Ofbeldi gegn laganna vörðum.
13.3.2008 | 23:49
Ofbeldi gegn lögreglumönnum á ekki að líðast frekar en gegn öðrum manneskjum. Það eru feikinæg óþrifaverkin samt sem þessi stétt, lögreglan sinnir þó að hún þurfi ekki að þola alltof mildar hendur réttarkerfisins í ofanálag, réttarkerfisins sem ætti í raun að vera þannig að það það styddi við bakið á þeim sem vinna vinnuna sína við að sjá til þess að lög og regla séu haldin í landinu.
Það starf að vera lögreglumaður er bæði þakklátt og vanþakklátt í senn hversu skrýtið sem það nú kann að hljóma. Ég hef ekki lesið þennan tiltekna dóm sem verið er að fjalla um þessa dagana en það sem ég hef heyrt af málinu í fréttum virðist sýna ótrúlega mildi dómara yfir þessum ofbeldisseggjum sem réðust að vinnandi lögreglumönnum. Ég heyrði aðeins á viðtal fréttakonu í hádegisfréttum Stöðvar 2 við lögreglumann um málið. Hann sagði varnir lögreglumanna gegn vaxandi ofbeldi vera til skoðunar. Sagðist þó vona að lögreglumenn þyrftu ekki að fara út í að bera skotvopn. Það er nokkuð sem ég held að flest okkar voni að komi ekki til. Verði lögreglan búin skotvopnum má allt eins búast við að ribbaldar endurskoði sína vopnaeign. Túlkun laga getur eflaust verið eitthvað misjöfn innan rammans en lög sem vernduðu störf laganna varða ættu jú að vera það ótvíræð að túlkun þeirra yrði allra síst ofbeldismönnum í hag.
Manni finnst ekki langt síðan hægt var að labba ein niður Laugaveginn eftir miðnætti um helgar en það dytti manni ekki til hugar í dag. Landslagið hefur heldur betur breyst.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.