Í tilefni dagsins.
9.7.2008 | 21:45
"Skáldsögur og kvikmyndir fjalla ekki um hamingjusamlega gift fólk. Þær fjalla um fólk sem "fellur" hvort fyrir öðru og sýna okkur ástina sem fyrirhafnarlaust, sæluþrungið ástand - að minnsta kosti þegar rutt hefur verið úr vegi illvígum misskilningi sem virtist ætla að koma í veg fyrir að turtildúfurnar næðu saman. Við sjáum parið gegnum mjúklinsu liggjandi fyrir framan snarkandi arineld og leiðast inn í sólarlag gullinna fyrirheita um eilífa ást. Eftir sitjum við, venjulegt fólk, í rökkvuðum bíósal og sum okkar anda léttar yfir því að vera vaxin upp úr óraunhæfum ástargrillum likt og leikjum bernsku okkar. Aðrir vona í hjarta sínu að ástin sé meira en óraunhæfur draumur og meira en tímabundin óráðsía sem gangi óhjákvæmilega yfir. Hvað sem hvur segir, þar á meðal hækkandi tölur um hjónaskilnaði, vona flestir að ástin sé annað og meira en óraunhæfar grillur, ástríðufulla ást megi varðveita í löngu hjónabandi "
Textinn hér að ofan er úr bókinni "Leggðu rækt við ástina" eftir Önnu Valdimarsdóttur.
Já við viljum viðhalda rómantíkinni og sumir eru uppteknir af því að ástin sé eitthvað sem vari að eilífu í óbreyttri mynd eins og á fyrstu árum sambands. Með aldrinum kemst fólk að því að ástin tekur breytingum og ef fólki tekst að aðlaga hana, viðhalda henni með væntumþykju, virðingu og órjúfanlegri vináttu þá getur hún svo sannarlega orðið eilíf.
Ég óska Pétri bróður mínum og Maríu til hamingju með brúðkaupsafmælið í dag. Þau þekkja mátt þess að standa styrk saman. Megi framtíðin brosa við ykkur björt og fögur
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.