Fundur um olíuhreinsistöð.
13.2.2008 | 23:37
Atvinnumálanefnd Vesturbyggðar og Tálknafjarðar mun á mánudaginn 18. febrúar standa fyrir kynningarfundi um olíuhreinsunarstöð þá sem hugsanlega rís á Vestfjörðum í náinni framtíð. Hilmar Foss frá Íslenskum hátækniiðnaði mun þar flytja framsögu og svara spurningum fundargesta sem verða vonandi sem flestir. Ég fagna verulega þessu framtaki atvinnumálanefndar.
Í haust sem leið var ég á fundi Sambands Vestfirskra kvenna á Bíldudal. Konur höfðu óskað eftir erindi frá ofangreindu fyrirtæki sem gefið gæti aðeins gleggri mynd af slíku dæmi sem olíuhreinsunarstöð er. Hilmar Foss varð fúslega við þeirri ósk og hélt erindi um málið. Svaraði hann greiðlega spurningum okkar fundarkvenna. Erindið var afar upplýsandi og ég hefði viljað þá að sem flestir íbúar svæðisins hér hefðu fengið slíkt erindi. Það var ekki á döfinni á þeim tímapunkti en nú hefur verið blásið til slíks fundar eins og fyrr segir um stöðina sem er að mér finnst tímabært. Að mínu viti var fyrirlestur Hilmars á Bíldudal mjög fræðandi. Fyrir mér sem hef ekkert vit á olíuhreinsistöðvum - bara heyrt háværar raddir um tröllaukna ofurmengandi verksmiðju, siglingu stærðarinnar olíuskipa, mönnun útlends vinnuafls og fl. í þeim dúr, var Hilmar ekkert að fegra hlutina heldur tala um staðreyndir. Hann var einnig með myndir af stöðvum víða um heim sem hann sýndi . Ég mundi ekki segja að áhrif fundarins hafi endilega verið þau að Hilmari "hafi tekist að kristna lýðinn" heldur bar okkur fundarkonum bara saman um að við værum margs vísari um málið sem var og tilgangur þessa.
Nú er það svo að við Vestfirðingar höfum upplifað mikla niðursveiflu á tiltölulega stuttum tíma. Íbúarnir hafa horft á eftir hverri fjölskyldunni á fætur annarri hverfa héðan og í kjölfarið hefur ýmis þjónusta skerst á svæðinu. Efling atvinnulífs er ekki nógu hröð . Ekkert af þessu eru ný sannindi. Talað er um að við séum að veðja of mikið á umrædda olíuhreinsunarstöð. Lái okkur það hver sem vill. Við hljótum að skoða það mál til hlítar og taka svo viðeigandi afstöðu að skoðun lokinni. Eftir hverju eigum við að bíða ? Ég bara spyr. Að sjálfsögðu má ekki láta staðar numið í að skoða aðra atvinnumöguleika samhliða. Við Vestfirðingar verðum að snúa bökum saman, nú sem aldrei fyrr í að styrkja búsetumöguleika fólks hér. - Ég efast ekkert um að fundurinn á mánudaginn verður fjölsóttur. Við erum orðin langþreytt á ástandinu og tökum fagnandi öllum nýjum skoðunarverðum tækifærum. Annað væri í hæsta máta óeðlilegt. Ég ann náttúruperlunni Vestfjörðum og vil mínum heimahögum allt hið besta, einmitt það að þar fái áfram að þrífast fjölbreytt mannlíf.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.