Færsluflokkur: Bloggar

Rakel Sara.

Ég má til með að setja inn fyrstu myndir þessa bloggs  sem eru myndir  
af minnsta  frænkuskottinu mínu.  
Þetta er Rakel Sara Sveinsdóttir fædd 23. maí 2007 - yngsti gullmolinn í fjölskyldunni.
Með henni fékk ég nafnbótina afasystir.
Þetta er falleg  og kát dugnaðardama.
Rakel í kerrunni
Rakel Sara

Framandi og fallegt.

Ekki getur maður sofið út en á sunnudagsmorgni slakar maður á engu að síður.  Núna er það fréttarúntur á netmiðlum, bloggrúnturinn og horfi svo með öðru auganu á þátt á BBC prime þar sem Michael Palin sýnir okkur á fróðlegan hátt myndir af lífinu  í Tíbet.   Landslagið er frekar hrjóstrugt  en litadýrðin er með ólíkindum í klæðnaði fólks og bænaflöggum sem hanga á löngum böndum og virka eins og hvert annað rusl en þau hafa sinn tilgang.  Ég elska svona þætti alveg.  Yfirmaður minn Jensína Unnur hefur farið til Tíbet. Á  einum af mánaðarlegum fundum okkar í Kvenfélaginu fengum við hana til að segja okkur frá heimsókn sinni þangað. Hún kom með gripi og myndir frá Tíbet og sagði okkur frá því sem fyrir augu bar, - þetta var verulega fróðlegt og skemmtilegt.  Svo má ég til með að segja frá vef sem gaman er að skoða. www.pbase.com .  Þetta er ljósmyndavefur og ljósmyndarar víða um heim setja myndir þarna inn og maður getur slegið  inn leitarorðum eins og t.d nöfnum landa, borga, dýra og hvers þess  sem manni dettur í hug.  Sláið t.d inn orðinu butterflys - ótrúlega fallegar myndir af fiðrildum - kíkið á birds - þá má sjá birds in Sweden - flottar fuglamyndir  já bara að nefna það.  Mæli sem sagt sterklega með honum þessum.

En komið gott af bloggi á þessum sunnudagsmorgni - njótið dagsins gott fólk  Smile


Konudagur

Í dag er konudagurinn til hamingju auðvitað allar konur með hann.  Á þessum degi eru konur gladdar á einn eða annan hátt líkt og þær gleðja karlmennina í sínu lífi á bóndadaginn.  Þetta er bara skemmtilegur siður.  Verslanir og fl. eru sífellt að skjóta hugmyndum að fólki, með  hvað væri nú sniðugt að kaupa og gefa sem er auðvitað eðli þeirra sem þurfa að auglýsa sína vöru en mörgum finnst nóg um og vilja bara hafa þetta eftir sínu höfði. Mig minnir að ég hafi heyrt bakarí auglýsa tertu í tilefni dagsins.  Það hafa hins vegar ekki allir gott aðgengi að bakaríi og eða blómabúðum.  Mér varð hugsað til manns sem var að hafa áhyggjur af að hafa gleymt að kaupa blóm.  Þá  datt mér  í hug að skella þessari  uppskrift að frábærlega einfaldri og góðri döðutertu í loftið, sem tekur lítinn tíma að útbúa og fínt að eiga með sunnudagskaffinu. Jafnvel óvanir bakarar ráða við að baka hana þess

Döðluterta

1.bollil saxaðar döðlur

1/2 bolli saxað suðusúkkulaði

3 kúfaðar matsk. hveiti

1. bolli sykur

1 tsk vanilludropar

3 msk kalt vatn

2 egg

1 tsk lyftiduft

Öllu blandað saman og hrært.

Degið er sett í eitt lausbotna form(ég nota 26 cm í þverm.) og bakað í ca 30-40 mín. við 150°C hita. Ofan á er settur þeyttur rjómi, niðursoðnar perur í sneiðum eða eftir hugmyndaflugi hvers og eins, og að lokum er smá súkkulaði raspað yfir.  Þessa köku er sem sagt gott að gera að morgninum og bera svo fram kalda og fína með kaffinu. 

Verði ykkur að góðu.


Bjartur dagur.

Já svo sannarlega fallegur dagur og dásamlegt þegar daginn fer að lengja.  Á fimmtudagsmorguninn  fór ég að heiman um 9:00 og mætti þar af leiðandi ekki í ræktina þann morguninn.  Það  var bjart og notalegt að koma út - smá hlé á þessu fannfergi og leiðindum í veðrinu. Þá fann maður þetta -Þessa vortilfinningu  hríslast um sig  þó ótímabær sé nú reyndar svona  í febrúar en mér leið bara svona í kærkominni pásu frá snjókomu með tilheyrandi bílrúðuskaferíi á morgnana. 

Ég fékk svo fínar fréttir í vikunni  - dóttirin búin að skrá sig í hjúkrunarnám í haust, alltaf gott þegar spegúlasjónum um námsleið líkur með ákveðinni lendingu.  Hún er byrjuð í undirbúningi á Ísafirði einu sinin í viku.  Æ, ég varð að tjá mig um þetta - varð svo ánægð með hana einu sinni sem oftar.

Í dag er málþing á Bíldudal um olíuhreinsunarstöðvarmálin.  Það er Fjóðrungssamband Vestfjarða sem heldur þingið eins á Ísafirði á morgun.  Dagskránni er skipt niður og  er í grófum dráttum svona:  Umhverfismál / Ný atvinnutækifæri / Samfélagsmál.  Þarna taka t.d til máls Árni Finnsson frá Náttúruverndarsamtökum Íslands, Ólafur Egilsson frá Íslenskum hátækniiðnaði Smári Geirsson frá Fjarðarbyggð sem ræðir um reynsluna að austan, svo einhverjir séu taldir.  Dagskrána má sjá í heild sinni á vef Fjórðungssambandsins :  http://www.fjordungssamband.is .  Þar sem ég á ekki heimangengt í dag fer ég ekki á þingið.   Ég er samt sannfærð um að margir mæta  og hlakka til að heyra af þessu. Þetta er svo heljarinnar stórt málefni að eðlilegt að þetta sé skoðað frá öllum hliðum.  Ég ætlaði reyndar að vera stödd á árshátíð í Reykjavík þessa helgina en það breyttist snemma í vikunni.

En nú ætla ég að hespa mér  í morgunmatinn,  kíkja svo í Bröttuhlíð áður en ég tek til við raunverulegt amstur dagsins.  Eigið góðan dag Wink


Erindi frá Íslenskum hátækniiðnaði.

Fólk hér á svæðinu sýndi fundarefninu  "fyrirhugaðri i olíuhreinsunarstöð" mikinn áhuga sem von er.   Veðrið var ekki uppá marga fiska en fundargestir voru ekkert að setja það fyrir sig og var fundarsókn betri en gert var ráð fyrir, enda málefnið mikilvægt fyrir okkur hér.  Þetta var ágæt framsetning skýr og myndræn.   Fólk fékk tækifæri til að spyrja spurninga og tel ég flesta almennt hafa orðið nokkurs vísari um málefnið.  Rætt var um mengun, öryggismál og fl. - Spurningar komu fram um áhrif siglinga stórra skipa á lífríki  Arnarfjarðar, hlutfall karla og kvennastarfa, kostnað, mengunarkvóta svo fátt eitt sé talið. Sú tilhugsun að hugsanlega hreiðri hér um sig  fyirtæki af þessari stærðargráðu er á vissan hátt þokukennd.   Vinnan við undirbúning er þó hafin þannig að við eigum eftir að sjá hvernig fer.  Það á eftir að ákveða nákvæma staðsetningu - hvort olíuhreinsunarstöðin verði á Söndum í Dýrafirði eða í Hvestudal í Arnarfirði.   Benti Hilmar Foss flutningsmaður erindisins á að sátt þyrfti að vera um slíkt fyrirtæki meðal  íbúa svæðisins.  Það heyrist mér ekki vanta neitt uppá að sé hér svona almennt séð.  Fundurinn fór vel fram og tel ég flesta hafa verið ánægða með þessa kynningu.  Olíuhreinsistöð er fyrirbæri af þeirri stærðargráðu að sterkar skoðanir eru um hana á báða bóga.  Fólk sem býr ekki á svæðinu sker sig ekkert úr hvað það varðar þ.m.t brottfluttir Vestfirðingar, finnst þetta bara tóm tjara að fara út í svona dæmi,  vill halda Vestfjörðunum sem ósnortnustum.  Það viljum við sömuleiðis.  En  það þarf að vera lífvænlegt hér, það er nú málið  og það væri engin framþróun í að skoða ekki ný tækifæri. 


Fundur um olíuhreinsistöð.

Atvinnumálanefnd Vesturbyggðar og Tálknafjarðar mun á mánudaginn 18. febrúar standa fyrir kynningarfundi um olíuhreinsunarstöð þá sem hugsanlega rís á Vestfjörðum í náinni framtíð.  Hilmar Foss frá Íslenskum hátækniiðnaði mun þar flytja framsögu og svara spurningum fundargesta sem verða vonandi sem flestir.  Ég fagna verulega þessu framtaki atvinnumálanefndar. 

Í haust sem leið var ég á fundi Sambands Vestfirskra kvenna á Bíldudal. Konur höfðu óskað eftir erindi frá ofangreindu fyrirtæki sem gefið gæti aðeins gleggri mynd af slíku dæmi sem olíuhreinsunarstöð er. Hilmar Foss varð fúslega við þeirri ósk   og hélt erindi um málið. Svaraði hann greiðlega spurningum okkar fundarkvenna.   Erindið var afar upplýsandi og ég hefði viljað þá að sem flestir íbúar svæðisins hér hefðu fengið slíkt erindi.  Það var ekki á döfinni á þeim tímapunkti en nú hefur verið blásið til  slíks fundar eins og fyrr segir um stöðina sem er að mér finnst tímabært.  Að mínu viti var fyrirlestur Hilmars á Bíldudal mjög fræðandi.  Fyrir mér sem hef ekkert vit á olíuhreinsistöðvum - bara heyrt háværar raddir um tröllaukna ofurmengandi verksmiðju, siglingu stærðarinnar olíuskipa, mönnun útlends vinnuafls  og fl. í þeim dúr, var Hilmar ekkert að fegra hlutina heldur tala um staðreyndir.  Hann  var einnig með myndir af stöðvum víða um heim sem hann sýndi .  Ég mundi ekki segja að áhrif fundarins hafi endilega  verið þau að Hilmari "hafi tekist að kristna lýðinn" heldur bar okkur fundarkonum bara saman um að við værum margs vísari um málið sem var og tilgangur þessa.

Nú er það svo að við Vestfirðingar höfum upplifað mikla niðursveiflu  á tiltölulega stuttum tíma.  Íbúarnir hafa horft á eftir hverri fjölskyldunni á fætur annarri hverfa héðan og í kjölfarið hefur ýmis þjónusta skerst á svæðinu.  Efling atvinnulífs er ekki nógu hröð .  Ekkert af þessu eru ný sannindi. Talað er um að við séum að veðja of mikið á umrædda olíuhreinsunarstöð.  Lái okkur það hver sem vill.  Við hljótum að skoða það mál til hlítar og taka svo viðeigandi afstöðu að skoðun lokinni.  Eftir hverju eigum við að bíða ?  Ég bara spyr.  Að sjálfsögðu má ekki láta staðar numið í að skoða aðra atvinnumöguleika samhliða.  Við Vestfirðingar verðum að snúa bökum saman, nú sem aldrei fyrr í að styrkja búsetumöguleika fólks hér.   -   Ég efast ekkert um að fundurinn á mánudaginn verður fjölsóttur.   Við erum orðin langþreytt á ástandinu og tökum  fagnandi öllum nýjum skoðunarverðum tækifærum.  Annað væri í hæsta máta óeðlilegt.   Ég ann náttúruperlunni Vestfjörðum og vil mínum heimahögum allt hið besta, einmitt það  að þar fái áfram að þrífast fjölbreytt mannlíf.


Sunnudagsmorgunn

Nú fær maður að finna fyrir Íslenskum vetri svo um munar.  Snjókoma, stormur, rigning, hagl, allar sortir í þessum veðurham sem verið hefur undanfarna daga.    Maður vill helst kúra undir sænginni en það gengur víst ekki alveg að setja allt á "hold". Bróðir minn sem elskar sunnudagssteik uppá gamla mátann bauð mér í mat í hádeginu með fjölskyldu sinni og vinafólki.  Hann kann lagið á mannskapnum og finnst gráupplagt að hóa í liðið sem hefur ekki hist lengi sökum anna. En hvort allir veldu hádegi á sunnudegi til þess það er svo annað mál en við erum nú öll óttalegir morgunhanar þannig að þetta passar fínt svona.  Í þessum "töluðum orðum" er ég með köku í ofninum þar sem í dag verður síðasti stjórnarfundur Sifjar haldinn á mínu heimili, aðalfundur og námskeið framundan sem þarf að diskútera aðeins. Á meðan kakan bakast er kjörið að kíkja í Moggann og fl. - lesa um bruna í Camden hverfinu í London og gegni frambjóðenda í USA og hver veit nema að maður kíki aðeins á REI málið eilífa..........æi nei annars, nenni því varla.


Grjóthaltu kjafti og hitaðu matinn þinn sjálfur !

Þetta er ættað úr listasýningu ungrar listakonu Körlu Daggar Karlsdóttur sem sýnt var frá í Kastljósinu í kvöld.  Þær hefðu nú hrokkið við þessar húsmæðraskólagengnu hér á árum áður við að sjá svona í bróderíinu á eldhúshandklæðinu. En þetta er mjög sérstök sýning listakonunnar þar sem hún saumar hinar ýmsu setningar í ryðgað járn.  Mér sýndist þetta nú bara vera afturstingur sem hún hefur saumað ofan í fyrirfram gatað járnið.  Listin er fjölbreytt og misjafnt hvað fólki finnst fallegt. Mér fannst þetta skemmtileg hugmynd  þótt útlit listaverkanna félli ekkert alveg að mínum smekk allavega ekki það sem sýnt var í þessum stuttu klippum. En þetta  er enn eitt dæmið  um hversu listin er frjáls og óheft í öllum sýnum fjölbreytileika. 

Ég reyni að fara á listsýningar af og til.  - Síðasta sýning sem ég datt inná var sýning Þuríðar Sigurðardóttur (söngkonu) nú í janúar - þar sem hún sýndi stór verk unnin með blandaðri tækni. Þar var myndum af stórum rafmagnsmöstrum þrykkt á álplötur og möstrin voru klædd í kvenfatnað í ýmissi mynd og fatnaðurinn virtist mér málaður. En þetta voru töff verk fannst mér. Þuríður er ferlega góður málari og málar a.m.k mjög falegar blómamyndir.

Já það er gaman að fara á listasýningar - getur verið sannkallaður konfektkassi fyrir augun.Smile

 


Að morgni dags.

Nú á laugardagsmorgninum 2. febrúar stefnir í fínan dag - ágætis veður þó kalt sé.  Ég hef farið í íþróttahúsið á hverjum virkum degi síðan um miðjan jan. Líkar þetta vel og finn mun á mér.  Ég hef helst farið á morgnana, það hentar mér betur.  Ég var að glugga í bókina "Líkami fyrir lífið" sem ég eignaðist árið 2001.  Þetta er ágætis bók að mörgu leyti eftir því sem ég hef vit á. Þægileg að lesa og hvetjandi.  Þarna er talað um að maður brenni fitu 300% hraðar í æfingum gerðum að morgni dags á fastandi maga heldur en ella.  Ég veit svo sem ekkert hversu vísindalegar þessar staðhæfingar eru hjá höfundinum Bill Philips en ég hef  áður heyrt að morgunæfingar séu betri  - en það er ekki það stýrir vali mínu á æfingatímum  heldur finnst mér bara fínt að vakna snemma og klára þetta fyrir vinnu.

Ég fékk ágætt prógramm hjá konu hér í bæ sem heitir Katrín. Hún hefur reynslu  á þessu sviði  og hefur m.a  komið sjálfri sér í mjög gott form, það finnast mér góð  meðmæli. Ég hef annars staðar fengið leiðbeiningar í æfingum og veit af samanburði mínum sem byrjanda að prógrammið frá henni mjög gott. Það virkar vel og ég er ánægð með það.  Það er auðvitað þetta átak í gangi í Íþróttahúsinu sem ég hef áður skrifað um og má lesa allt um á patreksfjordur.is.  Fínasta gengi í því  - mikill áhugi.

Núna á eftir -  eða nákvæmlega kl. 11:00 hittumst við vinnufélagarnir inn við Essó skálann (N1)- förum í langan göngutúr  og kíkjum svo líklega til Rabba bakara og athugum hvernig honum gengur í bollubakstrinum Wink 

Við skvísurnar á mínum vinnustað byrjuðum á svona laugardagsgöngutúrum í haust og það hefur bara haldist nokkuð vel að gera þetta -  Misjafnt hvað margar mæta en þetta er bráðsniðugt  og auðvitað bara hressandi. Í haust kom meira að segja ein úr Tálknafirði og gekk með okkur. 

Best að drífa sig í gallann !! Eigið góðan dag SmileGrin


Fuglasafn Sigurgeirs

Ég var að fletta Blaðinu í gær og sé þar frétt um að Fuglasafni Sigurgeirs í Mývatnssveit hefði  hlotnast styrkur að upphæð 20 milljónir króna  úr Aurora velgjörðarsjóði.  Ætlunin er að safna til þess m.a að  byggja húsnæði yfir safnið sem telur fjöldann allan uppstoppaðra fugla og eitthvað af eggjum líka.  Vinkona mín vakti athygli mína á þessu því að í blaðinu var mynd af Pétri Bjarna bekkjarbróður okkar þar sem hann var að taka við styrknum við hátíðlega athöfn í Þjóðminjasafninu á dögunum. Sigurgeir sá sem safnaði öllu þessu og safnið er kennt við  lést af slysförum fyrir nokkrum árum ungur maðurinn  -  hann var að ég best veit mágur Péturs Bjarna.  Ég  mundi reyndar eftir að hafa  séð umfjöllun um þetta safn í sjónvarpinu á sínum tíma og vissi því af tilvist þess.

Það er gaman ef aðstandendum safnsins  tekst að klára þetta dæmi -  að byggja aðstöðu fyrir það því mér skilst að þetta sé ótrúlegur fjöldi fugla og eggja, fræðslugildið örugglega ótvírætt.   Mér finnst þetta  hið áhugaverðasta mál. 

Þegar ég bjó  á Akureyri fór ég í  fuglaskoðunarferð - lygilega skemmtileg.   Maður brunar venjulega eftir þjóðvegunum og gefur lífríkinu lítinn gaum þannig lagað séð. Í þessari ferð fórum við hópur vinnufélaga og fylgifiska, lögðum upp frá Leirunesti á Akureyrir og inn að Kristnesi.  Á þessari ekkert voðalega löngu leið sáum við hátt á þriðja tug fuglategunda. Leiðsögumaðurinn var með skúbber sem er stærðar kíkir á þrífæti og við stoppuðum af og til  og kíktum.  Þarna sá ég Jaðrakan í fyrsta sinn á æfinni og fleiri sjaldgæfa fugla. Þetta var lærdómsríkt og bara þrælgaman. Ferðin  nýttist mér svo sem ræðuefni á félagsmálanámskeiði sem ég fór á fyrir ekki mörgum árum síðan.    Á slóðinni www.fuglasafn.nett.is má sjá allt um Fuglasafn Sigurgeirs sem ég skrifaði um hér að ofan. Þetta á vonandi eftir að verða að verða hið aðgengilegasta safn sem gaman verður að heimsækja.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband