Litla kvæðið um litlu hjónin.
18.10.2008 | 18:17
Ég hef oft verið að spá í hvað það er sem gerir það að verkum að fólk er feimið fram eftir öllum aldri. Orðið feimni er örugglega teygjanlegt og nær yfir marga þætti í karakternum - án þess að ég hafi stúderað það sérstaklega. Það er sama hvað mörg námskeið farið er á og hversu oft fólk hefur staðið upp og talað. Sumir virðast ekki losna við þetta óöryggi sem hrjáir þá við að standa upp og tala frammi fyrir hópi fólks, og jafnvel ekkert síður í fámenni. Þeir sem oft virðast hvað öruggastir og æfðastir hafa játað í eyru manns að þeir finni alltaf fyrir einhverju óöryggi. Sumum sem þjást af þessari feimni ef feimni skal kalla líður mjög vel á sviði. Þá eru þeir oftar en ekki í hlutverki og eru þar af leiðandi ekki beint í sínum eigin karakter á meðan.
Mér persónulega finnst að það eigi markvisst að þjálfa börn í að tjá sig fyrir framan aðra. Það getur svo sem vel verið að það sé gert án þess að ég viti. Árshátíðir í skólum eru oft frábær vettvangur til að leyfa börnum að stíga á stokk. Þetta var og er líklega enn hápunktur í skólastarfi vetrarins hér á Patreksfirði og víðar. Ég tók þátt í söngleik um litlu Gunnu og litla Jón sem smástelpa á árshátíð skólans sem haldin var í Skjaldborg hér í denn. Þetta verður manni ógleymanlegt og mér fannst það frábært í dag þegar ég rakst á þessa eldgömlu bók í skúffu á heimili móður minnar. Hún fékk hana gefins sem lítil stelpa, bókin er lúin og nöguð á hornunum (hm....hver skyldi hafa gert það hér í denn ). Við að sjá bókina rifjaðist þessi performance í Skjaldborg upp fyrir mér. Ég læt ljóðið og frontið af bókinni fylgja hér til gamans, voða krúttlegt í einfaldleika sínum. Höf. Davíð Stefánsson.
Við lítinn vog í litlum bæ
er lítið hús.
Í leyni inn í lágum vegg
er lítil mús.
Um litlar stofur læðast hæg
og lítil hjón,
því lágvaxin er litla Gunna
og litli Jón.
Þau eiga lágt og lítið borð
og lítinn disk
og litla skeið og lítinn hníf
og lítinn fisk
og lítið kaffi, lítið brauð
og lítil grjón, -
því lítið borða litla Gunna
og litli Jón.
Þau eiga bæði létt og lítið
leyndarmál,
og lífið gaf þeim lítinn heila
og litla sál.
Þau miða allt sitt litla líf
við lítinn bæ
og lágan himinn, litla jörð
og lygnan sæ.
Þau höfðu lengi litla von
um lítil börn,
sem léku sér með lítil skip
við litla tjörn,
en loksins sveik sú litla von
þau litlu flón,
og lítið elskar litla Gunna
hann litla Jón.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.