Færsluflokkur: Bloggar
Þessi vísa er aldrei of oft kveðin.
20.4.2008 | 22:41
Ég heyrði í öldruðum einstaklingi í síma í dag sem býr nokkuð fjarri mér, en við heyrumst einstöku sinnum. Viðkomandi hefur alla tíð verið sprækur og hress með afbrigðum en nú þegar aldurinn færist yfir er farið að bera á kvíða og hræðslu. Þessi einstaklingur er logandi hræddur um sína nánustu og það eru yfirleitt hin minnstu smáatriði sem valda óróleika. Þetta finnst mér erfitt að vita af en þó bót í máli að vita að sá hinn sami er meðvitaður og fær aðstoð. Ég fór að hugsa aðeins um andlegt heilsufar svona almennt. - Það þarf auðvitað að hlúa að andlegri heilsu ekki síður en líkamlegri. Það kostar ekkert að reyna aðeins að átta sig á aðstæðum náungans, hreyta ekki hverju sem er í aðra í hugsunarleysi og skilja kannski þann hinn sama eftir með svíðandi sár. Sumir kunna ekki að skylmast með orðum, bera ekki hönd fyrir höfuð sér og þjást í hljóði undan svipuhöggum sem leiðinda athugasemdir og dónaskapur eru oftar en ekki. Við þurfum að næra andlegu hlið okkar sjálfra líka. Þetta er mér hollt að hafa í huga ekki síður en öðrum. Það er gott ef hægt er að finna þennan gullna meðalveg í þessu öllu saman. Á ísskápnum hjá mér er segull sem sendur var í hvert hús þegar Lýðheilsustöð var með geðræktarátak ef ég er að muna þetta rétt. Á þessum segli eru geðorðin tíu og eru ágæt að lesa yfir af og til:
1. Hugsaðu jákvætt, það er léttara.
2. Hlúðu að því sem þér þykir vænt um.
3. Haltu áfram að læra svo lengi sem þú lifir.
4. Lærðu af mistökum þínum.
5. Hreyfðu þig daglega, það léttir lundina.
6. Flæktu ekki líf þitt að óþörfu.
7. Reyndu að skilja og hvetja aðra í kringum þig.
8. Gefstu ekki upp, velgengni í lífinu er langhlaup.
9. Finndu og ræktaðu hæfileika þína.
10. Settu þér markmið og láttu drauma þína rætast.
Bloggar | Breytt 21.4.2008 kl. 07:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þarna lá hann, lítill og sætur.......
18.4.2008 | 19:55
Lét svo lítið yfir sér en sagði samt svo margt. Sem sagt bæklingurinn sem lá í ganginum hjá mér þegar ég kom heim Þetta var smápési frá bænum, jákvætt og lofsvert framtak svona útgáfa - endrum og eins a.m.k. - Þetta er svo sem allt á netinu en ekki þó alveg - fullt af fólki sem er ekki í tölvu og þarf því að geta fylgst með því sem er að gerast. Já þarna var það helsta kynnt sem er á döfinni í sumar í framkvæmdum og þ.h á vegum bæjarfélagsins. Ég rak augun í Listasmiðju sem fyrirhugað er að starfrækja hér í sumar í tengslum við vinnuskóla bæjarins. Þetta vona ég að verði og að vel takist til með. Flott að ýta undir að krakkar fái að tjá og skapa. Heljarinnar upptalning verkefna, sumu er nú þegar verið að vinna að og annað á döfinni. Hér á að klára sorpsöfnunarsvæði sem er vel á veg komið og verður hið snyrtilegasta að mér sýnist, það á að endurbyggja götu, vinna í skólalóð og fleira og fleira. Já sumarið lofar góðu. Í dag naut fólk veðurblíðunnar, klippti limgerði og hreinsaði til. Börnin hoppuðu alsæl á trambólínum í görðum og þvottur blakti á snúrum. Bara bjútí
Svo er bara tilvalið að hlusta á þetta og koma sér í vorhreingernirgarstuðið:
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Jiiiiihhhhúúúúú !!!!!
18.4.2008 | 08:22
Búið að moka Dynjandis og Hrafnseyrarheiðar. Greiðfært að hitta hluta sinna nánustu eftir langan vetur. Þetta er vorið
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Óvelkominn gestur.
13.4.2008 | 20:20
Gesturinn valdi laugardaginn til innrásar, þennan bjarta fallega apríldag. Ég reyndi framan af degi að losna við hann með öllum ráðum, hann hefur ekki sýnt mér mikinn áhuga í gegnum tíðina. Seinnipartinn ákvað ég að fara út til að reyna að losna pent við hann á leiðinni, taldi sterkar líkur á að það tækist. Ég fór í heimsókn. Þar voru fyrir bandamenn gestsins sem ég gat engan veginn slegist við, ég vissi ekki fyrirfram af þessum öflugu bandamönnum í þessu húsi. Fór því heim aftur eftir tapaðan slag. Gesturinn hékk yfir mér, hagaði sér leiðinlega, potaði í mig og hristi svo ég varð ringluð. Um nóttina þegar ég lá með sæng og teppi toguðumst við á en oftar hafði gesturinn betur. Píndi mig á alla kanta, bæði vatt mér inn í sængina þannig að mér varð ómótt af hita, eða reif hana af mér svo að kuldinn varð óbærilegur í kófinu. Núna þegar ég skrifa þetta finnst mér hann sýna á sér fararsnið og ég krossa fingur. Enda hef ég í dag lverið löglega afsökuð í hlutverki sófadýrsins og það hefur þessum gesti auðvitað bara leiðst. Ég vona að hann láti ekki sjá sig hér aftur í bráð 7,9,13.
Farið vel með ykkur gott fólk og látið ykkur ekki kólna því það er allt eins víst að gesturinn "flensupúkinn" stingi sér niður og hrekki ykkur aðeins.
Takk fyrir góð komment á síðuna í dag .
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Mánuðurinn apríl.
12.4.2008 | 09:43
Apríl er fallegur vormánuður því verður ekki neitað. Það birtir og hlýnar, við fyllumst orku eftir veturinn, líf kviknar já og vaknar af dvala. Þá styttist í að fuglsungar sjáist á stjái, tré farin að bruma og svo má lengi telja.
April/Aprillis var helgaður ástargyðjunni Venusi. Ein skýring á nafni mánaðarins er að það sé dregið af nafni Afródítu sem samsvaraði Venusi í grískri goðafræði. Önnur skýring er sú að nafnið sé myndað af orðinu "aprerire" sem þýðir að opna og tengist því hugsanlega að þetta sé mánuðurinn sem brum tók að opnast. Apríl mánuður var annar mánuður í gömlu tímatali en varð sá fjórði þegar Rómverjar til forna fóru að nota Janúar sem fyrsta mánuð. Á mörgum stöðum í heiminum er þetta tími gróðursetningar og páskarnir eru oftast nær í apríl.
Já apríl er fæðingarmánuður minn og í þeim skilningi má segja að ég og hann séum eitt.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
"Það er rétt handan við hornið "
10.4.2008 | 23:45
Vor
Tveir gulbrúnir fuglar
flugu yfir bláhvíta auðnina.
Tvö örlítil titrandi blóm
teygðu rauðgul höfuð sín
upp úr svartri moldinni.
Tvö fölleit, fátækleg börn
leiddust út hrjóstruga ströndina
og hvísluðu í feiminni undrun
út í flöktandi ljósið:
Vor, Vor !
Steinn Steinarr
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Eftir lestur bloggs um bænir.
10.4.2008 | 20:21
Ég var að lesa bloggfærslu Sr. Svavars Alfreðs Jónssonar þar sem hann skrifar um bænina. Góð grein að lesa. Eftir lesturinn fór ég aðeins að spá í þessu með bænir og trúmálin almennt. Ég trúi ekki að til sé fólk sem trúir ekki á neitt. Margir geta ekki hugsað sér að viðurkenna að þeir séu trúaðir eða gera sér kannski ekki alveg grein fyrir því hvernig þeir gætu best staðsett sig í trúmálum. Sumir hafa hugsanlega lítið velt þessu fyrir sér svona yfirleitt.
Það er ekkert samhengi með trú minni og kirkjusókn sem er frekar slök, ég fer í þessar hefðbundnu athafnir og punktur. En ég er viss um að bænir virka. Ekki endilega sem tæki til að biðja beint um einhverja ákveðna hluti heldur sem andlegur styrkur.
Margir hafa siglt einhvern ólgusjó í lífinu, bæði af völdum missis, veikinda og annarra atvika. Heilmargir hafa ekki alltaf verið til fyrirmyndar hvorki í orðum eða gjörðum þar er ég engin undantekning.
Glíman við afleiðingar veikinda og missis er fólki erfið - en svo eru önnur vandamál sem verða okkur miserfið að takast á við. Það fer eftir aðstæðum og hugarfari hvers og eins hvernig það slær okkur. Þetta fylgir okkur og er partur af því að vera manneskja. Svo spilar hver sem best hann getur úr sínu.
Fyrir mér er bænin ákveðin leið til að bæta hugarástand og efla von. Maður reiknar með að biðjandanum líði betur , jákvæðari og bjartsýnni. Þetta á jafnt við um hvort sem við biðjum fyrir okkur sjálfum eða öðrum. Við verðum jákvæðari áhrifavaldar í umhverfi okkar.
Svavar segir í skrifum sínum: " Þegar við biðjum fyrir öðrum, nálgumst við þá. Í bæninni færum við okkur nær þeim. Tökum okkur stöðu við hlið þeirra " tilvitnun lýkur.
Von - bjartsýni, kærleikur - velvild, virðing og mannleg hlýja eru allt orð sem rúmast innan orðsins bæn. Góður styrkur sem virkar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Flott þetta !!
9.4.2008 | 19:17
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Frænkuskott
9.4.2008 | 18:18
Ég á 8 ára frænkuskott sem býr hér í nágrenni við mig. Þetta er eldklár ung dama sem er mikill orkubolti.
Í desember fyrir rúmu ári síðan gerðist það einn laugardag að hún og vinkona hennar voru að leika sér úti. Þær banka uppá hjá mér og segja að það sé reykur í veitingastað hérna nálægt. Ég stökk af stað með þeim og hringdi í neyðarlínuna á leiðinni og slökkviliðið var komið á staðinn med det samme. Það hafði þá logað á kerti í kertaskreytingu á veitingastaðnum frá því kvöldinu áður og eldurinn að læst sig í skreytinguna og borðið undir henni. Þarna mátti akkúrat engu muna. Stelpurnar voru að sniglast þarna fyrir utan og komu auga á eld á hárréttu augnabliki. Þegar þær sáu þetta ætluðu þær til eigandans en þorðu ekki. Þá var hugmyndin að fara til afa vinkonunnar sem bjó mjög nálægt en þær töldu það óráð þar sem sá gamli mundi hugsanlega ekki trúa þeim. Loks var ákveðið að koma til mín. Þetta gerðist allt á einhverjum örfáum mínútum sem þessar pælingar stóðu yfir hjá þeim enda þessir staðir í nálægð hvor við annan. Þetta fór allt vel með veitingastaðinn. Borðið undir skreytingunni skemmdist eitthvað og það þurfti að reykræsta og þrífa. Stelpurnar fengu þakkarskjal, gjöf frá veitingastaðnum , og matarboð. Þær voru alsælar með að hafa brugðist svona vel við. Sannkallaðar hetjur. Þetta vorum við frænkurnar að rifja upp á dögunum þegar hún var hér í heimsókn hjá mér. Ég sagði henni að þetta kæmi kanski á bloggsíðunni minni og hér með er það komið Sæunn mín María
Svo skemmtilega vildi til að við fræknurnar höfðum farið út að borða á þessum sama stað stuttu áður en þetta ævintýri gerðist og ég smellti þá af henni mynd á símann minn, því miður eru myndgæðin ekkert sérstök.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Skrýtið.
8.4.2008 | 08:03
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)