Má bjóða þér svartfugl ?
14.9.2008 | 09:25
Ég sagði já takk. Veiðimenn komu færandi hendi. Þeir fóru nokkrir á sjóinn og náðu í svartfugl sem mörgum finnst góður matur þar á meðal mér. Hann verður matreiddur á sem bestan hátt. Hér á árum áður var ekkert verið að fínisera svartfuglseldun, hann var bara steiktur og soðinn frekar lengi, varð fyrir bragðið í þurrari kantinum en oftast ágætur samt með kartöflum og brúnni sósu. Svo var farið að elda hann á skemmtilegri hátt og léttari, þá bringurnar einar og sér. Ég rakst á þessa uppskrift:
Bringur af 4 fuglum.
olía til steikingar
salt og pipar
Sósan:
4 hl. púrtvín
1,5 dl. svartfulgssoð
2 dl. rjómi
2 msk af frosnum rifsberjum
Bringurnar eru steiktar í 4 mín á hvorri hlið. Teknar af pönnunni og haldið heitum. Púrtvíninu hellt á pönnuna og steikarskófin leyst upp og soðið í 4 mín. Rjómanum og svartfuglssoðinu bætt í og soðið áfram í 2 mín. Þá er berjunum bætt í og soðið í 1 mín. Bragðbætt með kryddinu.
Sósunni er svo hellt á diska og bringurnar lagðar ofan á, annað hvort heilar eða fallega skáskornar.
-----------
Það fylgir ekki uppskriftinni hvaða meðlæti ætti að nota en ég held að hjá mér verði það blandað grænmeti og kartöflur. Fyrir löngu síðan eldaði ég svartfugl á svipaðan hátt en í stað rifsberjanna og púrtvínsins notaði ég bláber og það kom vel út. Einfalt og bragðgott.
---------
Mig dreymdi draum í nótt sem varð tilefni þessara svartfuglsbloggs. Í ritsafni Gunnars Gunnarssonar er að finna söguna Svartfugl og eru söguslóðirnar nánast hér við bæjardyrnar hjá mér. Sömuleiðis er gönguhátíðin Svartfugl hér á hverju sumri. Draumurinn snerist þó ekki beint um svartfuglinn heldur var ég að stödd í gamalli verslun hér á staðnum (nú Apótekið) sem í draumnum var sérhæfð sem verslun með sérstakan ferðamannavarning af öllu tagi, að stórum hluta eftir fólk hér á svæðinu. Það var brjálað að gera og rútur fullar af ferðafólki um allt og allt iðaði af lífi. Í gær var ég að lesa frétt um að Vestnorden ferðaráðstefnan væri framundan og ferðaþjónustuaðilar hvattir til að koma sínu á framfæri. Ég vil nú helst kenna þeim lestri og pælingum í kjölfarið um drauminn þó að ég sé nú ekkert í ferðamálabransanum
Athugasemdir
Nammi. Svartfuglinn er hrikalega góður og ég hlakka til að prufa þessa uppskrift:)
Guðmundur (IP-tala skráð) 15.9.2008 kl. 16:15
Þú ferð nú létt með það ef ég þekki þig rétt Guðmundur Viðar heldurðu að ég viti ekki hvað ég er að gera með þessum uppskriftabirtinum
Anna, 15.9.2008 kl. 20:56
birtingum átti þetta að sjálfsögðu að vera
Anna, 15.9.2008 kl. 20:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.