Hátíðahöld.
7.8.2008 | 00:24
Ólafsvaka, þjóðhátíð þeirra Færeyinga var fjölmenn og greinilega margir sem sækja þá heim í tilefni hátíðarinnar. Dagana 28. og 29. júlí bar í ár upp á mánu-og þriðjudag en fólk var aðeins komið í hátíðargírinn á helginni. Veðrið var gott en þó nokkur þoka eins og algengt er á þessum tíma. Bryggjudansleikur var haldinn og fjölmenni fram á nótt í miðbæ Þórshafnar. Fólk sat í smábátum sem hafði verið bakkað að smábátabryggjunni þar sem þeir lágu svo þétt hver við annan(bryggjan beint fram af torginu við hús Sosialsins). Í einhverjum bátum var spilað á hljóðfæri. Slatti af fólki á klúbbnum Glitni sem er voða vinsæll staður og þar var lifandi músík og mikið dansað, eins í Havnarklúbbnum sem er í sama húsi og skemmtistaðurinn Eclypse en hann er meira fyrir yngra fólkið. Á mánudeginum gengu fulltrúar íþróttafélaga fylktu liði til hátíðarsetningar fyrir framan Lögþingshúsið. Rík hefð er fyrir kappróðri og var fjölmenni að hvetja sitt fólk síðar þennan dag í róðrinum. Hvarvetna mátti sjá bæði börn og fullorðna í þjóðbúningum sem eru mjög svo fallegir. Á þriðjudeginum er það svo kórsöngur, ræðuhöld og fl. Hugsanlega hátíðlegri dagur en ég fór snemma á þriðjudagsmorgninum til Suðureyjarinnar og sá því ekki hvað fram fór á Ólafsvökunni þann daginn. Ég upplifði ekki hinn eiginlega Færeyska dans það bíður bara næstu ferðar. Í einni af veislum ferðarinnar var borinn fyrir okkur þjóðlegur matur, skerpukjöt sem mér var sagt að væri ættað af bústofni þess sem heldur fé á Stóra Dímon, við fengum sömuleiðis þurrkaða grind og spik. Með þessu voru bornar kartöflur, tvær tegundir af salötum og brauð. Mér var bent á að best væri að borða grindina með kartöflum og bita af spiki. Mér fannst grindin góð en spikið mátti missa sig. Skerpukjötið hef ég smakkað áður og má segja að það sé pínulítið mörbragð af því en ég gat alveg borðað það enda vön Vestfirska mörnum með þverskornu ýsunni (að vísu sjaldgæft á borðum í dag). Annars var þetta fallega fram borinn matur og gott meðlæti. Skolað niður með snafsi, Færeyskum gull og/eða vatni allt eftir smekk hvers og eins.
Þjóðleg músík hljómaði víða og sannkölluð gleði ríkti á Ólafsvökunni.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.