Fallegur desemberdagur.
14.12.2008 | 19:10
Í gær var einstaklega fallegt veður hér á Vestfjörðum. Ég tók daginn snemma og fór til Ísafjarðar. Við lögðum snemma í'ann og má segja að litbrigðasamspil himins og jarðar hafi verið einstakt í morgunbirtunni. Á Dynjandisheiðinni gleymdi maður allri hálkuhræðslu og við blöstu fögur fjöllin sem bar við pastellitann himinn. Þegar farið var af Hrafnseyrarheiði niður í Dýrafjörðinn var hvítur máninn á milli fjallanna að mér fannst upp af Ingjaldssandi - mitt í bleikum litnum. Já einstök fegurð.
Á Ísafirði iðaði allt af lífi - fólk í jólaverslun og að njóta góða veðursins.
Á heimleiðinni var komið myrkur - sama veðurblíðan og fullt tunglið varpaði sérstakri birtunni um allt. Þegar leið lá af Gemlufallsheiði niður í Dýrafjörðinn blasti þorpið Þingeyri við okkur - fallegt að sjá að kvöldlagi eins og ævinlega. Við ferðalangarnir, bæði með mjög sterkar taugar til Dýrafjarðar höfðum orð á hvað þetta væri nú búsældarlegur og fallegur fjörður. Vantar sko ekkert uppá það. Á Dynjandisheiðinni var svo klakaklamminn yfir öllu og stirndi á ískristalla í tunglskininu. Fín ferð og skemmtileg tilbreyting.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.