Byrjun 5. viku ársins
27.1.2009 | 08:46
Mánudagurinn 26. janúar 2009 verður eflaust lengi í minnum hafður - stjórnarslit orðin að veruleika. Ómanneskjulegt álag búið að vera á þeim sem standa í þessum ósköpum sem það hlýtur að teljast að sitja í ríkisstjórn í þessu ástandi. Það hlaut auðvitað að koma að þessum slitum, þau lágu í loftinu og spurning hvernig málin munu svo þróast fram að kosningum í vor. Mér finnst margt spennandi felast í stjórnlagaþingshugmyndinni sem t.d má lesa um hér á bloggi Gísla Tryggvasonar, talsmanns neytenda. Annars veit ég satt best að segja ekki í hvorn fótinn ég á að stíga við að mynda mér skoðun á málunum ég hef ekki haft mikinn tíma undanfarið til að kynna mér hlutina sérlega vel, aðeins séð glefsur úr einum og einum fréttatíma og lítið lesið.
Undirbúningi þorrablótsins okkar hér í bæ lauk með hápunktinum, sjálfu blótinu á laugardaginn var. Undirbúningi sem byrjaði í haust og lauk með þessari líka glæsilegu veislu. Salurinn fallega skreyttur, heimagerður maturinn mjög góður og skemmtiatriði svona létt skot á atburði í bæjarlífinu eins og venja er, já allt heimaunnið á þessu blóti frá A-Ö. Við vorum 15 konur í nefndinni. Formaður hennar Brynja Haraldsdóttir kann sitt fag, þaul vön eldamennsku og eldklár alveg. Þær sem sömdu skemmtiatriðin Steinunn Sturludóttir og Bergrún Halldórsdóttir eru sömuleiðis eldklárar í að semja hnitmiðaða texta fyrir söng og leik. Svo er það auðvitað þannig að nefndin er stútfull af mjög svo færum konum sem allar leggjast á eitt til að gera blótið sem myndarlegast. Við hjálpumst allar að til að mynd komist á leikatriðin þar sem tíminn er frekar naumur, auk þess sem flestar fara með eitthvað hlutverk. Já mér finnst bara akkúrat engin þörf á að spara lofsyrðin hér, svo ánægð er ég með hvernig til tekst svona alla jafna þegar blótið okkar er annars vegar.
Það er alltaf gaman að sjá leikþættina, sem fyrir utan að vera mjög svo skemmtilega samdir eru kryddaðir leik hæfileikaríkra kvenna sem oft koma boðskapnum til skila á svo fyndinn hátt að hlátrasköll utan úr sal staðfesta að þetta er allt að skila sér.
Við erum svo ljónheppnar að njóta aðstoðar tveggja hljóðfæraleikara sem eru alltaf til taks þegar á þarf að halda. Það eru þeir Eggert Björnsson og Gestur Rafnsson. Þeir hafa reynst okkur ómetanlegir í gegnum tíðina. Við heiðruðum þá sérstaklega auk hjónanna í Hvestu þeirra Höllu og Jóns sem hafa séð okkur fyrir hluta hráefnis í fjölda ára. Eins og gengur eru auðvitað fleiri sem leggja hönd á plóg eins og fjölskyldumeðlimir kvennanna sem fyrir utan að sýna mikla þolinmæði eru alltaf hjálplegir við eitt og annað.
Athugasemdir
Sæl Anna.
Það er ekki neinu við þetta að bæta. Þetta var skemmtilegt allt saman og tókst bara með estu ágætum.
Er nokkuð skemmtilegra en að fá ánægjuleg og skemmtileg málalok að allri vinnunni lokið ?
Amen !
Jenta (IP-tala skráð) 27.1.2009 kl. 20:12
Nei akkúrat - þetta var bara fínt allt saman. -
Anna, 29.1.2009 kl. 18:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.