Dettur ekkert í hug sem fyrirsögn hér.
8.11.2008 | 10:10
Margir á landsbyggðinni fara mjög oft til Reykjavíkur, eru þar beinlínis með annan fótinn ef svo má segja eða skreppa bara suður á Keflavíkurflugvöll til að taka flugið erlendis. Fullt af fólki á íbúðir fyrir sunnan en kýs að hafa fasta búsetu og atvinnu á landsbyggðinni þó það rúnti á milli í hluta af sínum frítíma. Auðvitað bara gaman að skreppa þó ekki sé nema til að kíkja á ættingja og vini.
Fyrir jólin er alltaf gífurlegur straumur "í bæinn". Margir að fara í verslunarferðir. Á margan hátt er það eðlilegt - meira úrval og oft lægra verð þó að það sé nú reyndar misjafnt. Hér á Patreksfirði og nágrenni má þó fá margt sniðugt ef að er gáð. Hér er verslun með blóm og gjafavöru, hannyrðaverslun, lyfssala með allskonar varning þ.m.t barnaföt, handverksfólk sem er auðvitað listafólk, bæði í málun, tréskurði, leir, handavinnulistafólk á felstum sviðum. Hér eru hárgreiðslustofur, því miður engin snyrtistofa lengur, snyrtifræðingar koma samt af og til. Hér er hægt að fá naglaásetningu og vonandi bráðum nudd og vaxmeðferð fyrir hendur. Áfengisverslun, matvöruverslanir, veitingastaðir. Hér er t.d. hlekkur á eina síðu sem sýnir þægilega og nokkuð vinsæla gjafavöru en hjá þessum aðila má fá merkt handklæði og sængurföt, reyndar merkingar á hvað eina. Sniðugt að hafa aðgengi að svona hér, skora á ykkur að skoða myndirnar. Við eigum hér eins og áður segir frábært listafólk. Eggert Björnsson er einn þeirra en hann heldur úti síðu þar sem sjá má brot af verkum hans í myndaalbúmi síðunnar. Eggert er hógvær maður, ef hann skyldi nú frétta af birtingu þessa hér þá vona ég að hann misvirði það ekki við mig. Já það finnst svona sitt lítið af hvoru hér í verslun og þjónustu ef maður "horfir yfir sviðið". Nú síðustu ár hefur Patreksfjarðarkirkja boðið til tónleika í kirkjunni og fengið að þekkta listamenn. Ég get nefnt KK og Ellen, Ragnheiði Gröndal og Pál Óskar ásamt Moniku, sem hafa komið á síðustu árum. Þetta er gott framtak hjá kirkjunnar fólki og hefur vakið almenna ánægju.
Nú er ég búin að fá jólarjúpurnar, óvenju snemma þetta árið og ég neita því ekki að það er aðeins farin að læðast að mér tilhlökkun til jólanna. Ég er þó ekki ein af þeim sem dett á bólakaf í jólafárið sem mér finnst heldur mikið stundum, heldur nýt þessa tíma á mínum forsendum. Notalegur frítími skreyttur fallegum ljósum og kannski smá jólasnjó ef maður er heppin
Athugasemdir
Heil og sæl mín kæra,
Það er nú þetta með það fornkveðna "Maður líttu þér nær" og " Að fara yfir lækinn eftir vatninu". Verslun í dreifbýli hefur því miður átt undir högg að sækja um langt árabil og fólkið kvartar undan hærra vöruverði. Það er fullkomlega eðlilegt að vöruverð sé hærra í dreifbýlinu heldur en á höfuðborgarsvæðinu vegna flutningskostnaðar, fólk virðist æði oft gleyma "fórnarkostnaðinum" við það að skjótast suður í verslunarferðir, þegar verðsamanburður á sér stað. Mamma rak verslun um árabil vestra og gekk vel, þekki fleiri verslunareigendur í öðrum landsfjórðungum sem hafa talað um þegar fólk fer yfir lækinn eftir vatninu og kvartar undan hærra vöruverði, þeir hinir sömu steingleymdu ferðakostnaðinu og póstkröfukostnaðinum og tímanum sem fór í að sækja eða bíða eftir vörunni......hún var og er í langflestum tilfellum tilbúin til notkunar innan fáeinna mínútna ef skondrað er út í búð eftir henni í heimabyggðinni. Kannski breytist þetta og vonandi gerir það.
Allur jólamatur er þegar kominn í frystikistuna okkar og ég fer því að bíða eftir jólunum (búin að kaupa jólakortin en ekki búin að skrifa á þau
). Svo má snjóa eftir kl. 16 þann 24.des og bara fyrir utan götur, gangstéttar og vegi.
Bestu kveðjur,
Sólveig.
(ps..ákvað að hafa jólagrænalitinn á þessu innliti til þín)
Sólveig Arad (IP-tala skráð) 8.11.2008 kl. 12:25
Sæl Sólveig og takk. Ég kann vel að meta að hafa þetta svona jólagrænt fyrir jólin
Anna, 9.11.2008 kl. 14:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.