Áþreifanlegt

Það var bara í fyrrahaust sem byggingakranar og nýbyggingar táknuðu blússandi uppsveifluna sem engan enda virtist ætla að taka.  Helst  á Höfuðborgarsvæðinu, þar sem ný mannvirki og nánast heilu hverfin voru að myndast að mér fannst  á milli ferða hjá mér og þó finnst mér ég nú fara æði oft suður.   Í ferð rétt um jólin voru sjáanlegar breytingar ekki miklar a.m.k ekki þar sem ég fór um.  Jólaverslunin á sínum stað og allt virkaði á venjubundnu róli. 

Núna þegar ég er nýkomin úr einni ferðinni varð ég þó verulega vör við alvarleika afleiðinga hrunsins í haust.  Nú virðist þolið einhvern veginn vera að gefa sig með tilheyrandi keðjuverkun.  Gapandi gluggalaus háhýsi og aðrar byggingar tákna ekki lengur uppsveiflu heldur blákaldann veruleika stöðnunar og atvinnuleysis.   Orðið atvinnuleysi hefur verið manni svo fjarlægt eitthvað en ég hitti fólk sem er atvinnulaust og marga sem hafa misst hluta af sínu starfi og/eða þekkja einhvern sem hefur verið að fá uppsagnarbréfið.  Þetta ástand er þó ekkert endilega bundið við suðurhorn landsins - síður en svo.  Bara spurning hvert boltinn rúllar.  Allt hefur keðjuverkandi áhrif.   Fólk er þó alveg óbilandi bjartsýnt - sem betur fer.  Það vantar ekkert uppá sjálfsbjargarviðleitnina og kraftinn.  Ég frétti af hópi manna sem misstu vinnuna en þeir hittast kl. 9 á morgnana til að halda þannig  í sinn daglega takt - skoða atvinnumöguleika, spjalla saman og styrkja hvern annan.  Þessi hópur eigir  von um aðra vinnu þó að fjarri heimahögum sé.  En ekki um annað að ræða að taka það sem gefst. 

Í birtingu á laugardaginn ók ég í ægifögru veðri vestur Mýrarnar og við mér blasti falleg fjallasýnin. Í útvarpinu voru endurtekin viðtöl við núverandi og fyrrverandi ráðherra sem bentu hvor um sig á að þessi og hin málin hefðu ekki verið fjármálaráðuneytis heldur viðskiptaráðuneytis og öfugt.  Of mikið púður sem fer í svona snakk - við þurfum skarpar hnitmiðaðar aðgerðir sem koma hjólum atvinnulífsins í gang.  Fyrirheit um það eru vissulega í farveginum en hraðinn mætti vera meiri þar sem biðtíminn er orðinn of margir mánuðir.  

Ég  hugsaði um og virti fyrir mér náttúrufegurðina sem blasti við mér.  Hvað það væri að vera Íslendingur í heimsþorpinu stóra.  Búandi í þessu fagra alsnægta landi svo ríku af náttúruauðlindum og sömuleiðis mannauðugt með afbrigðum.  Við rífum okkur upp úr þessari lægð engin spurning um það og vonandi að okkur takist að halda í sjálfstæði þjóðar okkar, töpum því ekki með vanhugsuðum skyndilausna aðgerðum.

Ég er nú svona almennt jákvæð og bjartsýn fyrir landans hönd en vil bara sjá ráðamenn spýta í lófana, eyða meira púðri í framkvæmdir og lágmarka tilgangslitla orðræðu.

 

dscn1613.jpg
dscn1610.jpg
dscn1604.jpg
 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Velkomin heim Anna og til hamingju með áfangann.

Já eg tek undir orð þín, nú þarf að fara að spýta í lófana.

Nú vil ég sjá eitthvað gerast !

Jenta (IP-tala skráð) 8.2.2009 kl. 21:39

2 identicon

Að vanda fínn pistinn......og myndirnar flottar.

 Bestu kveðjur,

Sólveig.

Sólveig Ara (IP-tala skráð) 9.2.2009 kl. 22:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.