Af heimildamyndahátíðinni á Patró.
10.5.2008 | 18:34
Ég skrapp í bíó og ákvað að kíkja aðeins á heimildamyndahátíðina sem stendur sem hæst hér í bænum. Ég sá stórkostlega mynd sem er heimildarmynd um verslunina Kjötborg við Ásvallagötu í Reykjavík. Hugurinn hvarflaði um 30 ár aftur í tímann þegar ég leigði herbergi í húsi við Túngötuna í Reykjavík og kynntist þessum hluta höfuðborgarinnar vel, fór auðvitað oft í búðir sem voru þá mun fleiri á þessu svæði en hafa nú aldeilis týnt tölunni.
Eins og segir m. a. í umfjöllun um myndina: " Bræðurnir Gunnar og Kristján eru goðsagnir í lifanda lífi, síðustu móhíkanar smákaupmannastéttarinnar. Með sjarmann og samhjálpina að vopni hefur þeim tekist að lifa af á meðan samherjar þeirra hafa orðið að víkja fyrir ráðandi markaðsöflum " tilvitnun lýkur.
Ég hef sjaldan skemmt mér betur og hver hlátursrokan rak aðra og þá bara svona almennt í bíósalnum. Þessi mynd sýnir ótrúlega manngæsku þeirra bræðra blandna óborganlegum húmor svo úr verður mannleg, hlý og skemmtileg innsýn í starf þeirra, þ.m.t samskipti þeirra við viðskiptavini. Leikstjórum þeim Helgu Rakel Rafnsdóttur og Huldu Rós Guðnadóttur sem staddar voru í Skjaldborgarbíói var svo klappað lof í lófa. Feikilega vel gerð, falleg og skemmtileg mynd sem ég skora á fólk að láta ekki framhjá sér fara þegar hún verður tekin til sýninga.
Myndin hafði verið kynnt til sögunnar í flokknum "myndir í vinnslu" en rétt áður en hún átti að byrja var tilkynnt formlega að vinnu við hana væri lokið.
Ég vildi að ég gæti lýst stemmingunni á hátíðinni með orðum en skortir hugkvæmni til þess. Bara skemmtileg stemming og veðurguðirnir allir að blíðkast við okkur hér á Patreksfirði. Bjart og fínt a.m.k í augnablikinu.
Athugasemdir
Hæ, Anna mín. Gaman að rekast á bloggið þitt.Ég á örugglega eftir að kíkja á það oftar. Þurfum nú að fara að hittast (hehe ;) ) Kveðja, Maja.
Maja Úlfars (IP-tala skráð) 11.5.2008 kl. 00:58
Takk Maja - já við þurfum endilega að hittast við tækifæri.
Nöldrari, þetta er hverju orði sannara hjá þér
Anna, 12.5.2008 kl. 13:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.