Villtar í vefnum.
19.5.2008 | 21:45
Nú í kvöld, í frábærri veðurblíðunni sá ég að það er mikið fjör fyrir utan og ofan við útidyrnar hjá mér. Litlar köngulær(sem eiga örugglega eftir að taka út vöxtinn) , alveg í essinu sínu af fjöri í þessu líka fína veðri. það glampaði á vefinn um allt. Ef ég væri ekki svona hrædd við þessi grey og gleddist bara yfir fjörinu í þeim þá væri nú allt í besta, en það er ekki svo gott. Ég gat ekki unnt þeim fjörsins og fékk eina galvaska unga stúlku sem kom hingað í dyrnar til að bjarga málinu. Sú er ekki hrædd við köngulær og ég vippaði mér inn í ganginn og rétti henni skóhorn af lengri gerðinni. Hún var eins og riddari úr miðaldasögum, sveiflaði skóhorninu listilega og hreinsaði vefinn eins og ekkert væri. Fékk algjörlega á sig hetjunafnbót í mínum huga fyrir afrekið. Ég segi það ekki - maður fær nú smá samviskubit yfir móðursýkinni sem brýst út í svona grimmd hjá manni gagnvart þessum dýrum en tel þó víst að engin hafi látið lífið í þessari lotunni
Ég þykist viss um að þarna fyrir ofan dyrnar hjá mér leynast enn fleiri köngulær og að á morgun verði komið annað eins af vef sem hristist af dúndrandi fjöri þessara litlu "ófreskja "
Athugasemdir
Anna mín, köngulærnar halda flugunum utandyra. Ég er hætt að sópa niður vefjunum eftir að ég áttaði mig á þessari snilld - á reyndar eftir að sjá hvernig til tekst þegar geitungarnir fara af stað. Köngulóarvefirnir heima hjá mér ná á milli trjáa og geng ég því oft í vefinn þeirra.....úff. Hver vefur er listaverk - og eru fallegir í regnúða þegar hægt er að horfa á þá á mót birtunni.
Bestu kveðjur til þín frá Sólveigu.
Sólveig Ara (IP-tala skráð) 20.5.2008 kl. 13:00
Það vantar ekki að það er búið að reyna ýmislegt til að sannfæra mann um ágæti köngulóa Sólveig mín, en það er bara þannig að óttinn verður stundum allri skynsemi yfirsterkari. En svo lengi sem maður lætur þetta ekki ná einhverjum ofurtökum á sér er þetta í lagi, takk fyrir hughreystinguna. ........ég sæi mig svo sem í anda þarna í garðinum hjá þér
Anna, 21.5.2008 kl. 08:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.