Fámjin.

Á næstunni ætla ég mér að stikla á stóru hér á blogginu með efni úr ferðalaginu fyrrnefnda.  Ég mun gera því betri skil þegar ég kem heim til mín en ég er enn á suðurhorninu af sérstökum ástæðum.  Ég var að lesa bloggfærslu Hrannars bloggvinar míns þar sem m.a er velt upp af hvaða hvötum fólk bloggar.  Hann hefur eftir einhverjum að sumir telji blogg athyglissýki en ég held að það sé nú upp og ofan.  Ef ég væri verulega illa haldin af þessari sýki mundi ég örugglega segja hér af hvaða sérstöku ástæðum ég er í Reykjavík en kæri mig ekki um það.  Dunda mér í dauðum tíma sem er í augnablikinu við að lesa og skrifa blogg, ekki verra en hvað annað Smile

Á Suðurey Færeyja eru mörg lítil og mjög falleg þorp.  Það er jú þannig að hvert sem þú lítur þarna í eyjunum almennt þá sérðu varla drasl.  Allt svo snyrtilegt og malbikað upp að hverjum hrútakofa.  Það er svo afslappað andrúmsloftið þarna. Eitt kvöldið þegar við sátum nokkur úti á tröppum hússins sem ég gisti í og vorum að spjalla kom maður hjólandi, stoppaði og fór að spjalla við húsráðanda.  Þegar hann vissi að gestir hans voru  frá Íslandi sagði hann frá tengslum sona sinna við Ísland.  Þetta var Helgi Enni,  faðir Brands Enni sem er söngvari sem hefur m.a sungið með Jóhönnu Guðrúnu, mikil músík í þessari fjölskyldu og bróðir hans hefur verið í músíknámi í Reykjavík. Hann var greinilega stoltur af strákunum sínum enda má hann örugglega vera það.  Þarna hitti maður gamla menn sem hafa verið á sjó við Ísland og eins eiga margir fjölskyldutengsl við okkar land enda nálægðin mikil og væri sjálfsagt skrýtið ef ekki væri eitthvað um það.  Ég hitti verslunareiganda, mann sem hefur búið í Færeyjum í nærri 30 ár.  Hann er ættaður úr Aðalvíkinni í Ísafj.dúpi og rakti tengsl suður til Bíldudals.  Líflegur maður sem fannst sem von er gaman að hitta landa sína.

Hvert sem litið er má sjá minnismerki ótrúlega harðrar lífsbaráttu fyrri tíma.  Það birtist m.a sem leyfar af mannvirkjum við vogskornar strendur, bátar hafa verið dregnir á land á milli klettaskora á milli þess sem brimið hefur skollið á og maður getur varla ímyndað sér hvernig menn hafa farið að við þessar aðstæður.  Þegar ekið er niður til Ness og Hvalba má sjá leyfar kolanáma í  dalnum.  Þarna unnu menn nótt og nýtan dag og heima voru konurnar með börn og bú, útbjuggu nesti, þvoðu og þurrkuðu fatnað og stígvél þegar menn komu heim til hvíldar.  Þarna hjálpaðist fólk auðvitað bara að og gekk jafnt til allra starfa þó að konurnar hafi unnið  meira heima við. 

Ég verð að segja frá litlu  þorpi sem heillaði mig.  Það er Fámjin, en  leiðin þangað liggur um mjóan veg, yfir fjall - leiðin var hulin þoku svo að það þurfti að fara varlega.  Þegar við komum niður skein glaða sól á þorpið, fallega lit húsin og úti á túnum var fólk á öllum aldri í heyskap.  Mér fannst ég eiginlega komin í aðra veröld, skrýtið að segja það.  Niður hlíðina fyrir miðju þorpsins  rennur vatnslítill en fallegur foss og setur svip á umgjörðina.   Á skilti við þorpið kemur fram að það hafi fengið verðlaun árið 2006 sem mig minnir að heiti Green and clean.  Mér fannst það eiginlega bara tilheyra Smile                      


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Já Famjin er fallegur mjög fallegur bær!!

Ég var að vinna þarna í eitt og hálft ár ( við Jarðgangnagerð)og það er engu logið um það að Færeyingar eru höfðingjar heim að sækja!!!!

Þráinn Maríus (IP-tala skráð) 7.8.2008 kl. 12:45

2 Smámynd: Anna

Takk fyrir commentið. Göngin voru einmitt dásömuð, tvíbreið, lýsing og alles.  Það fylgdi svo sögunni að Íslendingar hefðu gert þau. Ég varð auðvitað ánægð með það.

Anna, 7.8.2008 kl. 13:16

3 identicon

Sæl mín kæra.

Skrapp í síðbúið matarhlé. Get aldrei verið án tölvutengingar, ( uss er þetta nú bilun ) og las því síðuna þína.

Góð að vanda. - Já og velkomin heim aftur.

Nú er Ormur lagstur á, -  já segi og skrifa; Á tölvuna mína og því verð ég bara að hætta strax !

Sjáumst.

Jenta (IP-tala skráð) 7.8.2008 kl. 14:27

4 Smámynd: Anna

Takk fyrir það Jenta. En ormurinn þykist ég vita að sé þessi sem mjálmar .

Anna, 8.8.2008 kl. 12:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband