Af jurtum
2.11.2008 | 23:35
Margir hafa óbilandi trú á lækningarmætti ýmiss annars en þess sem læknirinn skrifar uppá. Sér í lagi leitar fólk stundum eftir öðru ef ekki finnst lækning með hefðbundnum aðferðum enda bara eðlilegt að leita allra leiða í svoleiðis tilfellum. Ég þekki til fólks sem hefur fengið bót meina sinna bæði hér heima og eftir að hafa leitað til aðila erlendis sem stunda óhefðbundnar lækningar. Ég er þó á þeirri skoðun að það sé varhugavert að gleypa við hverju sem er í þeim efnum en þó eðlilegt að skoða málin.
Guðbjörg amma mín var ein af þeim sem trúði á lækningamátt íslenskra jurta. Hún notaði Vallhumal, Njóla, Fjallagrös og hugsanlega fleiri jurtir þó að ég muni það ekki, þetta var að ég held mest til heimabrúks. Svo var það þetta búðarkeypta, ég man eftir rauða þaratöfluboxinu með gulu stöfunum á og eins eplaediksflöskunni sem var ómissandi. Ef amma hefði lifað er ég viss um að hún hefði verið hrifin af vörum Aðalbjargar Þorsteinsdóttur í Tálknafirði sem rekur fyrirtækið Villimey en Aðalbjörg sérhæfir sig í smyrslum úr Íslenskum jurtum sem hún tínir hér á sunnanverðum Vestfjörðunum. Eins er kona hér á Patreksfirði Rannveig Haraldsdóttir sem um árabil hefur framleitt olíur til lækninga, sömuleiðis úr Íslensku jurtunum týndum hér á svæðinu. Hver þekkir svo ekki lúbínuseiðið sem framleitt er af manni í Kópavogi og krabbameinssjúklingar hafa verið að taka inn. Aloe vera jurtin er svo heimsfræg og svo mætti lengi telja.
Ég rakst á þessa síðu þar sem lesa má ýmislegt um hinar ýmsu Íslensku jurtir og hvað þær voru helst taldar lækna, dálítið gaman að skoða þetta. Notagildi Íslensku jurtanna getur verið heilmikið, t.d eitthvað i krydd og á annan hátt í matargerð. Systir ömmu gerði víst gott vín úr túnfífli. Ég veit ekki hvaða hluti fífilsins var nýttur í það, gæti hafa verið blómið. Uppskriftin er löngu glötuð en ef einhver sem les kannast við þetta vín og á uppskrift má sá hinn sami gjarnan deila henni, nema auðvitað að hún sé leyndarmál. Á forsíðu vefs Ámunnar má þó finna uppskrift af berja, rabbabara og fíflavíni, eins undir liðinum leiðbeiningar.
Hér á Patreksfirði eru miklar Fíflabreiður sem gera fólki oft lífið leitt. Það væri kannski gráupplagt í harðærinu að hefja hér framleiðslu eðalvíns úr jurtinni. Nei ég segi nú bara svona nóg er af hráefninu.
Athugasemdir
Ég hef heyrt um djúpsteikt fíflablóm.
Kíktu á þetta. http://www.natturan.is/greinar/1140/
Kv. Guðný
Guðný , 4.11.2008 kl. 12:50
Takk fyrir þetta Guðný - athyglisvert. Þessi vefur er sniðugur natturan.is.
Anna (IP-tala skráð) 4.11.2008 kl. 13:15
Spyr sá sem ekki veit,en er ekki full seint að tína fífla núna ?
Þegar ég var að alast upp á Patró þá var helsta fíflasvæðið á
Ingveldartúni á Klifinu. Allt túnið var svo gult að það þótti meiriháttar fundur ef að við sáum grænt gras á túninu hennar Ingveldar. En hvað um það, ég styð bruggun fíflavíns, þá sjáum við hver fíflin eru.
Kv. K.H:
kristján (IP-tala skráð) 6.11.2008 kl. 00:16
Endurorða hér með brot af textanum hjá mér og segi " .......á sumrin eru miklar fíflabreiður hér á Patreksfirði .........."
Held að þetta vín hafi nú meira verið líkjör en nokkuð annað og áfengismagnið líklega í lægri kantinum.
Anna (IP-tala skráð) 6.11.2008 kl. 08:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.