommentin sem eru oft óforbetranleg. Þar fara aðrir bloggarar á flug, það er næstum sama hvert umræðuefnið er, stundum finnst manni stefna í hörku fæting í kommentunum. Maður sér þá ekki fyrir sér annað en að árshátíð bloggara gæti orðið lífleg uppákoma. En annars er þetta oftast í saklausari kantinum, góðlátlegt grín en að sjálfsögðu er þarna inná milli þörf, kröftug gagnrýni á umræðu og atburði líðandi stundar í okkar þjóðfélagi.
Þar eru margir ansi kjarkmiklir bloggarar á ferð sem vekja mann til umhugsunar og sýna manni aðra hlið mála. Já - það er bara ágætt að detta í blogglestur við og við
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Framfaraskref.
9.8.2007 | 00:08
í dag var formlega stofnuð framhaldsdeild á Patreksfirði, sem byggir á samstarfi við Fjölbrautarskóla Snæfellinga. Talandi sem bæjarbúi hér þá finnst mér það sem ég hef séð af kynningarefni og öllum undirbúningi varðandi þetta mál virkilega vandað og augljóst að þarna er unnið af áhuga og heilindum garnvart málefninu. Ekkert hér um bil í þessu. Ég varð aðeins vör við það fyrst að það var eins og fólk tryði varla að þetta yrði að veruleika og ef af yrði hlyti þetta að verða bóla sem springi - en það hefur breyst. Mér finnst einmitt þannig að þessu staðið á allan hátt að ég vil frekar trúa því að þetta verði bolti sem vindur uppá sig.
Ég sem hef eins og fleiri þurft að senda ungling frá mér í skóla fjarri heimahögunum fagna þessu framtaki og óska aðstandendum, nemendum og okkur öllum hér á suðursvæði Vestfjarða til hamingju með þetta framfaraskref. Búið er að innrétta og tæknivæða álmu í nýrri hluta Grunnskóla Patreksfjarðar undir starfsemina. Í næsta húsi er nýlegt og glæsilegt íþróttahús með sundlaug og flottri aðstöðu. Það væsir því ekki um okkur hér í bæ lengur hvað menntun og íþróttaiðkun snertir. Lionsklúbburinn hér á Patreksfirði hefur styrkt þetta verkefni með myndarlegum hætti sem endurspeglar fögnuð bæjarbúa með framtakið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Bókaormur
8.8.2007 | 19:17
Já, ég telst líklega hreinræktaður ormur af þessari gerð. Ég ólst upp við það að bera virðingu fyrir skruddum af öllu tagi. Frændi minn Markús Ö. Thoroddsen safnaði bókum og batt inn í frístundum. Mér þótti sem krakka merkilegt að skoða í hillurnar hjá Bjössa og ekki síður að sjá þessi merkilegu tæki sem hann notaði við bókbandið. Hann vann líka í bókasafninu á staðnum og dubbaði að sjálfsögðu einhverjar laslegar bækur upp í betra band. Sömuleiðis hafa foreldrar mínir alltaf haft dálæti á bókum og hansahillurnar á bernskuheimilinu svignuðu undan bókum. Það má því segja að maður hafi alla tíð haft aðgang að ýmsum gullmolum í hillum fjölskyldunnar, sér til fróðleiks og ánægju. Ég fór sem stelpa í bókasafnið á fimmtudegi og var búin að afgreiða skammtinn á laugardegi. Í mörg ár eftir að börnin mín fæddust lá þessi lestraráhugi aðeins í dvala að mestu en tók sig upp aftur mér til mikillar ánægju og auðvitað las einhverjar barnabækur fyrir þau, man eftir að sú síðasta sem ég las upphátt var Benjamín dúfa eftir Friðrik Erlings. Í mínum huga er lestur góðra bóka ein besta afþreying sem hægt er að hugsa sér. Einhversstaðar segir að "bókmenntir séu sálinni það sem hreyfing sé líkamanum" það er líklega margt til í því. Ég er hinsvegar misheilluð af efni bókanna og les alls ekki hvað sem er sem er auðvitað eðlilegasti hlutur í heimi að hafa skoðanir á hvaða andlega fóður maður velur sér. Mitt Idol í barnabókunum á sínum tíma var hún Nancy sem hafði svo frábæra leynilögguhæfileika og leysti hvert málið á fætur öðru, eins voru það Frank og Jói sem heilluðu líka talsvert. Það er því engin tilviljun að sakamálasögur eru þær bókmenntir sem hafa heillað mig mest og eins breskir sakamálaþættir, þeir klikka náttúrulega ekkert. Ég hef hins vegar lítið heillast af ástarsögum sem gera mest út á að koma hjúkkunni með kastaníubrúna hárið í fallega pilsinu og kasmírullarpeysunni í fangið á flotta nýráðna lækninum. Sá á oftast flottan bíl með leðursætum og loftkælingu. Ég fordæmi hins vegar ekki þá sem nenna að lesa þessar bækur, síður en svo. En annars les ég nú bara allt mögulegt það er ekki málið.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.ágúst 2007
4.8.2007 | 01:01
Föstudagurinn 3.ágúst er merkilegur fyrir margra hluta sakir. Verslunarmannahelgin, fólk á ferð og flugi út um allt. - Stemmingin í loftinu. Afmælisdagur dótturinnar. Vaknaði í morgun við fyrsta hanagal ....nei ekki alveg þannig, heyrist ekki í hana lengur, það nennir enginn orðið að hafa hænsnakofa í garðinum hjá sér ....skil þetta bara ekki.
Það var sem sagt bara vekjarinn í gemsanum sem vakti mig eins og vanalega. - Ég stillti auðvitað á blund, sem þýðir að það eru nákvæmlega 9 mínútur þar til hann hringir næst. Eftir að hafa stutt nokkrum sinnum á blund eða um fjórum sinnum ákvað ég að drífa mig framúr og skella mér í sturtuna. Dóttir mín 22ja ára í dag (hugsa sér hvað tíminn flýgur) og ég gat ekki beðið eftir að komast í vinnuna og senda henni fallega(þó ég segi sjálf frá) kortið sem ég hafði föndrað við í gær í tölvunni. Við erum svo lánsamar mæðgurnar þetta sumarið að vinna á sama vinnustað þó að firðir skilji okkur að. Ég dreif mig því í að senda henni þetta fljótlega eftir að ég mætti í vinnuna. Ég fékk náttúrulega góðar kveðjur í staðinn eins við var að búast af hennar hálfu. Hún kom svo þessi elska keyrandi hingað eftir vinnu - um tveggjatíma ferð og við fórum saman út að borða á veitingastað bæjarins.
Í fyrramálið fer ég svo snemma af stað suður á bóginn - ætla að vera í bústað í Ölfusborgum fram á mánudag. Sonurinn sem býr hjá mér í sumar verður á vaktinni sem laganna vörður hér á svæðinu yfir helgina. Vona bara að þetta verði góð helgi, sér í lagi að umferðin verði slysalaus.
Ég bíð spennt eftir að heyra af gengi Karenar Ingibjargar bróðurdóttur minnar sem keppir á Landsmótinu austur á Höfn í Hornafirði. Hún er svo seig þessi stelpa og bráðefnileg. Vona að henni gangi svakalega vel.
Læt gott heita í bili - góða helgi
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mætt !
24.7.2007 | 18:59
Einn dyggasti af örfáum lesendum bloggbröltsins hjá mér sagði við mig í gær að það væri hálf boring að kíkja næstum á hverjum degi á þetta blogg og bara ekkert í gangi !! Nú skal aðeins bætt úr því.
Ég er sem sagt komin heim úr alveg dásamlegu fríi. Fór á slóðir sem ég hef ekki komið á áður - heillaðist af fegurðinni á þessari leið - Fjallabaksleið nyrðri(afsakið misritunina - það var ekki sú syðri eins og ég skrifaði fyrst ), -Fór langleiðina að Hrafntinnuskeri eða eins langt og hægt var að komast með góðu móti bílandi. Þetta var jú bara dagsferð þannig að allar lengri gönguferðir bíða betri tíma. En þetta var stórfenglegt að upplifa enn meira af fjölbreytni okkar ægifagra lands. Kolsvört sandfell hér og þar sem skörtuðu skærgrænum mosa í vætuskorningum. Sömuleiðis kolsvart Hrafntinnuhraunið - steinsnar frá er svo Líparít í fjöllum og dökkt hraunið þakið gráum mosanum, alveg magnað að sjá, - þegar degi tók að halla var svo haldið niður fagra sveit , - Skaftártungurnar áleiðis til Reykjavíkur. Ég naut leiðsagnar Alla , míns allra besta vinar. Hann er fróðleiksnáma um jarðfræði landsins og þekkir þessar slóðir vel.
Já það er endalaust hægt að staldra við og skoða. "Skruppum " líka á Strandirnar, þar er landslagið hrikalegt og magnað. Fórum lengst í Ófeigsfjörð sem geymir tvo verulega fallega og stóra fossa. Fórum að öðrum sem er í Hvalá, beljandi árinnar ægilegur og fossarnir sem eru í rauninni tveir í stærri kantinum með þeim fallegri sem maður sér. Eiginlega vel geymt leyndarmál fyrir þá sem eru áhugsamir um mikilfengleg vatnsföll. Já það er frábært að þvælast bara um og skoða í svona dásamlegu veðri eins og verið hefur allan júlímánuð. Tjalda þar sem manni dettur í hug og skella sér í næstu sundlaug þegar færi gefst.
En júlí er ekki búinn og ekkert lát virðist á blíðunni þó að vissulega hafi nú aðeins dregið niður í hitamælinum. Kannski að Verslunarmannahelgarveðrið í ár verði bara eins og það var fyrir 22 árum. Blíðunni þá gleymi ég aldrei - hún var í stíl við atburð helgarinnar þegar ég varð öðrum sólargeisla ríkari - Þórunn Sigurbjörg kom í heiminn.
Bloggar | Breytt 25.7.2007 kl. 14:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Ég fer í fríið......
3.7.2007 | 00:11


Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)