Síðasti dagur ársins 2008.

Ég hef aldrei bloggað áður á síðasta degi ársins, er nú frekar hugmyndasnauð. Hér er  enginn ofurannáll á ferðinni, hvað þá mergjuð spá um það sem koma skal.  Læt Völvu Vikunnar það eftir,  - landann þyrstir í spána,  sala  blaðsins virðist í hæstu hæðum þessa daganna, heyrist manni,  Völvunnar vegna. 

Þessi síðasti fjórðungur ársins hefur heldur betur  verið okkur Íslendingum  skrautlegur.  Skrýtið ástand og upplifun svo ekki sé meira sagt.  Hvað skyldu áramótaheitin fela í sér  hjá þeim sem þau strengja ?   Hugsanlega falla þau  í skugga áramótabæna.  Bæna  um að fólki takist að komast í gegnum þær þrengingar sem fyrirsjáanlegar eru og  margir eru jafnvel löngu farnir að upplifa.  Fyrir liggur að botninum sé ekki náð, gífurlegt atvinnuleysi og erfiðleikar því samfara  eru  þegar  óumflýjanleg staðreynd.   

Í einni lítilli bloggfærslu rúmast ekki allt sem mér býr í brjósti gagnvart því sem á daga okkar hefur drifið á árinu.  Ég sem var að sleppa orðinu um að ég væri frekar hugmyndasnauð.  Það hefur svo sem aldrei verið ætlun mín að tjá mig djúpt um eitt eða neitt á þessum vettvangi.  Margt hefur vissulega verið gott og skemmtilegt á árinu - bæði hjá mér og öðrum - ekkert alslæmt þetta ár, síður en svo.  

Ég strengi engin áramótaheit -  heldur er ég örugglega ein af þeim sem leggst á bæn um að okkur farnist vel sem þjóð, ég trúi því reyndar staðfastlega að okkur takist að að endurheimta virðingu og traust.  Við erum svo hörkuduglegt fólk og kunnum að snúa bökum saman Íslendingar.   Ég hef á tilfinningunni að árið 2009 og yfirleitt nánasta framtíð geti verið stútfull af spennandi tækifærum.  Af því að ég ber hag míns bæjarfélags sérstaklega fyrir brjósti, hætti ég  auðvitað aldrei að vona að orðið fólksfækkun verði sjaldgæfara orð  í umfjöllun um málefni þess, -  að við fáum tækifæri og berum gæfu til að nýta þau.    Ég er raunsæ en um leið  bjartsýn að eðlilsfari og hef stundum á tilfinnningunni að næsti dagur verði ævintýri líkastur, það sakar alls ekkert að hugsa þannig.   

Ég á mér einlægan draum sem ég held  iðulega í minni bjartsýni  að  sé um það bil að rætast  Smile.    Hugsanlega ER  draumurinn bara  að rætast á hverjum degi,  það má líka líta þannig á málin,  að  þessar þrengingar séu partur af honum, þrengingar geta verið lærdómsríkar og þroskandi komist fólk heilt frá þeim.  Í kverinu  "Spámanninum"  segir m.a  að þjáningin sé leið til frelsis.  Líklega heilmikið  til í því. 

Hjálpsemi og  umburðarlyndi, þolinmæði og  nægjusemi,  eljusemi og þrautsegja, frumkvæði, bjartsýni og þor - allt nauðsynlegt að hafa í farteskinu inn í nýja árið - megi okkur þjóðinni farnast vel Heart 

Ég fékk á dögunum sent  þetta  fallega ljóð eftir Kristján frá Djúpalæk.  Það heitir "Mitt faðirvor".  Ágætt að birta það hér og nú.    Ég óska þeim sem nenna að  lesa þetta blogg mitt,  gæfuríks og gleðilegs árs, þakka þeim sem ég þekki allt hið liðna. (Kíktu endilega á myndirnar sem ég vísa á fyrir neðan ljóðið).

 

Ef öndvert allt þér gengur

og undan halla fer,

skal sókn í huga hafin,

og hún mun bjarga þér.

Við getum eigin ævi

í óska farveg leitt,

og vaxið hverjum vanda,

sé vilja beitt.

 

Þar einn leit naktar auðnir,

sér annar blómaskrúð.

Það verður, sem þú væntir,

það vex, sem að er hlúð.

Því rækta rósir vona

í reit þíns hjarta skalt,

og búast við því besta

þó blási kalt.

 

Þó örlög öllum væru

á ókunn bókfell skráð,

það næst úr nornahöndum

sem nógu heitt er þráð.

Ég endurtek í anda

Þrjú orð við hvert mitt spor:

Fegurð, gleði, friður-

mitt faðirvor.

 

Ég vil benda á einstaklega fallegar vetrarmyndir úr Vesturbyggð á vef bæjarfélagsins, teknar af forseta bæjarstjórnar Úlfari Thoroddsen.  Hvet ykkur til að smella á myndirnar til að stækka og skoða betur.

HÉR er slóðin.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Heil og sæl Anna,

Bestu óskir um gleðilegt og farsælt nýtt ár sem ég vona að færi okkur öllum von og birtu. Þakka samskiptin á árinu sem er nýliðið.

Kærar kveðjur,

Sólveig.

Sólveig Ara (IP-tala skráð) 1.1.2009 kl. 12:05

2 identicon

Gleðilegt ár og takk fyrir það gamla, Anna mín. Þetta er aldeilis fínt blogg svona í lok ársins. Þú ert nú líka alveg súper penni, það hef ég alltaf sagt! Hfðu það sem best á nýju ári og ég vona að við eigum mikil og góð samskifti á nýja árinu!!

Maja í Haga (IP-tala skráð) 1.1.2009 kl. 17:09

3 identicon

Takk Sólveig og Maja og sömuleiðis. Vonandi hittumst við oftar á nýju ári.

Anna (IP-tala skráð) 2.1.2009 kl. 00:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband