Súldarsunnudagur.
13.7.2008 | 17:10
Vætusamur er hann þessi Sunnudagur en heitt og ágætt veður í sjálfu sér. Gestir helgarinnar horfnir heim á leið og síðasta vinnuvika fyrir sumarfrí framundan. Í hitanum eftir rigningarúða hamast þær sem ég vil nú ekki kalla mitt uppáhald, hvað mest við að tengja spunaverk sín við húshorn, útidyraljós, tröppuhandrið og bara nefnið það. Maður reynir að sýna þessum verum umburðarlyndi, - lítið annað að gera í stöðunni en að umbera köngulærnar ætli maður að njóta sumarsins Úff.....en að allt öðru.
Hér í firðinum er fínasti flugvöllur sem stendur reyndar lítt notaður til annars en að þar lenda af og til litlar einkaflugvélar, hann er ónothæfur fyrir annað flug. Ég vildi þó gjarnan að þetta væri okkar aðalvöllur en það er önnur saga. Flugvallarhúsið er sem betur fer nýtt í dag og þar er nú rekinn veitingastaður á sumrin. Húsið er gott og því gráupplagt auðvitað að nýta það. Á veitingastaðnum Vellinum er hægt að fá skyndibita og fleira matarkyns eins er kaffihlaðborð þar á sunnudögum. Það er fínasti rúntur fyrir fólk að skreppa þarna yfir - hægt að kaupa veiðileyfi í Sauðlauksdalsvatn sem er steinsnar frá - en leyfið er selt á Vellinum. Skjótast í veiði og kíkja svo í mat eða kaffi á eftir. Þarna í nágrenninu er guli sandurinn um allt og frábært á sólardögum að spóka sig þarna fyrir handan. Fara í bíltúr með smáfólkið, byggja sandkastala, veiða eða bara hlaupa um og leika sér fjarri umferðargötum.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.